Hoppa yfir valmynd

2001 - En huldukonan kallar…

Ég vitja þín sem vor af fjarri strönd

og vorið mitt er blóm í grannri hönd

sem blik af sól, og birkiilmur fer

með bláa þögn og fugl ið næsta sér,

minn ilmur líkt og andi blóm við kinn

og æska þín sé förunautur minn

á strangri ferð um veröld vors sem er

mín vegalausa þrá í fylgd með þér.

 

Og hugsun mín er fugl, ég feta ein

mitt flug sem kliði sunnanblær við grein,

hann skilur eftir andartak á vori

með ilm af jörð og sól í hverju spori

 

og hugsun mín er fugl, sá vængur fer

með fögnuð þessa dags í brjósti sér.

 

Minn svali andblær saknar þín sem ert

í sárum skugga blóm svo mikilsvert,

það vitjar mín sem ilmur alls sem ber

mitt yndislega vor á höndum sér.

 

Ég bíð og vona enn sem aldrei fyr

og allt er hljótt og nóttin björt og kyr,

mín sólskinsbjarta sumarnótt, hún mynnist

við svalan dag sem rennur hægt og grynnist,

hann vitjar þín, ég heyri hjarta þitt,

þinn hljóða slátt við rjúpnalaufið mitt

 

og hugsun mín er fugl, hann fylgir mér

og flögrar eins og vor við hreiðrið sitt.

 

Og allt er hljótt og heiðin dimm og blá

sem hvísl við sérhvert blóm og hvert eitt strá,

minn svali blær sem berst að vitum þér,

mín bláa kyrrð með þögn í fylgd með sér.

 

 

Skáld: Matthías Johannessen

Fjallkona: Þórunn Lárusdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum