1973 - Þorskastríð og þjóðhátíð
I
Vort unga land við bláa fjarlægð ber
og brunahraunið kannar nýjar leiðir
og svartan faðm mót sólarljósi breiðir,
enn syngur haf við klett og fuglasker.
Nýr dagur rís með fjöll í fangi sér
og frelsi þitt, vort land, í sínum höndum.
Og úthafsbáran ber að þínum ströndum
sinn bláa fald og vakir enn með þér.
Þín vitjar aftur veröld heiðins ljóðs
sem vorsins leiti tindar efstu fjalla.
Í draumi þess má heyra geirinn gjalla
ef gengið er á rétt þíns stolta blóðs.
Þá köllum vér til vitnis allt sem ber
þess vott að Ísland lifir enn og fagnar,
að afl þess býr í eldi ljóðs og sagnar,
vort unga land, með vor í fylgd með sér.
II
Nú kveikir sólin vor í blöðum blóma
og ber sitt ljós um dal og klettarið
Og gamla kjarrið grænu laufi skrýðist
og gleymir sér við nýjan þrastaklið.
Og heiðblár dagur heldur vestur jökla
með hlýjan blæ og ilm við lyng og grjót
og geislar fara mildum móðurhöndum
um mel og tún og fræ sem skýtur rót.
Svo hellir sólin sumarskini björtu
á sund og hlíð og vetrarskugga þvær
af augum þínum, aftur blasir við þér
það Ísland sem í draumi þínum grær.
Það rís úr sæ þinn snæviþakti jökull
með sól í fangi, vorsins skógarhind,
og landið fyllist fuglasöng og angan
og fegurð þess er vatn í djúpri lind.
Skáld: Matthías Johannessen
Fjallkona: Valgerður Dan Jónsdóttir