Hoppa yfir valmynd

1947 - Íslandsljóð

Ég heilsa þér, mín þjóð! Í kveðju mína

á þessum degi leggur blessun sína

hver kynslóð, sem í gröf og gleymsku hvarf,

en gaf oss móðurjörð og tungu í arf.

Þar mætast þeir, sem ofurefli vörðust,

og allir þeir, er fyrir okkur börðust.

Hve gott að mega slíkum þakka það,

að þjóð mín, land og saga fylgdust að.

 

Enn hrynja vítt mín höf og fjöll mín blána

og himinblærinn lyftir ungum fána,

sem á að fylgja um aldir þeirri þjóð,

er þráir stærri afrek, fegri ljóð,

sem landi sínu vinnur ævi alla

og öllum stundum heyrir land sitt kalla,

sem ást á frelsi og ættjörð knýr hvern dag

að einu marki, um vilja og bræðralag.

 

Svo kveð ég yður kveðju árs og friðar.

Mitt konungsríki eg legg í hendur yðar,

þér tryggu þegnar. Meðal yðar enn

skal Ísland finna sína bestu menn.

Og meðan ljósið lyftir ungu blómi

og líf og æska syngur einum rómi

og vors míns birta úr ungum augum skín,

við eigum samleið, ég og þjóðin mín.

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Alda Möller

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta