Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2000
16. febrúar 2000
Ræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands
að Grand Hótel, 16. febrúar 2000
Yfirskrift Viðskiptaþings í ár, að íslenskt atvinnulíf skuli í framtíðinni vera í fararbroddi, er frómt og traust markmið. Sú tímasetning sem íslenskir athafnamenn velja til að berja sér svo myndarlega á brjóst er mikilvæg og táknræn, því um þessar mundir semja atvinnurekendur og launþegar enn á ný um kaup og kjör. Samningsgerð þessi verður sjálfsagt ekki örlagavaldur íslensks atvinnulífs til allrar framtíðar, en mun þó hafa lykilþýðingu fyrir íslensk lífskjör næstu misseri, nú þegar efnahagslífið býr yfir svo mörgum tækifærum sem raun ber vitni, en er um leið viðkvæmt og vandmeðfarið.
Mér er alls ekki ljúft, en á hinn bóginn skylt, að viðurkenna að ríkisvaldið og sveitarfélögin hafa í kjaramálum ekki gengið á undan með góðu fordæmi að þessu sinni. Ríkið freistaði þess að beita nýju verklagi við útfærslu þeirra kjarasamninga sem þegar höfðu verið gerðir, og voru reyndar skynsamlegir einir og sér. Valin var valddreifing; að láta stofnanirnar sjálfar fylla út í meginrammann. Svo fór hins vegar að rammarnir voru ekki virtir og fjölmargar stofnanir fóru langt út fyrir þær fjárheimildir sem löggjafinn hafði ætlað þeim. Eins beittu einstaka hópar vafasömum aðferðum, á borð við hópuppsagnir, til að knýja fram auknar kjarabætur, þótt samningar þeirra væru í gildi. Af þessum sökum hefur þeim góða anda verið spillt nokkuð, sem ríkt hefur á vinnumarkaði allt frá hinum sérlega árangursríku samningum árið 1997. Ríkisstjórnin hefur því beitt sér fyrir lagasetningu þar sem leikreglurnar eru gerðar einsleitar á almenna og opinbera markaðinum, svo slík mistök verði ekki endurtekin.
Annað, sem nokkuð hefur dregið úr stemningunni í aðdraganda samninga, eru vaxtarverkir vegna ört stækkandi efnahagslífs þjóðarinnar um margra ára skeið. Má þar nefna verðbólgukipp og ýmsa yfirnýtta framleiðsluþætti í hagkerfinu. Vonandi draga samningsaðilar þann lærdóm af stöðunni sem upp er komin, að nú sé bráðnauðsynlegt að kynda ekki undir. Þvert á móti þurfi að verja það kaupmáttarstökk sem launþegar hafa tekið á undanförnum árum, og leggja grunn að áframhaldandi kaupmáttarbata. Verður að treysta því að á vettvangi opinberra samninga takist í þetta sinn að gæta hins sama, þótt þeir sem takast þar á virðist telja að almenn efnahagslögmál eigi síður við í opinberum rekstri en á almenna markaðinum.
Verðbólgan hefur sem betur fer ekki haldið áfram að hækka núna á undanförnum vikum. Neysluverðsvísitalan lækkaði reyndar milli mánuðanna janúar og febrúar. Verðlagið lækkaði þá nokkuð meira en á sama tíma undanfarin ár og fór neðar en bjartsýnustu menn bjuggust við. Því fer þó fjarri að það þýði að við séum komin fyrir vind í verðlagsmálum, þvert á móti þarf að gæta sérlega vel að á næstunni. Enn eru vísbendingar um að olíuverð og fasteignaverð muni ýta vísitölunni upp, þótt flestir hafi talið að það væri komið í hámark.
Seðlabankinn ákvað nú fyrir helgi, að höfðu samráði við ríkisstjórn, að víkka vikmörk gengis krónunnar um 3% í hvora átt. Ýmsir hafa að undanförnu getið þess að peningaleg aðgerð í þessa veru gæti verið skynsamleg, svo sem OECD og Verslunarráð Íslands. Tilgangurinn með breytingunni er að auka sveigjanleika gengisstefnunnar til að halda verðbólgu í skefjum. Um leið voru vextir bankans hækkaðir um 0,3 prósentustig, m.a. í þeim tilgangi að viðhalda vaxtamun gagnvart útlöndum eftir nýlegar vaxtahækkanir seðlabanka evrunnar, Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Sviss, Danmerkur og Svíþjóðar. Sem þriðja lið í þessum aðgerðum er ríkisstjórnin að undirbúa að auka enn skattfrelsi lífeyrissparnaðar frá því sem nú er til ýta undir almennan sparnað í landinu. Allar þessar aðgerðir, vaxtahækkun, aukinn sveigjanleiki gengisstefnunnar, og sú ákvörðun sem ég var að kynna um enn aukið skattfrelsi lífeyrissparnaðar, eru hugsaðar sem samræmdar aðgerðir. Samhliða myndarlegum afgangi á ríkissjóði og bindingu fjár með sölu ríkisfyrirtækja, er þeim ætlað að slá á verðbólgu væntingar. Þýðingarmikið er að aðrir opinberir aðilar vinni með en ekki á móti ríkinu í þessari mikilvægu viðleitni þess.
Atvinnulíf framtíðarinnar á Íslandi mun ætíð bera merki þeirrar peningastefnu sem rekin eru í landinu. Sumir telja, ekki síst nauðhyggjumenn, að skynsamlegt gæti verið að tengja krónuna evrunni eða jafnvel taka hana hér upp sem gjaldmiðil. Sú skoðun hefur ekkert með skynsemi að gera. Fyrir það fyrsta er augljóst til hvílíkrar bölvunar það væri nú um stundir ef evran væri myntin sem hér væri notuð. Á síðasta ári voru vextir á evrusvæðinu lækkaðir í þeim tilgangi að knýja áfram letilegt efnahagslíf meginlandsins. Á sama tíma vorum við að reyna að koma í veg fyrir ofvöxt í okkar hagkerfi og hækkuðum m.a. vexti ítrekað í þeim tilgangi. Ef evran hefði verið gjaldmiðill okkar, væri verðbólga hér á landi miklum mun meiri en hún er nú. Það er til að mynda engin tilviljun að Írar, sem hafa undanfarin ár aukið sín efnahagsumsvif mun hraðar en til að mynda Þjóðverjar og Frakkar, eru sem notendur evrunnar með þrefalt meiri verðbólgu en fyrrnefndar þjóðir, en voru með jafnvægi, þrátt fyrir mikinn hagvöxt, áður en evran tók yfir þeirra efnahagslíf og svipti þá sjálfstæðri hagstjórn.
Og vandamálið, sem yfir allan vafa er hafið að myndi nú um stundir fylgja notkun evrunnar á Íslandi, væri ekki tímabundið. Jafnvel þótt hagvöxtur hér verði á næstu misserum svipaður meðalvexti evrusvæðisins er fráleitt að ætla að svo verði um ókomna tíð. Innviðir okkar hagkerfis eru í grundvallaratriðum frábrugðnir því sem er á meginlandinu. Sjávarútvegur er enn undirstöðuatvinnugrein, þótt fleiri stoðir séu sem betur fer óðum að styrkjast. Staðbundin áföll hér á landi sem aldrei er hægt að fyrirbyggja fullkomlega, til að mynda í lífríkinu í hafinu eða á erlendum mörkuðum, myndu þess vegna magnast ef evran væri hér gjaldmiðill. Þar sem kaupmáttur almennings gæti ekki minnkað fyrir meðalgöngu gengis myntar okkar gagnvart evrunni, yrði eitt af þrennu að gerast:
· Einn kostur væri að nafnlaun væru lækkuð með handafli yfir línuna, en eins og við vitum er nær óhugsandi að slíkt gangi eftir í lýðræðisríki.
· Annar kostur væri að fjöldi fólks flytti frá landinu, með tilheyrandi erfiðleikum og sársauka.
· Og hinn þriðji væri að Evrópusambandið styrkti okkur um háar fjárhæðir og tæki okkur þannig að sér, eins og Byggðastofnun hvert annað jaðarsvæði sem á í erfiðleikum hér á landi.
Ég geri ekki ráð fyrir að nokkur þessara kosta þyki fýsilegur. Höfum hugfast, hvað þarf að gilda um tvö eða fleiri svæði, ef ákjósanlegt á að vera að nota þar sama gjaldmiðil. Annað hvort þurfa hagkerfi svæðanna að vera samstíga um alla fyrirsjáanlega framtíð, eða að fólk flytjist afar auðveldlega á milli svæðanna, nema hvort tveggja sé. Velgengni hins bandaríska hagkerfis og gjaldmiðils þess byggist meðal annars á því að staðbundnar uppsveiflur eða niðursveiflur innan Bandaríkjanna leiða til þess að fólk færir sig einfaldlega á milli, jafnvel um langan veg innan þessa stóra ríkis, án þess að þykja tiltökumál, enda býr þjóðin við eitt tungumál. Þótt Íslendingar séu landkönnuðir í eðli sínu og reyni jafnframt að taka vel á móti gestum, sé ég hins vegar ekki fyrir mér að hversdagslegt muni þykja að flytja sig frá Turku til Tálknafjarðar, eða frá Þorlákshöfn til Þessalóniku, eftir því sem stendur á fyrir þorski, síld og loðnu. En á hinn bóginn gerir það ríkar kröfur til íslenskrar hagstjórnar að búa við sjálfstæða mynt. Kollsteypur fortíðar og óvarfærin meðferð ríkisfjármála er mikil ógnun og áhætta sem við getum ekki lengur leyft okkur að taka.
Ekki má heldur gleyma því að til þess að geta tekið upp evruna þarf ríki að vera aðili að Evrópusambandinu. Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur Evrópusambandsaðild á stefnuskrá sinni. Ég hef margoft sagt, að ekki sé hægt að útiloka aðild Íslands um ókomna tíð, ekki síst ef sambandið þróast í átt til opins og náins viðskiptasambands, en í átt frá pólitísku sambandsríki. Um þessar mundir er þó ekkert sem þrýstir á aðild Íslands, enda hneigist sambandið nú í þveröfuga átt við okkar hagsmuni. Embættismannakerfi ESB, og sú reglusetning sambandsins sem ekki tengist viðskiptum og innri markaðinum, verður sífellt fyrirferðarmeiri í aðildarríkjunum. Æ víðfeðmara er hið pólitíska inngrip sambandsins í þætti sem fram til þessa hafa verið hluti lýðræðislegs ákvörðunarferlis aðildarríkjanna, t.d. í skatta- og velferðarmálum. Smærri ríki sambandsins hafa sífellt minni áhrif á sín mál og manna færri lykilstöður á vegum þess. Hin fljótfærnislegu viðbrögð ráðherraráðs ESB við kosningum og stjórnarmyndun í Austurríki kristalla vel þessi síauknu afskipti og hafa fært þau á nýtt og áður óþekkt plan. Megin skýringarnar sem utanríkisráðherrar Þýskalands og Bretlands gáfu fyrir þeirri aðgerð voru ekki hin ógeðfelldu pólitísku sjónarmið formanns annars stjórnarflokksins í kynþáttamálum, heldur var áherslan á að sá væri andvígur stækkun Evrópusambandsins og auknu samrunaferli. Því væri ekki hægt að samþykkja í Brussel að flokkur hans tæki þátt í ríkisstjórn í Austurríki.
Af umræðum hér á landi mætti stundum ætla, að hugsanlegur aðildarsamningur Íslands sé fyrirfram óskrifað blað, til dæmis í sjávarútvegsmálum. Þess er oft getið að Norðmenn hafi fengið kost á tímabundinni undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins í sínum aðildarviðræðum og Íslendingar megi vænta enn hagstæðari skilyrða. Jafnvel í þeirri skýrslu Verslunarráðs sem liggur fyrir þessum fundi virðist örla á þeim hugmyndum að í málefnum íslensks sjávarútvegs sé stórkostleg óvissa, sem ekki verði skorið úr um nema í aðildarviðræðum. Þarna halda menn á penna sem þekkja lítið til. Leiðtogar ESB, núverandi og fyrrverandi, hafa margoft tekið fram við íslenska ráðamenn að Ísland mundi aldrei fá varanlega undanþágu frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins. Fyrr eða síðar yrði íslensk fiskveiðistjórnun að heyra undir sameiginleg sjávarútvegsmál ESB. Þessir ráðamenn hafa þó flestir viljað að Ísland gerðist aðili að sambandinu, og því síst verið að mála myndina of dökkum litum. Gætum vel að þessu grundvallaratriði og höldum ekki misskilningnum að fólki. Evrópusambandið er ekki mötuneyti með mörgum matseðlum. Það er bara einn matseðill fyrir alla, en menn geta fengið nokkurn frest til að kyngja því þeim þykir ólystugast.
Eins halda margir því fram að framkvæmd EES-samningsins gangi ekki nógu vel og að samningurinn sé jafnvel að daga uppi. Ekki er fótur fyrir þessari fullyrðingu. Allur obbi þessa samnings gengur snurðulaust fyrir sig. Hins vegar þykir aðeins tilefni til opinberrar umræðu um einstök atriði samningsins þegar fram kemur núningur eða mismunandi viðhorf milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins. Hin umfangsmiklu og árangursríku samskipti fara hins vegar hljótt og rata ekki í fréttirnar. Vissulega gæti það gert einhverjum órótt ef Norðmenn gerðust aðilar að sambandinu í framtíðinni. Engin efnisleg grundvallaratriði varðandi okkar stöðu mundu breytast þar með, en hjallinn yrði fremur sálræns eðlis, og skal ekki gert lítið úr því.
Mér þykir því einsýnt að næstu ár sé hag okkar best borgið með víðtækum viðskiptum og samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins. Þannig getum við nýtt sérstöðu okkar í sjávarútvegi, á vinnumarkaði, og að hluta til í skattamálum, til að bæta samkeppnisstöðu landsins. Um leið tel ég kjörið að nýta legu okkar í miðju Atlantshafi til að treysta tengslin við Norður-Ameríku samhliða EES-samstarfinu, og bæta meðal annars aðgang okkar að sameiginlegum markaði NAFTA umfram það sem tollabandalag ESB getur boðið upp á.
Hinn alþjóðlegi markaður, sem sífellt verður opnari og tæknilega samofnari, gerir ríkari kröfu á hendur okkur en fyrr, að haga okkar innri málum skynsamlega. Hraðinn í alþjóðaviðskiptum verður sífellt meiri og þeir svifaseinu eiga á hættu að sitja eftir, hvort sem um ræðir einstök fyrirtæki eða heil hagkerfi. Frumkvöðlar og snarpir athafnamenn skipa stærri sess en fyrr. Mörg af stærri fyrirtækjum Bandaríkjanna voru ekki til fyrir áratug síðan. Á Íslandi fjölgaði nýskráningum fyrirtækja á tímabilinu 1995 til 1999 um 127%. Þessi öra nýsköpun er af ýmsum toga, svo sem í rekstrarráðgjöf, mannvirkjagerð, rekstri eignahaldsfélaga, hugbúnaðargerð, tækniráðgjöf, veitingarekstri og líftækni. Samkvæmt nýrri skýrslu, sem gerð var fyrir World Economic Forum, er Ísland nú í þriðja sæti í heiminum yfir þau ríki sem auðveldast er að setja á fót nýjan rekstur. Slíku samkeppnisforskoti þurfa stjórnvöld að leitast við að viðhalda, og helst auka í samvinnu við athafnalífið og samtök þess.
Þannig getum við betur tekið fullan þátt í auknum alþjóðlegum viðskiptum. Við eigum til að mynda að nýta næstu samningalotu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að auka aðgang okkar að nýjum mörkuðum. Á móti þurfum við vissulega að slaka til með öðrum þjóðum í innflutningi matvæla. Tollavernd fyrir íslenskan landbúnað og styrkir honum til handa hafa farið jafnt og þétt minnkandi. Við megum þó ekki vera of óþolinmóð í því efni. Minnumst þess að íslenskir bændur hafa verið að laga sig að aukinni samkeppni á undanförnum árum og sinna neytendum sífellt betur. Ég held að fæstir Íslendingar vilji svipta bændur öllu skjóli á einni nóttu.
Góðir þinggestir.
Hinn íslenski verðbréfamarkaður er barnungur, en í örum vexti. Vart líður sá dagur að ekki séu fyrirferðamiklar fréttir í fjölmiðlum, um þróun hlutabréfa þessa eða hins fyrirtækisins. Sífellt fleiri heimili í landinu taka þátt á þessum markaði, þótt í mismiklum mæli sé. Þetta er jákvæð þróun sem stjórnvöld hafa markvisst ýtt undir. Markmiðið er að sem stærstur hluti þjóðarinnar eigi þannig aðild að atvinnurekstri í einhverri mynd. Mikilvægt er þó að fagmenn minni leikmenn á að hlutabréf hækka ekki alltaf í verði, heldur lækka stundum. Varast ber að draga upp þá mynd af hlutabréfamarkaðinum að hann sé eins konar eilífðarvél sem sífellt skapi aukinn auð. Gullæðið fékk á sínum tíma heldur snautlegan endi.
Hinn öri vöxtur viðskipta með bréf af ýmsu tagi hefur einnig leitt í ljós að við eigum ýmislegt ólært. Ekki þá svo mjög í flóknum fræðum fjármálanna, þar er hæfileikafólk okkar fljótt að læra. Fremur þurfum við að taka á okkur rögg á hálu svelli freistinganna, þegar stórar fjárhæðir streyma allt í kringum okkur og hagsmunaskörunin er hvívetna. Ég hóf á síðasta ári að ræða um siðferði á fjármálamarkaði. Fram kom að tiltekið fyrirtæki ráðlagði viðskiptavinum sínum að selja ákveðin bréf jafn harðan og þau voru keypt fyrir þá. Ekki er neitt við það að athuga, heldur hitt að kúnnarnir voru ekki upplýstir um, að það væri fyrirtækið sjálft sem ætti lífið að leysa við að kaupa sömu bréf af þeim eða öðrum. Síðar margfölduðust bréf þessi í verði. Öll önnur fyrirtæki á markaðinum höfðu einmitt ráðlagt viðskiptavinum sínum á gagnstæða vegu en þarna var gert.
Þetta var óvenju skýrt dæmi um vafasama viðskiptahætti. Þó er það enginn allsherjardómur yfir því fyrirtæki. Önnur fjármálafyrirtæki hafa heldur ekki algerlega hreinan skjöld í viðskiptasögu sinni. Víða má finna grá svæði í starfsemi undanfarinna missera. Sú almenna umræða sem átt hefur sér stað um verklagsreglur, innherjaviðskipti, undanþágur, upplýsingagjöf og siðgæði á fjármálamarkaði hefur staðfest að ekki sjást allir fyrir í fjármálavafstrinu. Vonandi leiðir umræðan til þess að fyrirtækin, og þeir starfsmenn sem eru í lykilstöðu og bera þyngstu siðferðisbyrðina, hagi störfum sínum hér eftir þannig að yfir vafa sé hafið. Hitt væri verra ef afleiðingin yrði einungis kattarþvottur, vegna einfaldra atriða sem í hámæli hafa komist. Verst af öllu væri ef almennrar tortryggni færi að gæta á markaðinum. Þá gæti góður árangur og mikil uppbygging farið fyrir lítið á skömmum tíma.
Á meðan hlutabréf hækka svo almennt í verði sem nú, eru minni líkur á því en ella að einstakir viðskiptamenn fjármálafyrirtækjanna tapi beinlínis háum upphæðum á hinni meintu vafasömu iðju í þessum geira, heldur hagnist þá frekar nokkuð minna en mögulegt hefði verið. Ef markaðurinn tæki hins vegar dýfu, sem ávallt getur gerst, má gera ráð fyrir að þeir sem teldu sig eiga um sárt að binda af þeim sökum færu að leita að sökudólgum. Í lok níunda áratugarins í Bandaríkjunum reis svo hátt bylgja sakbendinga af því tagi að líkja má við nornaveiðar.
Þessi markaður hefur því enn öll tækifæri til að taka sér tak, svo hann þroskist áfram og þróist, og njóti varanlegs trausts, þá einnig við aðstæður sem ekki eru jafn gjöfular og nú. Innherjum í fjármálaviðskiptum mun fjölga stöðugt á næstu árum, til að mynda vegna kjarabóta í formi vilnana og kaupréttar. Þetta er jákvæð þróun, sem ríkið þarf að gæta að hindra ekki með skattareglum. Framvinda þessi er hins vegar enn ein ástæða fyrir fyrirtæki til að koma skikk á viðskipti innherja, svo sérstakar upplýsingar slíkra aðila og aðgerðir þeirra á þeim forsendum, rýri ekki verðgildi eigna hins hefðbundna þátttakanda á markaðinum. Það væri slysalegt ef okkur tækist ekki treysta fjármálageirann þannig í sessi að hann fengi ekki að halda áfram að stuðla að hagræðingu í íslensku atvinnulífi, með sínu markvissa og óvægna aðhaldi að fyrirtækjastjórnendum.
Góðir gestir.
Umræðan um sjávarútvegsmál hefur aukist á ný að undanförnu. Reyndar er hún ekki jafn almenn og oft áður, heldur leika stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir áberandi einstaklingar þar stærst hlutverk. Umræðan snýst helst um tvennt. Annars vegar um svokallaðan Vatnseyrardóm, en mál það er nú til lögformlegrar meðferðar í Hæstarétti. Hins vegar um sölu Þorsteins Vilhelmssonar, útgerðarmanns, á hlutabréfum sínum í hinum norðlenska máttarstólpa Samherja.
Um þá aðgerð hafa mörg stór orð fallið. Sætir nokkurri furðu hversu langt ýmsir vilja ganga í að ala á óánægju með sjávarútveginn í heild sinni vegna þessa einstaka máls. Engar nýjar upplýsingar komu þó fram við þessu sölu. Árum saman, áður en hún fór fram, voru þær upplýsingar opinberar, að þessi útgerðarmaður ætti vissan fjölda hlutabréfa í fyrirtækinu. Ekki var heldur leyndarmál hverjar væntingar til fyrirtækisins voru og hvert gengi bréfanna var. Fylgjast mátti með verðþróun þeirra dag frá degi. Það eina sem átti sér stað var að verðmætum, sem fólust í hlutabréfum í sjávarútvegi, var breytt í verðmæti, sem felast í peningum, og þeim breytt aftur í verðmæti í sjávarútvegi. Það var allt hneykslið. Mér er til efs að krossfarar í fjölmiðlaheiminum hefðu gert nokkuð úr málinu ef bréfunum hefði verið skipt beint út fyrir hlutabréf í öðrum fyrirtækjum, það er ef bréfin hefðu hvergi komið fram á formi peninga á ferð sinni um fjármálaheiminn.
Eins var fullyrt í hneykslunartón að þarna væri fé að streyma út úr greininni, eins og það var orðað, svona til að bæta gráu ofan á svart. Öðruvísi mér áður brá, því öfundarmenn sjávarútvegs fullyrtu árum saman að helsti ókostur greinarinnar væri sá að ekki streymdi nægilegt fé úr honum í aðra atvinnustarfsemi. En í þessu tilfelli var þó ekki um slíkan fjárstraum úr sjávarútvegi að ræða, og þannig eru gagnrýnendurnir komnir gjörsamlega í hring. Fram kom einmitt að Þorsteinn Vilhelmsson hyggst nota söluverðmætið til að fjárfesta í sjávarútvegi. Nettóniðurstaðan er því einungis sú að milljarðar hafa streymt inn í sjávarútveginn við þessa sölu, frá nýliðum sem viljugir eru til að hætta fé sínu í þessari áhættusömu en spennandi grein. Íslenska þjóðin þurfti ekki að greiða eina krónu vegna þessara viðskipta, og fór ekki mis við neitt sem hún áður hafði. Þvert á móti nýtur hún góðs að athafnamennskunni, viðskiptatækifærunum, verðmætasköpuninni og atvinnutækifærunum.
Þetta mál sýnir í hnotskurn við hvaða vanda er að etja þegar leitað er leiða til ná betri sátt um sjávarútvegsmál. Þegar hagkvæm fiskveiðistjórnun leiðir til verðmætasköpunar sem aftur leiðir til fjárfestingar á nýjum sviðum sjávarútvegs, þá er það lagt út á versta veg. Þegar hagkvæm fiskveiðistjórnun leiðir til verðmætasköpunar sem aftur leiðir til fjárfestingar á öðrum sviðum en í sjávarútvegi, þá er það einnig sérstakt umkvörtunarefni. Verst virðist þó vera ef fé, sem safnast hefur fyrir í öðrum atvinnugreinum, er notað til að fjárfesta í sjávarútvegi. Hagsmunirnir eru svo gagnverkandi og sjónarmiðin svo mismunandi að svo virðist sem engin sátt geti tekist um neitt nema það að allir eigi jafnlítið. Sæl er sameiginleg eymd, segja sumir. Í kjölfar atburða undanfarinna vikna hafa reyndar komið fram tillögur sem mundu stuðla að því hratt og markvisst, yrðu þær að veruleika, að hin umdeildu verðmæti rýrnuðu og þrætueplið hyrfi. Slík sátt eymdarinnar er þó vitaskuld ekki eftirsóknarverð, enda myndi hún ekki vara lengi. Af tvennu illu tel ég núverandi ósætti betra.
Ég held að á næstunni sé mest um vert að anda rólega og fara sér hægt. Sáttargjörð meðal þjóðarinnar um sjávarútvegsmál gengur ekki út á að ná sátt við þá sem mestum gífuryrðum beita og rangla rökheldir um í rugli sínu. Sáttin verður að felast í því að þjóðin finni með beinum og óbeinum hætti hvernig auðlindin nýtist henni sem best. Það er með öðrum orðum ekki hægt að ímynda sér neina sátt aðra en þá sem örugglega er í þjóðarþágu.
Góðir gestir.
Í hönd fara spennandi en örlítið viðsjárverðir tímar á fjölmörgum sviðum atvinnulífs okkar Íslendinga. Vegna starfs míns umgengst ég töluverðan hóp fólks sem sér vandamál í hverju horni og virðast beinlínis þrífast á því. Þeim sömu stendur ógn af danska máltækinu sem segir að ekki séu til nein vandamál, einungis mis erfið verkefni. Það er hið rétta hugarfar, og frændum okkar líkt. Nú liggur fyrir að fást við verkefni á borð við þau sem ég hef lýst hér á undan. Takist okkur, stjórnvöldum og atvinnulífi, sæmilega upp er ég viss um að yfirskrift þessa Viðskiptaþings er langt frá því að vera úr lausu lofti gripin.
Íslensk fyrirtæki hafa staðið sig afar vel að undanförnu og skilað eigendum sínum, sem verða æ fleiri, góðum ávinningi og styrkt þjóðarbúið allt. Ég hef því mikla trú á því að þau geti enn um langa hríð verið í fararbroddi og skipað sér í sæti meðal hinna bestu.