2015 - Ávarp fjallkonunnar
Um miðjan júnímánuð
myrkri er horfinn styrkur,
fánar blakta í blænum,
blöðrur svífa, lúðra-
hljómur upp til himins
hefur sig og vefur,
söngur veifar vængjum,
víbrar eins og tíbrá.
Fjallkonan af fjöllum
– faldskrýdd – kemur aldrei.
Saman sjá vill koma
sína þjóð og skína,
sundurleita sindra
sjálfstæða og frjálsa,
handvissa um að höndla
hamingju og gaman.
Árin hundrað eru
orðin síðan forðum
viss mér veittist réttur,
vonir glæddust konum.
Mál er því að mæla,
minnast þess og finna
hjörtun sem eitt hjarta,
huginn taka flugið,
heldur betur halda
hátíð, okkur láta
dreyma – lifa drauma,
dvelja í núi og velja
jafnrétti og jöfnuð,
jákvæðni og ákefð,
leið sem liggur héðan,
ljósið alltaf kjósa.
Skáld: Þórarinn Eldjárn
Fjallkona: Katla Margrét Þorgeirsdóttir