Hylling fánans á Þingvöllum 1944
Einn af dagskrárliðum lýðveldishátíðarinnar á Þingvöllum þann 17. júní 1944 var fánahylling. Mikil fánastöng hafði verið reist á hátíðarsvæðinu og drógu skátar stærðarinnar fána að húni þar.
Þessi fáni er varðveittur í Byggðasafni Reykjanesbæjar og í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins verður hann sýndur í Bíósal Duus safnahúsa frá 17. júní til 18. ágúst.
Á þjóðhátíðardaginn verður frítt í Duus safnahús og boðið upp á kaffi og kleinur. Verið öll velkomin.
Fáninn er líklega einn stærsti fáni landsins, 4 x 5,85 m að stærð, sem þýðir að hann er rúmir 23 fermetrar að flatarmáli. Með einhverjum ráðum tókst Helga S. Jónssyni að fá fánann til Keflavíkur strax að aflokum hátíðarhöldum 1944. Honum var flaggað í skrúðgarðinum í Keflavík þann 17. júní ár hvert frá 1945 til 1973.