Lögréttutjöldin
Þann 14. júní 2024 verður opnuð sýning í Þjóðminjasafni Íslands á veggtjöldum frá Lögréttuhúsinu á Alþingi á Þingvöllum.
Veggtjöldin sem eru í eigu Þjóðminjasafns Skotlands komu þangað árið 1858 þegar maður að nafni Robert Mackay Smith (1802-1888) seldi safninu tjöldin ásamt fleiri íslenskum gripum. Mackay-Smith fékk tjöldin hjá Hallgrími Scheving (1781-1861), kennara við Bessastaðaskóla.
Veggtjöldin eru tvö, úr ull og líni, og eru saumuð saman. Annað tjaldið er fjórir metrar að lengd og en það styttra um þrír og hálfur metri að lengd.
Á styttra tjaldinu, sem er eldra og grófara, eru stílfærðir fuglar og þessi áletrun: hvor sem tialldid eignast a a alldrei lvckv slep[pa]. Elsa Guðjónsson skoðaði tjöldin og telur þau vera dæmigerð íslensk glitsaumuð rúmtjöld, einkennandi fyrir íslenskan útsaum eftir siðaskipti, sem hafa verið endurnýtt sem veggtjöld.
Á lengra tjaldinu, sem talið er vera frá seinni hluta 17. eða fyrri hluta 18. aldar, er tígullaga geómetrískt munstur sem í er blómaskraut. Textinn á tjaldinu er 11. vers úr 34. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar: Allra síðast þá á ég hér, andláti mínu að gegna, sé þá minn guð fyrir sjónum þér, sonar þíns pínan megna, þegar hann lagður lágt á tré, leit til þín augum grátandi.
Veggtjöldin eru fengin að láni frá Þjóðminjasafni Skotlands í Edinborg í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi.
Staðsetning og dagsetning: Þjóðminjasafn Íslands, opnar kl. 16:30 þann 14. júní 2024 og stendur til 1. júní 2025.