Hoppa yfir valmynd

1972 - Talað við ungt fólk

Þú æska míns lands, sem lifir hið himneska vorið

þegar „loftið er draumablátt“

og bíður með óþreyju eftir að höll þín rísi

og ætlar að byggja hana hátt,

þig kveð ég um stund að streng hinnar gömlu hörpu,

sem afi þinn hefur átt.

 

Sú harpa var stundum það einasta sem hún átti

þín ætt, í landinu því

er hlúir þér nú sínu barni, með blessandi hendi

við brjóst sín gjöful og hlý,

já, margt hefur gerst, – og sumt, sem af alhug við óskum

að aldrei gerist á ný.

 

Þú lærir af bókum um þrengingar íslenskrar þjóðar

og þrekraun til sævar og lands

og kúgun og áþján, hann afi þinn kunni þá sögu

og enn betur foreldrar hans,

sem vissu það skást að vænta sér góðs eftir dauðann

er ,,sál fer til sæluranns".

 

Þú lærir það og, að við lyftum því Grettistaki

að losa um viðjar og bönd.

– En við gleymum svo fljótt.

Hve auðvelt er löngum að lokka

í ljónsginið óvitans hönd.

Því streymir nú blóð þinna systkina, svartra og hvítra,

því loga hin hersetnu lönd.

 

Og harpan hans afa skal vara þig við þeirri hættu,

sem vitjar þín jafnt og þétt:

Þér er ekki bært að bindast til neinnar áttar

þeim böndum er skerða þinn rétt

í landi þíns sjálfs, – því þá ert þú heillum horfin,

í sólleysið verður þú sett.

 

Þitt hlutverk er stórt: að stefna til þeirrar aldar

sem styrjöldum breytir í frið,

– og láttu ekki svíkja þau loforð sem þér voru gefin,

þar liggur þín framtíð við:

hinn svefndrukkni varðmaður vaknar um seinan, í angist,

með fjandmenn á hvora hlið.

 

Þú veist eins og ég að fljótt líður fagurt vorið,

þá fækkar um söng og dans,

og skyldan hún kemur og kallar þig til þess að verja

þinn knérunn og arin hans,

og gerir þú það, þá átt þú um eilífð þitt frelsi

og fegurð þíns föðurlands

 

En lát þér ei íþyngt af hreimi gamallar hörpu,

sem hefur um stund verið mín,

að vályndur heimur unni þér ævinlegs friðar

er ósk mín og von til þín,

og njót þeirrar stundar, er stjarnan fegurst af öllum

í heiði við Hraundranga skín.

 

Skáld: Guðmundur Böðvarsson

Fjallkona: Margrét Helga Jóhannsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta