Stefnuræða forsætisráðherra 1997
STEFNURÆÐA
DAVÍÐS ODDSSONAR FORSÆTISRÁÐHERRA
2. OKTÓBER 1997
Herra forseti.
Íslendingar hafa löngum verið uppnæmari fyrir því sem að utan kemur, en úr eigin ranni. Fjölmiðlar vitna gjarnan í svonefnda Íslandsvini og slá dómum þeirra upp sem afgerandi áliti á því sem hér tíðkast. Á svipaðri minnimáttarkennd örlar hjá frændum okkar á Norðurlöndum, sem teljast til smáríkja á heimsvísu, þótt fjölmennari séu en við. Er þetta heldur hvimleiður háttur og lítið betri en heimóttarleg sjálfsvissa um að allt í þessu landi taki öllu fram sem annars staðar þekkist. Meðalhófið er geðfelldast í þessum efnum, sem stundum endranær. Hitt er annað mál að hreinskilinn og heiðarlegur samanburður á okkar hag og annarra er einvörðungu til gagns. Þó þarf við slíkan samanburð að huga að ýmsu. Fyrst þarf að gæta þess að fyllast ekki oflæti þótt í einstökum atriðum sé samanburður okkur mjög í hag og ekki síður að verða ekki þrungin vanmetakennd þótt á okkur kunni að halla. Í annan stað getum við aldrei litið fram hjá því að flest verður okkur dýrara hér í fámenninu, en þar sem hagræði stærðarinnar nýtur sín. Það er með öðrum orðum "dýrt að vera Íslendingur" eins og ritsnillingurinn orðaði það fyrir fjörutíu árum. En á móti kemur að það er okkur flestum einnig afar dýrmætt að vera Íslendingur og vegur að fullu upp kostnaðaraukann.
Enginn vafi er á því, að öldin sem senn kveður verður í okkar sögu þekkt sem árin, þegar Ísland reis úr öskustónni. Í upphafi aldarinnar var það eitt fátækasta ríki norðurálfu en er nú án vafa í hópi þeirra sem best hefur séð málum sínum borgið. Sameiginlega ættu íslenskir stjórnmálaflokkar að hugga sig við þessa staðreynd, því hér á landi tíðkast að gefa sér, að stjórnmálamenn séu lakari, vanhæfari og óábyrgari en annars staðar gerist. Ég hef þannig stundum heyrt þá röksemd frá þeim sem umhugað er um að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu að þar með losnaði atvinnulífið undan áhrifum og valdi íslenskra stjórnmálamanna. Evrópskur samanburður bendir þó ekki til að þar farist mönnum stjórnsýslan betur úr hendi en hér. Þvert á móti sýna þeir kvarðar, sem Evrópusambandið sjálft hefur sett, að betur hefur gengið hér á síðustu árum en í flestum ríkjum sambandsins. Það er reyndar ekki umdeilanlegt að meira að segja enn víðtækari samanburður en við Evrópusambandið eitt er okkur afar hagstæður um þessar mundir.
Þannig segir OECD okkur að Ísland vermi eitt af fimm efstu sætum þess, þegar landsframleiðsla er metin. Alþjóðabankinn segir okkur að við séum í hópi sjö auðugustu þjóða heims samkvæmt sérstökum skilgreiningum hans. Ísland, eitt örfárra ríkja, uppfyllir erfiðislaust öll skilyrðin sem kennd eru við Maastricht. Alþjóðleg fyrirtæki, sem fást við mat á lánshæfi, segja okkur að Ísland njóti sívaxandi trausts á erlendum mörkuðum og stjórnarandstaðan segir okkur að hér sé allt á afturfótunum. Ég býst við að ykkur, góðir áheyrendur, þyki það athyglisvert sjónarmið.
Hr. forseti.
Ísland er land samsteypustjórnanna. Við þær aðstæður ræður mestu um hvort vel takist til um stjórn landsmála, að samstarf sé gott og trúnaður ríki á milli manna innan ríkisstjórnar og þingmenn stjórnarliðsins séu bærilega sáttir við hvernig mál gangi fram. Þessar forsendur hafa verið fyrir hendi í núverandi stjórnarsamstarfi og hefur það gert gæfumuninn. Auðvitað er togstreita á milli flokkanna um einstök mál, eins og sjálfsagt er. En slíkar glímur eru jafnan háðar undir formerkjum þess að ná niðurstöðum sem báðir flokkar geti unað við, en forðast er að setja samstarfsflokki óbilgjörn eða óaðgengileg skilyrði. Það er ekki síst vegna þessara vinnubragða, að þeim áformum, sem sett eru fram í stjórnarsáttmála, vindur vel fram. Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Skattar hafa verið lækkaðir, peningastofnunum hefur verið breytt í hlutafélög, vinnulöggjöf hefur verið endurskoðuð, rekstrarskilyrði útflutningsgreina hafa verið tryggð, fjárfesting erlendra aðila hefur verið aukin og stöðugleiki hefur verið í efnahagslífinu, svo aðeins nokkur lykilatriði séu nefnd. Þá er rétt að minna á, að þrátt fyrir aðhald í ríkisfjármálum hafa framlög til heilbrigðis- og tryggingamála hækkað umtalsvert undanfarin tvö ár. Þannig hafa stjórnvöld varið hluta af auknum þjóðartekjum til velferðarmála, um leið og þau hafa undirstrikað mikilvægi þess að draga úr vaxtabyrði og skuldsetningu ríkisins. Þessi þróun heldur áfram á næsta ári.
En þó margt hafi áunnist er dagsverkinu hvergi lokið. Kosta verður kapps um að varðveita það, sem áunnist hefur og byggja á því.
Í þjóðhagsspá, sem ég hef lagt fyrir háttvirta Alþingismenn, kemur fram að hagvöxtur verði um 4,6% á þessu ári eða töluvert meiri en áður hafði verið talið. Á móti kemur að sennilega verði hann nokkru minni á næsta ári en áður var spáð. Við getum búist við því að hin mikla fjárfesting í atvinnulífinu, sem verið hefur að undanförnu, fari að skila sér að verulegu leyti á næsta ári og að fullu á árunum þar á eftir. Útflutningstekjur okkar munu því fara vaxandi. Þótt hinn gamli vágestur, verðbólgan, hafi ekki farið mikinn á þessu ári, má lítið út af bera og því þarf að hafa á verðbólgunni vakandi auga. Fái hún of lausan taum er það tilræði við stöðu og hag flestra launþega í landinu. Kaupmáttur á þessu ári mun aukast mun meir en byggt var á í almennum kjarasamningum. Tilraunir einstakra hópa nú í lok kjarasamningsferils til að knýja fram miklu meira í sinn hlut en aðrir samningsaðilar hafa fengið er mikið áhyggjuefni. Það kom fyrir hér á árum fyrr að einstakir hópar sprengdu sig út úr kjarnanum og afleiðingin varð sú, að kaupmáttur allra hrapaði fáum misserum síðar. Slíka hringekju, má ekki setja í gang. Það yrði öllum til óþurftar.
Herra forseti.
Alþingi lögfesti síðastliðið vor umtalsverða lækkun tekjuskatts einstaklinga. Tekjuskattur þeirra var lækkaður um 4 prósentustig á tveggja ára tímabili. Fyrsti áfanginn, 1,1 prósentustigs lækkun, kom strax til framkvæmda á þessu ári. Um næstu áramót lækkar skatthlutfallið um 1,9 stig í viðbót og loks um 1 stig í ársbyrjun 1999. Auk þess var lögfest að skattleysismörk skyldu hækka um 2,5% á ári næstu þrjú ár. Á næsta ári verður einnig breyting á barnabótakerfinu þar sem skerðingarhlutföll verða lækkuð með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum barnabóta.
Með þessum ákvörðunum eru stigin veigamikil skref í átt til þess að lækka jaðarskatta hér á landi. Þetta kemur í kjölfar fyrri ákvörðunar um að undanþiggja lífeyrisiðgjöld launþega skattlagningu, sem kom til framkvæmda á árunum 1995 og 1996, en sú ákvörðun jafngilti 1,5-1,7 prósentustiga lækkun tekjuskatts. Fyrsta skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum barnabótakerfisins var hins vegar stigið þegar á árinu 1996, þegar skerðingarprósentur voru lækkaðar.
Til viðbótar þessum ákvörðunum ákvað ríkisstjórnin síðastliðið vor að gera breytingar á bótum almannatrygginga sem draga verulega úr jaðaráhrifum í almannatryggingakerfinu, meðal annars varðandi uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar og fyrirkomulags á afnotagjaldi Ríkisútvarpsins. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið umtalsverða hækkun á bótum almannatrygginga, sem nemur um 13% frá ársbyrjun 1997 til ársbyrjunar 1998. Með þessari ákvörðun er lífeyrisþegum tryggð einhver mesta kaupmáttaraukning tryggingabóta sem orðið hefur á síðustu áratugum.
Það er einnig ástæða til að vekja athygli á því að stjórnvöld hafa nýverið ákveðið að draga úr jaðaráhrifum í námslánakerfinu með lagabreytingu sem lækkar endurgreiðsluhlutfall lána úr 7% í 4,75%. Af þessu sést að stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum hvað varðar lækkun jaðarskatta eins og ýmsir hafa gefið í skyn.
Um þessar mundir er leitast við að ná víðtæku samkomulagi um að treysta starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins og um leið að auka og efla möguleika fólksins í landinu til að treysta framtíðarhag sinn og sinna. Mikilvægt er að allir leggi sig fram í þeirri vinnu. Það eru stórkostlegir hagsmunir í húfi, því málið snertir stöðu hvers manns í landinu, næstu áratugina.
Herra forseti.
Hvert sem litið er í alþjóðlegri umræðu sést glöggt að umhverfismál hafa komist æ ofar á dagskrá. Það væri fráleitt af okkur að standa utan við slíka umræðu, þótt aðstæður hér séu ólíkar mörgu af því sem helst knýr umræðuna annars staðar. Þess utan er það okkur hagstætt að þessi þáttur fái aukið vægi. Það styrkir ferðaþjónustu og útflutning og á þátt í því að gera orkufrekan iðnað hér á landi aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Við þurfum hins vegar að gæta þess afar vel að taka jafnan ríkt tillit til umhverfissjónarmiða við slíkar ákvarðanir. Vel varðveitt umhverfi getur orðið okkar dýrmætasta fjárfesting, þegar fram líða stundir.
Fjárfesting í orkufrekum iðnaði á Íslandi hefur aukist jafnt og örugglega á síðustu misserum. Það hafa ekki allir gert sér grein fyrir þeim vexti. Umræðan um Atlantal verkefnið stóð í mörg ár og samningaviðræðurnar voru langar og strangar. Sú verksmiðja átti að nýta um 3000 gígavattstundir á ári. Með stækkun Ísal um 80 þúsund tonn, með þriðja ofni járnblendiverksmiðjunnar og Norðurálsverkefni stefnir aukin orkunotkun þegar í 2600 gígavattstundir. Ekki er óvarlegt að ætla að á næstu fáeinum árum muni eðlileg stækkunarþörf þessara fyrirtækja leiða til nýtingar á um 3000 gígavattstundum á ári til viðbótar. Nýtingin nálgaðist þá 5600 gígavattstundir, sem jafngildir 380 þúsund tonna álframleiðslu eða nálægt tvöföldun á Atlantal verkefninu og svipuðu magni og menn eru nú að skoða í samvinnu við Norsk Hydro. Ýmsar frekari fjárfestingar eru einnig í athugun, svo sem kunnugt er. Möguleikar okkar eru því miklir á þessu sviði sem svo mörgum öðrum um þessar mundir. Á hitt er þó að líta að tæknin ein setur okkur ekki skorður, eins og löngum var áður talið. Önnur mikilvæg sjónarmið eru uppi, sem ekki má horfa framhjá. Stóraukin erlend fjárfesting er því aðeins fullkomið fagnaðarefni, ef tekst að gæta eðlilegra umhverfissjónarmiða við framkvæmd hennar.
Ríkisstjórnin mun sem fyrr leggja sitt af mörkum við að koma til framkvæmda víðtækri áætlun í umhverfismálum, sem samþykkt var fyrr á þessu ári og ber heitið Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Er þess vænst að um þá framkvæmd takist góð samvinna við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðar og frjáls félagasamtök.
Ríkisstjórnin mun taka fullan þátt í samningaviðræðum um loftslagsbreytingar, sem nú standa yfir og áætlað er að ljúka í Kyoto í Japan í desember n.k. Það er mikið í húfi fyrir Íslendinga að niðurstaða náist um aðgerðir til þess að stöðva aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Íslensk stjórnvöld hafa í samningaviðræðunum lagt áherslu á að miðað væri við að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í stað kola og olíu og að aðgerðir einstakra ríkja yrðu samræmdar í þágu heildarinnar.
Herra forseti.
Á undanförnum misserum hefur starfsvettvangur nemenda í skólum landsins tekið miklum breytingum. Minni miðstýring og aukið sjálfstæði skóla fela í sér að ákvarðanir um menntun nemenda eru teknar nær þeim sjálfum. Unnið er að því að íslenska skólakerfið veiti nemendum menntun og þjónustu sem stenst samanburð við hið besta sem þekkist. Áhersla er lögð á að upplýsingatæknin sé nýtt til hins ýtrasta á öllum skólastigum. Jafnframt eiga nemendur að njóta sérkenna íslenska skólakerfisins, sem felst m.a. í jafnri aðstöðu til náms og fjölbreytilegu námi.
Flutningur grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga markaði tímamót og um hann náðist gott samkomulag allra aðila. Grunnskólanemendur fá nú fleiri kennslustundir í viku en áður og næstu fjögur árin verður kennslustundum fjölgað enn frekar. Ríkissjóður sendi grunnskólann til sveitarfélaganna með auknum fjárframlögum til að tryggja að þetta gengi eftir.
Ný framhaldsskólalög tóku gildi 1. ágúst 1996 og hefur verið unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Markmiðið er að skólarnir verði sjálfstæðar stofnanir, sem geri áætlanir um eigin starfsemi. Unnið er að því að gera samning um árangursstjórnun milli menntamálaráðuneytisins og framhaldsskóla. Jafnframt hefur verið leitast við að koma til móts við ýmsar sérþarfir nemenda. Nemendum, sem ekki hafa fullnægjandi undirbúning úr grunnskóla, býðst nú fornám í fleiri skólum en áður.
Unnið er að gerð nýrra námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla. Endurskoðun á aðalnámskrám er með viðamestu og mikilvægustu umbótaverkefnum í menntamálum á síðustu árum. Í öllum þessum efnum eru menn að taka ákvarðanir, sem varða munu miklu um framtíð hins íslenska menntakerfis.
Herra forseti.
Á síðustu dögum hafa farið fram umræður um stöðu sjávarútvegsins á þessu ári og horfur á hinu næsta. Í heild er staðan bærileg en þó er æði misskipt. Á hitt er að líta að sú staða undirstrikar þá breytingu sem orðið hefur í sjávarútvegi, sem nú er ekki jafn einsleit atvinnugrein og áður var. Eggin eru nú í fleiri körfum en forðum. Sú þróun er jákvæð og dregur úr hættu á þeim stórfelldu sveiflum sem urðu í sjávarútvegi og reglulega skóku íslenskt þjóðfélag.
Meginmarkmið sjávarútvegsstefnunar eru skýr:
- Við viljum tryggja varanlegan hámarksafrakstur sjávarútvegsins í þágu þjóðarinnar með ábyrgri nýtingu allra auðlinda hafsins.
- Við viljum tryggja að við allar ákvarðanir sé jafnan gengið út frá bestu líffræðilegu og hagfræðilegu forsendum sem fyrir hendi eru.
- Við viljum, að þeim sem starfa í sjávarútvegi, sé með skýrum og almennum leikreglum skapað hagstætt starfsumhverfi er tryggi sterka samkeppnisstöðu á alþjóðavettvangi.
Mikil samstaða hefur skapast um þá stefnu að byggja ákvarðanir um heildarafla á ráðgjöf vísindamanna. Árið 1995 samþykkti ríkisstjórnin formlega reglu um hvaða hlutfall skuli árlega veitt af veiðistofni þorsks þannig að nokkuð tryggt sé að stofninn haldi áfram að vaxa. Er reglan niðurstaða umfangsmikillar vinnu líffræðinga og hagfræðinga sem stóð í um tvö ár. Markmiðið er að árleg þorskveiði verði á komandi árum um eða yfir 300 þúsund lestir. Þær friðunaraðgerðir, sem gripið var til, hafa þegar borið verulegan árangur og niðurstöður seiðatalningar 1997 gefa vonir um að þau markmið náist sem sett hafa verið um uppbyggingu stofnsins.
Sjávarútvegurinn hefur á síðustu árum þróast á grundvelli markaðslögmála og rekstrarárangur greinarinnar í heild hefur batnað þrátt fyrir þann mikla niðurskurð sem nauðsynlegur var. Ekki er vafi á að sú jákvæða kaupmáttarþróun sem Íslendingar hafa notið á síðustu misserum hefði ekki átt sér stað án framleiðniaukningar í sjávarútvegi.
Bætt afkoma við nýtingu auðlinda sjávar hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja í flestum greinum íslensks atvinnulífs, sérstaklega þeim sem eiga bein viðskipti við hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki. En athyglisvert er hve mörg íslensk iðnfyrirtæki sem framleiða vörur fyrir sjávarútveg eru að ná góðum árangri, bæði heima og erlendis.
Ekki er ágreiningur um að framseljanlegar aflaheimildir hafa aukið afrakstur í sjávarútvegi. Engu að síður hlýtur að koma til álita að setja reglur sem setji skorður við því að of miklar aflaheimildir færist á hendur fárra fyrirtækja, hvort sem um er að ræða hlut í heildarafla eða einstaka stofna. Samfara því að sjávarútvegsfyrirtæki hafa orðið færri, stærri og hagkvæmari undanfarin ár, hefur hluthöfum þessara fyrirtækja sem betur fer fjölgað hratt.
Mörg þúsund Íslendingar taka nú þátt í útgerð með beinni eignaraðild og tugir þúsunda fólks með óbeinum hætti gegnum lífeyris- og verðbréfasjóði. Að því leyti er nýtingarrétturinn að færast á sífellt fleiri hendur. Hin aukna eignadreifing innan fyrirtækjanna er afar mikilvæg, en það breytir ekki því að rétt er að skoða vel hvort ekki verði að takmarka of mikla samþjöppun kvóta til einstakra fyrirtækja. Slík mál verða til umræðu á næstunni.
Herra forseti.
Atlantshafsbandalagið steig í sumar fyrsta skref í einu mikilvægasta máli Evrópu eftir kalda stríðið, en það er stækkun bandalagsins austur á bóginn. Á leiðtogafundi þess í Madrid í júlí var ákveðið að bjóða fyrst í stað þremur Mið- og Austur-Evrópuríkjum aðild. Þau eru Pólland, Tékkland og Ungverjaland.
Við Íslendingar studdum eindregið frá upphafi stækkun Atlantshafsbandalagsins, en við lögðum jafnframt þunga áherslu á að bandalagið yrði áfram opið nýjum aðildarríkjum. Af okkar hálfu var lagt til, að því til áréttingar fengju öll ríkin, sem sótt hefðu um aðild kost á henni, en framgangur hverrar umsóknar yrði látinn ráðast í aðildarviðræðum. Með þessari tillögu var einkum verið að halda fram hagsmunum Eystrasaltsríkjanna.
Það varð snemma ljóst að Eystrasaltsríkin yrðu ekki með í fyrsta áfanga stækkunar Atlantshafsbandalagsins. Urðum við auðvitað að taka tillit til þess, enda verður það ekki Ísland sem tekur á sig þyngstu byrðarnar af stækkun bandalagsins.
Við lögðum höfuðáherslu á, að fyrsta lota stækkunar Atlantshafsbandalagsins gengi vel, þannig að fyrr gæti komið að næsta áfanga og að skýrt væri að Atlantshafsbandalagið stæði öllum ríkjum álfunnar opið. Jafnframt kæmi fram að bandalagið og ríki þess létu sig miklu skipta hvernig Eystrasaltsríkjunum og öðrum umsækjendum reiddi af á meðan.
Á Madrid-fundinum sameinuðust Íslendingar, Danir og Norðmenn, Bandaríkjamönnum og Bretum um að tryggja greiðan framgang fyrsta áfanga stækkunarinnar með því að takmarka hann við þrjú ríki. Annað hefði leitt til vandræða og tafið eða stöðvað frekari stækkun. Með samstöðu fyrrgreindra ríkja náðist einnig að tryggja, að Eystrasaltsríkin væru nefnd sérstaklega sem umsækjendur um aðild að bandalaginu.
Þetta var því góð niðurstaða og vonum framar, frá sjónarhóli Íslands, og leiðtogar Eystrasaltsríkjanna lýstu yfir mikilli ánægju með hana. Skömmu síðar kom í ljós að Eistland verður með í fyrsta áfanga stækkunar ESB í austur átt. Kostir aðildar að ESB fyrir ríkin í Mið- og Austur-Evrópu eru miklir. Þótt þeir lúti að öðru en aðild að Atlantshafsbandalaginu má ljóst vera að öryggi, lýðræði og stöðugleiki þessara ríkja eru um margt háð því skjóli sem aðild að ESB getur veitt þeim. Því til viðbótar er auðvitað aðgangur að hinum mikilvæga innri markaði sambandsins.
Sagan sýnir, að ætla má að allt að tíu ár líði þar til full aðild fyrstu Mið- og Austur-evrópuríkjanna að ESB verður að veruleika. Að auki þarf ESB að þessu sinni að leysa ýmis erfið innri mál, en takmarkaður árangur varð á ríkjaráðstefnu þess í sumar. Sakir þess hve afrakstur ráðstefnunnar var almennt rýr varð samstaða í ESB um að bæta þar úr með því að fella Schengen-samninginn um opin landamæri á innri markaðnum inn í regluverk sambandsins. Þar með skapaðist óvissa um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen.
Þegar útlit var fyrir að ríkjaráðstefnan mundi setja Schengen undir ESB, komu íslensk stjórnvöld á framfæri við sambandið fyrirvörum um afstöðu okkar í málinu. Bent var á að þátttaka Íslands í Schengen réðist af því forgangsatriði að viðhalda norræna vegabréfasambandinu, sem gerir Íslendingum kleift að ferðast um Norðurlönd án vegabréfaskyldu. Vakin var athygli á að samstarfssamningur um þátttöku okkar í Schengen væri þegar fyrir hendi og það mundi valda miklum erfiðleikum fyrir Ísland ef forsendur hans breyttust. Það kynni að leiða til vanda sem lyti að stjórnarskrá Íslands og útilokaði þar með þátttöku okkar í Schengen.
ESB lýsti svo yfir því, eins og kemur fram í lokaskjali ríkjaráðstefnunnar, að séð yrði til þess að hagsmunir Íslands og Noregs yrðu ekki fyrir borð bornir. Á þennan yfirlýsta vilja mun reyna í viðræðum sem gert er ráð fyrir að hefjist eftir nokkrar vikur. Niðurstaða þeirra þarf að tryggja að þátttaka Íslands í ákvarðanatöku og dómsmálum varðandi Schengen samræmist íslenskum lögum. Hitt er annað, að ekki er útilokað að breytt staða í norskum stjórnmálum kann að hafa áhrif á framgang alls þessa máls, sem og væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku.
Herra forseti.
Framundan eru annasamir dagar hér á Alþingi. Við Alþingismenn eigum ekki endilega að telja okkur helst til tekna að fjöldi nýrra laga sé settur eða lengi talað. Það er ekki keppikeflið að þenja út lagasafnið eða gera líf fólksins í landinu flóknara en nauðsyn ber. Lagabætur eru mikilvægari en lagasetning og markviss skoðanaskipti taka löngum ræðum langt fram. Til þess að undirstrika þetta síðasta lýk ég máli mínu.