1957 - Ávarp fjallkonunnar
Hinn 17. júní er algræn hin íslenska jörð
og ilmandi vorblærinn líður um tún og haga.
Í einingu sveipast vort land og vor liðna saga
í ljóðgræna fegurð og tign hinna nóttlausu daga.
Við dönsuðum við söngvanna hljóm þetta himneska kvöld,
og hjörtu vor slá eins og skáldsins með fagnandi geði,
Sem meyjuna forðum leit sólhvíta sofandi á beði
og sór, að sú mynd skyldi ein varða líf hans og gleði.
Er stræti vor fyllast af fagnandi og dansandi sveit,
þá finnst oss hún ennþá í dansi um torgið líða,
og blómarós dalsins hin ljóshára, lokkandi og blíða,
leiksystir dísa og álfkvenna horfinna tíða.
En gegnum vorn fögnuð vér greinum þó aldanna stríð
og grát þess, er einmana hraktist á vergangsleiðum,
er vogarnir luktust af voldugum hafísbreiðum
og vordagur fólksins varð úti á fannbörðum heiðum.
Og handan við söng vorn um „Íslands þúsund ár“
rís ómur af löngu þögnuðu fótataki
og söng yfir vöggu, er sól var að fjallabaki
og svæft var hið fátæka barn undir lágu þaki.
Og hvergi var vorið og sólskinið þráð eins og þar,
sem þorrinn var kaldastur, snjórinn við húsdyrnar mestur
og trúin á guð varð sá engill, sem öllum var bestur.
Í afdalsins mannfæð bjó vetrarlangt himneskur gestur.
Og jafnvel í gegnum rökkrið á reynslunnar tíð
rétti vor fegursta þrá sína björtu arma,
og ljóðið steig umvafið geislandi gullinbjarma,
sem glitrandi rós upp úr dökkri mold vorra harma.
Þér helgast vor þökk fyrir afrek frá liðinni öld,
hinn örsnauði verndari kotsins í skammdegisbyljum
og sjóhetjan gleymda, sem storkaði Heljar hyljum,
er holskeflur úthafsins löðruðu á byrðing og þiljum.
Þið fjölmörgu hversdagsins hetjur frá genginni tíð,
við heitum að vernda um aldir gegn kúgun og voða
landið, sem ykkur var uppheimur dísa og goða
á alstirndri nótt og í vordagsins morgunroða
landið, sem ykkur fannst sárast að sofna frá,
er sólnóttin breiddi um norðrið sinn gullinlinda,
landið, sem lét ykkur ástir við átthagann binda.
Hið eilífa og stóra var skráð á þess sólgullnu tinda.
Skáld: Helgi Sveinsson
Fjallkona: Helga Valtýsdóttir