17. júní 2000
Ávarp forsætisráðherra Davíðs Oddssonar
17. júní 2000
Góðir Íslendingar.
Nokkurs óróa hefur gætt í umræðum um efnahagsmál að undanförnu og hefur jafnvel örlað á full glannalegum spám um þau. Margt bendir þó til að þar sé að færast meiri kyrrð yfir. Sjávarútvegsráðherra tilkynnti s.l. fimmtudag um ákvörðun sína um aflamark mikilvægustu fiskistofna okkar á næsta fiskveiðiári. Með því er lokið óvissu um einn mikilvægasta þátt efnahagslífsins. Afli mun dragast saman eitt fiskveiðiár, en gangi langtímaáætlanir fiskifræðinga eftir mun hann síðan vaxa á ný.
Upplýsingar fræðimanna báru með sér að þótt ákveðið yrði óbreytt aflamark myndi veiðistofninn engu að síður halda áfram að vaxa. Aflaákvörðunin fól því í sér sjálfsagða varúð en um leið var ákveðið að fylgja næstu árin reglu sem leiða á til öruggs vaxtar en jafnframt er dregið úr sveiflum í veiði, sem hafa óholl áhrif á efnahagsþróun til skemmri tíma. Ekki er með neinum hætti gengið á svig við vísindalega aðferðafræði með þessu fyrirkomulagi.
Vegna þessarar ákvörðunar munu þjóðartekjur dragast örlítið saman, en á móti kemur að mjög góður gangur er í öðrum þáttum efnahagsstarfseminnar. Sérstaklega má nefna nýlegan samning um stækkun álversins á Grundartanga. Sú stækkun mun hafa varanleg, jákvæð áhrif á efnahagslífið meðan aflaskerðingin á að ganga til baka strax á næsta ári. Þá er það gleðilegt að verðbólga er nú að minnka og hefur verðlag þannig hækkað mun minna s.l. tvo mánuði en gerðist í sömu mánuðum fyrir ári. Vísitala fasteignaverðs í fjölbýli lækkaði í maí mánuði í fyrsta sinn í langan tíma en einsog kunnugt er, hafa fasteigna- og olíuverðshækkanir aðallega ýtt undir verðbólgu hér á landi. Undirliggjandi verðbólga að þessum liðum frátöldum er á hinn bóginn lítil eða aðeins um 1,5 - 2,0 prósent. Þar sem fasteignaverð virðist nú hafa náð hámarki og fráleitt er talið að heimsmarkaðsverð á olíuvörum hækki enn frekar, eru allar líkur á að úr verðbólgu dragi ört á næstu mánuðum og misserum.
Þótt hinn íslenski markaður sé að sönnu smár, er hann lifandi og eftirtektarsamur og bregst hratt við breytingum á efnahagsstarfseminni. Þótt svo snör viðbrögð geti vissulega ýkt nokkuð niðurstöður til skamms tíma, þá er viðbragðshraði markaðarins í eðli sínu jákvæður og holl og góð breyting frá því handstýrða hagkerfi sem við áður burðuðumst með. Síðustu tíu ár hafa verið mesta umbreytingarskeið í þessu efni og mun umfangsmeira og fjölþættara en síðasta slíkt skeið, viðreisnarárin svonefndu frá 1960-1970.
Hið íslenska lýðveldi er ungt. Við höldum nú upp á 56. afmælisdag þess. Þeir 130 þúsund Íslendingar sem stofnuðu til lýðveldis árið 1944 ættu flestum öðrum fremur skilið að fá sameiginlega mestu bjartsýnisverðlaun sem hægt væri að veita. Heimsstyrjöld var enn ólokið og landið hersetið. Ráð þjóðarinnar í utanríkis- og öryggismálum höfðu verið af henni hrifin á einni nóttu. Meginstefnan, hlutleysið, hafði reynst hjóm eitt. Atvinnulífið var afar einhæft. Vega- og samgöngukerfi var enn á frumstigi. Húsakostur var víða hörmulegur og tækjabúnaður atvinnulífsins á lágu stigi. En þjóðin lét ekki þessar óburðugu aðstæður á sig fá og lagði ótrauð út í óvissuna, sameinaðri um þá ákvörðun en um nokkurt annað mál fyrr og síðar. Til eru ummæli þekktra fræðimanna erlendra, sem hliðhollir voru Íslendingum en töldu kröfu smáþjóðarinnar um fullt sjálfstæði hálfgert óráðshjal. En hvernig hefur úr ræst má spyrja? Þjóðinni hefur fjölgað um helming á þessum 56 árum. Engin þjóð er tæknivæddari en þessi og engin nýjungagjarnari í þeim efnum en hún. Sífellt fjölgar stoðunum undir hinum íslenska efnahag og fjölbreytni atvinnulífsins eykst dag frá degi. Í samkeppni á veraldarvísu munu úrslit ráðast af því hversu fljótt þjóðir geta tileinkað sér nýja þekkingu og gert hana að markaðsvöru. Dæmin hafa þegar sýnt að þar stöndum við vel að vígi. Okkur er því ekkert að vanbúnaði nú, en hljótum að mæta nýrri öld full bjartsýni og kjarks. Sá mikli árangur sem náðst hefur s.l. 56 ár er fyrsta ágætis einkunn til þess framsýna fólks sem stofnaði til lýðveldis á Íslandi. Við skulum halda merki þess myndarlega á lofti á næstu árum og áratugum. Til þess höfum við alla burði og umfram allt alla skyldu.
Þótt þjóðin hafi að lokum staðið undra þétt saman í sjálfstæðismálinu, þá hafði ekkert eitt mál annað ýtt jafnmikið undir sundurþykkju meðal hennar og það, og brigsl og svigurmæli mætustu manna, hvers í annars garð, voru oft með ólíkindum. Allir unnu að sama marki en mikil tortryggni ríkti um baráttuaðferðir og leiðir. Sama gildir enn, þótt nokkuð hafi dregið úr stóryrðum. Stundum mætti helst ráða það af umræðunni að við stjórnmálamennirnir séum sannfærðir um að flest orð og flestar gerðir þeirra sem öndvert standa séu allt að því af annarlegri rót runnið. Auðvitað er það ekki svo. En það liggur í eðli stjórnmálabaráttunnar að menn stilla upp andstæðum og gera sem mest úr því sem á milli ber, enda þarfnast það sem er ágreiningslaust ekki skýringa. Þjóðin þarf þó ekki að velkjast í vafa um að kjörnir fulltrúar hennar beri hag hennar fyrir brjósti, hvar sem þeim er skipað í flokka og hvort sem þeir eru innan eða utan stjórnar hverju sinni. Það hefur lengi tíðkast að tala af óvirðingu um störf þingmanna og saka þá um að stunda innihaldslaust jag og kjaftagang. Og sjálfsagt erum við þingmenn ekki alveg saklausir í þeim efnum. En umræðan, gagnrýnin og hinar pólitísku skylmingar hafa mikið gildi fyrir lýðræðislega málsmeðferð. Því er það ekki rétt að skerða mun meira en orðið er þann þátt í starfsemi löggjafarþingsins.
Góðir Íslendingar.
Þjóðin, sem stóð sem einn maður að stofnun lýðveldis árið 1944, var áreiðanlega ekki með einn og sama drauminn um hvað sá atburður myndi þýða fyrir Íslendinga. Þetta hefur ekkert breyst. Enn er misjafn tilgangurinn sem fyrir okkur vakir. Öll viljum við þó að þjóðin nái efnahagslegum árangri. En við deilum um hve langt megi seilast til að ná þeim árangri. Við erum vonandi flest sátt við að náunga okkar vegni vel við í fjárhagslegum efnum. En á sama tíma ætlumst við til þess að réttra leikreglna sé gætt og óhófsæði eins skaði ekki annan. Jónas Hallgrímsson sagði mikilvægt að menn gleðji sig hóflega við heimsins gæði, einungis misbrúkunin sé varasöm. En þar sem "hófleg nautn heimsins gæða" sé leyfileg sé meðalhófið vandratað eins og segir í nýrri afbragðs ævisögu skáldsins. Jónas Hallgrímsson leysti þennan vanda fyrir sitt leyti með því að koma sér upp svofelldri reglu: "Aldrei að gjöra eftirsókn nokkurra jarðneskra muna að lífsins höfuðaugnamiði."
Að þessu skulum við hyggja. Við skulum hvergi slaka á í baráttunni fyrir bættum kjörum þjóðarinnar, en gæta þess að missa ekki sjónar af því sem mikilvægast er. Við skulum gleðjast hóflega við heimsins gæði og forðast að skilja þá eftir sem sækist hægara en öðrum af ýmsum ástæðum. Því ef við getum einhvern lærdóm dregið af þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944 þá er hann þessi: Okkur vegnar best þegar við höldum hópinn.
Góðir Íslendingar, nær og fjær, gleðilega þjóðhátíð.