Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. október 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stefnuræða forsætisráðherra 1999

STEFNURÆÐA
DAVÍÐS ODDSSONAR FORSÆTISRÁÐHERRA
4. OKTÓBER 1999


Herra forseti. Góðir Íslendingar.

Í vor kom Alþingi saman um skamma hríð að kosningum loknum og sinnti lögboðnum skyldum. Það þing sem nú hefst er eigi að síður raunverulega fyrsta þing á nýju kjörtímabili að öllu öðru leyti en forminu. Nú verða meginlínur lagðar af hálfu stjórnar og stjórnarandstöðu. Vegarnesti beggja er væntanlega sótt í kosningastefnu og umræðu síðastliðins vors og verkefnin, sem menn vilja takast á við. Ríkisstjórnin hefur til viðbótar málefnasamning sinn til að styðjast við, en þar er fjallað um nokkur helstu álitaefni þjóðmála um þessar mundir í knöppu en skýru máli. Nokkur útfærsluatriði stjórnarsáttmálans koma fram í fjárlagafrumvarpinu sem er fyrsta eiginlega viðfangsefni þingsins.

Stjórnarflokkarnir ákváðu að flest þau verkefni, sem stjórnarsáttmálinn tekur til skyldi vinna í jöfnum áföngum á kjörtímabilinu, ekki síst þau atriði sem áhrif hafa á greiðsluflæði ríkissjóðs. Eru þau vinnubrögð í anda þess stöðugleika sem ríkisstjórnin vill leitast við að tryggja og öll önnur stefnumál verða að taka mið af.

Einstakir þættir efnahagsmála hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Ýmsir eru trúir vana sínum og beina sjónum einkum að því sem miður fer. En það fer þó naumast framhjá neinum, að um flest er mynd hins íslenska efnahagslífs ágæt um þessar mundir. Þó eru undantekningar og stjórnarsinnar víkja sér hvorki undan umræðum um þær né að taka á þeim. En hefjum okkar umræðu á að gera okkur grein fyrir meginatriðunum.

Heildarmyndin er þessi: Íslendingar hafa ekki í annan tíma lifað hagfelldari þróun efnahagsmála. Vöxtur og viðgangur þeirra hefur aldrei um svo langt skeið verið meiri. Í heil fjögur ár hefur hagvöxtur verið meiri en 5% að jafnaði á ári. Til að skilja þær tölur til fulls þurfum við að setja þær í alþjóðlegt, og um leið, sögulegt samhengi. Þessi prósentutala segir okkur að síðustu fjögur árin hafi hagvöxtur verið helmingi meiri en gerst hefur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Svo hagstæðan fjögurra ára samanburð getum við ekki fundið á öðrum tíma, því að það er ekki eins og kreppa hafi verið í helstu viðskiptalöndum. Það ánægjulega er, að þessi vöxtur hefur skilað sér vel í buddur fólksins í landinu, því að kaupmáttur þess hefur aukist um 20% á tímabilinu. Atvinnuleysi er nær horfið, en fyrir aðeins fimm árum voru allir stjórnmálaflokkar og samtök í landinu sammála um að forgangsverkefni væri að sigrast á því böli. Það hefur verið gert.

Það er í samræmi við rótgróna siði í stjórnmálum að deilt sé um með misjafnlega málefnalegum hætti, hverjar séu ástæður þess að svo vel hafi til tekist. En um þá, sem ólíkt okkur, hafa ekki atvinnu af slíku þrefi, gildir öðru máli. Innlendir og erlendir sérfræðingar í efnahagsmálum og hagstjórn, velkjast ekki í vafa. Þeirra samdóma álit er að þar hafi ráðið mestu þær markaðsumbætur og það efnahagslega aðhald, sem hefur ríkt á undanförnum árum. Samkeppni hefur verið efld um leið og leikreglur efnahagslífsins hafa verið gerðar skýrari og einfaldari og losað hefur verið um þau heljartök sem ríkisvaldið hafði áður. Miklar fjárfestingar, t.a.m. í orkufrekum iðnaði, hafa komið til og traust efnahagsumhverfi hefur stuðlað að því að frumkvöðlar í atvinnurekstri hafa treyst sér til að efna til margvíslegra nýjunga, sem þrátt fyrir nokkra áhættu hafa skilað miklum árangri.

Okkur var ljóst að það varð að hrista upp í stöðnuðu efnahagskerfi og ýta undir vongleði og fjárfestingarvilja til að fá hjólin til að snúast á ný. Nú er staðan sú, að enn má búast við áframhaldandi vexti og flest skilyrði virðast hagstæð. Eftir svo langt vaxtarskeið er óhjákvæmilegt að hægja örlítið á. Ýmis merki styðja þessa skoðun. Við höfum séð að verðlagstölur hafa hækkað nokkuð á undanförnum mánuðum. Margar þær hækkanir eiga lítið skylt við þenslu í þjóðfélaginu. Við þekkjum öll miklar bensín- og olíuverðshækkarnir. Þeirra rót er ekki í okkar kerfi. Við munum hafa lítil áhrif á þau efni. Við sjáum að fákeppni og uppkaup á matvælamarkaði hafa leitt til hærra vöruverðs en nokkrar skynsamlegar skýringar eru á. Við sjáum að lóðaskortur hefur ýtt undir hækkun á fasteignaverði. Að mati fjármálaeftirlitsins hafa hin íslensku tryggingafélög gengið lengra í hækkunum sínum en full rök eru fyrir, einsog nýlega kom fram í greinargerð þess. Fleiri einstaka þætti af þessum toga mætti nefna. Sjálfsagt er að hafa vakandi auga á slíkum atriðum.

En þau eru á hinn bóginn ekki réttlæting fyrir því að stjórnvöld geti setið hjá. Og eftir slíkri réttlætingu er ekki verið að leita. Það er meiri undirliggjandi verðbólga en við teljum viðunandi til lengri tíma. Verðbólga er að sínu leyti svipuð og hiti og verkir hjá manni sem haldinn er kvilla. Í senn aðvörunarmerki og viðbrögð við kvillanum. Í mannlífinu þekkjum við starfsstéttir sem ekki hafa tíma til að slást við slappleika sinn með því að fara sér hægar og hvílast meira. Þær taka iðulega lyf til að slá á einkennin. Þannig var verðbólga oft meðhöndluð á árum fyrr. Sett voru verðstöðvunarlög af ýmsu tagi og verðhækkunartilefnum var sópað undir teppið. Slíkar aðgerðir gátu skilað stundarávinningi en voru til bölvunar þegar til lengri tíma var litið. Þar var brugðist við verkjunum, ekki vandanum.

Við vitum að undirrót hinnar eiginlegu verðþenslu er að hraðinn á efnahagslífinu er meiri en hollt er til lengdar. Nú er svo komið að ýmsir framleiðsluþættir í hagkerfinu eru fullnýttir og framleiðniaukningin hefur einfaldlega ekki undan, þótt myndarleg sé. Svarið er því að hægja dálítið á, án þess þó að klossbremsað sé. Vextir hafa verið hækkaðir í því skyni að draga úr útlánavilja og útlánavæntingum. Fjárlagafrumvarpið dregur fé út úr efnahagsstarfseminni og ýmsum framkvæmdum er slegið á frest. Um leið er ávinningur sparnaðar og fyrirhyggju aukinn með sérlega markvissum hætti. Eins má nefna að sölu ríkisfyrirtækja er meðal annars beitt í þeim tilgangi að slá á peningamagn í umferð.

Hækkandi verðlag að undanförnu mun draga ofurlítið úr þeim mikla ávinningi sem aðilar á vinnumarkaði náðu í góðu samstarfi við ríkisvaldið við gerð síðustu kjarasamninga. Þessum aðilum öllum er því fyllilega ljóst, hvaða forsendur verða að vera fyrir hendi, svo launþegar og fyrirtæki geti framlengt hagstæðasta kaupmáttarskeið þessarar aldar inn í hina næstu. Eins og segir í þeirri þjóðhagsáætlun sem ég hef lagt fyrir hið háa Alþingi, hlýtur sameiginlegt markmið okkar allra að vera að ná mjúkri lendingu í efnahagslífinu. Við þekkjum öll af biturri reynslu hvernig brotlendingarnar fóru með okkur hér í fyrri tíð.

Sú stefna sem við fylgjum og þær aðferðir sem við munum nota eiga að tryggja áframhald hins mikla hagvaxtarskeiðs. En við skulum ekki ganga að því gruflandi að verkefnið er erfitt og það má enginn skerast úr leik. En sé átakið samstillt og ábyrgð í öndvegi mun smátt og smátt draga úr þenslu og verðbólga hjaðna á nýjan leik. Við höfum að undanförnu skipað okkur í hóp þeirra þjóða, sem fremstar standa og þar viljum við eiga heima, en ekki í þeirri þriðju og fjórðu deild efnahagsmála sem við skipuðum áður.


Nýlega kynntu samtök launþega á vinnumarkaði athuganir sínar á nokkrum þáttum skattamála. Þótt þær áherslur sem þar eru fyrirferðarmiklar orki tvímælis er frumkvæðið mjög virðingarvert. Ríkisstjórnin hefur einmitt í stjórnarsáttmála sínum lýst vilja til að eiga samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að draga úr skattsvikum, lækka jaðarskatta, einfalda skattkerfið og auka jafnræði innan þess. Eins er nauðsynlegt að tryggja að skattalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja verði eins og best gerist í samkeppnislöndum.

Umhverfi fjármálastofnana er annar þáttur sem getur haft úrslitaáhrif á samkeppnishæfni og heilbrigði atvinnulífs okkar.
Nú er unnið að sölu á eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Útboðsfyrirkomulag það sem ríkisstjórnin ákvað, hefur fallið í góðan jarðveg. Það er gegnsætt og skýrt og leysti farsællega þann vanda, sem upp var kominn. Mikil þróun er að verða á fjármagnsmarkaði, þótt ekki sé að furða að hinn ungi, opni markaður eigi í nokkrum byrjunarörðugleikum sem greiða þarf úr. Við einkavæðingu viðskiptabankanna þarf að tryggja að íslenskar bankastofnanir séu öflugar og standist erlendum samkeppnisaðilum snúning og um leið þarf að gæta þess að eignarhald á þessum stofnunum verði dreift. Viðskiptaráðherra undirbýr nú frumvarp um styrkingu eftirlits með fjármálastarfsemi, en hin öra þróun á fjármagnsmarkaði og ýmsir atburðir undanfarnar vikur hafa kallað á slíkar breytingar. Jafnframt er unnið að endurskoðun samkeppnislaga.


Þessa þings bíða eins og endranær mikil verkefni. Fjárlögin munu taka drjúgan tíma. Þau endurspegla staðfastan ásetning ríkisstjórnarinnar að halda vel á spilum ríkissjóðs, en um leið kosta miklu til áframhaldandi nýsköpunar, þróunar og framúrskarandi þjónustu. Skuldir verða greiddar niður, enn eitt árið. Það eru góð tíðindi, ekki síst fyrir unga fólkið og ungviðið, sem eru að leggja á vit langrar framtíðar í landinu. Það er einnig í þeirra þágu að Ísland verði í fremstu röð í menntamálum og beri sig aðeins saman við hið besta sem völ er á. Nýju skólastefnunni, sem mótuð var á síðasta kjörtímabili, þarf að fylgja fast eftir. Hún á að vera grundvöllur umbóta í íslensku skólastarfi.

Á undanförnum árum hefur hundruðum milljóna króna verið varið í kaup og rekstur á tölvuverum, sem verða sífellt flóknari og kostnaðarsamari. Fyrir skömmu var skýrt frá nýjum áformum á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að allir nemendur framhaldsskóla fái fistölvu við upphaf náms á góðum kjörum, tölvur þessar verða eign og á ábyrgð nemenda og komið verður fyrir viðeigandi tengingum og búnaði í skólum landsins.

Í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að hluti ávinnings af eignasölu verði notaður til að styrkja og bæta upplýsingatæknina. Þar er um vaxandi verkefni að ræða sem við verðum að taka föstum tökum ætlum við áfram að vera í fremstu röð. Krafan um íslenska tungu í tölvuheiminn er skýr og ótvíræð. Samningur við Microsoft, sem gerður var á síðastliðnum vetri, felur í sér viðurkenningu á þeirri kröfu. Næsta stórverkefni verður að beita hinni nýju tungutækni í þágu íslenskunnar til að tryggja stöðu hennar á sviði tölvu- og upplýsingatækni.


Íslendingar eru umfram flestar þjóðir háðir vistvænni umgengni við náttúru lands og láðar. Þeir sem kalla Íslendinga umhverfissóða eru liðtækir öfugmælasmiðir. Slíkur málflutningur hefur því miður verið reyndur í svonefndu Kyoto-máli af aðilum hér á landi. Í viðræðum sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafa átt við fjölda ríkja til að finna leiðir til að Ísland geti undirritað Kyoto-bókunina hafa hins vegar hvergi heyrst ásakanir um að íslensk stjórnvöld eigi vondan málstað að verja þegar kemur að umhverfisvernd. Öðru nær.

Umhverfisvernd á Íslandi byggir á skýrri stefnu sem aftur hvílir á ríkri meðvitund íslensku þjóðarinnar allrar um þá nálægð við náttúruna sem hún býr við og á þeirri sátt sem ríkt hefur í landinu um nauðsyn þess að ganga gætilega um viðkvæmt lífríkið. Ferðin hefur hins vegar aldrei ráðist af þeirri hugmyndafræði í umhverfismálum sem gætt hefur sumsstaðar á Vesturlöndum á undanförnum árum og áratugum. Við höfum fundið illilega fyrir hinni blindu trú í hvalveiðimálinu þar sem við höfum orðið fyrir ómálefnalegum þrýstingi sem á ekkert skylt við sanna umhverfisverndarstefnu.

Íslendingar hafa ekki gengið á hönd slíkum skoðunum því þeir eiga allt sitt undir náttúrunni og sannri verndun hennar, þar sem þess er gætt að hún geti nýst manninum með sjálfbærum hætti. Stefna sem birtist með því offorsi, sem ég áður lýsti, er fyrir aðra en þá sem þiggja lífskjör sín af náttúrunni í þeim mæli sem Íslendingar gera.

Það gengur þvert á hagsmuni Íslands að falla fyrir þess háttar öfgum. Enda værum við þá að útiloka að njóta ávaxtana af kostum landsins, hvort sem um er að ræða endurnýjanlega orkugjafa eða önnur gæði, sem við verðum að nýta, eigi áfram að vera lífvænlegt í landinu. Það duldist engum sem sat í þessum sal að ákvæði sem umhverfisnefnd þingsins beitti sér fyrir að sett yrði til að koma í veg fyrir afturvirkni laga um umhverfismat, tók ekki síst tillit til Fljótsdalsvirkjunar. Menn sem að því stóðu eiga ekki að hlaupa frá gerðum sínum í þeim tilgangi einum að slá pólitískar keilur.


Utanríkisráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn undirbúning að næstu samningalotu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar verður tekist á um mikilvæga hagsmuni en jafnframt er leitast við að laga alþjóðlegar reglur að aukinni alþjóðavæðingu og kröfum um heilbrigða viðskiptahætti. Við hljótum að nálgast þetta viðfangsefni með opnum huga, svo mjög sem þau snerta okkar helstu atvinnugreinar. Íslendingar hafa þannig verið í fararbroddi þjóða sem útrýma vilja styrkjakerfi í sjávarútvegi sem skerðir samkeppnisstöðu og grefur undan markvissri fiskveiðistjórnun. Auðvitað mun nokkuð reyna á okkar sérstöðu á öðrum sviðum, svo sem í landbúnaði, en rétt er að minnast á að forráðamenn okkar í þeirri grein, sýndu mikla ábyrgð í fyrri viðræðum af þessum toga.

Búvörusamningar eru nú til endurskoðunar. Í stjórnarsáttmála eru skýrar vísbendingar um afstöðu ríkisstjórnarinnar, sem tryggja vill og treysta íslenskan landbúnað. Laða þarf saman lausnir sem í senn taka fullt tillit til hagsmuna neytenda og treysta tekjugrundvöll bænda.

Sú bylting sem orðið hefur á vegakerfi okkar og samgöngum undanfarna áratugi nýtist ekki síst bændum og öðrum þeim sem byggja hin dreifðu landssvæði Íslands. Nú er unnið að gerð samræmdar samgönguáætlunar, sem nær til vegagerðar, hafnagarða og uppbyggingar á flugvöllum landsins í því skyni að nýta fjárfestingar sem allra best. Það er meðal annars á grunni slíkra framfara sem sóknarfæri okkar í ferðaþjónustu fara vaxandi um þessar mundir. Okkur er að takast að lengja ferðamannatímann um allt land verulega frá því sem áður var. Það er í senn byggðavæn og gjaldeyrisskapandi þróun.


Í stuttri stefnuræðu verður aðeins fátt eitt nefnt til sögu sem ráðuneytin eru að vinna að. Munu þau verkefni koma til kasta þingsins hvert af öðru og vonast ríkisstjórnin eftir góðu og málefnalegu samstarfi um afgreiðslu þeirra. Forsenda alls þess er þó að efnahagsstefnan nái fram að ganga. Ég vil í lok ræðu minnar stikla á helstu þáttum hennar eins og þeim er lýst í stjórnarsáttmála, og þá einkum þeim atriðum er varða efnahags- og atvinnumál. Þar ber hæst:
* Að viðhalda jafnvægi í ríkisfjármálum og lækka skuldir ríkissjóðs með markvissum hætti.
* Að vinna áfram að nýskipan í ríkisrekstri.
* Að efna til markvissra aðgerða til þess að auka almennan sparnað.
* Að endurskoða skattalöggjöfina með það að markmiði m.a. að draga úr jaðaráhrifum og mismunun innan skattkerfisins.
* Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila.
* Að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina.
* Að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og styðja frumkvöðla í atvinnulífinu.
* Að treysta undirstöður byggðar í landinu í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um það efni.
* Að vinna áfram að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, en nýverið skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sem mun leiða það starf.
* Að efna til víðtæks samráðs stjórnvalda við bændur og samtök þeirra um framtíðarskipulag íslensks landbúnaðar til að tryggja hagkvæmni í greininni og skapa þeim sem landbúnað stunda sem besta afkomu.
* Að breyta skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd til að auka hagkvæmni og lækka orkuverð.
* Að auka veg ferðaþjónustu m.a. með öflugu kynningarátaki á helstu mörkuðum.
* Að efla upplýsingaiðnað þannig að til verði ný störf um allt land sem höfða ekki síst til ungs fólks.
* Að vinna að því að framsækin atvinnuþróunarstefna geti byggst á frjóu rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi.
* Að skólastarf verði áfram eflt, einkum starfsnám og verkmenntun á framhaldsskólastigi.
* Að endurskoða almannatryggingakerfið svo og samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóðakerfið.

Hr. forseti, góðir áheyrendur.

Alþingi Íslendinga er í senn pólitískur orrustuvöllur og lagasmiðja. Við skulum þennan vetur leitast við að hafa orrusturnar snarpar og skemmtilegar og lagasmíðina vandaða og trausta. Góðar stundir.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta