Áramótaávarp í ríkissjónvarpinu 2000
Áramótaávarp Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra í ríkissjónvarpinu
31. desember 2000
Góðir Íslendingar,
Sjálfsagt hefur hvert ykkar haft sína visku ellegar sérvisku um það, hvenær 20. og 21. öldin mættust. Ég geri þá játningu að vera einn þeirra sem verið hefur á seinni skipunum til þessara miklu tímamóta. Sem betur fer er ekki hundrað í hættunni þótt deilan snúist um aldamót. Öruggt er a.m.k. að þá er klukkan glymur í tólfta sinn í kvöld hefur tuttugasta öldin kvatt, í annað sinn verða enhverjir fljótir að bæta við.
Hverjir voru stærstu atburðir þeirrar aldar? Og var stór atburður frétt eða var hann bara atburður? Á þessu tvennu er mikill munur, segja tíðindamenn, sem hafa að vonum meiri áhuga á fréttum en atburðum. Þeir bentu á að heimastjórn, sem landsmenn öðluðust árið 1904 og lýðveldisstofnun árið 1944 voru ekki stórar fréttir, vegna þess hve aðdragandinn að atburðunum var langur, svo að allir vissu með góðum fyrirvara hvað verða vildi. Hernám Breta 10. maí 1940 var á hinn bóginn ekki aðeins mikill atburður heldur einnig stórbrotin frétt, þar sem það kom þjóðinni í opna skjöldu. Jafnvel má segja að ekki hafi annar atburður ráðið meiru um örlög Íslendinga á öldinni, því að þjóð, sem svo lengi hafði búið að sínu, við öryggi fjarlægðar og áhugaleysis annarra var í einu vetfangi hrifin burtu af sínum bæ og varð aldrei söm. Minnir það á önnur örlög og annað stríð sem maður aldarinnar á Íslandi orti um og sagði "og það var allt útaf einni jurt, sem óx í skjóli og var slitin burt."
Við þekkjum endalok þeirrar rismiklu sögu, en hin bókin um hið sjálfstæða íslenska fólk, þar sem þú og ég og þeir, sem á undan fóru og á eftir munu koma, skipa hlutverkin, er enn aðeins að litlu leyti skrifuð, þótt viðburðaríkasta öldin af tæpum tólf í sögu þjóðarinnar sé nú liðin. Tvö atriði standa upp úr þegar horft er um öxl til aldarinnar og getur þó hvorugt flokkast undir frétt og ekki heldur atburð. Hið fyrra er sú staðreynd, að allt þar til tuttugasta öldin gekk í garð hafði íbúafjöldi í landinu aldrei orðið meiri en hann var orðinn þá er eiginlegu landnámi lauk eða því sem næst 70 þúsund manns. Þar virtust endimörk þess, sem landið bar. Ef talað væri um aðrar skepnur en manninn væri sjálfsagt notað orðið beitarþol landsins í þessu samhengi. En síðan kom tuttugasta öldin og þá tók allt kipp og Íslendingum fjölgaði úr 70 þúsundum í 283 þúsundir og býr þó drjúgur hópur landans nú erlendis um lengri eða skemmri tíma og er ekki að sinni talinn með.
Hitt atriðið er að í byrjun aldarinnar voru Íslendingar í hópi fátækustu þjóða, svo sem verið hafði flestar aldir þar á undan, en nú við aldarlok eru þeir óumdeilanlega meðal þeirra sem mest bera úr býtum í veraldlegum efnum. Þótt þetta séu að sönnu hvorki fréttir né atburðir, þá hljóta þessar staðreyndir að segja okkur Íslendingum mest um tuttugustu öldina. Tvær heimsstyrjaldir, sem snertu okkur hvor á sinn hátt, frostavetur, eldgos í og utan byggðar, óhugnanleg snjóflóð, mannskaðar á sjó og landi, leiðtogafundir og landhelgisstríð, heimastjórn, fullveldi, lýðveldisstofnun, upphaf Háskóla, heimsmet í verkföllum, hundabönn, bjórbönn, höft og einokun og alls konar annar heimabakaður vandi, hafa drifið á þessa rúmlega 36.500 daga. Og allt þetta og fjölda margt annað mætti nefna til sögunnar, sem fréttir og atburði, en eftir stendur að þegar öldin hófst leystust þau álög sem virtust liggja á viðkomu þjóðarinnar og hún reis einnig upp úr öskustónni - og flutti sig yfir í forystusæti meðal þjóða heims.
Það er því rík ástæða til að kveðja 20. öldina með virktum og gerir ekkert til þótt einhverjum finnist að við séum að gera það í annað sinn. Aldrei er góð öld of oft kvödd. Og 21. öldin er auðvitað aufúsugestur. Móti henni tekur þjóðin sem þroskað, velmenntað og kappsamt ungviði ráðið í því að nýta þau tækifæri sem gefast og skapa þau tækifæri sem vantar. Ekki dettur okkur í hug að halda að búið sé að fjarlægja alla farartálma af farsældarvegi þessarar þjóðar. Síður en svo. Náttúran hefur engan eilífðarsaming gert við landsmenn um óuppsegjanlegan vinnufrið. Þar mun auðvitað á ýmsu ganga og flest ófyrirséð. En skilyrðin til að bregðast rétt og skynsamlega við áföllum eru öll önnur og betri en áður var. Þekking okkar mannanna á eðli allra hluta er og verður brotakennd, en viljanum og getunni til að afla nýrrar þekkingar og bregðast hratt við vandamálum hefur fleygt fram.
Síðastliðin tíu ár hafa orðið algjör umskipti í efnahagsumhverfi Íslendinga. Ekki skal þessi hátíðarstund notuð til að gera grein fyrir þeim í smáatriðum, enda þekkjum við öll þær breytingar. Verðbólgan frá upphafi til loka þessa árs var um 4%. Það er til marks um hina miklu hugarfarsbreytingu sem orðið hefur, að þegar nýlega var sett fram nokkuð ógætileg spá um að verðbólga kynni að verða um eða yfir 5,5% á næsta ári varð uppi fótur og fit og ýmsir tóku stórt upp í sig. Það var sem sé hugsanleg hækkun á verðlagi um 1,5% á heilu ári, sem olli þessu uppnámi. Þótt hamagangur af þessu tagi sé ástæðulaus er á hinn bóginn ánægjulegt að stöðugleiki í íslenskum stjórnmálum sé orðinn slíkur, að þjóð sem fram til upphafs síðasta áratugar aldarinnar bjó að jafnaði við 30-80% verðbólgu skuli taka slíka verðlagsbreytingu svo nærri sér. Sem betur fer eru efnahagshorfur í upphafi nýrrar aldar vænlegar. Búast má við að sameiginlegar tekjur okkar vaxi næstu árin og einstaklingum og fjölskyldum muni gefast góð tækifæri til að búa í haginn fyrir sig og sína. Efnahagurinn er mikilvægur fyrir okkur öll, en mun þó aldrei segja alla söguna. "Því hvað er auður og afl og hús ef eingin jurt vex í þinni krús?" var spurt og við erum flest sammála um viðeigandi svör. Efnaleg velsæld er aðeins ramminn um þá þjóðfélagsmynd sem við viljum sjá.
Ég hef orðið var við að mörgum þykir sem minni þróttur sé nú í stjórnmálalegri umræðu en var á árum áður. Menn segja að hugsjóna- og hugmyndabaráttu skorti og stjórnmálamenn séu með margbrotnar æfingar um útfærslu stefnumiða, sem lítill ágreiningur sé um, en takist ekki á af hörku, hver með sína útgáfu af réttlætinu á gunnfánanum. Nú beri menn hvorki sverð hugsjónamannsins né skjöld hinna góðu gilda til varnar. Þessi tilfinning er ekki út í bláinn, en það er ekki með því sagt að rétt sé að harma þessa þróun. Meiri fólskuverk hafa verið framin í nafni hugsjóna sem ekkert hald reyndist í en af nokkru öðru tilefni. Og hávaðinn sem áður barst frá hugsjónabaráttunni er þagnaður, þar sem niðurstaða fékkst í þeim átökum. Hugmyndin sem byggði á frelsi einstaklingsins hafði fullan sigur á þeirri sem gekk út frá forsjárhyggju algóðs ríkisvalds. Og lífsskilyrðin bötnuðu hvarvetna fyrir vikið. Sósíalisminn tapaði kaldastríðinu, sem var í raun þriðja heimsstyrjöldin, þótt hún væri annarar gerðar en þær tvær fyrri. Þeim leik er því að mestu lokið. Það er því ekki að undra að hljóðara sé um hugsjónirnar nú á dögum en þegar hersveitirnar sáu um undirleikinn. En það merkir ekki að öllum sé sama um allt og engum sé lengur mikið niðri fyrir. Öðru nær.En framvegis verður baráttan friðsamari. Á sama tíma og Ísland lifir sinn besta áratug í efnahagslegu tilliti eru forystumenn stjórnmálanna hægt og örugglega að draga úr eigin valdi og færa það til fólksins í þeirri vissu að þjóðin sjálf kunni betur með það að fara en þeir. Þetta gengur þvert á þróunina á fyrrihluta aldarinnar, þegar hugsjónir þjóðernissósíalista annars vegar og kommúnista hins vegar gengu með mismunandi blæbrigðum út á hið öfluga og óskeikula ríkisvald. Sömu þróunar gætir víðast hvar annars staðar í heiminum. Þessi valdatilfærsla frá foringjum til fjöldans hefur gengið vel síðustu tíu árin og eykur það líkur á að málum verði vel stjórnað á þeirri öld sem í hönd fer. Því að mestu ófarir á öldinni voru þrátt fyrir allt ekki óvæginni náttúru að kenna, heldur miklu fremur þeim smámennum, sem lyft var á stall ofurmenna, í skjóli "háleitra" hugsjóna.
Góðir Íslendingar. Við þekkjum það öll að sú ferð er líklegust til að heppnast vel sem vandlega er undirbúin og þar sem nestið er nægilegt og notadrjúgt. Við göngum vel nestuð á vit nýrrar aldar og höfum glögga mynd af því sem við viljum. Því mun íslenska þjóðin sameiginlega yfirstíga þær þrautir sem á veginum verða og njóta alls þess yndis og ágætis sem öldin mun hafa upp á að bjóða.
Ég þakka samfylgdina á liðnu ári og óska löndum mínum nær og fjær gleðilegs árs og gleðilegrar aldar.