Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Rúm tvö ár eru síðan ríkisstjórnin var mynduð og sett var á laggir ráðuneyti sem sameinar nokkrar mikilvægar stoðir í okkar samfélagi: háskólamenntun, vísindi, nýsköpun, stafræna umbreytingu, gervigreind og hátækniiðnað. Í upphafi mótuðum við okkur þá sýn að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Eftir þeirri sýn vinnum við enn og nú meðal annars á grundvelli þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi.

 

Góðir háskólar eru forsenda öflugs atvinnulífs og samfélags sem kallar m.a. eftir því að nemendum í tækni- og raungreinum fjölgi ásamt nemendum í heilbrigðisvísindum. Í síðustu fjármálaáætlun var ákveðið að auka framlag til háskólastigsins um sex milljarða frá fyrri áætlun. Í framhaldinu var árangurstengd fjármögnun háskóla kynnt en lengi hafði verið beðið eftir nýju fjármögnunarlíkani. Ný árangurstengd fjármögnun tryggir það að skólarnir þurfa nú með mælanlegum hætti að skila meiri og betri árangri til að fá hluta af þessu aukna fjármagni. Fjármögnun háskóla verður skipt í þrennt, kennslu, rannsóknir og samfélagslegt hlutverk. Lagt er mikið upp úr gæðum og gagnsæi og í fyrsta sinn eru m.a. hvatar til að styðja við nemendur að klára nám sitt, að fjölga fjarnámsleiðum og auka gæði rannsókna. 

 

Einn af veikleikum háskólastigsins er að háskólarnir eru of margir miðað við fjölda íbúa. Verkefnið Samstarf háskóla hélt áfram á árinu þar sem sérstöku fjármagni er úthlutað til verkefna sem unnin eru sameiginlega af tveimur eða fleiri háskólum. Samstarf háskóla hefur skilað miklum árangri og leitt af sér mörg mikilvæg verkefni t.d. nýjar námsleiðir, meira fjarnám og aukna skilvirkni og hagræðingu í stoðþjónustu. Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum fengu sérstaka úthlutun vegna viðræðna um sameiningu í háskólasamstæðu og eins fór úthlutun til Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst vegna sameiningarviðræðna.

 

Umhverfi nýsköpunar hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og var óskað eftir úttekt OECD á umhverfi endurgreiðslna rannsókna og þróunar. Áfram verður unnið að bættu umhverfi nýsköpunar til að tryggja að hér verði hugmyndir að veruleika og við styrkjum samkeppnishæfni okkar. Unnið er að greiningarvinnu um sameiningu fleiri sjóða m.a. til að  minnka yfirbyggingu og umsýslukostnað. Stefnt að sameiningu NSA og Kríu auk þess sem samningur var gerður um þátttöku okkar í Invest-EU áætluninni.

 

Sérstök áhersla hefur verið lögð á öfluga heilbrigðisþjónustu. Á árinu var tekin löngu tímabær skóflustunga að nýju húsi heilbrigðisvísinda sem mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna, ásamt því að stutt var við uppbyggingu færni- og hermisetra til að auka getu okkar á að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum. Þá höfum við séð árangur af því að brúa bil nýsköpunar og heilbrigðiskerfisins með Fléttunni. Það skiptir okkur öll máli að við nýtum nýjustu tækni og lausnir til að bæta kerfið, fara betur með fé og létta á starfsfólki. 

 

Í upphafi kjörtímabils kynnti ég fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í netöryggi. Þessari aðgerðaráætlun var fylgt eftir á árinu en þær munu m.a. bæta viðbragðsgetu, stjórnskipulag, lagaumhverfi, fræðslu, löggæslu og námsframboð. Ekki síður skiptir máli að fylgja eftir stöðu fjarskiptamála og uppbyggingu ljósleiðarakerfis. Ísland er meðal leiðandi landa og unnið að því að tryggja öllum landsmönnum nothæft samband um land allt. 

 

Það er umfram mínar væntingar hvar við stöndum áður en kjörtímabilið er hálfnað. Ég þakka það ekki síst nýju verklagi í ráðuneytinu þar sem mikilvæg verkefni eru sett í skýran forgang. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að innleiða nútímalega stjórnunarhætti þar sem við höfum bæði lært af því besta sem gerist hér á landi sem og alþjóðlegum fyrirtækjum og stofnunum. Breytt verklag skiptir máli vegna þess að það stuðlar að betri nýtingu fjármagns og mannafla, aukinni framleiðni og betri þjónustu við almenning, atvinnulíf og undirstofnanir ráðuneytisins.

 

Verkefnin framundan eru brýn, tækninni fleygir áfram og kerfið þarf að vera viðbúið þeim breytingum. Áfram þarf að gera betur til að ná auknum árangri fyrir Ísland.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum