1966 - Ávarp fjallkonunnar
Til ykkar, sem ég ann af heitu hjarta
og hef við brjóst mitt alið langa stund,
mæli ég enn, – er breiðir vorið bjarta
bláhvítan fána um jökla mína og sund.
Fjöld komu sumra, – og fóru sinnar leiðar,
í fjarlægð sé ég runnin aldaskeið
og minnist þess, er yfir hafsins heiðar
ég horfði ein og þjóðar minnar beið.
Minnist ég löngum minna horfnu skóga
á morgni kyrrum, þegar sólin skín; –
hve ann ég þeim, er þrá að vaxa og gróa,
og því er vorið sigurhátíð mín:
mitt blóm, sú jurt, er auðn í engi breytir
og eyðing myrka knýr til undanhalds,
og barn mitt sá, er frelsi og friði veitir
fulltingi sitt í heimi stríðs og valds.
Heyr, hvernig lands míns leyndu raddir kalla
á liðsemd þína og trúnað, ár og síð,
í steindum veðrahörpum fornra fjalla
og fiðlutónum blæs í víðihlíð;
– um dýpstu mið og voga, tún og teiga,
er tjáð mitt boð, í einu strangt og milt:
sjá, hér er allt, sem þér er þörf að eiga
í þúsund ár, – svo lengi sem þú vilt.
En hratt fer hver sú stund er framhjá streymir
um stormi og brimi slegin tímans höf.
– Voryrkjumannsins verk mig sífellt dreymir:
ég vonast eftir þinni bestu gjöf,
dóttir og sonur. Allra ævivegi
að endamörkum hinstu loksins ber,
þín nótt fer að, og nær með hverjum degi,
og nafn þitt hvergi geymt, ef ekki hér.
Ó, þú, sem sumars nýtur enn í næði
og namst í æsku stef míns hulduljóðs,
gjör líf þitt hending ljúfa í vorsins kvæði
svo líf þitt verði þér og mér til góðs;
þá læt ég, er þú lokar augum þínum,
mitt ljós, í þökk, við hvílurúmið þitt,
og geymi, í kyrrð, þín bein í moldum mínum
og minning þína, í ást, við hjarta mitt.
* * *
Í nafni hans, sem helgast þessi dagur,
skal heitum ykkar treyst – og geislum skírð;
– á ykkar valdi er aldarinnar bragur
og ættarlandsins vor og morgundýrð,
að gamlir fjötrar fúni og aldrei saki
það frelsi, sem var draumur minn og þrá,
á ykkar valdi, að sólríkt sumar vaki
sígrænt og langt, við norðurhöfin blá.
Skáld: Guðmundur Böðvarsson
Fjallkona: Margrét Guðmundsdóttir