Stefnuræða 1996
STEFNURÆÐA
DAVÍÐS ODDSSONAR FORSÆTISRÁÐHERRA
2. OKTÓBER 1996
Herra forseti, góðir áheyrendur,
Stjórnarsáttmálar og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórna eru athyglisverð plögg þótt menn greini oftast mjög á um innihald þeirra. Sáttmálarnir geyma jafnan loforð eða a.m.k. fögur fyrirheit þeirra, sem eru að leggja af stað saman í ferð. En þeir eru ekki síður tæki stjórnmálaflokka til að kanna við stjórnarmyndanir, hvort þeir geti sameinast um nokkur megin verkefni næstu árin, þrátt fyrir þann stjórnmálalega ágreining, sem milli flokkanna er. Og þeir eru einnig notaðir til að kortleggja þau sker, sem slíkt samstarf gæti helst steytt á. Mjög langir stjórnarsáttmálar, fullir af smáatriðum og þar sem reynt er að setja undir alla hugsanlega leka, gætu því bent til þess, að verulegrar tortryggni gætti um samstarf á milli flokka í upphafi. Því þætti best að hafa sem flest svið niðurnegld í skrifuðum texta. Reyndar sýnist mér að stundum sé nokkur fylgni á milli langra stjórnarsáttmála og lélegs samstarfs flokka á milli. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er stuttur og gagnorður, en gefur þó ágæta leiðsögn um mikilvægustu viðfangsefni í íslensku efnahags- og þjóðlífi. Og ég tel einnig, að upphaf núverandi ríkisstjórnar hafi verið gott og geti leitt til góðrar og farsællar tíðar. Það er mála sannast, að síðasta þing, fyrsta heila þing núverandi ríkisstjórnar, var eitt hið athafnasamasta um langt skeið. Umræður voru vissulega langar og strangar, eins og vill verða í upphafi kjörtímabils, þegar stjórn og stjórnarandstaða, samsett með nýjum hætti, láta reyna með sér. En hitt er þýðingarmeira, að fjöldi stórmála var leiddur til lykta og mörg mál, sem áður höfðu lengi þvælst fyrir þingmönnum, fengu nú afgreiðslu.
Það sést glöggt, þegar litið er til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, að störf hennar hingað til og stefnan, sem framundan er, verða í góðu samræmi við hann. Fylgt hefur verið fast fram þeim fyrirheitum um efnahagsmál, atvinnuaukningu og bætt lífskjör, sem vikið er að í stjórnarsáttmálanum. Þar verður verkum þó seint lokið og þeirra mun því einnig sjá stað á þessu þingi, ekki síst í tengslum við fjárlagagerð. Fjármálaráðherra hefur nú lagt fram fjárlagafrumvarp, sem gerir ríkisstjórninni að reka ríkissjóð með nokkrum afgangi og nú þykir ljóst, að fjárlagahallinn á því ári, sem senn er að ljúka, verður mun minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þá er settur innan sviga sá bókhaldshalli, sem skráður verður vegna innlausnar spariskírteina fyrr á árinu. Eins og kunnugt er mun sú innlausn ein spara ríkissjóði milljarða króna á næstu árum. Á síðasta þingi var vinnulöggjöfin endurskoðuð og er það von ríkisstjórnarinnar að þegar fram í sækir, muni sú lagasetning teljast mjög til bóta, þótt nokkuð hafi verið um hana deilt. Flutningi grunnskóla til sveitarfélaga hefur verið lokið áfallalaust. Margir óttuðust að þar væru of mörg ljón í vegi til þess, að það stóra mál mætti ná fram að ganga. Flutningur grunnskólans er mesta verkefnatilfærsla á milli ríkis og sveitarfélaga, sem orðið hefur, og þá um leið stærsta skref til valddreifingar, sem stigið hefur verið. Endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins, sem sérstaklega er fjallað um í stjórnarsáttmála, er vel á veg komin. Annað atriði, sem þar er nefnt, hefur einnig breyst úr orðum í veruleika. Settar hafa verið reglur um aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum og jafnframt verið mótuð heildarstefna um upplýsingatækni og upplýsingaþjóðfélagið.
Vinna við að búa í haginn fyrir erlenda fjárfestingu í landinu hefur borið góðan ávöxt eftir langvarandi kyrrstöðu í þeim efnum. Er það fagnaðarmál fyrir þjóðina og reyndar eru ýmis merki um það nú, að þar verði frekari ákvarðanir teknar á næstu mánuðum og misserum.
Ég hef, herra forseti, aðeins vikið að fáeinum atriðum, sem stjórnarsáttmálinn lagði okkur í hendur að huga sérstaklega að í upphafi kjörtímabilsins. Þar hefur mörgu verið þokað í rétta átt. En það er ekki síður ánægjulegt, að samstarfið á milli stjórnarflokkanna um framkvæmd þessara verkefna hefur verið afar traust og sú samheldni hefur tryggt öruggan framgang málanna.
Það var forgangsatriði ríkisstjórnarinnar að fjárlög skyldu nú lögð fram hallalaus. Þó skyldi forðast, að það yrði með þeim hætti, sem hér hefur gerst stundum á árum fyrr, þegar að útgjöld ríkisins voru vanmetin stórlega og tekjurnar ofmetnar og með þeim hætti fengin hagfelld niðurstaða. Óþarfi er að rifja þau tilvik upp sérstaklega nema tilefni gefist til. Öðruvísi er í pottinn búið nú og því hafa orðið mikil kaflaskil í íslenskri efnahagsstjórn við framlagningu þessa fjárlagafrumvarps Til þess að ná markmiðum þess, hefur verið óhjákvæmilegt að sýna aðhald í ríkisrekstrinum á fjölmörgum sviðum. Það hefur vissulega verið gert, en á hinn bóginn munu útgjöld til ýmissa málaflokka þó halda áfram að aukast og er slíkt óhjákvæmilegt, þótt viðspyrna sé sýnd. Hinn umfangsmikli heilbrigðismálaflokkur lýtur einmitt þessum lögmálum, en útgjöld til hans aukast jafnt og þétt, þótt þeir sem leggja eyrun við pólitískum áróðri gætu haldið annað. Meðalaldur landsmanna eykst og sífellt koma til ný dýr lyf og tækjabúnaður, sem nútímalæknisþjónusta getur ekki verið án, eigi hún ekki að verða lakari hér, en þar sem hún er best. Áfram er tryggt að íslensk heilbrigðisþjónusta verður í fremstu röð meðal þjóða. Slíkri stöðu er hægt að halda þótt þess sé gætt að útgjaldaþensla þessa málaflokks keyri ekki þjóðfélagið á hliðina. Sömu sögu er að segja um mál er lúta forræði menntamálaráðuneytisins. Það er enginn ágreiningur um það hér á hinu háa Alþingi að tryggja æsku landsins sem best tækifæri til menntunar, enda er hún helsta forsenda framfara og velmegunar þjóðarinnar. En á hinn bóginn er einnig líklegt, að allir þeir stjórnmálaflokkar og samtök, sem hér eiga fulltrúa, vilji í lengstu lög forðast að safna ríkisskuldum nú, þegar að hagur er tekinn að vænkast, skuldum sem ungviði landsins er ætlað að greiða þegar það kemst á fullorðinsár. Því var ljóst, að það þurfti að koma til kasta menntamálaráðuneytisins sem og annarra ráðuneyta, sem fara með viðkvæma málaflokka, þegar að niðurskurði kæmi, ef framangreindum markmiðum fjárlaganna skyldi ná. Við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna var auknu fjármagni veitt til þess skólastigs. Háskólastigið var ekki talið aflögufært, en á hinn bóginn mætti gera ráðstafanir til sparnaðar á framhaldsskólastigi. Vonandi verður tekið málefnalega á því vandasama verki, jafnt hér á Alþingi, sem og hjá þeim aðilum öðrum, sem að málinu koma. Nú er unnið að endurskoðun á námsskrám grunn- og framhaldsskóla, sem er stórverkefni og liggur mikið við að það takist vel. Á þeim nýja grunni á að treysta inntak og gæði íslenskrar menntunar. Heilbrigðismál og menntamál eru útgjaldafrekir liðir í ríkisrekstrinum enda er almennur vilji til þess í þjóðfélaginu, að skattgreiðendur leggi mikið á sig, til þess að halda þar uppi háu þjónustustigi. Auðvitað má hið sama segja um fjölmarga aðra þætti ríkisrekstursins. Áskoranir um aukin útgjöld berast úr öllum áttum, og hverjum og einum þykir sín krafa hin eina og sanna réttlætiskrafa. Engin ástæða er til að gera lítið úr þess háttar óskum eða hafa þær í flimtingum. En það heyrast einnig aðrar raddir, sem kannski eru ekki settar fram með jafnmiklum þunga og hávaða. Það er nefnilega einnig vaxandi krafa frá öllum almenningi að ráðdeildar sé gætt og skuldum ekki safnað og sú krafa hlýtur einnig að ná eyrum okkar þingmanna, enda hefur þjóðin ekki ráð á að framhjá henni sé litið.
Herra forseti,
Það hefur mikill árangur náðst í íslenskum þjóðarbúskap á undanförnum árum. Hagvöxtur hefur verið mikill, verðbólga mjög í hófi, atvinnuleysi fer minnkandi og lífskjör batna. Samkvæmt þessum mælikvarða er Ísland í hópi þeirra aðildarþjóða OECD, sem bestum árangri hafa náð að undanförnu.
Í þjóðhagsáætlun er vikið að þeim fjórum atriðum, sem einkum geti skýrt þessa jákvæðu þróun. Í fyrsta lagi, er bent á þær víðtæku umbætur, sem gerðar hafa verið í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum árum og þar nefnt til sögunnar efling markaðsbúskapar, opinn fjármagnsmarkaður og aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi hafi tekist að tryggja stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúskapnum og í þriðja lagi hafi vaxið skilningur á, að laga þurfi rekstur þjóðfélagsins að þeim skilyrðum, sem það býr við á hverjum tíma og í fjórða lagi hafi ytri skilyrði lagst á sveif með innlendum skilyrðum. Íslendingar hafi með öðrum orðum búið hagkerfi sitt undir batnandi hag.
Það er enginn bilbugur á ríkisstjórninni að halda áfram á sömu braut og á kjörtímabilinu verður komið í verk áformum um að breyta eignarformi ríkisfyrirtækja og auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að eignast í þeim hlut. Ríkið hefur hvorki ástæðu né þörf á að standa í rekstri í beinni samkeppni við einstaklinga og fyrirtæki þeirra. Á síðustu árum hefur í fyrsta sinn verið gengið skipulega til slíkra verka. Á þeim tíma voru seldir hlutir ríkissjóðs í fyrirtækjum fyrir rúmar 2000 milljónir króna. Sérstök framkvæmdanefnd annast stefnumótun á sviði einkavæðingar og sitja í henni auk mín, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögur nefndarinnar um nýjar reglur um framkvæmd einkavæðingar. Nýlega voru hlutabréf ríkissjóðs í Jarðborunum hf., seld fyrir 160 milljónir króna, en í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir að heildartekjur af sölu eigna yrðu 100 milljónir króna. Sala á hlutabréfum í Sementsverksmiðjunni hf., Áburðarverksmiðjunni hf., Skýrr hf., og Bifreiðaskoðun Íslands hf., er nú í undirbúningi. Þá er unnið að því að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag, sem að gert er ráð fyrir að taki til starfa um næstkomandi áramót. Samkeppni á sviði símaþjónustu verður gefin frjáls í flestum ríkjum Evrópu hinn 1. janúar 1998 og má gera ráð fyrir mikilli breytingu á samkeppnisumhverfi símafyrirtækja frá og með þeim tíma. Símafyrirtæki í Evrópu eru í óða önn að undirbúa sig fyrir umskiptin. Þeim hefur flestum verið breytt í hlutafélög og hafa myndað með sér þrjú megin bandalög ásamt öflugum bandarískum símafyrirtækjum. Norski, danski og finnski síminn tilheyra einu slíku bandalagi og sænski síminn öðru. Það er yfirlýst stefna allra þessara fyrirtækja að hasla sér völl utan heimalanda sinna. Norrænu fyrirtækin skilgreina Norðurlöndin öll sem hluta af sínum heimamarkaði. Það er því afar mikilvægt að gera Pósti og síma kleift að mæta þeirri samkeppni, sem framundan er, en það verður aðeins gert með því að breyta fyrirtækinu í öflugt hlutafélag, sem getur brugðist við nýjum aðstæðum með skjótum og skilvirkum hætti. En jafnframt verður að gæta þess, að ný fyrirtæki á þessu sviði hér á landi fái svigrúm og olnbogarými og að þau búi við eðlileg og sanngjörn samkeppnisskilyrði. Íslenskt atvinnulíf verður ávallt að eiga völ á eins fullkomnum og hagkvæmum fjarskiptum og best gerist í öðrum löndum og eiga aðgang að fullkomnustu tækni á hverjum tíma. Á þessu veltur framtíð okkar í hinni tölvuvæddu upplýsingaveröld.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að áhersla verði lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Hvort tveggja er nú í undirbúningi. Að því er varðar fjárfestingarlánasjóðina er markmiðið að tryggja atvinnulífinu aðgang að langtímafjármagni á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Skilyrði er, að fyrirtæki í hvaða atvinnugrein sem er, eigi jafnan aðgang að slíku fjármagni, hvort sem er til fjárfestingar eða nýsköpunar.
Sjóðakerfið hefur um langt skeið verið hólfað niður eftir atvinnugreinum og það hefur staðið starfsemi í nýjum greinum fyrir þrifum. Þessu verður því að breyta. Nauðsynlegt er að eiga samráð um þær breytingar við fulltrúa þeirra atvinnugreina sem helst tengjast núverandi sjóðakerfi. Það má hins vegar ekki koma í veg fyrir það að nýtt kerfi verði öllum opið. Nýtt sjóðakerfi þarf að skoða í nánu samhengi við bankakerfið, en ríkisbönkunum verður breytt í hlutafélög með löggjöf á þessu þingi. Samspil banka og sjóða er margslungið og verður að leita þar hagkvæmustu lausna og líta um leið til annarrar samkeppni á lánamarkaði. Í fyrirhugaðri uppstokkun sjóðakerfisins er æskilegt að taka strax verulegt skref í þá átt að draga úr umsvifum ríkisins í lánakerfinu og minnka þannig hlut þess í atvinnulífinu.
Herra forseti,
Í áætlunum ríkisins er nú byggt á því, að hagvöxtur verði um 2,5% á komandi ári og áþekkur á næstu árum þar á eftir. Er þetta mun minni hagvöxtur en varð á þessu ári. Þá er því spáð, að verðbólgan verði um 2%. Segja má, að vel muni til takast fyrir þjóðina, ef þetta gengur eftir. En hafa verður í huga, að langflestir kjarasamningar eru lausir um næstkomandi áramót. Engum blöðum er um það að fletta, að atbeini aðila á vinnumarkaði á góðan hlut í þeim umskiptum til hins betra, sem orðið hafa á Íslandi. Gera verður ráð fyrir að verkalýðsforingjar og forráðamenn atvinnulífsins muni við næstu kjarasamninga ganga fram í senn af sanngirni og ábyrgð. Því verður ekki trúað, fyrr en fullreynt er, að nokkur forystumaður á vinnumarkaði vilji á ný innleiða óöld óðaverðbólgu í landinu. Þá yrðu þeir þeim verstir, sem þeir eiga að vinna best. Árangri þjóðarinnar yrði í einu vetfangi kippt í burtu og hún kæmist aftur á byrjunarreit í efnahagsmálum og samkeppnisstaða hennar út á við stórskaðaðist. Sú kaupmáttaraukning, sem orðið hefur á undanförnum árum, þurrkaðist fljótlega út. Hitt er jafnljóst og má einnig undirstrika, að kaupmáttur verður að halda áfram að aukast, jafnt en örugglega. Það er einnig mikilvægt að hluta þeirrar kaupmáttaraukningar verði varið til að auka sparnað í landinu, hvort sem er með grynnkun á skuldum einstaklinga, heimila og fyrirtækja, eða öðrum beinum sparnaði. Kaupmáttur launþega hefur vaxið verulega á allra síðustu árum eftir langvarandi stöðnun og hrap kaupmáttar á árunum þar á undan. Þessi þróun verður að halda áfram svo íslenskir launþegar geti kinnroðalaust borið sín laun saman við það besta, sem annars staðar gerist. Þessari þróun má því ekki spilla.
Herra forseti,
Það er áhyggjuefni, að viðskiptajöfnuður hefur orðið okkur óhagstæðari upp á síðkastið. Að baki þessari þróun liggur mikil aukning á innflutningi. Hefur almennur innflutningur, að skipum og flugvélum frátöldum, aukist um 11% að magni til á fyrri hluta ársins, ef miðað er við sama tímabil á hinu fyrra ári. Innflutningur á bifreiðum og fjárfestingarvörum hefur aukist að raungildi um 20 - 30% á umræddu tímabili. Á öðrum sviðum hefur einnig orðið veruleg aukning. Þannig hefur innflutningur á neysluvörum, öðrum en bifreiðum, aukist um 7% að magni til og á rekstrarvörum um rúm 6%. Sem betur fer hefur útflutningurinn einnig aukist á sama tímabili, en þó ekki í sama mæli. Því er líklegt að á þessu ári myndist aftur halli á viðskiptum við útlönd eftir þriggja ára samfelldan afgang. Þjóðin hefur verið að borga niður erlendar skuldir sínar í verulegum mæli og hefur það verið eitt mesta fagnaðarefni íslenskra efnahagsmála, þótt lítið beri á slíkum árangri í opinberri umræðu. Viðskiptaafgangur síðustu ára hefur gert kleift að grynnka á erlendum skuldum og hafa hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins lækkað úr 54,1% af landsframleiðslu árið 1993 í 49,7% á síðasta ári. Þrátt fyrir nokkurn viðskiptahalla á þessu ári, mun hlutfall hreinna erlendra skulda halda áfram að lækka og stefnir í 47% af landsframleiðslu, en gera má ráð fyrir að skuldahlutfallið verði óbreytt milli áranna 1996 og 1997. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa því lækkað umtalsvert á síðastliðnum þremur árum. Mikilvægt er að ná tökum á viðskiptajöfnuðinum á nýjan leik þannig að erlendar skuldir geti haldið áfram að lækka og að vaxtagreiðslur okkar til erlendra aðila minnki ár frá ári. Ríkisstjórnin hefur sett hallalausan rekstur ríkisbúsins sem meginmarkmið á næstu árum, eins og fyrr sagði. Þegar það markmið hefur náðst og festst vel í sessi, er hægt að setja sér ný markmið. Ríkisstjórnin hefur leitast við að lækka jaðarskatta og þar er enn mikið verk fyrir höndum. Ef við náum að standa vörð um trausta stöðu ríkisfjármála ættum við að geta lækkað skattbyrði þjóðarinnar á næstu árum. Á ég þá bæði við jaðarskatta og almenna skatta. Þar verður auðvitað að fara að með gát, því forsendan verður að vera að ríkissjóður sé framvegis rekinn hallalaus. Það hlýtur að vera auðvelt að ná þjóðarsamstöðu um efnahagslegar forsendur, sem byggja á því, að ríkið safni ekki skuldum, að kaupmáttur fólks geti aukist jafnt og þétt og að skattar á almenning geti lækkað.
Fyrir nokkru gerðu sumir fjölmiðlar sér mikinn mat úr fólksflótta frá Íslandi og vöktu athygli á að samanburður lífskjara við næstu nágranna væri okkur mjög óhagfelldur. Á það hefur áður verið bent, að ekki er þar allt sem sýnist. Hitt er jafnrétt og hefði átt að vera öllum augljóst, að 7 ára samdráttarskeið á Íslandi, hlaut að koma niður á lífskjörum þjóðarinnar og möguleikum hennar til nýsköpunar í atvinnulífi. Forsætisráðherra Svíþjóðar, sem hér var á dögunum, vakti athygli á því, að hin norrænu ríki hefðu flest lent í svo miklum efnahagslegum ógöngum, að ýmsir töldu að velferðarríkinu norræna yrði vart bjargað. Danir urðu fyrstir til að ganga í gegnum hremmingarnar og taka sér tak og síðan hafa norrænu þjóðirnar, hver af annarri, gert það einnig. Það átak, sem dönsk stjórnvöld gerðu, undir forystu Schlüters, þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, hefur á síðustu árum borið mikinn ávöxt og danska þjóðin uppskorið með bættum hag og öruggari efnahagsforsendum. Við höfum verið í þessum verkum hér og erum nú senn komin yfir það versta. Það er ekki fyrr en að árangur þessara verka hefur að fullu skilað sér til okkar að sanngjarnt er að gera fyrrgreindan samanburð við önnur lönd.
Árið 1994 fluttu 760 fleiri einstaklingar frá Íslandi en til þess og árið 1995 1418. Slík þróun hefur áður orðið þegar að kreppir í íslenskum þjóðarbúskap. En sem betur fer er þessi þróun nú að breytast, eftir því sem tölur sýna. Brottfluttir eru 134 færri á fyrstu 8 mánuðunum en var á sama tíma fyrir ári meðan að aðfluttum hefur fjölgað um 428. Enn eru brottfluttir þó 230 fleiri en aðfluttir, en á sama tíma fyrir ári var sú tala 800 manns. Þá er þess að geta, að í júlí og ágúst á þessu ári fluttu 100 fleiri til landsins en frá því, en í sömu mánuðum í fyrra var þessu algjörlega öfugt farið, þegar 400 fleiri fluttu frá landinu en til þess. Þessi umsnúningur er ánægjulegur og vísbending um að við séum á réttri leið og árangur erfiðrar baráttu sé að skila sér.
Herra forseti,
Samskipti Íslendinga við nágranna sína hafa að jafnaði verið góð. Þar hefur þó borið nokkurn skugga á síðustu ár. Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar að undanförnu sætt ámæli vegna úthafsveiða sinna og verið þar sakaðir um ránskap og óbilgirni. Hitt er þó staðreynd, sem ekki er hægt að líta framhjá, að hvarvetna þar sem íslensk skip hafa stundað úthafsveiðar, hafa íslensk stjórnvöld lýst sig reiðubúin til að takmarka þær veiðar með alþjóðlegum samningum, bæri til þess nauðsyn. Á nýlegum aðalfundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar var fjallað um úthafsveiðar á svonefndu Flæmingjagrunni. Hefur nokkuð verið hnjóðað í Íslendinga í framhaldi af þeim fundi. Þar sýndi þó Ísland þá ábyrgðartilfinningu að vilja setja kvóta á þær veiðar sem skipt yrði á milli ríkjanna, en hin ríkin vildu viðhalda svonefndri sóknarstýringu. Tillaga Íslendinga um kvótakerfi er algjörlega í samræmi við viðtekna venju við alþjóðlega fiskveiðistjórnun, en sóknarstýringin er á hinn bóginn undantekningin. Þá er það að athuga, að í raun er ekki ágreiningur um, að kvóti verndar fiskistofna betur en sóknarstýring getur nokkru sinni gert. Þegar fullreynt var á þessum aðalfundi NAFO, að tillaga okkar næðist ekki fram, var því lýst yfir, að Ísland mundi setja einhliða kvóta og draga verulega úr veiðum, enda virtust vísindaleg rök styðja slíka niðurstöðu. Það var einnig ein af okkar röksemdum á NAFO fundinum, að kvótastýring leiddi til mun hagkvæmari veiða en sóknarstýring. Það kann að vera, að spurningin um hagkvæmni skýri áhugaleysi hinna þjóðanna á okkar tillögu. Þar skilur á milli okkar og langflestra annarra þjóða, að þær geta stundað óhagkvæmar fiskveiðar í skjóli opinberra styrkja. Það er enginn vafi á, að stór þáttur í ofveiði í heiminum, er sú mikla opinbera aðstoð sem sjávarútvegi er víðast hvar veitt. Án þeirra ríkisafskipta mætti ætla að sókn í marga fiskistofna mundi minnka verulega. Slíkar veiðar yrðu einfaldlega ekki arðbærar. Íslendingar verða að geta stundað veiðar á úthafinu og til þess eigum við fullan rétt. Við eigum á hinn bóginn ekki þess kost að reka sjávarútveginn með opinberum styrkjum. Það er því úrslitaatriði fyrir okkur að vekja athygli á því, að við erum öðrum þjóðum háðari því að fiskistofnum í úthafinu sé haldið við og að veiðum sé stjórnað með hagkvæmum hætti. Þess vegna höfum við ábyrga stefnu í úthafsveiðum og munum hafa slíka stefnu áfram. Ásakanir í okkar garð um rányrkju og óábyrga stefnu í fiskveiðum eru ekki á rökum reistar og sumir þeirra sem henda ónotum í okkur, hafa engin efni til þess.
Herra forseti,
Nýlega hefur borið góða gesti að garði. Fyrst forsætisráðherra hins nýfrjálsa Lettlands og síðan sænska forsætisráðherrann. Ég átti kost á að ræða við þá báða mjög ítarlega um öryggismál. Einkum var þá rætt um öryggi Eystrasaltsríkjanna þriggja og stækkun Atlantshafsbandalagsins. Íslensk stjórnvöld styðja eindregið fyrirætlanir um stækkun bandalagsins og líta svo á, að hér sé um að ræða einstakt sögulegt tækifæri til að festa í sessi lýðræði og stöðugleika í Mið- og Austur-Evrópu. Því tækifæri megi ekki glata. Hitt er hins vegar öllum augljóst, að stærri ríkin í bandalaginu munu taka á sig þyngstar byrðar og mestar skuldbindingar vegna stækkunar þess og hljóta þar með auðvitað að ráða mestu um hvernig og hversu hratt bandalagið stækkar. Engu að síður er fyllsta ástæða til þess, að Ísland skipi sér í hóp þeirra bandalagsríkja, sem vilja fara hratt fram. Rússland hefur enn sem komið er lagst gegn þessari stækkun. Ekki síst hafa talsmenn Rússlands verið afdráttarlausir þegar kemur að hlut Eystrasaltsríkjanna. Rússar geta þó aldrei haft neitunarvald í málinu.
Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag í eðli sínu og það getur ekki leitt til öryggisleysis fyrir stórveldi á borð við Rússland, þótt hin þrjú smáu baltnesku ríki verði aðilar að því. Það má ekki skipta Evrópu upp á ný með þeim hætti sem áður hefur verið gert. Slíkt tilheyrir liðinni tíð og er angi af úreltum þankagangi. Evrópa hefur öryggishagsmuna að gæta, en hitt skiptir meira máli, að í húfi er réttur frjálsra ríkja til að ákveða sjálf í hvaða alþjóðasamtök þau vilja ganga. Atlantshafsbandalagið er reiðubúið til sérstaks samráðs og samninga við Rússa, til þess m.a. að fylgja eftir þeim sjónarmiðum, að Rússlandi geti ekki stafað ógn af því að Mið- og Austur-Evrópuríki bætist í hóp þeirra lýðræðisríkja, er mynda Atlantshafsbandalagið. Ákvörðun bandalagsins um stækkun liggur fyrir. Gert er ráð fyrir því, að á leiðtogafundi þess á næsta ári verði fyrstu ríkjunum boðið til aðildarviðræðna. Afar þýðingarmikið er að gæta þess sérstaklega að þau ríki, sem ekki verða valin í fyrstu atrennu, lendi ekki á nýju gráu svæði í öryggismálum. Nú er útlit fyrir að Eystrasaltsríkin, sem við Íslendingar höfum tengst sérstökum vináttuböndum, verði ekki tekin inn í Atlantshafsbandalagið í fyrstu lotu. Því þarf að ganga þannig frá málum að ótvírætt sé, að þau verði tekin inn síðar og búa þannig um hnútana í millitíðinni að þessi ríki verði tengd með sýnilegum, nánum og traustum böndum við Atlantshafsbandalagið og önnur samtök í álfunni.
Herra forseti, góðir áheyrendur,
Þessa þings, sem nú er nýhafið, bíða mörg og margvísleg verkefni. Þær ákvarðanir, sem hér verða teknar, munu hafa mikil áhrif á hag einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja á næstu árum og áratugum. Þýðingarmikið er að löggjafarvaldið vinni með vandlegum hætti að lagasetningu til að forðast mistök og að lagasetningin verði ekki í raun íþyngjandi fyrir almenning, þótt að öðru hafi verið stefnt, eins og stundum gerist. Ríkisstjórnin þarf fyrir sitt leyti, að gæta þess að lagafrumvörp berist þingheimi í tíma, svo þingmenn og nefndir þeirra fái sæmilegt ráðrúm til þess að fjalla um mál ítarlega og kalla til hagsmunaaðila og sérfræðinga. Heitir ríkisstjórnin því að leggja sig fram í þessum efnum og óskar eftir góðri samvinnu við forystu þingsins og þingflokka í því sambandi.
Góðir Íslendingar,
Hagur okkar fer nú hægt en örugglega batnandi. Ytri skilyrði hafa snúist til betri vegar og nú er velferð okkar sjálfra á næstunni mjög í okkar eigin höndum. Áríðandi er, að skammtímasjónarmið nái ekki þar neinu að spilla.
Ég þakka þeim sem hlýddu.