Þing Norðurlandaráðs 2000
Ræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á 52. þingi Norðurlandaráðs 6. 11. 2000 í Reykjavík
Ég vil hefja mál mitt á því að þakka forsætisráðherra Finnlands, Paavo Lipponen fyrir stefnuræðu sína.
Yfirskrift formennskuáætlunar Finnlands "Norðurlandabúi 2001" minnir á það markmið að setja málefni hins almenna borgara á Norðurlöndum í fyrirrúm í norrænu samstarfi. Þetta markmið styðjum við Íslendingar heils hugar, enda lá lík hugsun að baki formennskuáætlunar Íslands fyrir tveimur árum. Nú á tímum, þegar fólksflutningar milli norrænu landanna eru jafn tíðir og raun ber vitni, er og nauðsynlegt að huga sérstaklega að réttindum þess hóps sem fer milli landanna, eins og Finnland leggur nú til að gert verði.
Í norrænu samstarfi stendur fyrir dyrum það mikilvæga verkefni að vinna úr og fylgja eftir tveimur efnismiklum skýrslum, sem hér hafa verið lagðar fram. Þær eru
skýrslan "Norrænt samstarf - umleikið vindum veraldar" og tillaga að endurskoðaðri stefnu fyrir samstarf ráðherranefndarinnar við grannsvæði Norðurlanda. Ég nefni jafnframt í sömu andrá þriðju skýrsluna, "Sjálfbær Norðurlönd", sem kynnt var á fundi forsætisráðherranna í dag, og verður síðar lögð fyrir Norðurlandaráð.
Það fellur í hlut Finnlands sem formennskulands að leiða starfið við að fylgja skýrslum þessum eftir í ráðherranefndinni, og ég er þess fullviss, að það verður vel af hendi leyst.
Hvorki forsætisráðherrarnir né Norræna ráðherranefndin hafa tekið afstöðu til áður nefndar skýrslu um norrænt samstarf og það verður því fróðlegt að fylgjast með umræðu um hana hér á þinginu.
Í skýrslunni er tekið mið af þeim miklu breytingum, sem átt hafa sér stað jafnt í okkar heimshluta sem annars staðar, vegna hnattvæðingarinnar og evrópusamrunans og lagðar fram athyglisverðar tillögur um nýjar pólitískar áherslur og breytingar á skipulagi samstarfsins.
Ég vona, að menn muni leggja sig fram um að finna leiðir til að nota skýrsluna til að bæta samstarfið og útvíkka það þar sem ætla má að víðtækara samstarf skili bestum árangri.
Breytingar á samstarfinu mega þó að sjálfsögðu ekki leiða til þess, að það skipulag glatist, sem nauðsynlegt er til að unnt verði að fylgja markvisst eftir ákvörðunum ráðherranefndarinnar í framtíðinni. Eins er mikilvægt að tryggja áframhaldandi gott samráð við Norðurlandaráð.
Niðurstöður skýrslunnar um grannsvæðasamstarfið eru athyglisverðar, því þær endurspegla þær framfarir sem nú eiga sér stað í Eystrasaltsríkjunum. Því er í skýrslunni gert ráð fyrir því, að samstarf ráðherranefndarinnar við Eystrasaltsríkin muni á næstu árum breytast frá því að bera keim af þróunaraðstoð, í samstarf á jafnréttisgrundvelli.
Skýrslan um sjálfbær Norðurlönd, sem beðið var um í yfirlýsingu forsætisráðherranna og leiðtoga sjálfstjórnarsvæðanna í nóvember 1998 verður rædd á ráðstefnu Norðurlandaráðs um sjálfbæra þróun í Osló í apríl á næsta ári. Ég tel að jafnframt því sem skýrslan verður mikilvægur þáttur í stefnu landanna um sjálfbæra þróun, sé þar lagður traustur grunnur að markvissri sameiginlegri stefnu. Hún getur leitt til aukins framlags Norðurlanda bæði til svæðisbundinnar og alþjóðlegrar stefnumótunar og samvinnu um sjálfbæra þróun.
Samstarf Norðurlanda er fjölbreyttara en fólk gerir sér almennt grein fyrir, bæði innan Norðurlanda og utan. Frá og með næstu áramótum er til dæmis ætlunin að bæta þjónustu Norræna þjónustusímans við þá, sem þurfa á upplýsingum að halda vegna flutninga og annarra ferða milli Norðurlanda. Það er liður í viðleitni landanna til að auðvelda samstarf og viðskipti milli einstaklinga og atvinnulífs á Norðurlöndum.
Ég nefni og þann ánægjulega atburð, að norræna menningarmiðstöðin sem American Scandinavian Foundation rekur í New York, var vígð í síðasta mánuði. Ríkisstjórnir Norðurlanda tóku ásamt Norrænu ráðherranefndinni myndarlegan þátt í fjármögnun endurbyggingar hússins. Það er von mín, að húsið nýtist til kynningar á norrænum listum og menningu vestan hafs um ókomin ár, og að það muni um leið minna á þann samhug, sem ríkir milli Norðurlandabúa heima og heiman.
Að síðustu langar mig að nefna hina viðamiklu Norrænu víkingasýningu sem ráðherranefndin tók þátt í að undirbúa. Hún fer nú milli borga vestan hafs og nýtur mikillar hylli almennings. Þar er kynntur mikilvægur þáttur í sameiginlegri menningararfleifð norrænna manna.
Ég vil að endingu tjá þá von mína að þetta þing verði vettvangur frjórra umræðna og ánægjulegra samskipta.