Hátíðarmessa í Garðabæ
Hátíðarmessa í Garðabæ
30. janúar 2000
"Ég held að lífið yrði einskis virði án ástar", sagði unga stúlkan í viðtalsþættinum á dögunum og bætti við að sjálf væri hún ofboðslega ástfangin um þessar mundir. Og nýlega sagðist fyrrverandi forseti okkar ekki getað hugsað sér líf án listar. Og þeir verða sífellt fleiri sem geta ekki hugsað sér tilveruna án þess að peningar og helst miklir peningar séu þar í öndvegi. Og allt er þetta ósköp gott og hljómar eins og ágæt uppskrift að yndislegu lífi: Listsköpun, hvert sem litið er, peningar í hrönnum og ofboðsleg ást alla daga. Og þó telja enn einhverjir að ekki sé allt fengið með þessari forskrift þótt ekki sé gert lítið úr neinu af innihaldi hennar. Sjálfur var ég að nöldra yfir því á dögunum að nú orðið þætti ýmsum harla litlu skipta, hvað hefði gerst í þessu landi síðustu tíu áratugina og teldu með öllu óþarft að vita nokkuð um þá einstaklinga sem mest áhrif hefðu haft á þá atburðarás. Menn þættust sem sagt geta lifað án fortíðar, eða að minnsta kosti án þess að þekkja til hennar hefðu þeir nóg af peningum, ást og listum. Og við heyrum sífellt í fleirum sem telja sig einnig komast vel á göngu sinni um lífsleiðina án trúarinnar. Þetta er auðvitað ekki ný bóla og alls ekki bundin við Ísland eitt. Fyrir okkur, sem fögnum því hér í samkomuhúsinu í dag og um land allt um þessar mundir að þúsund ár eru frá því að Íslendingar lögtóku kristni, hlýtur þetta þó að vera nokkurt umhugsunarefni. Kristnihátíðin hvílir einmitt á þessum hornsteinum tveimur, trú og sögu, kristnisögu, þótt peningar, ást og list eigi þar einnig sinn þátt og hann ekki svo lítinn.
Nú er ekki svo að skilja að þeir sem hafna trúnni á guð séu að amast við trúarþörf og trúariðkun hinna. Þeir virðast líta fremur á trú og guðsdýrkun sem sérvisku sem sjálfsagt sé að umbera enda er það aðalsmerki hins íslenska nútímamanns að umbera flest og hneykslast á fáu. En það kemur þó oft fram að sumum þykir það ótvírætt merki gáfna, þroska og þekkingar, þegar því marki er náð, að maður hafi loks reiknað Guð eða rökstutt hann út úr lífi sínu. Og vissulega er það rétt að gáfur eða menntun eru ekki skilyrði þess að maðurinn fái trúað. Sælir eru fátækir í anda, segir þar og Kristur sjálfur bendir á að opinn barnshugur sé frjósamasti akurinn fyrir frækorn himnanna en margt sé á hinn bóginn hulið (fyrir) spekingum og hyggindamönnum. En það gefur þó ekki tilefni til að álykta að gáfur, þekking og vísindi skapi endilega ófrjótt arfabeð, þar sem trú fái alls ekki þrifist. Öðru nær. Þau dæmin eru mörg og yfirgnæfa hin um að þeir sem lengst hafa komist í þekkingarleitinni á hverri tíð standi á ný jafnfætist barninu og séu opnastir fyrir því að tilveran verði ekki skýrð nema að Guð hafi þar sitt rúm, sé upphafið og endirinn. Þeir komast með öðrum orðum að því, að sú mikla þekking sem mannheimur býr yfir, og hefur aldrei verið meiri en nú og aldrei jafn aðgengileg og aldrei eins létt að safna í einn punkt, nái þó enn ótrúlega skammt. Trúin taki við þar sem þekkingunni sleppir enda hafi það ekki síst verið trúarþörfin í bland við efann sem knúði menn áfram í þekkingarleitinni. Trúarþörfin virðist öllum eðlisbundin, þó víkja megi henni til hliðar um stund og jafnvel breiða þykkt lag efans yfir hana lengi vel og stundum um allt það skamma skeið sem hverjum og einum okkar er skammtað. Og með sama hætti og sannfæring trúaðra er svo vel umborin af þeim samferðamönnum sem efast eða telja sig jafnvel hafa reiknað trúna út af borðinu eða að minnsta kosti út úr tölvunni sinni, þá ber að umbera þá hina sömu - og reyndar vona að þeir haldi áfram að reikna og fjalla um það sem þeir kalla rökleysur trúarinnar því það er allt þáttur í leit, mikilli leit. Og skrifað stendur að sá sem leitar muni að lokum finna og verður þá kannski glaðastur þegar hann finnur að endingu allt annað en hann hélt að hann væri að leita að.
Því miður eru þeir alltof margir sem búið hafa við ástleysi alla sína tíð og enn fleiri sem lifa þurfa sínu lífi án listar. Og drýgstur hluti mannkyns lifir enn án þess að kynnast peningum í neinum þeim mæli sem jafnvel þeir Íslendingar, sem minnst hafa á milli handanna, hafa nú. En allir eiga þeir sína sögu og trúarþörf af einhverju tagi. Saga íslenskrar þjóðar og saga kristni hafa verið samtvinnuð alla tíð í þessu landi, ekki aðeins eftir hina formlegu kristnitöku. Hér voru fyrir kristnir menn, írskir munkar, þegar heiðnir landnemar komu. Og landnemar höfðu með sér þræla og ambáttir sem trúðu á Krist hinn krossfesta og ríghéldu með sjálfum sér í það vegarnesti, þótt hljótt færi, sem eina hjálpræðið í þeim ógnum sem yfir þau hafði dunið.
Þess vegna má færa fyrir því rök að á Íslandi hafi ætíð fundist kristnir menn frá því að maðurinn sté fyrst fæti þar á land. Veit ég ekki um nokkurt annað land í víðri veröld sem þá sögu hefur að segja. Íslendingar ákváðu með formlegum hætti á Alþingi við Öxará að taka upp kristinn sið. Það var mikil og heilladrjúg ákvörðun, sem enn hefur ríkulegt gildi. En með henni var þó ekki ákveðið að sérhver Íslendingur skyldi vera kristinn í þeim skilningi að hann öðlaðist frá og með þeirri samþykkt trú á guð í sínu hjarta. Það gerist ekki þannig. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema nema af einstaklingum sjálfum. Handaupprétting á Þingvöllum árið þúsund eða við Austurvöll þúsund árum síðar getur skapað umgjörð og skilyrði fyrir kristinn sið í landi með allri þeirri blessun sem honum fylgdi og fylgir. En hjarta hvers manns er sá þingstaður þar sem hann einn og með sjálfum sér greiðir atkvæði með eða á móti því að ganga persónulega í samfélag með Kristi. Það er leynilegasta kosning sem þekkist enda hefur niðurstaða hennar úrslitaþýðingu.
Við efumst ekki um það sem séra Matthías segir í þjóðsöngnum, og hefur úr bestu fáanlegu heimild, biblíunni sjálfri, að þúsund ár séu fyrir guði, sem eitt titrandi tár á smáblómi - eitt augabragð ein örskotsstund. En það breytir ekki því að fyrir okkur dauðlega menn eru þúsund ár mikil viðmiðun, stór hluti af þekktri sögu mannkynsins og er saga okkar sem þjóðar aðeins lítið eitt lengri. Þúsund ára afmæli hins kristna siðs eiga allir landsmenn að geta fagnað, bæði þeir sælu sem ekki hafa séð en trúa þó, þeir sem leita og hafa enn ekki fundið og allir hinir sem búa í veröld sem er betri vegna þess eins að Kristur var þar og Kristur er þar.
Á kristnihátíð geta allir Íslendingar fundið eitthvað til að gleðjast yfir og þakka í þeirri fullvissu að sá guð sem hátíðin er helguð er sannur og einn og fer ekki í manngreinar álit. Gleðilega hátíð.