Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022
Ráðuneyti framtíðarinnar
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) hóf formlega starfsemi 1. febrúar 2022. Ráðuneytið var sett á laggirnar til að efla getu íslensks samfélags að takast á við þær hröðu breytingar og tækniþróun sem eiga sér stað í nútímasamfélagi. Undir ráðuneytið heyra málaflokkar og verkefni sem áður tilheyrðu fimm mismunandi ráðuneytum. Frá mennta- og menningarmálaráðuneyti fluttust málefni háskólastigs, vísinda og rannsókna, námsaðstoðar og Félagsstofnunar stúdenta við Háskóla Íslands. Frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fluttust málefni nýsköpunar, tækniþróunar og stuðningsumhverfis atvinnulífs, hugverkaréttindi og iðnaður. Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti fluttust fjarskipti og netöryggi, málefni gervigreindar fluttist frá forsætisráðuneyti og stafræn málefni fluttust frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Sameining þessara málaflokka í eitt ráðuneyti hefur skapað áhugaverða gerjun og umtalsverða nýsköpun í stefnumörkun og samskiptum ráðuneytisins við stofnanir á þessum sviðum. Hjá ráðuneytinu hefur þetta verið orðað sem svo að með sameiningu þessara nýju málaflokka sé ætlunin að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við sameiningu málaflokkanna og þær nýju hugmyndir sem verða til í suðupotti háskóla, vísinda, rannsókna, hugverka, iðnaðar, fjarskipta, upplýsingasamfélags og nýsköpunar.
Saga atvinnulífs og hagkerfis á Íslandi hefur einkennst af tímabilum uppgangs og samdráttar í einstökum atvinnugreinum. Áhrif slíkra breytinga á afkomu þjóðarbúsins hafa verið meiri en ella hefði getað verið vegna fábreytni í atvinnulífi og því mikilvægt fyrir afkomu þjóðarinnar til lengri tíma að fjölbreytni efnahagslegra stoða þjóðarbúsins verði aukin. Þannig varð til sú sýn sem HVIN fylgir í allri starfsemi að lykillinn að bættum lífsgæðum þjóðarinnar og auknum tækifærum sé að hugvitið, sem er ótakmörkuð auðlind, verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.
Skipurit HVIN og lýsingar á hlutverki skrifstofa má nálgast hér.
Frá upphafi hefur HVIN verið opið fyrir störfum óháð staðsetningu og hafa allar stöður verið auglýstar í samræmi við það. Þá kvaddi ráðuneytið stimpilklukkuna vorið 2022, fyrst allra ráðuneyta. Auk þess hefur ráðherra staðsett skrifstofu sína víðs vegar um landið, enda eiga málefni ráðuneytisins við um land allt. Á hverri starfsstöð hefur ráðherra boðið öll áhugasöm velkomin í opna viðtalstíma þar sem tækifæri gefst til að eiga stutt, milliliðalaust spjall við ráðherra um málefni ráðuneytisins.
Vinnulag HVIN einkennist af fjórum sprettlotum á ári þar sem skilgreint er í upphafi að hvaða verkefnum er unnið. Við skilgreiningu spretta liggur fyrir forgangsröðun, hverjir koma að verkefni og að hvaða árangri er stefnt með verkefninu. Um miðbik spretttímabilsins fer fram „stofugangur“ ráðherra þar sem staða verkefna er kynnt. Við sprettlok er árangurinn kynntur fyrir ráðherra og verklokum fagnað. Auk þessa hefur ráðherra haft það að markmiði frá upphafi að skipa sem fæstar nýjar nefndir, ráð eða starfshópa og styðjast þess í stað við fjölbreyttar vinnustofum. Þannig voru hvorki nýir starfshópar, ráð né nefndir settar á laggirnar árið 2022. Vinnustofur þar sem náið samráð við hagaðila, undirstofnanir og aðra hlutaðeigandi fer fram hefur reynst afar árangursríkt til viðbótar við þann sparnað í tíma, peningum og mannafla sem næst með þessu vinnulagi.
Ráðherra gaf út stefnu og starfsáætlun í ritinu Árangur fyrir Ísland sem var svo útfærð í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025 (982. þingmál á 153. löggjafarþingi Alþingis) þar sem reifuð er stefna í öllum helstu málaflokkum ráðuneytisins.
Samstarf háskóla var kynnt haustið 2022. Verkefninu er ætlað að ýta undir öflugt samstarf íslensku háskólanna og þar með auka nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Allir háskólarnir sjö sóttu um styrki í verkefnið og var yfir milljarði króna úthlutað til 25 fjölbreyttra samstarfsverkefna í lok ársins. Samstarf háskóla var þegar fjármagnað undir safnlið innan málefnasviðs háskólamála en með því að ráðstafa fjárlögum af safnliðnum á þennan hátt er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður. Verkefnið mun halda áfram, a.m.k. til ársins 2024.
Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi sameiginlegrar innritunargáttar háskólanna. Með innritunargáttinni eflist þjónusta við umsækjendur til muna auk þess sem yfirsýn stjórnvalda við stefnumótun og undirbúning fjárlagagerðar hverju sinni eykst. Þannig verður hægt að veita ítarlegri upplýsingar um námsframboð, innritunarkröfur, skipulag náms og námsfyrirkomulag auk greiðara aðgengis að ýmissi ráðgjöf og þjónustu og tengingu við Menntasjóð námsmanna.
Vinna er langt komin við nýtt reiknilíkan háskólanna sem verður útfært við fjárlagavinnu ársins 2024. Nýju reiknilíkani er ætlað að auka gæði og skilvirkni háskólanáms, draga úr brottfalli, hvetja til rannsókna og alþjóðlegs samstarfs og ýta undir að námsframboð sé í takt við þarfir nútímasamfélags með jafnrétti að leiðarljósi. Rannsóknastarf háskóla verður hluti af reiknilíkaninu og þannig ráðast framlög háskóla í fyrsta sinn af árangri á þeim vettvangi.
Meginmarkmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi eru að tengja byggðir landsins og Ísland við umheiminn og að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs. Stuðlað er að sjálfbærri þróun á landsvísu með nýtingu stafrænna lausna. Þá verði öflugt netöryggi tryggt til að svo megi verða. Í netöryggisstefnu Íslands 2022-2037 eru sett fram markmið um afburða hæfni og nýtingu netöryggistækni og öruggt netumhverfi. Á netöryggisstefnunni byggir fyrsta aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í netöryggi sem kynnt var í nóvember 2022. Aðgerðaáætlunin samanstendur af 65 aðgerðum sem stefna að settum markmiðum. Árangursrík framkvæmd þeirra mun leiða til stórstígra framfara til aukins netöryggis alls samfélagsins og færa Ísland framar í alþjóðlegum samanburði.
Ný fjarskiptalög voru samþykkt á Alþingi sumarið 2022. Í þeim má finna nýmæli sem stuðla að nauðsynlegri áframhaldandi uppbyggingu og framþróun á fjarskiptamarkaði. Í þessu felast einkum auknar heimildir er varða samnýtingu aðstöðu og ólíkra hluta fjarskiptaneta, og þar með hvatar til aukins samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða. Markmið nýrra laga eru m.a. virkari samkeppni, hagkvæmari fjárfestingar, útbreiðsla háhraðaneta, ljósleiðara og aðgengi notenda að hágæða fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði.
Lagning fjarskiptasæstrengs frá Íslandi til Írlands hófst vorið 2022 og lauk að hausti. Með tilkomu sæstrengsins eykst fjarskiptaöryggi Íslands tífalt en hann varð virkur 1. mars 2023 og lauk verkefninu á tíma- og kostnaðaráætlun. Hröð tækniþróun og viðvarandi krafa samfélagsins um nýtingu stafrænna lausna hvetur stjórnvöld til þess að hugsa til framtíðar enda ljóst að við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum á þessu sviði. Aukinn gagnaflutningshraði til heimila og fyrirtækja gerir eðlilega kröfu um mikla afkastaaukningu annarra hluta fjarskiptaneta, svo sem stofnneta og fjarskiptasæstrengja, enda keðjan aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Sérstaða Íslands sem eyju fjarri öðrum löndum gerir ríka kröfu til fjölda og áreiðanleika fjarskiptasæstrengja til að mæta þörfinni fyrir gagnaflutning milli landa. Með hverjum nýjum fjarskiptasæstreng eykst öryggi fjarskipta og einnig samkeppnishæfni Íslands á sviði stafrænna lausna og þjónustu á borð við þjónustu gagnavera og á sviði ofurtölva.
Unnið er að því að í allri byggð bjóðist aðgangur að áreiðanlegu háhraðafjarskiptasambandi. Með því fækkar verulega þeim byggðakjörnum þar sem innan við 80% heimila og fyrirtækja hafa aðgang að fjarskiptatengingu um ljósleiðara. Stefnt er að því að Ísland verði fyrst gígabitaland í heimi þar sem aðgengi allra íbúa að háhraðanetum er tryggt óháð búsetu og starfi. Í nútímasamfélagi er það forsenda þess að koma á jafnrétti óháð búsetu og tryggja að bæði störf og nám geti í auknum mæli verið óháð staðsetningu.
Alþjóðlegir sérfræðingar velkomnir!
Greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu og færni er ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt íslenskra fyrirtækja í hugverkaiðnaði verði að veruleika, en hér á landi vantar 9 þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum ef spár ganga eftir. Skortur á starfsfólki er eitt helsta áhyggjuefni forsvarsmanna í hugverkaiðnaði. Vegna þessa hefur öflug vinna farið fram innan HVIN og annarra ráðuneyta til þess að Ísland verði eftirsóknarvert land til að búa, starfa og stunda nám í, bæði fyrir innlenda og alþjóðlega sérfræðinga og fjölskyldur þeirra.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna markmið um aukið svigrúm og skilvirkni í ráðningu alþjóðlegra sérfræðinga og auðvelda íslenskum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að ráða fólk með sérþekkingu frá löndum utan EES. Jafnframt hefur áhersla verið lögð á að auðvelda viðurkenningu á erlendri menntun og fjölgun alþjóðlegra nemenda við íslenska háskóla. Í október 2022 voru fjórar tillögur kynntar sem ætlað er að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga og auka aðgengi að sérhæfðri þekkingu.
Snemma árs 2023 kynntu forsætisráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra nýtt og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Í þessu felst að reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga verða rýmkaðar, fyrirsjáanleiki verður tryggður með spá um mannaflaþörf, stjórnsýsla einfölduð með sameiningu dvalar- og atvinnuleyfa og umsóknarferli um dvalarleyfi einfaldað og bætt með stafvæðingu.
Löggiltar iðngreinar
Íslenskur iðnaður leikur stórt hlutverk þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun, hönnun og umhverfisvænum lausnum. Iðnaðurinn hefur um margt náð góðum árangri í breytingum á sinni starfsemi í samræmi við þróun samfélagsins. Lögverndun iðngreina byggist þó á lögum sem eru að grunni til hundrað ára gömul og að miklu leyti barn síns tíma, en markmið þeirra er að tryggja öryggi starfsfólks, neytendaverð og gæði vöru og þjónustu. Ötul vinna vegna endurskoðunar laganna hefur farið fram hjá HVIN í samræmi við ábendingar OECD um að ákvæði laganna hamli nýliðun og framþróun í iðnaði hér á landi. Á þetta við um þær iðngreinar sem ekki er unnt að rökstyðja með vísan til almannahagsmuna að njóta skuli lögverndar. Sumarið 2022 voru breytingar á reglugerð um löggiltar iðngreinar birtar í Samráðsgátt. Með afnámi tiltekinna iðngreina og sameiningu annara við víðtækari yfirgreinar er aðgangshindrunum haldið í lágmarki fyrir nýja aðila sem vilja starfa í þessum greinum en hafa ekki leið til að afla sér tilskilinna réttinda í íslensku umhverfi iðngreina, t.d. þar sem viðkomandi grein er ekki lengur kennd hér á landi eða hún hafi tekið slíkum breytingum að forsendur teljast ekki lengur vera fyrir löggildingu. Í desember 2022 gaf ráðherra út reglugerð um breytingu á reglugerð um löggiltar iðngreinar, nr. 940/1999, þar sem lögvernduðum iðngreinum var fækkað um 16, þar af voru sex iðngreinar sameinaðar öðrum iðngreinum.
Áframhaldandi stuðningur stjórnvalda við rannsóknir og þróun
Sumarið 2022 samþykkti Alþingi áframhaldandi stuðning við nýsköpun í formi 35% endurgreiðslu skatta til rannsókna- og þróunarverkefna. Endurgreiðsluhlutfall helst þannig óbreytt frá heimsfaraldri þegar það var tímabundið hækkað úr 20% í 35%. Markmið skattfrádráttar vegna R&Þ verkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar og/eða endurgreiðslu vegna kostnapar við nýsköpunarverkefni. Ljóst er að stuðningurinn hefur spilað lykilhlutverk í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og aukinni samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.
Forgangsraðað í þágu heilbrigðismála
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra lögðu í október 2022 fram sameiginlegt minnisblað um forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar. Efling menntunar heilbrigðisstarfsfólks er lykilatriði þegar kemur að mönnun í heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að mæta aukinni þjónustuþörf, sem m.a. stafar af öldrun þjóðarinnar. Nýsköpun og breytt verklag geta verulega dregið úr mannaflaþörf og létt undir með starfsfólki, en auk þess er nauðsynlegt að efla menntun heilbrigðisstarfsfólks.
Árið 2022 var Fléttan - styrkir til innleiðinga nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu sett á laggir. Um var að ræða 60 m.kr. sem úthlutað var til nýsköpunarfyrirtækja í samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem höfðu skuldbundið sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkt var með það að markmiði að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins. Í lok árs var fulltrúum átta sprotafyrirtækja var boðið að ganga til samninga um styrki. Úthlutað verður úr Fléttunni á ný haustið 2023 og hefur ráðstöfunarupphæð verið aukin í 100 m.kr.
Lóa - nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina
Fjölbreytt verkefni hlutu styrk úr Lóu árið 2022, en 100 umsóknir bárust og var tæpum 100 m.kr. úthlutað til verkefna sem matshópur taldi skara fram úr. Hlutverk Lóu eru að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæða á landsbyggðinni. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt.
Í október 2022 komu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sér saman um skiptingu málefna er varða stafræn mál í Stjórnarráðinu. Með þeirri verkaskiptingu færðust ýmis málefni er varða stafræn mál í samfélaginu, frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Á sama tíma ákváðu forsætisráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið skyldi fara með málefni er varða gervigreind. Að undirlagi forsætisráðherra leiddi forsætisráðuneytið vinnu við mótun stefnu Íslands um gervigreind haustið 2020 og gaf hana út í apríl 2021. Frekari vinna á grunni þeirrar stefnu, svo sem mótun aðgerðaáætlunar liggur nú hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisinu.
Auk málefna gervigreindar eru málefni er varða gögn, svo sem endurnýting opinberra gagna komin til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þessi málefni tengjast náið innbyrðis auk þess sem þau varða fjölda gerða sem Evrópusambandið hefur til umfjöllunar eða hafa þegar verið samþykktar og munu koma inn í EES samninginn og til innleiðingar í landslög.
Á árinu 2022 hélt áfram vinna innan ESB með aðkomu annarra EES ríkja að mótun gervigreindarlöggjafar ESB (AI Act). Sú löggjöf er enn í mótun en vonir standa til að löggjöfin verði samþykkt af hálfu ESB í lok þessa árs. Síðla árs 2022 litu gervigreindarkerfi á borð við ChatGPT frá OpenAI dagsins ljós og hafa þau vakið mörg ríki til aukinnar vitundarvakningar um viðbrögð við þeirri tæknibyltingu sem ljóst er að gervigreindin mun fela í sér.
Ársskýrsla ráðherra 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.