Hoppa yfir valmynd

1984 - Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð

Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð!

Gakk frjáls og djörf á hönd þeim óskadegi,

sem eignast skal þín afreksverk og ljóð

um eilífð, þó að menn og stefnur deyi.

Því draumur sá, er aðeins átti sér

um aldir samastað í fólksins hjarta,

varð sál þess dags, er frelsið færði þér

og fána þínum lyfti í heiðið bjarta.

 

Ég veit oft seint mitt vor að sunnan fer,

en vor, sem eins er fólki sínu bundið

og dýpri þrá og ástúð vafið er,

í öllum heimi verður naumast fundið.

Og loks er frjálsir dagar gengu í garð

með glæstu föruneyti þúsund vona,

ég fann það best, hve auðugt Ísland varð

í önn og gleði dætra þess og sona.

 

Því vorið kom! En steðji ólög að

og ógnað verði framtíð niðja þinna,

mun hættan sjálf fá sagt þér til um það,

hvar sannan kjark og trúnað var að finna.

Á slíkri stundu er feigur sá, er flýr,

en frjálsum manni verður skammt til ráða:

Hann hittist þar sem þyngstur vandi knýr

hans þrek og manndómslund til stærstu dáða.

 

Svo haldi landsins heilladísir vörð

um hvern þann stað, sem fáninn blaktir yfir,

því þar skal frjálsu fólki heilög jörð

og föðurland á meðan sál þess lifir.

En vit, að öll þín arfleifð, von og þrá

er áskorun frá minning, sögu og ljóðum,

að ganga af heilum hug til liðs við þá,

sem heiminn vilja byggja frjálsum þjóðum.

 

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Guðrún Þórðardóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum