Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótaávarp 1999

Áramótaávarp Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra
í ríkissjónvarpinu 31. desember 1999


Góðir Íslendingar.
Við höfum á undanförnum árum nýtt þessa stund til að líta yfir liðið ár og reyna að meta, hvað hafi gengið vel og hvað miður og hvers megi vænta. Þetta er ágætur siður. En nú bregður svo við að um veröldina víða og breiða hefur orðið óskrifað samkomulag um að nú skuli hugsað til aldamóta fremur en áramóta og jafnvel aldatugs og eru það ærin verkefni.

Fyrir rúmri öld sagði enskur kaupahéðinn, sem stundaði viðskipti hér á landi, að Íslendinga vanhagaði mest um þrennt: Vegi, vegi og aftur vegi. Þau orð voru skiljanleg, landið erfitt yfirferðar og vegleysur miklar, enda hafði lítið gerst í slíkum framkvæmdum þúsund árin á undan, svo að segja mátti ýkjulaust að þjóðin hafi nánast staðið í sömu sporum í þúsund ár. Landnámi var lokið í þeim skilningi að menn höfðu helgað sér það jarðsvæði sem til skiptanna var en fjarri var þó að landið væri fullnumið að öðru leyti. Ennþá vantaði allt sem þarf til að reka eitt þjóðfélag með skilvirkum hætti, ekki aðeins vegina sem Bretinn kallaði eftir. Brýr voru fáar, hafnir engar, að ekki sé talað um vatnsveitur, hreinlætiskerfi, heilsugæslu eða annað af því tagi sem nú er talið frumforsenda bærilegs mannlífs í landinu. Atvinnufyrirtæki í núverandi mynd voru nánast óþekkt og bitur reynsla hafði sannað svo að hafið virtist yfir vafa að landið var ófært um að brauðfæða fleiri en sjötíu þúsund manneskjur og stundum jafnvel miklu færri. Tuttugasta öldin varð því sannkölluð nýöld á Íslandi. Með henni var öld tækifæranna loks runnin upp. Framfarir í verklegum efnum voru kraftaverki líkastar og annað fylgdi í kjölfar verklegra umbóta. Alls staðar urðu stórstígar framfarir. Ekki var þetta þó samfelldur dans á rósum. Frostavetur og faraldur, mannskaðar og kreppur áttu sinn tíma á öldinni og því til viðbótar var ekki alltaf vel stjórnað og margvísleg mistök af mannavöldum töfðu hina jákvæðu þróun. En aldalöng kyrrstaða var rofin og loksins miðaði áfram. Kjör þjóðarinnar og allur aðbúnaður hennar nú í aldarlok eru í fremstu röð og mega í mörgu vera öðrum til fyrirmyndar. Náttúran er ekki lengur sá hömlulausi ógnvaldur sem hún var lengstum í þessu landi. Hún er nú um margt undirgefin og gjöful og sambúð hennar og þeirra sem landið byggja batnar ár frá ári.

En þótt tuttugasta öldin fái góða einkunn og mönnunum íslensku hafi miðað vel á leið má enn taka undir orð hins glöggskyggna gests sem ég vitnaði til í upphafi. Okkur vantar enn vegi, vegi og aftur vegi. En nú hafa vegirnir fengið nýja merkingu. Þar er ekki lengur átt við þær þúsundir kílómetra sem við höfum lagt á milli sveita, héraða og fjórðunga landsmönnum öllum til gagns og þæginda. Nú eru það vegirnir á milli framkvæmdavilja og raunsæis, frelsisþrár og skyldurækni, alþjóðahyggju og þjóðrækni, markaðar og mannlífs sem við þurfum að leggja til að tryggja gott þjóðfélag í upphafi næsta árþúsunds.

Framkvæmdaviljinn verður áfram að vera dráttarklár vaxandi velmegunar, en raunsæið verður að sitja í ekilssætinu ef vel á að fara. Áfram verður að kosta kapps við að tryggja sem víðtækast frelsi á öllum sviðum en skyldurækni og náungatillit er ramminn sem frelsinu er brýnastur.

Alþjóðahyggjan opnar Íslendingum margar dyr og gefur glæst tækifæri sem grípa skal, en þjóðræknin er henni hollt aðhald. Markaðsöflin þurfa víðtækt svigrúm svo að þau megi leysa kynngikrafta einstaklingsins úr læðingi, en þau hljóta um leið að lúta leikreglum heilbrigðs mannlífs og réttarríkisins.

Tveir helstu velgjörðamenn Íslendinga á síðari tíð, Jón Sigurðsson forseti og Hannes Hafstein ráðherra, hafa öðrum mönnum betur undirstrikað afl frelsis og frjálsræðis enda skynjuðu þeir glöggt að á því hvílir von Íslands um að verða sjálfu sér nógt og síðar jafnvel öðrum fyrirmynd. Jón Sigurðsson sagði: "Enginn getur sá gert fullt gagn, sem ekki hefur frelsi til þess, en hætt er einnig við, að sá, sem hefir allt frelsi, gjöri ekki frelsi annarra hátt undir höfði, en þá má ekkert félag standast, ef ekki er slakað til á ýmsar hendur sanngjarnlega." Á þann veg talaði hugsjónamaðurinn og kyndilberinn - óskabarn landsins, sem leiddi þjóð sína af miklu öryggi inn á braut frelsis og sjálfstæðis. Ekki hefur á nokkurn hátt dregið úr gildi þessara orða á þeirri hálfu annarri öld sem liðin er frá því að þau voru mælt.

Okkur er öllum ljóst hvílík gæfa það var að Jón Sigurðsson fór fyrir öðrum í þjóðfrelsisbaráttunni. Og við könnumst ekki síður við það happ að Hannes Hafstein skyldi fyrstur fá stjórnartauma í hendur eftir að hluti valdsins fluttist loks heim frá Danmörku eftir langvinna baráttu. Og Hannes Hafstein hafði sama skilning og Jón Sigurðsson á samhengi frelsis, taumhalds og ábyrgðar. Hann lýsir því vel í ljóði er hann yrkir til þjóðar sinnar árið 1908.

"Ég ann þér eins og barni, er þjálfast þarf
og þreyta kapp, svo nota lærir kraft.
Sú kemur tíð, þú skilur skyldustarf
og skynjar það, að gjörvallt þarf sitt haft,
og nýtur frjómagns frelsis
í fjötrum mannvits helsis."

Ef til vill verður einhvern tíma sagt um tuttugustu öldina að með henni hafi baráttunni um hugmyndafræðina lokið. Við aldamót hafi flestum verið orðið ljóst að hagkerfi frjálsra viðskipta og heilbrigðrar samkeppni hefði algjöra yfirburði yfir það kerfi sem reiddi sig á miðstýringu og áætlanabúskap og fylgdi því eftir með ofbeldi og kúgun. Sigur frelsisins á forræðishyggjunni er eitt mesta fagnaðarefni á öldinni og forsenda þeirrar bjartsýni og heillaspár sem nýja öldin fær í vöggugjöf. En sá sigur breytir ekki því, að frelsi á markaði verður að vera innan þeirra banda sem tillitssemi og gagnkvæmt traust setja. Þetta er vísast enn mikilvægara að hafa í heiðri í litlu hagkerfi en risastóru, þar sem fleiri kosta er völ. Ég er ekki í neinum vafa um að Íslendingar vilja ekki skefjalausan og frumstæðan gelgjukapítalisma á borð við þann sem spratt upp í Rússlandi eftir fall félagshyggjunnar. Markaðskerfið á að vera mannúðlegt kerfi, þar sem einstaklingurinn fær að græða á hugviti sínu og atorku en er gert að gæta hófs og neyta ekki alltaf aflsmunar.

Meginröksemdin fyrir frelsi athafnamanna er sú, að það sé að lokum öllum til góðs. En taki athafnamenn að brjóta skráðar eða óskráðar reglur i samskiptum fólks getur sú röksemd fallið um sjálfa sig.

Verkefni gærdagsins á Íslandi var fyrst og síðast að auka atvinnufrelsi og því verki er vissulega ekki lokið. En verið getur að eitt aðalverkefni morgundagsins sé að efla siðferðilega festu í atvinnulífinu án þess að þrengja að því. Það verk þarf að vinna án óþarfa reglugerðafargans og annarra valdboða.

Samskipti Íslands við umheiminn hafa stóraukist á öldinni sem er að kveðja og verið einn lykillinn að velgengni hennar. Jón forseti sagði árið 1842: "Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd", en hann bætir við: "Þó ekki við eitt land, heldur mörg." Í mínum huga skipta þessi viðbótarorð Jóns mestu fyrir hagsmuni Íslands nú. "Þó ekki við eitt land, heldur mörg."

Á sama hátt og okkur var óhollt að sækja allt til Danmerkur eigum við ekki að sækja allt okkar nú eða síðar meir til hins nýja sambandsríkis Evrópu, sem virðist vera í mótun, þótt áríðandi sé að við eigum við það nána og góða samvinnu. Við Íslendingar ráðum nú yfir sjöhundruð þúsund ferkílómetra hafsvæði og nýtum auðlegð þess skynsamlega svo að aðrar þjóðir mega af okkur læra. Það kostaði mikla baráttu og fjögur landhelgisstríð að ná því forræði. Til hvers var barist ef nú á að færa það forræði í annarra hendur? Til eru þeir svartsýnismenn sem segja að Íslendingar breytist í útkjálkaþjóð fari þeir of hægt í að sameinast stærri þjóðum. En athuganir merkra hagfræðinga sýna einmitt hið gagnstæða að smáþjóðum vegnar oftast betur í efnahagsmálum en stórþjóðunum. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Allar stærðir eru viðráðanlegri, hagkerfið er gegnsærra, stjórnendur hafa betri yfirsýn yfir verksvið sitt, fólkið er nær forystumönnunum og vandi er hæglega leystur um leið og hann kemur í ljós. Árangur okkar á tuttugustu öldinni sýnir betur en allt annað að speki svartsýnismanna hentaði okkur ekki. Sú speki yrði einnig versta vegarnestið sem menn geta haft inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Hyggjuvit og framsýni þeirra Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafsteins er á hinn bóginn jafnóbrigðult og áður. Með það í farteskinu skulum við halda á vit nýrrar aldar og leggja vegi sem aldrei fyrr. Takist okkur það leyfi ég mér að spá því hér í ykkar viðurvist að tuttugasta og fyrsta öldin verði aldarbetrungur. Sú tuttugasta hefur skilað okkur vel fram en ef við höldum skynsamlega á verður hún eins og reykurinn af réttunum sem okkar bíða á þeirri næstu.

Góðir Íslendingar.
Ég þakka ykkur samfylgdina á liðnu ári og bið Guð að blessa ykkur á því aldamóta ári sem senn gengur í garð.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta