70 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands
70 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands
Þingvellir 27. júní 2000
Góðir áheyrendur,
Sagan, bæði gömul og ný, sýnir að Ísland er harðbýlt land og æði er þar misviðrasamt. Jarðeldar og jarðskjálftar, stórviðri og stormar, fannfergi og snjóflóð, hafa þó ekki dugað til að draga allan kjark úr þjóðinni. Það er vegna þess m.a. að Ísland á sér aðra hlið og er sú bæði brosmild og blíð og landið er undurfagurt, þegar það skartar sínu fegursta og ægifagurt á öðrum stundum. Lega landsins liggur fyrir, eins og karlinn sagði og verður ekki um þokað. Henni fylgdi margra alda einangrun þjóðarinnar, en með í kaupunum var sú dulda blessun að fyrstu ár Íslandsbyggðar fengum við að vera í sæmilegum friði fyrir ágangi konunga og illræðismanna. Þá var þjóðveldi á Íslandi og ein lög giltu um alla og einstaklingar fengu sæmilega að njóta sín, ólíkt því sem þá gilti annars staðar í Evrópu. Er þessi þáttur í sögu okkar fræðimönnum sífellt undrunar- og rannsóknarefni. Á þeirri tíð hófst ritun Íslendingasagna og annarra fornbókmennta okkar sem eru ekki síður einstakar í Evrópu.
Við kölluðum því þessa tíma gullöld. En víst vitum við vel að ekki var þó öll okkar tilvera þá gulli slegin. Ein skuggahliðin var sú, að illa var um landið hirt. Rányrkja var stunduð, landið beitt langt umfram það sem hollt var og skógum var eytt.
En þótt við fáum að sönnu engu þokað um legu landsins og séum nokkuð varnarlítil gagnvart þeim öflum sem veðrinu stjórna þá eru okkur ekki allar bjargir bannaðar. Við getum ekki bara hlíft gróðrinum, við getum beinlínis létt undir lífsbaráttu hans. Land getum við grætt og skóg getum við ræktað. Þjóðveldistímamönnum var vorkunn. Þeir sáu enga leið aðra til að sjá sér og sínum farborða en að ganga nærri náttúrunni. Okkar hagur er nú allur annar. Og okkur nægir ekki að nema staðar, við þurfum að ganga brautina til baka og bæta landinu það sem af því var tekið.
Aldamótakynslóðin síðasta, sú sem fyrst fékk að takast á við íslensk mál á eigin ábyrgð, taldi það eitt höfuðverkefni sitt að hefja landgræðslu og skógrækt á Íslandi. Það er engin tilviljun. Og það var heldur engin tilviljun að skáld aldamótanna, eins og Guðmundur skólaskáld, Þorsteinn Gíslason, Einar Benediktsson og Hannes Hafstein ortu allir um Ísland viði vaxið og höfðu þá fyrir sér orð Ara fróða.
Einar, eldhuginn mikli, sá fyrir sér hvernig mætti virkja voldug fallvötn landsins og vinna áburð úr lofti til að græða upp landið. Hann orðaði það svo:
"Og frjómögn lofts má draga að blómi og björk
já, búning hitans sníða úr jökuls klæðum."
já, búning hitans sníða úr jökuls klæðum."
Og í hinu fræga aldamótaljóði Hannesar Hafstein, sem hann yrkir í árslok 1900 segir, að sú komi tíð, að menning vaxi í lundi nýrra skóga. Þar setur hann skógrækt við hlið hugsjóna eins og þeirra, að verslunin færist inn í landið,
fossar séu virkjaðir, atvinnulíf vélvætt og svo framvegis.
Tuttugasta öldin varð öld réttindanna á Íslandi. Það var fyrst þá, eftir tæplega 11 alda búsetu að erlendir menn hættu að draga í efa að við værum einfær um að fara með okkar mál. Þá eignuðumst við fyrst endanlega landið og miðin.
En við höfum ekki bara eignast landið - það eignarhald er gagnkvæmt eins og skáldið minnir á þegar það segir:
"En þú átt að muna
alla tilveruna
að þetta land á þig."
En skyldur okkar við landið verða ekki dregnar af þröngum íhaldssjónarmiðum. Það eru ekki nægjanleg rök ein og sér fyrir skógrækt að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru, þá þeir Ingólfur Arnarson staðfestust hér. Enda eru viðbótarrökin mörg og góð. Þau eru í fyrsta lagi, að hér geta vel verið skilyrði fyrir nytjaskógi. Þótt landið sé vissulega harðbýlt og misviðrasamt, er það feikistórt á mælikvarða Evrópuþjóða. Mörg svæði á Íslandi eru til þess fallin að rækta þar nytjaskóg, þar sem afrakstur á hvern ferkílómetra verður ef til vill ekki eins mikill og annars staðar í álfunni, en þarf ekki heldur að verða svo mikill, því að þrátt fyrir allt er þetta besti landnýtingarkosturinn á þessum svæðum. Í öðru lagi styður skógur á Íslandi landgræðslu og aðra ræktun, því að hann bindur landið og bætir jarðveg. Það veitir viðkvæmum jurtum skjól fyrir veðrum og vindum. Þriðja sjónarmiðið er fagurfræðilegt. Það er, að landið sé blátt áfram fallegra, sé það viði vaxið. Við Íslendingar eigum nóg af hrikalegum fjöllum, jöklum og berangri. En við eigum ekki nóg af grænu skóglendi, sem setur notalegan svip á umhverfið, mildar ásýnd landsins, sem getur stundum verið fullhryssingsleg. Það, sem gerir landið fallegt, er samleikur hvítra jökla, blárra fjalla, grænna grunda, tærra vatna og síðast, en ekki síst, skóganna. Tré eru í íslensku landslagi eins og krydd í mat, - það, sem ræður úrslitum um, að heildarsamræmi sé, jafnvægi á milli margra ólíkra þátta. Fegurð er ekki síst fólgin í hæfilegum hlutföllum, og til þess að tryggja þau er skógur nauðsynlegur. Skógur hækkar hitafar svo vel mælanlegt er og hlýtur það að vega nokkuð í þessari umræðu.
Sjálfur tel ég, að eitt sjónarmið í viðbót sé mikilvægt. Skógrækt getur ekki aðeins verið ábatasöm, nauðsynleg til stuðnings öðrum gróðri og fegurðarauki. Hún er líka tilgangur í sjálfum sér. Sjálfur hef ég átt margar mínar bestu stundir við skógrækt nærri sumarbústað, sem við hjónin eigum. Ég veit fátt skemmtilegra en að sjá smám saman verka minna stað, finna líf spretta og stækka fyrir atbeina okkar hjóna. Ein hrísla er gróðursett, tvær, þrjár, fjórar, margar fleiri og allt virðist það harla brotakennt og brösugt og oftar en ekki endalaus vonbrigði. En einn góðan veðurdag er allt í einu kominn dálítill lundur, sem maður, vegna heilbrigðs skorts á lítillæti, kallar skóg. Í skógrækt á Íslandi finnur sköpunarþörf mannsins sér viðspyrnu, sem er hæfilega erfið til eflingar, en ekki svo erfið að hann missi móðinn. Það er umhugsunarefni, að orðin "gróði" og "gróður" eru samstofna. Bæði þessi orð vísa til þess, að hlutir geti vaxið og dafnað, meira geti orðið til úr minna. Sköpun nýrra verðmæta, ekki tilfærsla gamalla verðmæta, er öllum ávinningur. Hið sama er að segja um gróður jarðar. Þegar við hlúum að honum, erum við að skapa eitthvað nýtt. Það færir okkur þess vegna gleði og lífsfyllingu. Við finnum kröftum okkar farveg í jákvæðu starfi, við sjáum eitthvað gott af okkur leiða. Sköpunarmáttur og sköpunarþörf mannsins snúa ekki aðeins að rekstri fyrirtækja, heldur að sífelldri viðleitni til að bæta, prýða og fegra umhverfi okkar. Skógrækt er umfram allt sköpun. Þetta eru sterkustu rökin í mínum huga fyrir skógrækt og það er þess vegna, sem ég lít svo á að það sé mikið sæmdarheiti fyrir sérhvern mann, að kallast skógræktarmaður.