Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2000 HeilbrigðisráðuneytiðIngibjög Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra 1995-2001

Ræða á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins



Ræða heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins
13. október 2000

Ágætu ársfundargestir - ágætu starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins. Það er vel við hæfi að stjórnendur TR skuli setja lyf, lyfjakostnað og atvinnusjúkdóma efst á dagskrá þessa fundar.

Ég fagna sérstaklega þessari umræðu. Rannsóknir á atvinnusjúkdómum, slysaskráning, heilsufar tiltekinna starfs-og þjóðfélagshópa, allt eru þetta fyrirbæri sem við vitum minna um en aðrar þjóðir, sem nú leggja megin áherslu á lýðheilsurannsóknir og forvarnir til að koma í veg fyrir að fólk veikist. Þessa leið eigum við líka að fara.

Markmiðið er í fyrsta lagi heilbrigði fyrir alla - helst alla ævina, og ekki síður, að draga úr útgjaldavextinum í heilbrigðiskerfinu.

Þjóð sem er við góða heilsu fram á efri ár hún dregur verulega úr útgjöldum til heilbrigðismála. Þannig eigum við að draga úr útgjöldum framtíðarinnar.

Við höfum skiljanlega einblínt lækningarnar, enda stöndum við okkur býsna vel á því sviði, en á nýrri öld snýst heilbrigðisþjónusta ekki aðeins um að lækna og líkna fljótt og vel.

Heilbrigðisþjónusta framtíðarinnar mun í vaxandi mæli snúast um, að koma í veg fyrir að einstaklingarnir veikist og reyna tryggja að þeir séu heilsuhraustir langt fram á efri ár.

Það er hagur einstaklinganna, það er hagur atvinnufyrirtækjanna og hagur alls samfélagsins. Fyrir svo sem eins og þremur áratugum komust atvinnurekendur og vekalýðshreyfing að gagnmerku samkomulagi í lífeyristryggingamálum, en til þess má rekja uppbyggingu lífeyrissjóðanna, sem verður mikilvægari eftir því sem árin líða og mun að öllum líkindum verða til þess, að íslenska velferðarkerfið stendur, þegar önnur sligast.

Ég held að einmitt nú sé bæði tímabært og afar mikilvægt að faghópar, samtök atvinnurekenda og hin almenna verkalýðshreyfing reyni í samráði við heilbrigðisyfirvöld, að ná sátt um þróun heilbrigðisþjónustunnar til langrar framtíðar, líkt og gert var á tryggingasviðinu fyrir þremur áratugum. Og ég er reiðubúin að leggja mitt af mörkum til að kanna, hvort áhugi er á slíku samstarfi.

Góð heilbrigðisþjónusta er kjaramál og svo snar þáttur í samfélagsþróuninni og samkeppnishæfni í alþjóðlegum umhverfi, að um hana þarf að ríkja sátt. Til þess að svo megi verða áfram þurfa við að hlusta á öll sjónarmið.

Ágætu ársfundargestir.
Flest þekkjum við nokkuð til rithöfundarins, Isabellu Allénde. Fyrir skemmstu sá ég hana í sjónvarpi segja frá sorginni, sem helltist yfir hana þegar hún missti dóttur sína unga. Henni leið svo illa við að hún gat ekki skrifað og var að gefast upp. Hún leitaði sér aðstoðar sálfræðinga og hún hámaði í sig geðdeyfðarlyf, en allt kom fyrir ekki. Harmurinn minnkaði ekki við það.

Hún sagði svo frá því, að móðir hennar hefði fylgst með sér: "Og þegar sorgin var alveg að ganga frá mér þá benti móðir mín mér á það", sagði Ísabella í sjónvarpinu, að sorgin væri eins og gleðin, hluti af lífinu.

Móðir hennar bætti svo við: Við læknum ekki sorgin með lyfjum Ísabella. Við verðum að takast á við hana, og hún mun ætíð fylgja okkur, en við getum unnið úr henni.

Það var þetta sem bjargaði mér, sagði þessi stórkostlegi rithöfundur.

Ég nefni þetta hér til að undirstrika, að það eru margar hliðar á lyfjanotkuninni, sem hér er sett efst á dagskrá.

Lyf hafa reynst afar vel í heilbrigðisþjónustunni og eru oftar en ekki virkasta læknisaðgerðin. Lyf eru lífsnauðsynleg í heilbrigðisþjónustunni. Við megum aldrei gleyma því.

En læknar verða að sýna fulla klíniska ábyrgð þegar þeir ávísa á lyfin og við, almenningur, við verðum líka að átta okkur á, að lyf leysa ekki allan heimsins vanda. Hér er ég fyrst og fremst að tala um hin svokölluðu "lífsstíls-lyf". Við verðum við að læra að greina á milli markaðssetningar og þess sem við þurfum á að halda.

Í þessu sambandi dreg ég það til dæmis mjög í efa, að tiltekið stinningarlyf sé allra meina bót hjá öllum þeim körlum sem telja sig vera farna að slakna eitthvað.

Verða menn ekki bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, að andlegur og líkamlegur styrkur fer ekki alltaf saman alveg fram í andlátið?

Stundum þurfum við, og stundum getum við nefnilega sigrast á erfiðleikum okkar ein og óstudd - án lyfja. Einmitt á þeim sviðum megum við ekki halda að lyf bjargi öllu.

Lyfin eru til að lækna sjúkdóma og bæta líðan á þann hátt sem við getum ekki sjálf.

Í þessu sambandi bið ég menn að íhuga, að eftir því sem kröfurnar um almenna greiðsluþátttöku í öllum lyfjum, verða háværari og eftir því sem heilbrigðisyfirvöld samþykkja að taka þátt í greiðslu fleiri tískulyfja, þeim mun minna höfum við úr að spila til að greiða niður lyfin fyrir þá sem mest þurfa á þeim að halda. Hér verða allir að leggjast á eitt: Læknar, almenningur og heilbrigðisyfirvöld.



Ágætu ársfundarfulltrúar.
Lyfjanotkun á Íslandi hefur aukist um 36 af hundraði á áratug og söluverðmæti allra lyfja hefur rúmlega tvöfaldast á sama árabili á verðlagi hvers árs. Miðað við hámarksverð notuðum við ríflega níu milljarða í lyf á liðnu ári og kostnaður Tryggingastofnunar er hátt á fimmta milljarða á ári vegna lyfjanna einna.

Tölurnar segja að vísu ekki nema hálfan sannleikanna í þessu sambandi vegna þess að við erum annars vegar að bera saman raunveruleg útgjöld Tryggingastofnunar og hins vegar uppreiknað hámarksverð út úr apóteki þar sem ekki er tekið tillit til þess afsláttar sem apótekin veita neytendum. En þetta eru engu að síður mikil útgjöld, sem halda verður í skefjum.


Fjórðungur lyfjaútgjaldanna er vegna tauga-og geðlyfja og um helmingurinn af þeirri notkun er vegna geðdeyfðarlyfjanna, sem svo mjög er rætt um nú.

Engin Norðurlandaþjóðanna notar eins mikið af þessum lyfjum og Íslendingar. Samt sem áður fækkar til að mynda ekki komum á geðdeildir, þeim fjölgar, það fækkar ekki komum til sérfræðinga, og það dregur til að mynda ekki úr sjálfsvígum - þeim fjölgar líka. Og þegar ég spyr af hverju við skerum okkur úr að þessu leyti, þá vefst sérfræðingum tunga um tönn. Læknar ávísa hér meira á nýju dýru geðdeyfðarlyfin, enda þótt ódýrari lyf séu af sérfræðingum talin jafn góð, en það skýrir ekki nema hluta af dæminu.

Hér er, eins og víða annars staðar, rannsókna þörf. Við rekum ágæta heilbrigðisþjónustu Íslendingar, en þegar við þurfum að skýra og skilgreina ýmislegt sem er að gerast á þessu sviði, þá vantar okkur oft áreiðanleg svör.

En það er ekki nóg að rannsaka, það þarf líka að spyrja réttu spurninganna til að fá svör, sem gagnast okkur í heilbrigðisþjónustunni, sem gera hana og tryggingakerfið betra.

Hvervetna í Evrópu eru menn nú að rannsaka heilsufar þjóðfélagshópa, starfsstétta og heilsufar einstaklinga í tilteknum atvinnugreinum, en þá erum við komin að hinu þema þessa ársfundar; það er að segja atvinnusjúkdómunum.

Ástæðan fyrir því evrópuþjóðir beina nú sjónum sínum í þessa átt er fyrst og fremst sú, að rannsóknir sýna að atvinna og þjóðfélagsstaða hafa veruleg áhrif á heilsufar þjóðfélagsþegnanna. Menn viðurkenna með öðrum orðum að það er munur á Jóni og séra Jóni þegar heilbrigði er annars vegar.

Hér á landi eru heilbrigðisrannsóknir af þessu tagi hvorki fugl né fiskur borið saman við það sem gerist í nálægum löndum. Það er ekki hefð fyrir rannsóknum af þessu tagi hér, en það er hins vegar afar mikilvægt að nýta aðferðafræði og reynslu félagsvísinda á þessu sviði.

Meðal þjóðanna sem við berum okkur jafnan saman við beina heilbrigðisyfirvöld öllum kröftum sínum að því að ná til og breyta aðstæðum þjóðfélagshópanna sem eru í mestri hættu á að verða sjúkir.

Spánverjar fara þessa leið og hafa náð góðum árangri, Frakkar, Bretar leggja mikla áherslu á þetta, og nú síðast Svíar og Danir af fullum krafti. Til grundvallar liggja rannsóknir og athuganir og markmiðið er, að kortleggja aðstæður fólks til að hjálpa því að öðlast heilsusamlegra líf.

Ágætu ársfundargestir.

Ég mun á næstunni taka ákvörðun um, hvort nú sé ekki tímabært að setja undir einn hatt allar nefndir og öll ráð, sem hafa forvarnir á sinni könnu til að samræma og nýta betur það mikla fé, sem veitt er til málaflokksins í heild.

Með því mætti samræma forvarnir, beina sjónum okkar að þeim hópum sem við þurfum að ná til, og síðast en ekki síst sýnist mér að á þennan hátt gætu skapast möguleikar á því að stórefla forvarnarannsóknir.

Á alþjóðavísu standa Íslendingar almennt vel bæði þegar litið er til heilbrigðismála og tryggingamála. Ég held hins vegar að margir hafi hrokkið í kút, þegar Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, á liðnu sumri, skipaði okkur í fimmtánda sæti yfir þær þjóðir sem bestum árangri hafa náð í heilbrigðisþjónustunni í heild.

Það er gagnlegt fyrir okkur sem þjóð, það er gagnlegt fyrir fagfólk og það er gagnlegt fyrir heilbrigðis-og fjármálayfirvöld að átta sig á þessari stöðu.

Við eigum að setja okkur það markmið að komast í fremstu röð þjóða á þessum lista og ekki að sætta okkur við annað. Vísasti vegurinn til þess er að fara þá forvarnaleið, sem ég hér hef gert að umtalsefni. Forvarnaleið sem hlýtur að byggjast á þverfaglegum rannsóknum á heilsufari starfsstétta og þjóðfélagshópa.

Ég ætla að taka lítið dæmií þessu sambandi: Í vor bárust okkur upplýsingar um að íslensk börn væru orðin þau þyngstu í hinum vestræna heimi.

Fyrst getum við spurt okkur: Af hverju? Jú, það er hreyfingaleysi og mataræði sem veldur. Eigum við að láta gott heita og horfa aðgerðalaus á? Nei, það megum við ekki. Hér eiga forvarnirnar við.

Gefum okkur að börnin vaxi úr grasi og haldi áfram að vera svona þung. Hvaða vandamál erum við þá að búa til?
Jú, við gætum verið að búa til hjartasjúklinga framtíðarinnar með öllum þeim og óþægindum sem sjúkdómurinn hefur í för með sér. Fyrir einstaklinginn, fyrir vinnuveitanda, fyrir tryggingakerfið og fyrir samfélagið allt.

Og það er alveg öruggt, að við erum að auka hættuna á því að börnin okkar fái sykursýki, ef við reynum ekki að breyta þessu.


Það kann að kosta milljónatugi að fara í ýmis konar forvarnaverkefni af þessu tagi, en það þarf ekki Nóbelsverðlaunahafa í heilsuhagfræði til að sjá, að sú fjárfesting skilar sér þótt síðar verði.

Áherslubreyting af því tagi sem ég er hér að nefna er ekkert sem verður töfrað fram í skyndingu. Og það eru vafalaust skiptar skoðanir um gildi forvarna ekki síst vegna þess að árangurinn er ekki áþreifanlegur hér og nú.

Með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi vil ég láta á það reyna á næstunni, hvort samtök launafólks og vinnuveitenda hafa áhuga á, að taka þátt í sameiginlegum umræðum um heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið sett fram.

Í mínum huga skiptir það miklu máli fyrir okkur sem samfélag, að sátt verði áfram um heilbrigðisþjónustuna. Víðtæk sátt um heilbrigðis-og tryggingmál á nýrri öld þarf að taka mið af þeim stórhug sem einkenndu leiðtoga launþega og atvinnurekenda fyrir þremur áratugum þegar þeir settust saman og bjuggu til lífeyriskerfi til framtíðar.

Hærra, ofar, lengra.

Við eigum að setja okkur þessi markmið á öllum sviðum. Líka í heilbrigðis- og tryggingamálum, en til þess þurfa allir að vera með.

[Talað orð gildir]


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta