1961 - Blessi þá hönd
I
Þér, Íslands börn, á helgri heillastund,
hingað ég yður kveð á ljósum degi,
sem lengi var mér dagur djarfra vona,
þá viðreisnar og síðan dýrsta sigurs.
Fagnið og minnist meðan björkin ilmar
og blómið grær um búandmannsins völl
og skip vor bruna sólstafaðan sæinn,
vorblærinn heilsar iðjuversins önn
og athöfn frjálsra manna um torg og búðir.
Fagnið hve mikið vannst og enn skal vinnast
Vaxið af starfi hans, er nú skal minnast.
Hann gróðursetti á hrjóstrum vorra hjartna
tvö heilög blóm, sem nefnast trú og von.
Í skjóli þeirra innst í allra brjóstum
áttu þinn varða og gröf, Jón Sigurðsson.
II
Fagnið í dag, því stórar, stoltar vonir
stíga til himna, eins og hvítir svanir
á frjálsum væng við fjallariðin blá
og fylla víddir Íslands söng og ljósi.
– Þær leggja brátt í yðar ungu hendur
vorn óskastein og fjöregg vorrar þjóðar:
Bókfellin öldnu, blöðin gul og máð,
sem bera á þöglum fjaðurleturs síðum
mál þitt og sögu, örlög alls þíns kyns,
eldfornar rætur þess og dýpstu visku,
fá athvarf sitt við arin þinn á ný.
Við ást þíns hjarta skal hinn forni meiður
blómgvast og rísa, bera máli laufgað
fagurlim yfir fremd og þjóðardáð.
Í trú og rækt við það, sem þar var sáð
og þreyttum höndum forðum daga skráð,
er bundin yðar hamingja og heiður.
III
Blessa þú sól þess árs, sem aftur gaf
þér óðalsrétt á feðra þinna hafi!
– Við bláum tindum breiðar vastir skína,
þar byltist auðlegð þín í hyljum rasta.
Sjá, hafnáms kynslóð unga, allt er þitt,
sem óralendur sævardjúpsins fæða
í frjóu rökkri svifs og saltra strauma,
ef sótt er til með drengskap, viti og trú.
En minnstu þess, að fjölmörg ógnarár
lá íssins fjötur stálblár fyrir landi
og fólkið svalt, en lotalágur kuggur
í fenntu nausti fjarlægs sumars beið.
Minnstu þess og, að annar fjötur verri
herti sinn dróma upp að vík og vörum,
batt þínar hendur – bak við hann sem múr
stóð yfirgangsins ásýnd grímulaus.
Hvað brast svo hátt, að bergmál þess mun óma
með þungum niði næstu hundrað ár?
Bláfjötur Ægis brast – og víðan faðm
breiðir hann yður nú í dag sem forðum,
er frjálsir garpar áttu hér sín óðul,
því Alþing færði af sjálfs síns valdi og tign
íslenskan rétt í lög á bláum legi
og laust hinn þunga dróma af höndum þér.
Sá réttur lýsir hverju frjálsu fleyi,
sem fána vorn um höfin ber.
IV
Ég, Fjallkonan, er foldar vorrar sál,
borin af hennar barna dýpsta skyni.
– Sú djúpa ást, sem óspillt hjörtu leggja
við ættargarð og feðra sinna vé,
land sitt og þjóð, er lífs míns andardráttur,
því lifi ég í brjósti sérhvers manns
veik eða máttug – myndin, sem ég ber þar
er mynd af sonardyggð og kostum hans.
Þér óskabörn, sem undir bláum himni
á óskastund mætist hér og fagnið,
blessið þá hönd, er bókfell yðar fáði,
blessið þá hönd, er letrið auðmjúkt skráði.
Blessið þann hug, sem hörpu ljóða sló,
heiðrið þann dug, sem bát á miðin dró.
Blessið þann þegn, sem bús og hjarðar gætti,
þá brúði, er spann og óf og granna sætti.
Blessið þann fót, sem braust um fjöll og heiðar,
blessið þann kjark, er aldrei missti leiðar.
Blessið þá trú, sem bar í dauðans húmi
birtu af ljósi Guðs að hverju rúmi.
Skáld: Séra Sigurður Einarsson
Fjallkona: Sigríður Hagalín