Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. október 1999 HeilbrigðisráðuneytiðIngibjög Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra 1995-2001

Dagur aldraðra, 1. október 1999

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Hátíðardagskrá í tilefni af ári aldraðra


Ágætu hátíðargestir.
Til hamingju með daginn.
Það er mér ánægja að ávarpa ykkur í lok glæsilegrar hátíðardagskrár á ykkar degi. Þessi glæsilega samkoma ber svo sannarlega öldruðum á Íslandi gott vitni.
Frá því að Kópavogsfundurinn var haldinn fyrir nákvæmlega ári, hefur margt gerst. Vinnan á ári aldraðra hefur nýst vel og á eftir að skila árangri til langrar framtíðar.
Þegar við hófum ár aldraðra fyrir réttu ári síðan sagði ég á þá leið að til að ná árangri í málefnum aldraðra yrðum við bæði að horfa til nútíðar og framtíðar. Málefni aldraðra mega aldrei verða einkamál þröngs aldurshóps í þjóðfélaginu, þau eru og eiga að vera málefni okkar allra.
Þið sem komin eru á efri ár og við sem yngri erum eigum það nefnilega sameiginlegt að við vonumst til að lifa lengi og umfram allt að lifa vel. Því má auðvitað segja að við séum að vinna að þessum málaflokki af einskæru hagsmunapoti því við viljum hafa það gott á öllum aldursskeiðum.
Þarfir okkar eru alltaf að breytast. Það verða mér eftirminnileg orð gamals bónda sem fæddur er í upphafi aldarinnar þegar hann lýsti þeim breytingum sem hann hefði lifað og sagðist vera með annan fótinn í steinöld en hinn á atómöld. Því verða þarfir þeirra sem ekki muna tímana tvenna, trúlega ennþá meiri en þær þarfir sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Það er svo ótrúlega stutt síðan það voru ekki til í íslensku máli orðin dvalarheimili eða hjúkrunarheimili sem er svo ríkur þáttur í okkar þjónustu í dag.
Í sumar var ég á fundi norrænu heilbrigðisráðherranna í Noregi. Einn dagskrárliðurinn var að gera grein fyrir því að hvaða verkefnum væri unnið í tilefni árs aldraðra.
Fyrirfram var mér innanbrjósts þannig að líklega væru allir að gera það gott nema við en þegar farið var yfir stöðuna var það íslenska skýrslan sem vakti lang mesta athygli. Fyrst og fremst fyrir það hve fjölbreytt verkefnin eru, til dæmis vakti ljósmyndasamkeppnin mikla athygli sem og tölvunámið en það sem þeir öfunduðu okkur mest af var danslagasamkeppnin. Og þeir spurðu hverjum datt þetta eiginlega í hug. Það hlýtur að vera minn fjölhæfi starfsmaður og tónlistarmaður Hrafn Pálsson.
En auðvitað er það málið að það hafa svo margir lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að gera starfsemina alla innihaldsríka og fjölbreytta. Jón Helgason hefur auðvitað af festu stýrt nefnd sem hefur lagt sig alla fram og það hefur ekki verið ónýtt að hafa alla þá reyndu aðila með sér, eins og verkalýðsforingjann Bendedikt Davíðsson, þó að við séum langt frá því að vera alltaf sammála, þá virðum við skoðanir hvors annars. Það er alveg sama hvert við höfum leitað, hvort sem er til unga fólksins eða hinna öldruðu; allir eru tilbúnir að vera með.
Og það er nú best þegar öllu er blandað saman því eins og Óskar Wilde sagði: Þeir gömlu trúa öllu, þeir miðaldra tortryggja allt, þeir ungu vita allt. Þegar þessu er öllu blandað saman verður útkoman góð.
Ég sagði áðan að við ætlum að nýta okkur þá vinnu sem lagt var í á þessu ári. Það munum við gera með stefnumótunarvinnu sem á að beinast sérstaklega að næstu fimmtán árum. Að þeirri vinnu munu koma nokkur ráðuneyti, hagsmunahópar aldraðra, sveitarélögin, lífeyrissjóðirnir og fulltrúar atvinnulífsins.
Það eru mörg baráttumál í deiglunni. Þau verða ekki öll leyst í einu vetfangi frekar en Róm var byggð á einum degi en með stöðugri vinnu og samstarfi þeirra sem að málefnum aldraðra þurfa að koma, höfum við náð árangri og við munum halda áfram á þeirri braut.
Ég þakka ykkur öllum sem leggið á ykkur mikla vinnu fyrir málstaðinn, óska ykkur aftur til hamingju með daginn og að lokum langar mig að ávarpa heiðursgestinn, Kristínu Petreu Sveinsdóttur sem er elsti Íslendingurinn, 105 ára gömul. Hún missti móður sína Pálínu Tómasdóttur, sem ættuð var úr Nesi í Grunnavík fyrir síðustu aldamót. Hún missti mann sinn Bergsvein og flutti til Reykjavíkur áður en ég sleit barnsskónum, eða 1952.

Hún starfaði í frystihúsinu á Kirkjusandi þar til hún varð áttræð, en hefur búið á Hrafnistu frá 1986.
Líf Kristínar er merkilegra en orð fá lýst. Sennilega hafa fáir íbúar á norðurhveli jarðar lifað jafn miklar breytingar og þessi virðulega kona. Hún hefur í stuttu máli lifað tímana tvenna og þrenna. Reynslu hennar verður ekki með orðum lýst.
Mig langar til að fara til hennar og færa henni blómvönd í tilefni dagsins og mig langar að biðja ykkur að standa upp og klappa vel fyrir Kristínu.

(01.10 1999/Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta