Hoppa yfir valmynd

1998 - Hafið dreymir

Ég sá hana systur þína.

Ég sat þá og orti um þig ljóð,

og vornóttin gekk fyrir gluggann minn

glóhærð og vangarjóð –

hún settist frammi við sæinn

og svæfði þar bróður sinn daginn

við blæþýtt báruhljóð –

 

Og senn var allt í svefni:

Sólin í Ægisfangi,

hafið í húmkyrtli nætur

hvíldi við landsins fætur,

og landið hallaði höfðum fjalla

að himinsins baðmi –

 

En þögnin draumkvikum þrýsti faðmi

um allt og alla – –

 

Og minn hugur var haf –

haf í tunglskini bláu,

ómælis-haf, og himinninn einn var þess strönd.

Hafið var þögult –  hafið svaf –

sem hrafnsvartir risafákar

á barmi þess öldur lognþungar lágu.

Flugeldar mánans um faxið stukku;

fáksbökin tinnudökk kvikuðu, hrukku

undan kitlandi geislunum hart, sem hjarta

úr hrynjandi eldi í búknum svarta

titraði, títt og ótt.

Þar hvíldu þeir, drukku í sig djúpsins þrótt

og fólu sín höfuð í hafsins nótt – –

 

Og hafið dreymdi – –

dulrænn og töfrandi söngvaniður

frá djúpinu dimmbláu streymdi,

sem klukkna kliður

í kyrrum skóg,

sem blævar blak

í blundhöfgu sefi

í hljóðri haustnæturró.

–  Hörpu þar sló

draumanna andi djúpt niðri’ í sjó

–  því hafið dreymdi.

Draumur þess voru syngjandi sævarfljóð

með sægrænt hár,

og þaralauf dimmrauð, sem drjúpandi blóð

um drifhvítar brár.

En þögult hljóma haf

í húmi augnanna svaf – –

 

– Og fleiri og fleiri úr fangi þess rísa þær,

sem faldhvítar bárur í húminu lýsa þær –

Og hafið dreymir –

djúpt við þess hjarta

draumanna guð sína hörpu slær –

 

Og minn hugur var hafið –

hafið í náttbláma vafið.

Og draumar hafsins: lofsöngsljóð

frá lýrunni í brjósti mér –

ókveðnir ástarsöngvar –

allir til blessunar þér –

 

Þá var það, ég sá hana systur þína,

er sat ég og orti þau ljóð.

Og morgunsólin mild og rjóð

um miðja nótt vakti sumardaginn

til brúðfarar langt yfir logntæran sæinn –

 

Fyrr en ég vissi var hlýlegri hönd

um höfuð mér strokið – og titrandi önd

lék mér sem sólblær um svefnföla kinn –

systir þín stóð þar og brosti –;

hennar hár var svo ljóst sem lauf um haust,

og liljur og rósir ég sætt fann anga

frá vör henni og vanga.

Svo hóf hún máls með hörpuraust

og hlæjandi benti á mín kvæði –:

 

„Ég sé að við berum þá bæði

í brjósti’ okkar góðan huga

til sömu mærinnar, sveinninn minn,

hann sýnir það, þessi óður þinn.

Mitt nafn er gæfa, ég garðkona er,

garðkona tímans, og víða ég fer.

Ég er systir hennar, er söngstu þín ljóð,

sál okkar ein og eitt okkar blóð,

og blóm mín öll hennar ævisaga,

því hver stund, er hún lifir, er lítið fræ,

er legg ég í hennar spor;

ég gef henni ekki annað en gullblómin mín,

ég gef henni ekki annað en sólskin og vor.

Kveddu henni systurkveðju mína.“

 

Og inn yfir hugar míns haf

bar hljóma glaðværra braga,

hjartaslög hulinna daga –

 

Ég sá hana systur þína!

 

 

Skáld: Jóhann Jónsson

Fjallkona: Helga Braga Jónsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta