1977 - Ísland
Á nokkurt land svo hvítan jöklaheim
og heiðan fald,
svo rauðan eld í æð?
Hve gott að mega lofa það í ljóði
og fyrir heill þess fórna sinni smæð
í frjórri önn.
Ó, barnið mitt, það gæfuhnoða geym.
Og skylt er þér að skapa framtíð þess,
og skjöldur áttu að vera og sómi þess,
og vinna æfiheit við heiður þess:
Að flekka aldrei mold þess bræðrablóði.
Á nokkurt land jafn sumarfagra sveit,
er sólin skín,
og bergmálsfjöll svo blá?
Og barnið mitt, legg eyra við þess ómi.
Því sá, er landsins hörpuhljóma á
í hjarta sér,
án ótta heilsar ungum degi, veit:
Það getur enginn tekið töfra þess,
það truflar enginn hergnýr óma þess,
og ránshönd engin fangar fegurð þess.
Hann verður eitt með bláma þess og blómi.
Skáld: Kristján frá Djúpalæk
Fjallkona: Ragnheiður Steindórsdóttir