Hoppa yfir valmynd

1962 - Ávarp fjallkonunnar

Nú strýk ég gullnum boga

um fiðlur vatna og vinda

þar til vorsins augu loga.

Nú vek ég allt hið dumba, nú vek ég allt hið blinda,

nú vek ég allt sem hefur dáið

og særi yður, börn mín, sem söng og birtu þráið:

Hlustið á mína fossa, horfið á mína tinda

– heyrið, sjáið.

 

Ég rís úr djúpi hafsins mót bláum guðageimi,

ég glitra öll og streymi

og skelf af sumarþrá.

Og það er eins og lóur á leið til heiða kvaki

er liðnar aldir þjóta hjá

með snöggu vængjablaki.

Og kynslóðir um holt mín og hæðir eru á sveimi

og hvíslast á

með allt sitt stríð að baki:

Fjallkonan er hugsjón – sú fegursta í heimi.

 

Í morgunsvalann tæra ég lyfti ljósri hendi

og langa geislakossa sendi

þeim öllum sem mig elska af lífi og sál,

þeim öllum sem mér heilar fórnir bjóða.

Höfuð mitt er jökull, hjarta mitt er bál

– ó heit er mín ástríða, tigin er mín ró,

þegar niðjum mínum fram til frelsisins ég bendi

og friðarboðans hljóða

sem ilmar í grasi og glampar á sjó.

 

Ég blessa hann sem fæddist

á þessum dýra degi

– hann sem aldrei hræddist,

en hóf upp björg af mínum grýtta vegi,

hann sem mátti eigi víkja,

hann sem mátti eigi svíkja,

því mín mjöll var hans hjálmur, mín glóð var hans blóð.

Fyrir hans anda mín bestu blóm ég hneigi

í bænum og segi:

Megi

krafturinn hans bjarti í brjóstum yðar ríkja,

uns þér, börn mín, verðið ósigrandi þjóð.

 

Svo dreg ég gullna bogann

um fiðlustrengi fína

og færi yður kveðju guðs og mína:

ó eltið vorið upp á hæsta tindinn,

þar sem augu þess skína

í sátt við vatnið, í sátt við vindinn

– og sækið þangað logann.

 

 

Skáld: Jóhannes úr Kötlum

Fjallkona: Kristbjörg Kjeld

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta