Hoppa yfir valmynd

1950 - Ávarp fjallkonunnar

Enn skín Íslandi

óskastund.

Enn á feginsfund

skal það fólk sitt kalla.

Enn kýs frjáls fáni

sér til fylgdarliðs

sonu sævarniðs,

dætur sólfjalla.

 

Minnist ég og man

er við morgunbrún

hófst hann fyrst við hún

upp í heiðið bjarta.

Ættjörð, uppruni

og íslenskt mál

áttu eina sál,

– þar var Íslands hjarta.

 

Renndi ég þá augum

um aldaslóð:

Sá ég þreytta þjóð,

sem með þöglum huga

byrði sína bar

og í beiskri kvöl

átti einskis völ

– annars en duga.

 

Vel máttu því vita,

hafi viðsjál björg,

ferleg og mörg,

þér í fang hlaðist,

að stærra leit ég hafrót

það er strönd mín braut,

og þyngri þraut

hefur þjóð mín staðist.

 

Veit ég þó að öfund,

sú hin arga norn,

guma, grá og forn,

geði stelur.

Svo mun verða meðan valdasýki

hjörtum heimsríki

hatri selur.

 

Þá er þín hamingja

ef hvorki má

heift né hyggja flá

hug þinn vinna.

Varast því að kveðja

þeim vopnum hljóðs,

er leita banablóðs

bræðra þinna.

 

Slík eru mín boð –

Kveð ég börn mín öll –

Megi fólk og fjöll

hylla fánann bjarta,

þann er íturhreinn

yfir aldaslóð

leiðir lands míns þjóð

heim til lands míns hjarta.

 

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Arndís Björnsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum