Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. nóvember 1998 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stefnuræða forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs

Stefnuræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
flutt á þingi Norðurlandaráðs 9. nóvember 1998



Fyrir hönd forsætisráðherranna mæli ég hér fyrir þeirri stefnu sem við hyggjumst fylgja næsta ár þegar Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Þegar við leggjum drög að norrænu samstarfi næsta árs, síðasta árs tuttugustu aldar, verður mér hugsað til síðustu aldamóta þegar skandínavísminn og vitundin um gildi hins sameiginlega norræna menningararfs kveikti áhuga norrænu þjóðanna á að starfa saman. Á þessum grunni var hið pólitíska norræna samstarf stofnað um og upp úr miðri tuttugustu öldinni og í honum liggur styrkur þess – í vitund þjóðanna um sameiginlegan menningararf og órofa skyldleikabönd. En þessi vitund nægir ekki. Skyldleika og vináttu þarf að rækja og Norðurlandaráðsþingin eru ánægjulegur liður í því. Þar fer fram sú pólitíska umræða milli þingmanna og ráðherra sem er einstök í alþjóðlegri samvinnu. Hún er ekki síður mikilvæg fyrir framgang samstarfsins en menningargrunnurinn en aðalatriðið er að samstarfið skili árangri fyrir almenning og fyrir atvinnulífið.

En ég leiði hugann á ný til síðustu aldamóta. Hvernig sáu menn fyrir sér tuttugustu öldina og framtíð Evrópu? Óraði menn fyrir hörmungum styrjaldanna tveggja? Það gerðu þeir ekki, ekki frekar en þá óraði fyrir þeirri uppbyggingu sem hófst á rústum styrjaldanna með það að fremsta markmiði að stuðla að friði og koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig.

Því miður settu alræðisöflin áfram mark sitt á álfuna í rúma fjóra áratugi. Þar kom að kúguninni í Mið- og Austur-Evrópu linnti og hernaðarógnin gegn lýðræðisríkjunum hvarf. Eftir kalda stríðið átti Evrópa öll loks möguleika á slíkum samskiptum og frelsi sem einungis lýðræðisríkin höfðu notið. En fyrr en varði gengu aftur á Balkanskaga gamlir draugar úr sögu álfunnar og enn þurfti að bregðast gegn kúgurum og harðstjórum, nú síðast í Kósóvó. Þrátt fyrir það og þótt vandamál séu geigvænleg í Rússlandi og sumum öðrum fyrrum Sovétlýðveldum, ríkir nú í heild í Evrópu meira frelsi og nánari samvinna en þekkst hefur áður.

Því má ekki glutra niður tækifærinu sem nú býðst til að skapa nýja Evrópu. Til að ná því marki verður að stefna markvisst að því að sú efnahagslega og pólitíska samtvinnun sem lengi hefur átt sér stað í Vestur-Evrópu nái fótfestu um alla álfuna. Jafnframt verða alþjóðastofnanir í Evrópu og aðildarríki þeirra að standa eindregið gegn öflum sem kunna að vilja grafa undan slíkri stefnu. Það er lærdómurinn sem dreginn verður af sögu þessarar aldar.

Þjóðfélög verða í auknum mæli háðari umheiminum og alþjóðlegum samskiptum. Annars vegar eru skilin milli innanríkis- og utanríkismála miklu óljósari en áður og hins vegar einkennast alþjóðamál æ meira af hnattrænum samskiptum. Öryggi, gæði umhverfisins, viðskipti og efnahagsleg velferð í einu landi eða heimshluta verða í auknum mæli fyrir áhrifum frá ákvörðunum og atburðum annars staðar á jarðkringlunni. Við verðum að líta á norrænt samstarf í samhengi við evrópskt og hnattrænt samstarf. Við þurfum að móta norræna afstöðu til mála sem uppi eru í bráð og lengd, ekki bara í Evrópu heldur einnig alþjóðlega. Hnattræn málefni munu því setja aukinn svip á umræður og stefnumótun á norrænum vettvangi. Fyrirhuguð stækkun Evrópusambandsins leiðir og til þess að mikilvægi svæðisbundins samstarfs í Evrópu eykst og að sama skapi hlutverk norræns samstarfs í Evrópu. Á sama hátt styrkir þessi þróun stöðu Norðurlanda sem evrópskt svæði.

Í tilefni þess að nú eru 50 ár liðin síðan mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt var hún lesin upp við setningu þessa þings. Hún á erindi við okkur öll og á norrænum vettvangi sem og annars staðar viljum við stuðla að því að þau sjálfsögðu markmið, sem þar eru sett fram, verði virt.

Forsætisráðherrarnir gáfu á fundi í morgun af þessu tilefni út yfirlýsingu þar sem þeir hvetja til sameiginlegs átaks til stuðnings grundvallarmannréttindum og frelsi og gegn skerðingu á þessum réttindum.

Það er brýnt að skila jörðinni eins hreinni og gjöfulli og unnt er til komandi kynslóða. Undir þeim merkjum samþykktu forsætisráðherrar norrænu ríkjanna og leiðtogar sjálfsstjórnarsvæðanna á fundi sínum í morgun ályktun um ,,Sjálfbær Norðurlönd". Svíþjóð hefur lagt ríka áherslu á umhverfismál í formennskutíð sinni og við munum kappkosta að fylgja þessari áherslu eftir ásamt yfirlýsingu forsætisráðherranna. Ísland mun á formennskuárinu beina sjónum sérstaklega að hafinu, náttúru og mannlífi á norðurslóðum og vestnorrænum svæðum.

Vestur-Norðurlönd eru órjúfanlegur hluti Norðurlanda og þess sem norrænt er, en hafa einnig nokkra sérstöðu. Afkoma íbúanna byggir að miklu leyti á náttúrunni, auðlindum hafsins og landgæðum og sjálfbær nýting þeirra er lykilatriði. Að nýta auðlindir hafsins og landgæðin er einnig nátengt menningu og hefðum vestnorrænu þjóðanna. Stundum vill skorta á skilning umheimsins á þessum tengslum, og réttinum til að nýta auðlindirnar, þar með talin sjávarspendýr. Framkoma ýmissa alþjóðlegra umhverfissamtaka er til vitnis um þetta. Þótt þessi svæði séu tiltölulega óspillt er víst að ekki má verða mikil röskun á jafnvægi í náttúrunni til þess að lífskjör fólks þar skaðist, en mengun á norðlægum svæðum á sér að mestu leyti uppruna á suðlægari slóðum.

Í tilefni af formennsku Íslands næsta ár verður því lögð fram markmiðsáætlun, ,,Fólkið og hafið í norðri" þar sem stefnt er að sjálfbæru samfélagi á Norðurlöndum með sérstakri áherslu á norðurslóðir og vestnorræn svæði. Áætlunin er þverfagleg og innan hennar rúmast verkefni á fjölmörgum sviðum. Sérstök áhersla verður lögð á skynsamlega nýtingu endurnýjanlegra auðlinda á svæðinu. Áætlunin tekur og til samstarfs mennta- og rannsóknastofnana og aðgerða til að auka skilning og þekkingu umheimsins á lífi og kjörum fólks á norðurslóðum og vestnorrænum svæðum. Loks hefur Ísland áhuga á að koma á samstarfi um tiltekin verkefni við grannsvæði í vestri, m.a. í Skotlandi og á Hjaltlandseyjum. Verkefni sem geta skilað árangri eru einkum á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og samgangna.

Þessi áætlun okkar Íslendinga fellur vel að þátttöku Norðurlanda og Norðurlandaráðs í starfi Norðurskautsráðsins og Barentsráðsins og að sérstakri áherslu Finnlands á málefni norðursvæða. Áhersla Finna er sett fram til þess að stuðla að bættum lífskjörum og auknu öryggi á norðlægum grannsvæðum Evrópusambandsins, sem er afar mikilvægt fyrir samstarfið í öllum norrænu löndunum.

Innan Norðurskautsráðsins skapast færi á að skoða hagsmuni norðlægra svæða heildstætt og samræma rannsóknir sem unnið er að. Aðgerðaáætlun ráðsins um verndun norðlægra hafssvæða er í samræmi við það sem er á döfinni á norrænum vettvangi.

Á undanförnum árum hefur megináherslan í grannsvæðasamstarfi Norðurlanda legið á samstarfinu við Eystrasaltsríkin og Rússland. Þetta samstarf er nú komið á fastan grundvöll og mikilvægt að halda því áfram. Það skiptir okkur öll miklu máli að ríkin á Eystrasaltssvæðinu tengist Evrópu nánari böndum. Norrænir fjármunir sem renna til samstarfs við Eystrasaltsríkin og Rússland eru takmarkaðir, en skipta þó máli, sé gætt að skynsamlegri verkaskiptingu og fénu beint að þeim sviðum þar sem það kemur að mestu gagni.

Árið 2000 fögnum við nýju árþúsundi. Það er við hæfi að við minnumst þeirra tímamóta sameiginlega á norrænum vettvangi. Víkingatíminn var merkilegt blómaskeið norrænnar menningar. Íslenskan, sú norræna tunga sem best hefur varðveist, er lykillinn að vitneskju okkar um þetta tímabil. Öll norrænu tungumálin eru lítil í samanburði við ,,lingua franca" nútímans, enskuna. Í upplýsingasamfélagi nútímans þarf að hlúa að tungumálum lítilla málsamfélaga og því er mikilvægt að vinna skipulega að varðveislu norrænna tungumála og sjá til þess að þau standi af sér öldurót þeirra samfélags- og tæknibreytinga sem nú eiga sér stað. Samvinna Norðurlanda um verndun norrænna mála á að stuðla að því að þau verði notuð hnökralaust í samskiptum manns og tölvu. Jafnframt þarf að vinna markvisst að því að auka gagnkvæma þekkingu og skilning á tungumálum norrænu grannþjóðanna. Við eigum öll okkar málstefnu sem full ástæða er til fyrir okkur að vera stolt af og hana eigum við að kynna. Jafnframt eigum við að leita leiða til að nýta upplýsingatæknina sem verkfæri til að styrkja stöðu norrænu málanna.

Við eigum einnig að taka upplýsingatæknina í okkar þjónustu við miðlun upplýsinga um menningararf okkar, norrænt vísindastarf og samfélagsmál. Á þessu sviði eru margir samstarfsfletir eins og framleiðsla á margmiðlunarefni á norrænum málum fyrir menntakerfið og almenning. Víkingatíminn var á sinn hátt tími útrásar norrænnar menningar og hún blómstraði vegna þeirra erlendu samskipta sem víkingarnir áttu, ekki þrátt fyrir þau. Upplýsingatæknin er á sama hátt ævintýraleg samskiptabylting sem gefur menningu og listum á Norðurlöndum aukinn þrótt ef við nýtum hana á réttan hátt.

Ég legg því áherslu á að styrkja það norræna samstarf á sviði upplýsingatækni sem hafið er. Þróunin á því sviði gefur færi á að efla grundvallarréttindi á borð við lýðræði. En við þurfum jafnframt að stuðla að jafnræði hvað varðar aðgengi að upplýsingasamfélaginu. Við á Norðurlöndum erum í fararbroddi hvað varðar upplýsingatækni og eigum að nýta hana til að efla norræn fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.

Á sviði neytendamála standa Norðurlönd framarlega á alþjóðavettvangi og við viljum efla norrænt samstarf um þau. Upplýsingatæknin gjörbreytir umhverfi neytandans. Allur heimurinn kann brátt að verða markaður neytandans í stað heimalandsins og þetta kallar á endurskoðun margra þeirra laga sem gilda um viðskipti með vöru og þjónustu. Þessum málum viljum við taka á sameiginlega í því skyni að móta norræna stefnu og viðhalda norrænni réttareiningu eftir því sem kostur er. Á þessu sviði getur samnorræn stefnumótun jafnframt orðið grundvöllur frekari stefnumótunar innan EES-svæðisins og annars staðar á alþjóðavettvangi. Þetta er til hagsbóta fyrir neytendur á Norðurlöndum en einnig fyrir norrænt atvinnulíf.

Það er jákvæð þróun að málefni barna á Norðurlöndum og á grannsvæðunum skuli hljóta stöðugt meiri athygli í norrænu samstarfi. Við viljum að málefni barna og ungs fólks verði í fyrirrúmi á sem flestum sviðum samstarfsins, ekki síst með það að markmiði að auka bein samskipti ungs fólks í skólastarfi, íþróttum og á vinnumarkaði. Jafnframt hyggjumst við, eftir því sem tilefni er til, fylgja eftir ráðstefnu Norðurlandaráðs ,,BARNforum" sem haldin er í tilefni mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Einnig vil ég í þessu samhengi minnast á það framtak NSU (Norræn samtök um ungmennastarf) að boða til fjölmenns norræns ungmennaþings á Íslandi í tilefni árþúsundamótanna þar sem menningar- og umhverfismál verða í fyrirrúmi.

Ég legg áherslu á að halda áfram því starfi sem Svíar hófu í þá veru að ryðja úr vegi óþarfa hindrunum í samskiptum almennings og í samstarfi atvinnufyrirtækja innan Norðurlandanna. Við hyggjumst fylgja þessu starfi eftir, m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást frá norræna þjónustusímanum ,,Halló Norðurlönd". En þangað eiga þeir sem flytjast milli norrænu landanna rétt á að leita sér upplýsinga og aðstoðar.

Við viljum halda áfram að bæta samstarfið milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og nýta til fullnustu þá möguleika til betri samskipta sem flutningur aðalskrifstofu Norðurlandaráðs til Kaupmannahafnar gefur.

Við Norðurlandabúar höfum sérstakt tilefni fram yfir aðrar þjóðir til að fagna árþúsundaskiptunum, því þá minnumst við þess að þúsund ár verða liðin síðan Leifur heppni fann meginland Ameríku. Íslendingar og Grænlendingar hafa þegar hafið undirbúning þessara tímamóta í samstarfi við átthagafélög vestan hafs. Og í minningu forfeðra okkar, víkinganna, er við hæfi að við gefum sameiginlegri norrænni kynningu á norrænni menningu og listum utan Norðurlanda aukið vægi við komandi árþúsundamót.

Í kjölfar þessa Norðurlandaráðsþings verður lögð fram formennskuáætlun okkar Íslendinga. Þar verða áherslumál okkar nánar útfærð og við vonum að samstaða verði um þau á næsta ári.

Það er mikilvægt að norrænt samstarf sé samfellt og við verðum að geta treyst því að stefnumótandi ákvarðanir á norrænum vettvangi standi. Formennskulöndin undanfarin ár brydduðu upp á ýmsum mikilvægum málum sem enn eru á döfinni. Við munum fylgja þeim eftir á sama hátt og við vitum að Danir, sem taka við af okkur, munu einnig gera.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta