Áramótaræða 1998
Áramótaræða forsætisráðherra í ríkissjónvarpi 1998
Góðir Íslendingar,
Um miðjan desember ár hvert tökum við að huga að jólahaldi og áramótum. Þá sendum við gjarnan vinum og kunningjum lítið kort með jólakveðjum og frómum óskum um að nýja árið megi verða þeim farsælt, gott og gleðilegt. Þessum óskum er stefnt gegn óvissunni, hinu ófyrirsjáanlega, sem á einu andartaki getur öllum okkar áætlunum breytt, bæði til góðs og ills. Þótt við fáum ekki öllu ráðið, og stundum harla litlu, erum við ekki einungis óvirk peð á taflborði örlaganornanna. Þau augnablik koma og þau ekki fá, þegar við ráðum sjálf úrslitum um, hvort eitthvað tekst vel eða gengur miður. Þetta á við okkur hvert og eitt, og okkur sameiginlega sem þjóð. Um þetta eru til ótal dæmi. Björgunarsveitir, læknalið, löggæslumenn og brunaverðir hafa iðulega með snarræði og fórnfýsi komið í veg fyrir slys og heimt fólk úr bráðum háska. Foreldri, sem býr barnið sitt endurskinsmerkjum og leggur því lífsreglurnar um leiðir í skólann í skammdeginu, gerir í raun hið sama. Verkið í því tilfelli sýnist kannski lítið, en voðinn, sem verið er að forða, því stærri. Við getum með öðrum orðum stuðlað sjálf að því með margvíslegum hætti að nýja árið verði okkur farsælt og gleðilegt. Vitrustu forystumenn okkar hafa þóst hafa fyrir því margfalda reynslu, að þá vegni okkur best, þegar samstaðan er mest og sundrungaröflum og sundurlyndisfjanda er markaður bás við hæfi. "Litla þjóð, sem átt í vök að verjast, vertu ei við sjálfa þig að berjast," sagði skáldið og verður þessi hugsun ekki betur felld í orð.
Við tökum heilshugar undir þessi sjónarmið, en erum ekki þar með að amast við rökræðum, átökum og deilum á líðandi stund. Slík umræða, þótt hörð sé, er ekki aðeins þolanleg og gagnleg, heldur oftar en ekki bráðnauðsynleg, svo tryggt sé að mál fái rækilega skoðun, og of einsleit sjónarmið ráði ekki för. Jafnvel má halda því fram, að harðsnúnar deilur geti beinlínis verið hollar þjóðfélaginu, herði það og stæli og geri ríkari kröfur til þess að vel sé að málum staðið. Og hver segir, að menn sem standa fast á sínum málstað í stórhríðum líðandi stundar, þurfi að vera andstæðingar að öðru leyti? Stundum er jafnvel: "Ágreiningurinn meiri en svo að hann skipti okkur neinu máli"
svo gripið sé til orða skáldsins. En hverri glímu þarf þó að ljúka og við höfum ekki fundið aðra skárri leið til að leiða þjóðmálaglímuna til lykta en þá, sem kennd er við lýðræðið, og er hún þó sjálfsagt ekki gallalaus.
Það ber stundum við að starfsmenn hagsmunasamtaka veitist af nokkru yfirlæti að þjóðþinginu og saki það um að vera að bjástra við lagasetningu án þess að tala fyrst við sig. Slíkur reigingur skiptir svo sem engu en minnir á orð fyrrum forseta Bandaríkjanna sem taldi fyrir áratugum síðan, að það skaðaði mjög löggjafarstarfsemina þar í landi, hve henni væri oft stýrt með þrýstingi frá kröfugerðarkórum og geðshræringaröflum, eins og hann nefndi það, í stað þess að ráðast að mestu af samvisku og dómgreind hinna kjörnu fulltrúa. Þannig er fátt nýtt undir sólinni.
Alþingi hefur á þessu ári samþykkt lög sem töluverður styrr hefur staðið um. Má í því sambandi nefna svonefndan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það mál var afar snúið, enda fullkomin nýlunda hér á landi og reyndar víðar, og var því ekki að undra að umræður yrðu drjúgar og stundum hitnaði verulega í kolum. Hætt er við að verulegur hluti þess málskrafs alls hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum, vegna eðlis viðfangsefnisins og eins vegna hins, að hugtök þau, sem mest bar á, voru flestum mönnum ný og framandi. Lokapunktinn aftan við slíkar deilur getur enginn annar sett en meirihluti Alþingis að lokinni vandlegri athugun þess á málefninu. Nú þegar þessi þáttur er að baki, er þýðingarmikið að góðir menn og víðsýnir taki saman höndum til að tryggja að þau tækifæri, sem þarna kunna að opnast, megi nýtast sem flestum, jafnt Íslendingum, sem umheiminum. Er mikið í húfi að vel til takist.
Gagnagrunnsmálið er aðeins eitt af mörgum nýlegum dæmum um að hugumstórum frumkvöðlum takist að opna nýjar leiðir í þessu landi, sem munu gera það enn lífvænlegra en ella. Þannig var útflutningur á hugbúnaði nánast enginn á árinu 1991, en skilar nú sjö árum síðar 6.000 milljónum króna í þjóðarbúið.
Til mín komu á dögunum tveir framsæknir vísindamenn á þessu sviði. Þeir vildu kynna nýja hugmynd sína. Hún var sú að gera Ísland að útflutningsvöru, eins og þeir orðuðu það. Ég verð að kannast við, að í fyrstu skyldi ég hvorki upp né niður í því, hvað þeir væru að fara. En þeir skýrðu hugmynd sína með eftirfarandi hætti. Við höfum borið íslenskt stjórnarfar saman við það sem annars staðar gerist og það fer ekki á milli mála, að Íslandi þykir betur stjórnað og af meiri hagkvæmni og skilvirkni en annars staðar þekkist. Þeir flýttu sér að bæta því við, að þetta hefði ekkert með núverandi stjórnmálamenn landsins að gera. Ísland, sem lítið land, hefði hreinlega neyðst til þess að hafa skilvirkara og þar með ódýrara stýrikerfi á sínum málum en ríkari og fjölmennari þjóðir. Væri raunar sama hvar niður væri borið í stjórnsýslunni, og nefndu vísindamennirnir til sögunnar dóms- og lögreglukerfi, utanríkisþjónustu, félags- og heilbrigðismál, verklegar framkvæmdir, aðgang borgaranna að stjórnkerfinu og málshraða á öllum sviðum. Þetta vildu þeir kortleggja og hafa upp á að bjóða, nú þegar mörg ríki væru, að ryðja sér braut í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni, en byggju við bágan efnahag.
Hugmyndir þessa snjöllu vísindamanna minntu á allt aðra sögu. Hún var sú, að margur erlendur forystumaður hafði miklar efasemdir um það á sínum tíma, að 130 þúsund manna hópur eða svo hér norður frá, gæti staðið undir þeim kröfum, sem þjóðríki gerir til svo margra þátta, eigi það að teljast marktækt í samfélagi þjóðanna. Það var kannski skortur á raunsæi sem réði því að Íslendingar hikuðu ekki þegar mest á reið. Hafi sú verið raunin er rétt að þakka guði fyrir að á réttu augnabliki hafi þjóðin búið við heilbrigðan skort á raunsæi. Við erum rúmlega tvöfalt fleiri nú en við lýðveldisstofnun og samkvæmt áliti hinna Sameinuðu þjóða í hópi þeirra fimm þjóða sem við mesta velmegun búa og ekki er hægt að benda á neina þjóð aðra sem dreifir ávinningi sínum út með sanngjarnari hætti en hér er gert. Landar okkar sýndu í fullveldisbaráttunni óbilandi trú á getu þjóðarinnar og gæðum landsins. Það væri vanvirða við það fólk, ef við nú, meira en tvöfalt fleiri og margfalt ríkari, þættumst ekki geta gengið hnarreist og með blaktandi fánum til móts við nýja öld. Við höfum náð umtalsverðum árangri síðustu árin og getum glaðst yfir honum. En mestu skiptir, að á þessum árangri getum við byggt enn betra framhald.
Auðvitað verðum við að halda gætilega á. Við höfum allt of oft kastað frá okkur efnahagslegum ávinningi, með því að ætla okkur of mikið of fljótt. Margir höfðu spáð því að alþingismenn þjóðarinnar myndu falla í þá freistni á kosningaári að auka útgjöld ríkisins miklu meira en hollt væri. Þingheimur féll ekki á því prófi og er mér nær að halda að hann komi frá því með góða einkunn. Ríkissjóður verður rekinn með góðum afgangi á nýja árinu og ríkisskuldir munu lækka um 30.000 milljónir króna á þessu ári og því næsta. Viðskiptahallinn er vissulega mjög mikill um þessar mundir og ég mundi ekki dirfast að sýna sömu léttúð gagnvart honum og Ronald Reagan gagnvart sama vandamáli í sinni tíð. Hann var spurður hvort hann hefði ekki áhyggjur af ört vaxandi viðskiptahalla og svaraði að bragði: "Nei, ég hef engar áhyggjur af viðskiptahallanum, hann er orðinn svo stór að hann getur séð um sig sjálfur." Það er hins vegar okkur til uppörvunar að hagspekingar spá því að verulega dragi úr viðskiptahalla á næsta ári. Ég held reyndar að okkur alþingismönnum sé hollast í aðdraganda þeirra kosninga, sem í hönd fara, að lofa fáu en efna jafnvel meira en lofað verður, ef færi gefast. Það gæti verið góð tilbreyting fyrir kjósendur.
Sennilegt er að menntun og vísindi og endurskipulagning enn öflugri heilbrigðisþjónustu, verði fyrirferðarmikil á næstu árum. Góður undirbúningur hefur þegar átt sér stað á þessum sviðum. Aukin samkeppni og valddreifing hafa þannig gefið hugmyndaríkum skólamönnum ný tækifæri, metnaður hefur aukist í skólastarfinu og árangur er sá mælikvarði sem einn er gildur. Aldrei í sögunni hefur meira fé gengið til heilbrigðismála en á fjárlögum ársins 1999 og er þess að vænta að nýtt fjárhagslegt svigrúm og aukin ábyrgð stjórnenda í heilbrigðisþjónustu muni koma okkur út úr því óefni sem langvarandi skuldahalar hafa skapað. Umræðan um þann vanda hefur iðulega skyggt á það góða starf, sem unnið er á þessum vettvangi og jafna má við það besta sem þekkist.
Á fyrsta ríkisstjórnarfundi á nýja árinu verður gengið frá reglum um sérstakt samstarfsráð forystumanna samtaka aldraðra um land allt og ríkisvaldsins. Vona ég að það ráðslag allt muni leiða til þess, að um þann málaflokk muni ríkja betri skilningur og markvisst samstarf verði farið að skila verulegum árangri áður en næsta ár, sem sérstaklega er kennt við aldraða, verður úti.
Góðir Íslendingar.
Verkefnin framundan eru næg og ríkur vilji og metnaður með þjóðinni til að fást við þau. Í fyrramálið tökum við undir með skáldinu og segjum:
"og nú á þennan nýjársdag
nýtt byrjar lífið ferðalag."
Ég óska ykkur öllum, löndum mínum nær og fjær, góðs gengis á því ferðalagi. Megum við öll vel una okkar hag um ferðalokin. Gleðilegt ár.