1956 - Ávarp fjallkonunnar
Heill hinum föllnu, er fyrir land sitt unnu,
fólkinu veittu nýja trú og þor.
Heill þeim, er áttu hjörtu, er skærast brunnu, –
hugrakkir gengu blóði drifin spor.
Minningin lifi um menn, er deyja kunnu
í myrkri snævar, trúaðir á vor, –
sem vildu heldur vera en aðeins sýnast, –
verk þeirra skulu ekki mást né týnast.
Heill þeim, er lifa og standa í dagsins stríði,
starfandi trútt að þjóðar heill og lands.
Vinna skal sérhver verk með dug og prýði,
vanda sitt ráð og gæta rétts og sanns, –
heldur að þjóna, en ráða landi og lýði,
lögum skal hlýða og eðli drenglynds manns.
Hræðast skal ekki hel né píslagöngu, –
heldur skal falla en sigri ná með röngu.
Óbornum heill um aldaraðir langar,
áfram er streymir tímans mikla fljót.
Þróttur þeim vaxi um raunastundir strangar,
stjarna þeim beini leið við vegamót, –
ei hrævarlog, sem huga veilan fangar
og heimskan teygir mann í urð og grjót.
Aukist þeim jafnan vit með góðum vilja
á vegi þeim, er Skuldar tindar dylja.
Þessi er ósk mín, Íslendingar góðir, –
ættjörðin kallar nú á sérhvern mann.
Reyni nú allir, fávísir og fróðir,
að finna hinn rétta veg og þræða hann.
Ég vildi ykkur vera ástrík móðir,
en vandi er oft að tempra lof og bann,
og þótt minn barmur þyki kaldur stundum,
er þel mitt heitt á okkar gleðifundum.
Hyllum nú minning míns hins besta sonar,
mannsins, er Íslands sverð og skjöldur var, –
hans, sem er ímynd okkar miklu vonar
um Íslands giftu á vegum framtíðar.
Og þótt í reynd hún reynist annars konar,
en ráð var fyrir gert og vera bar,
skal oss um aldur tengja bræðrabandið,
og blessa skal og elska þjóð og landið.
Skáld: Jakob Jóh. Smári
Fjallkona: Anna Guðmundsdóttir