Hoppa yfir valmynd

2016 - Úr Söngvum helguðum þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944: II

Skín, blessaða frelsi, um fjörð og dal.

Við fögnum þér, ljósið hreina,

sem allt gerir bjart í bæ og sal

og brauð gefur fyrir steina.

Við unnum þér heitt frá ómunatíð

gegnum allt, sem við hlutum að reyna.

 

– Í úthafi bláu lá ónumið land,

þar alfrjálsir straumar sungu.

Einn dag lentu hugdjarfar hetjur við sand

með hrundir og börnin sín ungu.

Þeir námu héruð og nefndu allt

á norrænni skáldatungu.

 

Og eylandið fagra varð ættjörð góð

þeim unga og týhrausta lýði,

sem gaf á móti sinn ásthug og óð

og örlög - í friði sem stríði.

Þeir hófu upp Alþing við hásumardýrð

í hraunsalar fagurprýði.

 

Þó háfossar tímans hrynji í sæ,

af heimi ei gleymist sú tíðin.

Það eyland varð sælt, við eld og snæ

og alfrjálsan hetjulýðinn.

Það land er Ísland – er okkar land.

Og enn þá er fegurst „Hlíðin“.

Þú heilaga jörð með sögu, söng

og sólstafi frelsis bjarta.

Hve örlög þín síðar urðu ströng

við ánauðarmyrkvann svarta.

Sem djúpsærð hetja þú varðist varg,

með vordraumsins ljós í hjarta.

 

Og aldir liðu með álög mörg. –

En eilíf var frelsisþráin,

sem nam okkar land við brim og björg

og blessaði skipgengan sjáinn.

Hún geymdi sín vé og hof og hörg,

uns harðstjórn og fals voru dáin.

 

Skín, blessaða frelsi, um Ísland enn.

Við elskum þig, morgunstjarna.

Þér heilsa fagnandi frjálsir menn

og fagurskær söngur barna.

Við heitum að vernda þig ókomin ár

og örlaga slysum varna.

 

 

Skáld: Hulda

Fjallkona: Linda Ásgeirsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta