Víkingaskipið Íslendingur heldur utan
Ávarp fosætisráðherra við brottför víkingaskipsins Íslendings
17. júní 2000
Góðir gestir.
Fyrir rúmlega ellefu hundruð árum kom skip líkt og það sem hér er farbúið hingað til lands með landnámsmanninn Ingólf Arnarson, búsmala hans og nauðsynjar. Hin stórmerku víkingaskip voru ekki aðeins ein helsta undirstaða norrænnar víkingamenningar, sem byggði á verslun og viðskiptum landa á milli, heldur voru þau grundvöllur þess að Ísland byggðist. Og ekki aðeins Ísland - á skipum eins og þessum var haldið enn lengra út á hafið fyrir um þúsund árum - þá sigldu menn frá Íslandi fyrst til Gænlands og þaðan alla leið til Vínlands, til Norður-Ameríku.
Á þessu ári minnumst við þessara sögulegu viðburða. Við Íslendingar gerum það með myndarlegum og fjölbreytilegum hætti og í samvinnu við vina og frændþjóðir okkar í vesturheimi, Kanadamenn og Bandaríkjamenn. Í afrekum Leifs Eiríkssonar, Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur tengist saga okkar, og saga þeirra á heillandi og óvæntan hátt. Við Íslendingar stærum okkur ekki af því að hafa fundið Ameríku, en við tökum þátt í því að minnast þess að fyrir þúsund árum hittust í fyrsta sinn Evrópumenn og Ameríkumenn, og við komum þar við sögu. Íslendingasögurnar greina frá þessum viðburðum og nú á síðustu árum og áratugum hafa fornleifafræðingar og aðrir vísindamenn rennt enn frekari stoðum undir þær frásagnir.
Gunnar Marel Eggertsson er ekki vísindamaður í hefðbundnum skilningi. Hann er sjómaður og skipasmiður, en rannsóknir hans og endurgerð víkingaskips eru mikilvæg fyrir skilning sögunnar. Fyrir frumkvæði hans, vitum við í dag miklu meira um sjóhæfni víkingaskipanna og skiljum betur sjóferðasögu fornaldar. Nú leggur Gunnar og áhöfn hans í langa og stranga ferð og hún mun skilja eftir sig fróðleik og aukin skilning á ferðamáta á landnámstímum.
Siglingin er einnig farin til að vekja athygli á landi og þjóð. Íslendingur mun hafa viðkomu í um 20 borgum og bæjum í Grænlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og hvarvetna hafa verið skipulagðir margskonar viðburðir í samvinnu við heimamenn á hverjum stað, sem hafa það að markmiði að kynna Ísland - sögu okkar og menningu. Gunnar Marel og áhöfn hans, hafa þar lykilhlutverki að gegna, munu án vafa verða þjóðinni allri til mikils sóma í því starfi.
Einn hápunkta ferðarinnar verður í L"Anse aux Meadows á Nýfundnalandi, þann 28. júlí, þegar Íslendingur kemur fyrst að ströndum Kanada, en á þeim stað eru einu minjar svo kunnugt sé um byggð norænna manna í Vesturheimi - stundum nefndar Leifsbúðir. Gott samstarf hefur tekist við stjórnvöld á Nýfundnalandi um móttöku skipsins þar með viðamikilli dagskrá.
Í vetur voru kynntar niðurstöður merkra rannsókna sem sýndu fram á að jaspis steinar, sem notaðir voru þar fyrir þúsund árum til að kveikja elda í L"Anse aux Meadows, komu frá vesturhluta Íslands. Mig langar því að biðja Gunnar Marel og áhöfn hans að gera líkt og þeir Leifur gerðu, að taka með sér íslenskan jaspis yfir hafið. Fyrir þúsund árum slógu menn stáli við þennan stein til að kveikja neista, nú vonandi yljar það ykkur að hafa þennan hluta fósturjarðarinnar meðferðis.
Áhöfn Íslendings á erfitt starf fyrir höndum næstu fjóra mánuði. Þeim fylgja heillaóskir íslensku þjóðarinnar á ferðalagi sínu. Það verður fylgst náið með siglingunni.