Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. október 1999 HeilbrigðisráðuneytiðIngibjög Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra 1995-2001

Utan dagskrár umræður - 30 sjúkraskrár

Ingibjargar Pálmadóttur
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
6. október 1999

Umræður á Alþingi utan dagskrár
30 sjúkraskrár

Virðulegur forseti.

Ég vil strax taka fram að ég held að 13. þingmanni Reykjavíkur gangi gott eitt til, að taka þetta mál upp utan dagskrár. Persónuverndin heyrir að vísu undir Tölvunefnd og dómsmálaráðuneyti, en að öðru leyti get ég sagt þetta:
Í ráðuneytinu er unnið að undirbúningi leyfis til rekstrar gagnagrunns á heilbrigðissviði á gundvelli laga númer 139/1998.
Skipuð var nefnd til að gera tillögu til ráðherra um veitingu rekstrarleyfis og efni þess. Nefndin er skipuð Davíð Á. Gunnarssyni, ráðuneytisstjóra, Sigurði Þórðarsyni, ríkisendurskoðanda, og Jóni Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni.
Þessi nefnd leitað fyrir skemmstu eftir því við Tölvunefnd, að fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar og Sjúkrahúss Reykjavíkur fengju leyfi til að athuga 30 sjúkraskrár til að geta áttað sig á hvaða upplýsingar væru skráðar.
Tölvunefnd veitti heimildin tafarlaust að settum skilyrðum, sem viðkomandi sættu sig fyllilega við.
Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki með beinum hætti komið að málinu, en þar sem Tölvunefnd tryggir persónuvernd borgaranna í þessu landi þótti þriggja manna nefndinni rétt að fara fram á heimild frá henni.
Ég vil taka sérstaklega fram, að færustu sérfræðingar hafa komið að málinu. Ég treysti fullkomlega mati sérfræðinganna sem kunnir eru fyrir ábyrgð í störfum sínum til að fara með þetta mál samkvæmt ströngustu kröfum. Tölvunefnd hefur hingað til verið fullkommlega treystandi þegar persónuvernd er annars vegar. Skilyrði hennar nú sýna að hún er traustsins verð. Rekstrarleyfisnefndin er í viðræðum við Íslenska erfðagreiningu um gagnagrunninn. Það sem hér er spurt um er liður í þeim undirbúningi.
Að öðru leyti tel ég mér ekki fært að svara fyrir jafn ágæta nefnd og Tölvunefnd. Ég veit að þingmaðurinn skilur það.

Virðulegi forseti.

Málflutningur 13. þingmanns Reykjavíkur staðfestir harða andstöðu hans við lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Aðalatriði málsins eru, að Tölvunefnd hefur tryggt persónuvernd borgaranna í skilyrðum sínum. Samtökin Mannvernd hafa gert athugasemd við málið, Landlæknir hefur ritað Sjúkrahúsi Reykjavíkur og nú hefur stjórn Læknafélagsins slegist í þennan hóp.
Ég geri ekki kröfur til stjórnar Læknafélagsins í þessu máli, en ég fer framá að alþingismenn fari eftir leikreglum í málinu, en hræri ekki öllu saman í einn graut til þess eins að koma á framfæri gagnrýni á lög sem Alþingi hefur samþykkt. Það stendur ekki til að flytja neinar upplýsingar í gagnagrunn úr sjúkraskránum 30.
Tölvunefnd setur ströng skilyrði um vinnulag og mótmælin, burtséð frá því hvort þau koma frá Mannvernd, Læknafélaginu, Landlækni, eða Vinstri grænum, verða menn að senda á rétt heimilisfang, ef það er persónuverndin sem menn hafa áhyggjur af. Ég endurtek: Ef það er persónuverndin, sem menn hafa áhyggjur af.

(06.10 1999/Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta