Hoppa yfir valmynd

2003 - Hvar sem ég verð

I

Úr myrkum skógi – rödd

af svörtum himni –  orð

 

Í lófa mínum skerast allar línur

 

*

 

Hvar ef ekki hér

á stundlausum stað

á staðlausri stund

 

hvenær ef ekki nú

sem er þá og ennþá

var er verður núþá?

 

*

 

Tíminn sem mér gefinn var

á grænni jörð!

 

úr myrkum skógi

af svörtum himni

í lófa minn

 

og splundrast.

 

II

Veð lækinn

andstreymis

 

uppsprettan óvænt:

niðandi vötnin

 

tær og glitrandi

tunguvötnin

 

*

 

vatn í lófa

lifandi

auga sem

gárast

 

hönd mín síli

steinar

slý

 

kyrrð á ný

og vatnið – opið auga

 

III

Niður stigann

alltaf niður

undinn stigann

 

niðri – dyr

og opnast hægt

hjarir ískra

þrusk í hornum

þögn

 

skáhöll fellur

skíma um ljóra

hátt á vegg

 

og þögn

 

*

 

Blóðugt líf

á bláþræði

 

kviknar

ljós

og myrkrið

deyr

en þú

lifir

 

*

 

Og tekur til máls í þröngu rými kvöldsins

rekur þræðina spinnur teygir kembir

kynnir til sögunnar

tendrar að lokum

tvírætt bros svo djúp þessi nálægð

svo náin

 

IV

Hafi ég þekkt þig

 

séð þig ganga

horn úr horni

fram aftur

álútan

 

hlébarða Rilkes

í þrengslum tímans

 

hafi ég vitað …

 

*

 

Augu þín

og slikja fjarlægðar?

 

Munnur þinn

 

Öll þessi ógrónu sár

 

V

Fjarlægðin

útþráin

flóttinn:

 

ferð

 

um ókunna heima

og endar

hvergi

 

VI

Innst inni

kjarni einsemdar

aldrei klofinn

 

kjarni

þinn

 

einsemd

aldrei rofin

innst inni

 

*

 

Sálin segirðu, sálin?

 

*

 

sit og varpa skugga

á svartan vegg

 

drykk

langan

daginn

 

safna hvítum skýjum

 

*

 

Spor þín í mjöllinni

máð fyrir löngu

 

og fingraför dagsins

sem færði mér þig:

 

sebradýr svarthvítt

úr svipulum draumi

 

VII

Tíminn aldrei einn:

 

lít á klukku

fletti blaði

sýp úr bolla

hrukka ennið

elti alltaf

vindinn

vindinn …

 

meðan berast

á banaspjót

börn annars tíma

annars staðar

 

samtímis

og þó svo

sundur

 

tíminn aldrei einn

 

*

 

á banaspjót

í stofunni hér

 

kvöld eftir kvöld

 

VIII

Þráði að lifa tíma tvenna:

 

reika um dimma skóga

seið í rjóðri magna

þeysa um grundir

lauguð birtu

leggja að velli

mann og annan

 

ómþunga stríða

strengi slá

um stræti og torg

 

*

 

Af sléttri grund

 

og teygir sig

til sólar

 

villtasta

rauðasta

rósin!

 

IX

Syngurðu?

 

Eflaust fjallinu lof

rímuðu stuðlafjalli

myndhverfum himni

og hestinum áttfætta

níu nóttum í tré

að ógleymdum

meyjunum

sviknu

 

Treður þig mara: allt

var áður sagt

og betur

 

X

Nú dreymir mig:

 

framundan

skáhallur flötur

að hálfopnum dyrum

og streymir inn

dagsbirtan

 

bakvið mig

mannverur

ókunnar, óséðar

við erum þrjár

göngum saman

til ljóssins

 

– og vakna:

 

með mér í vökunni kvíðinn

áferð gamalla veggja

hrjúf rykug og

keimur hins liðna

ævarandi

keimur

hins fram-

liðna

 

XI

Hér er ekkert

sem sýnist: ég hlaut

að gjöf þennan lampa

sem lýsir um nætur

og aðrir fá

aðeins grillt

eða grunað

í gjörningaþokum

sárustu sorga

 

*

 

af herðum fellur

þyngsta okið

þúsundfalt

 

*

 

hvar sem ég verð

ó kom þú til mín

 

XII

Úr myrkum skógi

af svörtum himni

 

Stundlaus staður

staðlaus stund

 

*

 

nú væri við hæfi

að heyrðist í fjarska

 

klukknahljómur

 

og marr í hvítri mjöll

 

 

Skáld: Ingibjörg Haraldsdóttir

Fjallkona: Inga María Valdemarsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum