Hoppa yfir valmynd

1967 - Fjöllin í brjósti þér

I

Hann skín þér enn við augum dagur sá,

sem öllum dögum fegri rís úr sjá.

Og ennþá kemur hann á móti mér,

og morgunbjört vor ættjörð færir þér

 

sín himingnæfu fjöll – þú fylgir þeim

sem fugl er snýr á nýju vori heim,

þér fagnar ávallt heiðin hrjósturgrá

og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.

 

Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,

þau benda heim svo langt sem auga sér.

Og moldin vakir, mold og gróin tún

– og máttug rís þín sól við fjallabrún.

 

Þú kemur heim, þín sól við sund og vík

er seiður dags og engri stjörnu lík,

hún bræðir hrím og vekur vor sem er

svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.

 

II.

Og skáldið sat hér áður; orti mér

svo yndisfagurt ljóð um þröst og spóa,

hann þekkti lyngið, birki og blóm sem gróa

í blárri hlíð, ó land – hans kvæði er

 

sem lýsi enn af sól er seig í mar

og sefur undir fjallsins rauðu eggjum.

Hans orð sem fræ í barnsins brjóst vér leggjum,

að blómgist það og vaxi einnig þar –

 

til skjóls og trausts í tímans hreggi og byl.

Þá tengja gamlar rætur nýju ljóði

þann draum, sem enn rís upp í voru blóði

af orðum þess, er sárast finnur til.

 

III

Og vorið kemur, gistir gömul tún

með gras og dögg og spor sem átti hún

er tók í hönd þér, leiddi lítinn dreng –

þú leitar burt úr hversdagsgráum streng

 

þess lífs sem merkt er feigð, þú fylgir mér –

við förum saman hvert sem tímann ber.

Enn vaknar sól á vonarhýrri brá

og vorið fyllir dalinn nýrri þrá.

 

Og sjá. Vort land er sól við efsta tind

og seytl við stein og þögn við tæra lind

og kvak í mó – sá kliður dags sem er

mitt kveðjuljóð, mín ást í hjarta þér.

 

 

Skáld: Matthías Johannessen

Fjallkona: Sigríður Þorvaldsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta