Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ávarp 17. júní 1999

Ávarp forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar 17. júní 1999

Góðir Íslendingar,

Okkur þykir flestum að sú persónudýrkun sem tíðkast með sumum þjóðum, ekki síst í einræðisríkjum, sé heldur ógeðfelldur óvani. Lítið hefur borið á slíku hér á landi. Næst komumst við að hafa nokkra helgi á Jóni Sigurðssyni forseta, en þessi hátíðisdagur er í senn tileinkaður honum og lýðveldinu sjálfu. Jón Sigurðsson naut mikillar hylli samtímamanna sinna, forysta hans var hafinn yfir vafa, þótt hann hafi að sönnu átt sína andstæðinga. Og hvernig sem við, sem nú erum á dögum, rýnum í heimildir og leitumst við að láta ekki glýju goðsagnarinnar byrgja okkur alla sýn, lætur persóna Jóns ekki undan. Það skín í gegnum alla skoðun að hann hefur verið einhver ágætasti maður Íslands um alla tíð, og þarfastur allra manna þegar mest reið á, í sjálfstæðisbaráttunni. Jón Sigurðsson hefur haft ótrúlega næmt auga fyrir því, hvað þjóðinni myndi reynast best, bæði í bráð, þegar slagurinn um sjálfsstjórnarréttindin stóð sem hæst og eins og ekki síður þegar til lengri tíma var horft.

Umræður um skólamál hafa verið ofarlega á baugi að undanförnu og okkur greinir lítt á um mikilvægi þeirra fyrir farsæla framtíð þjóðarinnar. Um skólana hafði Jón Sigurðsson sitt að segja árið 1840, þegar Ísland var fátækt og virtist eiga fárra kosta völ. Jón sagði þá: "Með tilliti til þjóðarinnar verður sá tilgángur skólans: að búa svo undir hverja stétt, að hver þeirra í sinni röð styðji að framför alls landsins, allrar þjóðarinnar, svo vér gætum smám saman komizt þannig á fót, að vér gætum fylgt með framförum hinna menntuðu þjóða á sérhverri öld, eftir því sem kostur er á, og sigrað sem flesta tálma, sem þar verður á vegi vorum, en alþíng verður ljósastur vottur, hvort þetta heppnast eður ekki. Til að ná þessum tilgángi ættum vér allir að stuðla með kostgæfni og alúð og ekki skirrast við þeim kostnaðarauka, sem kljúfandi væri, því engum peníngum er varið heppilegar en þeim, sem keypt er fyrir andleg og líkamleg framför sem mest að verða má. Vér eigum að hefja hugann hátt og sýna dugnað vorn og ættarmegin það, sem vér ættum að hafa frá hinum frægu forfeðrum vorum, í því að sigra allar þær hindranir, sem sigraðar verða með afli auðs og kunnáttu. Ef vér gjörum oss það að reglu að hefja aldrei hugann hátt, þá snýst það bráðum til þess, að vér virðum fyrir oss hvaðeina með lítilsigldu geði, hugarvíli og kvíða, og meðan því fer fram er engin von á vér lifnum nokkurntíma til þjóðlífs eða að velgengni vor vaxi, nema eftir því sem náttúran kann að leika við oss eitt ár í bili, en reynslan hefir sýnt, að slíkar framfarir eru byggðar á völtum fæti."

Þessi orð voru mælt fáeinum árum áður en Alþingi Íslendinga var endurreist. Enn var þess langt að bíða að Ísland risi úr öskustó þjóðanna og á síðasta fjórðungi síðustu aldar var svo af þjóðinni dregið eftir veðurfár og volæði, að miklir fólksflutningar urðu til Vesturheims. En vonin dó aldrei. Ný stjórnarskrá 1874, heimastjórnin, fullveldið og loks lýðveldið eru stóru bautasteinarnir í framfarasókn þjóðarinnar og við allar þær stóru stundir, var Jón Sigurðsson hafinn á stall, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og forystu hans minnst.

Og nú, eitthundraðogtuttugu árum eftir dauða hans, þykir íslenska þjóðin í fremstu röð, þegar til lífsskilyrða einstaklingana er litið í víðustum skilningi. Hlutverkin, sem við sinnum, eru önnur og fjölbreyttari en nokkurn gat órað fyrir og það sem við af kæk köllum vandamál en mætti oftast heita viðfangsefni er harla ólíkt því sem Jóni Sigurðssyni og öðrum framsýnum mönnum hefði nokkru sinni komið í hug. Nú þykir brýnast að gæta þess að kynda ekki efnahagsvélina svo að ekki verði við neitt ráðið. Reyndar benda merki til þess nú, að úr viðskiptahalla og útlánaþenslu dragi og vonandi er að nýleg ákvörðun Seðlabankans um vaxtahækkun verði hin síðasta af þeim toga nú um sinn. Víðast hvar í kringum okkur hafa vextir lækkað ört enda er þar leitast við að kynda þá ofna efnahagslífsins sem við erum að passa að ofhitni ekki hjá okkur. Efnahagsspár geta verið gott hjálpartæki, en eru enn mikilli óvissu háðar og virðast á stundum sýnu lakari en veðurspárnar sem við vitum af reynslu að geta brugðist. Fyrir skömmu stóðu nær allir hagfræðingar Evrópu saman að baki kenningu um að Evrópumyntin nýja yrði traust og myndi örugglega styrkjast á mánuðunum eftir stofnunina. Og nú kannast þeir sömu við að mjög hefur dregið úr gengi evrunar, en segja það bara gott fyrir staðnað efnahagslíf Evrópulandanna. Við segjum hér á landi þegar hellirignir þótt spáð hafði verið sólskini að sá viðsnúningur sé bara góður fyrir gróðurinn. Í þrjú ár samfellt hafa sumir hagfræðingar hérlendis verið að spá því að verðbólgan fari á fulla ferð "á næstu vikum". Ekki hefur það gengið eftir sem betur fer. Menn gætu spurt af því tilefni, hvort efnahagslögmálin og eðli hins frjálsa markaðar hafi breyst. Ég held ekki. Efnahagslögmálin og hinn frjálsi markaður byggjast að mestu á hinu mannlega eðli og það hefur ekkert breyst. Hins vegar hafa skilyrði hins frjálsa markaðar breyst mjög hér á landi síðustu árin og það ræður úrslitum. Aukin samkeppni, minni ríkisafskipti, heilbrigðari leikregur og auðveldara flæði fjármuna hafa gjörbreytt gildi gömlu formúlanna. Þess vegna hefur verðbólgan ekki farið af stað þótt kaupmáttur hafi aukist meir en nokkru sinni fyrr. Það er ekkert sem bendir til þess að hinar miklu framfarir sem orðið hafa á þessum áratug séu byggðar á völtum fæti. Engu að síður má ekki tefla á neina tvísýnu, heldur fara að öllu með gát og fyrirhyggju. Menn eiga aldrei að hika við að leggja á brattann, en þeir eiga heldur aldrei að ganga nær brúninni en þeir þurfa.

Nútímaþjóðfélagið byggir öðru fremur á trausti. Enginn er lengur sjálfum sér nógur. Við þurfum að treysta því að þau matvæli sem við neytum séu holl og án efna sem geta á lengri tíma verið skaðleg. Við verðum að geta treyst því að náunginn fylgi sömu umferðarreglu og við, annars fer illa. Líf okkar hangir iðulega á árvekni flugumferðarstjóra á erlendum flugvelli, eða jafnvel hreinlæti starfsmanna í mötuneytum. Við verðum að geta treyst kennurum fyrir börnum okkar, lögreglunni fyrir almennu öryggi og dómstólum fyrir því að réttarreglurnar séu ekki misnotaðar. Í öllum mannlegum samskiptum nútímans er orðið traust lykilorðið. Flest setjum við mikið traust á vísindin en reynslan sýnir þó að það sem virðist rétt í þeim fræðum á einum tíma, getur undraskjótt orðið að gamallri bábilju, þótt færustu gáfumenn hafi komið að verki og beitt bestu þekktum aðferðum.

Erfðabreytt matvæli eru eitt nýjasta viðfangsefnið sem þarf að skoða og kemur þar margt til álita. Maðurinn hefur á undanförnum áratugum gert markvissar breytingar á matvælaframleiðslunni til að auka magn og gæði og náð stórkostlegum árangri. Og ekki má gleyma að náttúran sjálf hefur alla tíð staðið fyrir erfðabreytingum og á því verður aldrei lát. En nú er maðurinn búinn að koma sér upp tækni til að framkvæma erfðabreytingar sem engar líkur eru á að náttúran sjálf hefði nokkru sinni gert. Þannig er nú allstór hluti sojabauna- og kornframleiðslu heimsins tilkominn með þessum hætti svo dæmi sé nefnt. Margir virtir vísindamenn segja að þetta sé hættulaust með öllu, að minnsta kosti bendi ekkert til annars. En vita þeir það? Um það hljóta margir að hafa efasemdir og gruna að einvörðungu tíminn geti að lokum sagt til með óyggjandi hætti hvort svo sé. Og ekki er víst að þá verði svo auðveldlega aftur snúið. Svo við lítum okkur nær um annað álitaefni, þá vilja sumir leiða inn norskt kúakyn hér á landi í stað hins íslenska. Þeir vilja með þessu ná að framleiða meira magn mjólkur en áður og með ódýrari hætti. Hvorki ég né aðrir vilja drepa góðar hugmyndir og áætlanir bjartsýnismanna um meiri og ódýrari framleiðslu. En margur maðurinn hefur orðið að svartsýnismanni eftir að hafa látið undan óðagoti í bjartsýnismanni. Líkur eru taldar á því að íslenska mjólkin búi yfir eiginleikum sem geti haft mikla þýðingu fyrir heilsu barna og unglinga. Í þessu síðara tilviki getur ekki skaðað að flýta sér hægt. Því takist illa til verður aldrei úr því bætt.

Ekki er vafi á að okkar Íslendinga bíða ótrúlega mörg og góð tækifæri um þessar mundir sem engin ástæða er til að láta sér úr greipum ganga. En þótt fátt hafi verið um slík tækifæri í tíð Jóns Sigurðssonar er hugmyndafræði hans um hvernig nálgast beri framfarir örugglega rétt, en Jón sagði: "Eftir því sem á stendur fyrir oss Íslendíngum enn sem komið er, verður ekki gjört ráð fyrir, að vér getum sett mjög mikið á fót í einu, en um það ættum vér að hugsa á hverri tíð, hversu vér gætum komið sem mestu til vegar að auðið er, og búið svo í haginn, að jafnan verði bætt smám saman, svo framför vor verði jöfn og stöðug."

Með þessi heilræði í bakhöndinni skulum við horfa djörf og bjartsýn fram á veginn. Ágætu landar, nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta