Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2001
Ræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra
á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands,
8. febrúar 2001
Formaður, þingforseti, góðir þingfulltrúar.
Þeir Verslunarráðsmenn hafa jafnan verið fundvísir á forvitnileg umræðuefni. Að þessu sinni er spurt: "Hvernig má halda uppi hagvexti?" Spurningin sjálf leiðir til nýrra spurninga. Er hagvexti haldið uppi? - fellur hann án slíks uppihalds? Það er skammt síðan að genginu var haldið uppi hér á landi með opinberu valdi og breytingar á því lutu blöndu af pólitík og hagfræði. Nú heldur Seðlabanki Íslands ekki genginu lengur uppi. Hann getur þó gripið inn í þróun þess við sérstakar aðstæður. En hann grípur ekki inn í þróun þar nema öll rök standi til þess að tímabundnar gengisbreytingar á markaði séu bersýnilega ekki í samræmi við efnahagslegar forsendur. Aðeins við slíkar aðstæður standast inngrip seðlabankans til lengri tíma.
Það er einnig hægt að halda uppi hagvexti til skemmri tíma með tækjum ríkisvaldsins. Meira að segja dómur Hæstaréttar Íslands á dögunum, um að ríkið skyldi auka útgjöld sín um 1 milljarð, mælist til skamms tíma sem aukinn hagvöxtur! Önnur og nærtækari dæmi mætti nefna, en það er óþarft í hópi, sem er jafn vel heima í fræðunum og þessi. Skömmu fyrir síðustu kosningar sagðist einn af talsmönnum stjórnmálaflokkanna vera á móti jaðarsköttum en styðja tekjutengingu. Viðkomandi hefði eins geta sagst vera á móti myrkrinu nema það væri bjart. Þannig er umræðan stundum. Undanfarin 2-3 ár hafa vart fleiri en þrír menn mátt koma saman án þess að þeir ályktuðu um, að nú bæri ríkisvaldinu að slá á þensluna svo allt færi ekki til - þið vitið hvert. Og nú þegar loks er nokkuð farið að hægja á líta þessir sömu varla upp án þess að sjá kreppuna kíkja á sig úr hverjum glugga.
Ég fyrir mitt leyti tel óþarft að halda uppi hagvexti, en tel á hinn bóginn bæði rétt og skylt að tryggja heilbrigð skilyrði fyrir vexti og viðgangi efnahagslífsins - með öðrum orðum skapa heilbrigð hagvaxtarskilyrði.
Íslenskt atvinnulíf hefur blómstrað undanfarin ár. Á fimm árum hefur landsframleiðslan aukist um því sem næst 25 af hundraði. Slíku höfum við aldrei áður kynnst. Þessi aukning hefur skilað sér til allra landsmanna í stórauknum kaupmætti og Ísland stendur fremst í röð með þeim ríkjum sem búa þegnum sínum best lífskjör. Það má því segja að við séum orðin góðu vön og hagvöxtur upp á 5 af hundraði sé fremur hluti af hinum daglega veruleika en mestu tíðindi. Þess vegna virðast sumir hagspekingar telja að hagvöxtur á bilinu 10-15% eða svo næstu 5 árin, sé allt að því kreppa. Þetta er nánast sama niðurstaðan og sú sem teldi að Hafnarstrætisróni sem minnkaði við sig drykkju niður í sjö glös á dag væri orðinn ígildi stórtemplars við þá breytingu.
Vegna yfirskriftar þessa umræðuefnis Viðskiptaþings er full ástæða fyrir okkur að staldra við, líta yfir farinn veg og spyrja hvernig hagvöxtur undanfarinna ára var tilkominn og glöggva okkur á því hvernig best sé að búa hagkerfið undir nýtt hagvaxtarskeið, sem verði þó á viðráðanlegri hraða en það sem nú stendur.
Stundum tala menn sem svo að hagvöxtur komi og fari eins og vindurinn og verkefnið sé ekki annað en að hífa seglin til að beisla hann í okkar þágu. Hagvöxturinn á árunum 1995 til 2000 kom ekki til af sjálfum sér. Það þurfti að skapa þær aðstæður í hagkerfinu að sá kraftur og sköpunarmáttur sem alla jafnan býr með þjóðinni fengi notið sín. Vinstri stjórnin sem sat hér að völdum á árunum 1988 til 1991 hafði komið málum þannig fyrir að forsætisráðherrann þáverandi lét hafa eftir sér að á Íslandi giltu ekki lögmál vestrænnar hagstjórnar og við værum nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr. Hagkerfið var fjötrað í viðjar ríkisrekstrar á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum. Ríkissjóður var rekinn með viðvarandi og vaxandi halla. Bankakerfið var meira og minna undir hælunum á pólitískum kommisörum. Margir fóru mikinn í sjóðasukki svo sem frægt varð og ótrúlegar upphæðir gufuðu upp. Og öll þessi ósköp, þessar heimatilbúnu hörmungar, höfðu að sjálfsögðu áhrif á lífskjör alls almennings í landinu. Kaupmáttur launa á árunum 1988 til 1991 lækkaði um 10% og verst fór fyrir þeim sem minnst máttu sín og erfiðast áttu með að verja sig, því kaupmáttur lægstu launa lækkaði um 20% á þessum tíma. Það þurfti því að taka til hendinni og búa íslensku atvinnulífi þau skilyrði sem dygðu til að snúa við þessari óheillaþróun. Í það mikla verk var ráðist 1991 og undanfarin tíu ár höfum við smám saman verið að festa í sessi frjálst markaðskerfi á Íslandi. Sú hugsun réði för, að þjóðinni myndi best farnast, ef beitt yrði almennum aðgerðum sem tækju mið af þekktum lögmálum og horfðu til lengri tíma en nokkurra nátta. Verkefnið var að leysa úr læðingi kraft og sköpunargleði þjóðarinnar. Kraft, sem naut sín hvergi, heftur í viðjar ríkisrekstrar, pólitískra hrossakaupa, liðónýts bankakerfis og handstýrðra efnahagslegra skottulækninga. Umfangsmikilli einkavæðingu var hrundið af stað, hagkerfið var opnað, skrúfað var fyrir pólitískar úthlutanir úr fjárfestingalánasjóðum og ríkið hóf að draga sig út af fjármálamarkaðinum. Skynsamlegt fiskveiðistjórnarkerfi var fest í sessi, ýtt var undir heilbrigða og nauðsynlega samkeppni og ríkissjóður var rekinn af festu, svo hægt væri að greiða niður skuldir ríkisins í stórum stíl. Allar þessar aðgerðir og fleiri til lögðu grunninn að því mikla hagvaxtarskeiði sem við Íslendingar höfum fengið að njóta undanfarin ár. Og sú varð raunin vegna þess að fólkið og fyrirtækin biðu ekki boðanna, þegar tækifærin loks gáfust. Og þessi hagvöxtur hefur bætt kjör okkar allra svo um munar. Almennur kaupmáttur hefur síðan 1995 hækkað um 25% og kaupmáttur lægstu launa, launataxtanna, sem alltaf gekk svo hörmulega að bæta, hefur hækkað mest. Það var svo sannarlega mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að vestræn hagstjórnarlögmál væru látin gilda hér á landi og fólkið fengi vernd fyrir öllum sértæku aðgerðunum, sjóðasukkinu og póitísku misbeitingunni, sem allt drap í dróma, þótt sjálfsagt hafi flest verið gert í góðri meiningu.
Góðir þingfulltrúar.
Framangreindar staðreyndir úr nýliðinni sögu eru kallaðar fram þar sem nú eru nokkur skil í efnahagsþróuninni, svo notuð séu orð veðurlýsingamanna. Þjóðhagsstofnun spáir því að hagvöxur verði 1,6% á þessu ári, sem er vissulega minni vöxtur en verið hefur. Óþarft er að líkja þeim spám við óhappa og ógæfu tíðindi. Sá slaki sem var í efnahagskerfinu framan af hagvaxtarskeiðinu var að fullu nýttur og gott betur og þenslu tók að gæta. Við erum nú að ná fullum tökum á þenslunni. Þá pústum við ögn og búum síðan í haginn fyrir næsta hagvaxtarskeið. Við högum okkur líkt og göngumaður sem klifið hefur full hratt mikinn bratta. Við köstum mæðinni, finnum okkur skjólgóðan náttstað og höldum svo glaðbeitt áfram för um leið og djarfar fyrir nýjum degi.
Á vormánuðum 2000 var verðbólgan um 6% á ári og ýmis teikn á lofti um að hagkerfið væri þanið til hins ítrasta. Margir töldu þá að nauðsynlegt væri að grípa til sértækra aðgerða, efnahagsaðgerða að gömlum sið, til þess að takast á við verðbólguna. Ríkisstjórnin ákvað að beita almennum nútímalegum aðferðum, sem væru hægvirkar en haldgóðar. Með aðhaldssamri peningamálastefnu og réttum skilaboðum varðandi ríkisfjármál og einkavæðingu var hægt en örugglega unnið gegn verðbólgu. Vextir hafa verið háir hér á landi, en það hefur tekist að draga úr þenslu og verðbólgan hefur hægt en örugglega færst nær því sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Miðað við samræmda neysluverðsvísitölu ESB var hún 3,7% hér á landi síðustu 12 mánuði en um 2,4% að meðaltali í helstu viðskiptalöndunum. Nú eru fimm ESB ríki með sömu eða hærri verbólgu en við Íslendingar. Er reyndar athyglisvert að þau ríki sem standa utan við myntsamstarf ESB búa við lægstu verðbólguna. En hagstæðar verðbólgumælingar eru ekki eini mælikvarðinn sem sýnir að það dragi nú úr þenslu. Hagtölur sýna til dæmis að innflutningur almennrar neysluvöru hélst nánast óbreyttur á milli áranna 1999 og 2000 en vöxtur á milli áranna þar á undan hafði verið 10% og velta í smásölu dróst saman um 1% að raungildi á síðastliðnu ári. Veltutölur fyrirtækja sýna að umsvif þeirra vaxa nú hægar og einnig hefur dregið úr vexti útlána og veltu í kreditkortaviðskiptum auk þess sem eftirspurn eftir húsbréfalánum hefur minnkað verulega. Allt þetta er til marks um að aðhaldsemi í hagstjórninni sé að bera árangur og verðbólgan verði vel innan ásættanlegra marka áður en langt um líður.
En það eru fleiri þættir hagkerfisins sem kalla á athygli stjórnvalda þessa dagana. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sendi nú á dögunum frá sér álit sitt á stöðu efnahagsmála hér á landi. Hún lýkur lofsorði á þá efnahagsstefnu sem rekin hefur verið á Íslandi síðustu árin. Það er greinilegt að nefndin metur mikils þá viðleitni stjórnvalda til að styrkja alla innviði hagkerfisins og þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum. Þessi árangur mun verða grundvöllur að áframhaldandi lífskjarasókn okkar Íslendinga. En sendinefndin velti því einnig upp að viðskiptahalli ásamt veikleika í fjármálakerfinu kynni að torvelda svokallaða mjúka lendingu hagkerfisins. Það voru ekki nýjar fréttir að full ástæða væri til að hafa nánar gætur á viðskiptahallanum. Um það er ekki deilt. En rétt eins og það er nauðsynlegt að taka vara á sér þá er áríðandi að menn hlaupi ekki upp til handa og fóta og magni upp vandann með röngum og ótímabærum aðgerðum eða illa grunduðu glamri. Það er skemmst að minnast glannafenginna orða eins þingmannsins, sem hélt því ákaft fram fyrir síðustu kosningar að tifandi tímasprengja sæti í miðju hagkerfinu og væri svo sniðuglega stillt af ríkisstjórninni að hún myndi springa nokkrum dögum eftir kosningar. Fjöðrin í því sigurverki þingmannsins var viðskiptahallinn en hann átti að kalla fram óðaverðbólgu og ofsaþenslu strax að kosningum loknum. Nú eru bráðum liðin tvö ár frá þessum aukasprengidegi eftir kosningar og verðbólgan er á niðurleið, og hefur reyndar lækkað um næstum helming eins og fram er komið. Hagspekingum ber flestum saman um að viðskiptahalli sé í sjálfum sér ekki böl, hvað þá heldur óviðráðanlegur vágestur. Til þess að hagkerfinu stafi ógn af hallanum þarf að mati fræðimanna eitthvað af þessu þrennu að eiga við: Neysla einstaklinga sé ekki byggð á skynsamlegum væntingum um auknar framtíðartekjur. Fjárfestingar fyrirtækja og lánastofnana séu óarðbærar og í þriðja lagi að fjármálastjórn hins opinbera sé slök. Á undanförnum árum hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög myndarlegum afgangi og ríkisfjármálin öll í föstum skorðum. Auðvitað má lengi gera betur og ástæða til að fylgja á næstu misserum og árum aðhaldssamri stefnu á þessu sviði. Einkum er nauðsynlegt að beina sjónum að útgjaldahliðinni og beita þar ströngu aðhaldi. Enginn heldur því þó fram að viðskiptahallinn sé tilkominn vegna slakrar fjármálastjórnunar ríkisins. Viðskiptahallinn endurspeglar fyrst og fremst væntingar einstaklinga og fyrirtækja um framtíð íslenska hagkerfisins. Það getur enginn með vissu fullyrt að þessar væntingar fyrirtækja og einstaklinga séu rangar. Slíkar fullyrðingar eru einungis getgátur og varhugavert er að byggja hagstjórn á svo veikburða vangaveltum. Sumir nefna að bankar og fjármálastofnanir hafi brugðist við hinu nýfengna frelsi í fjármagnsflutningum og viðskiptum almennt eins og kálfar sem fara úr fúlu fjósi út í vorið. Eitthvað kann að vera til í því en það þekkjum við íslenskir sveitamenn að klaufdýrin róast fljótt eftir fjörið og flumbruganginn og taka lífinu í guðsgrænni nátúrunni eftir það með heimspekilegri yfirvegun. Sama gerist auðvitað í banka- og fjármálaheiminum. Nýleg Gallupkönnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga, nær 90% þeirra, er þeirrar skoðunar að fyrir þá persónulega verði árið í ár betra eða jafngott liðnu ári í efnahagslegu tilliti. Þessar fréttir koma ekki á óvart. Uppgangurinn hefur verið mikill undanfarin ár og eðlilegt er að við horfum bjartsýn fram á veginn. Að sjálfsögðu ber okkur um leið að sýna fulla aðgát og taka alvarlega ábendingar um viðskiptahalla og þá veikleika sem kunna að leynast í fjármálakerfinu. Ef fjármálakerfið veldur ekki því hlutverki sínu að veita fjármunum til þeirra fjárfestinga sem bera arð í framtíðinni, þá kynni að vera ástæða til að ætla að viðskiptahallinn gæti valdið okkur nokkrum búsifjum. En höfum það hugfast að dómsdagssölumenn og svartsýnisprangarar munu aldrei veita góða leiðsögn þegar sigla þarf djarft og örugglega. En hvernig stendur á því að sumir hagfræðingar telja að hagvaxtarskeiðinu sé lokið, á meðan hið svonefnda sjötta skilningarvit þjóðarinnar fær allt aðra niðurstöðu?
Þegar að góðærisskeið undanfarinnar hálfrar aldar stöðvuðust og þjóðarhagur tók nokkuð reglubundnar dýfur var það einatt vegna einstakra ytri atburða. Síld hvarf, loðna brást, fiskverð hrundi og svo framvegis. Er eitthvað þvílíkt í spilunum núna? Öðru nær. Hjálmar Vilhjálmsson sagði nýlega að magn og útlit þeirrar loðnu, sem hann var að skoða staðfestu að árgangurinn frá 1999 sé mjög góður. Seiðamælingar á þorski eru afar vænlegar og hitafar í hafinu er hagfellt. Þeir Norðuráls-menn vilja stækka álver sitt sem allra fyrst og viðræður eru í gangi vegna Norsk Hydro og þótt þar sé enn ekkert í hendi, þá eru engin neikvæð tákn uppi heldur. Ríkissjóður stendur betur en oftast áður. Kjarasamningar hafa verið gerðir til langs tíma - að vísu dýrir en vinnufriður og verkfallsleysi eru margra króna virði. Nokkurs óróa gætir í Bandaríkjunum, en líklegt er að vaxtalækkanir og skattalækkanir þar muni koma hlutunum á góða hreyfingu. Enski seðlabankinn lækkaði sína vexti um fjórðung úr prósenti nú í hádeginu. Jafnvægið á milli stærstu gjaldmiðlanna er hagfelldara okkur en var á s.l. ári og olíuverð verður væntanlega að meðaltali mun lægra á þessu ári en á hinu síðasta. Um leið og stjórnvöld sannfærast um að verulega hafi dregið úr þenslu og verðbólgu verða vextir lækkaðir og á því verða engar ástæðulausar tafir. Framtíðin er vissulega vandráðin en merkin sem við sjáum eru ekki vond. Öðru nær. Sjötta skilningarvit þjóðarinnar virðist því hafa meira á bak við sína niðurstöðu nú en það skilningarvit oftast hefur.
Góðir þingfulltrúar.
Ykkur þarf því ekki að koma á óvart að ég hef tröllatrú á því, að við bæði getum og munum á næstu árum aukið enn frekar landsframleiðslu okkar og lífsgæði öll. Við höfum stigið mörg ágæt skref í átt til markaðsbúskapar og uppskorið samkvæmt því. Margt er þó ógert. Enn eru eftir fyrirtæki og stofnanir sem ríkisvaldið getur sleppt hendi af og þar með tryggt í senn meiri hagkvæmni, meiri nýsköpun og betri og ódýrari þjónustu við fólkið í landinu. Fyrir skömmu samþykkti ríkisstjórnin að leita eftir heimild til að selja Landssímann í þremur áföngum. Um leið var ákveðið að svokallaðri þriðju kynslóð farsímaleyfa verði úthlutað til þeirra aðila sem geta boðið landsmönnum öllum hvað besta þjónustu. Þessi tilhögun er umdeild. Þarna leikast á tvö sjónarmið. Annars vegar það sjónarmið að nýta eigi þann kost að færa sem mesta fjármuni í ríkissjóð. Gallinn við þá aðferð er sá, að fyrirtækin sem í hlut eiga neyðast til að reisa sér hurðarás um öxl í baráttunni fyrir leyfunum og hljóta síðan að ná inn kostnaðinum af leyfisgreiðslunum með mun hærra verði til neytenda og til langs tíma með lélegri þjónustu. Þessi virðist hafa orðið raunin víða þar sem útboðsleiðin hefur verið farin. Hins vegar er það sjónarmið að betra sé að úthluta leyfunum eftir fyrirfram skilgreindum markmiðum og láta síðan fyrirtækin keppa sín í milli um hylli neytendanna. Þar með færist virðisaukinn til notenda í formi góðrar og ódýrrar þjónustu. Ríkissjóður hefur, þegar fram í sækir, einnig hagsbætur af því. Ódýr og góð fjarskipti í hvaða mynd sem er hljóta að verða grunnur að framförum og nýjungum í hagkerfi framtíðarinnar.
Ríkisstjórnin hefur ekki fallið frá áformum um að einkavæða þá viðskiptabanka sem enn eru í eigu ríkisins. Til stóð að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka áður en til sölu þeirra kæmi, en þau áform strönduðu sem kunnugt er á nokkuð sérstæðum úrskurði Samkeppnisráðs. Ákvörðun um sameiningu bankanna var tekin í kjölfar samruna Íslandsbanka og FBA. Á þeim tíma var almenn sátt um þá ákvörðun. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir slíkri gjörð og viðbrögð flestra annarra voru mjög á sama veg. Mikil hagkvæmni væri því fylgjandi og virðisauki að sameina þessa tvo banka í einn og selja síðan á markaði. Sameiningin væri einnig nauðsynleg vegna erlendrar samkeppni. Það kom því mjög á óvart að Samkeppnisráð hafnaði samrunanum. Enn furðulegra var, þegar sumir þeirra sem áður höfðu kallað hvað ákafast eftir þessum samruna töldu úrskurð Samkeppnisráðs sigur fyrir lýðræðið í landinu! Vilji þeirra sjálfra, vilji þjóðkjörins Alþingis og vilji ríkisstjórnarinnar stóð allur til sameiningar bankanna. Sá vilji náði ekki fram að ganga, vegna sjónarmiða starfsmanna einnar ríkisstofnunar og stjórnarandstæðingar kölluðu það sigur lýðræðisins! Ég held að þeir sem haga sínum málflutningi með þessum hætti í von um stundarávinning muni finna á eigin skinni að seint verður tekið mark á slíkum málatilbúnaði. Vindhanar verða aldrei áttavitar, hvorki til sjós né lands. Þegar salan á viðskiptabönkunum tveimur verður um garð gengin hefur ríkisvaldið stigið til fulls skrefið sem hófst í byrjun síðasta áratugar og dregið sig alveg útaf fjármálamarkaðinum. Á síðasta ári var hafin endurskoðun á lögunum um Seðlabanka Íslands. Breytt efnahagsumhverfi og þróun í fjármálageiranum kallaði mjög á slíka endurskoðun. Má búast við að frumvarp til nýrra laga um bankann verði lagt fram og hugsanlega afgreitt á Alþingi nú í vor. Þar verður leitast við að skilgreina markmið og hlutverk Seðlabankans með skýrari hætti en nú er og einnig verkaskiptingu bankans og annarra stjórnvalda við stjórn efnahagsmála. Íslenska bankakerfið hefur alla möguleika til að ná fram hámarks hagræði og taka þátt í samkeppni bæði innan lands og utan af fullum krafti. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi öflugs og trausts bankakerfis fyrir hagvöxt komandi ára.
Skilvirkur hlutabréfamarkaður er hornsteinn kraftmikils hagkerfis. Við Íslendingar höfum smám saman verið að læra að nýta okkur kosti þessa markaðar. Nú hefur bitur reynsla kennt mörgum ofurhuganum að verðmæti hlutabréfa getur eins ferðast eftir bylgjóttri braut og beinni línu upp. Það varð áfall fyrir marga, þegar í ljós kom að íslenski hlutabréfamarkaðurinn laut sömu lögmálum og aðrir slíkir og verð hlutabréfa gæti verið dyntótt. Þegar til lengri tíma er horft er bara hollt og gott að vera kominn í gegnum þessa erfiðu kennslustund. Það hefur einnig komið á daginn að margreynd lögmál efnahagslífsins áttu líka við um nýja hagkerfið svokallaða. Þær væntingar sem menn höfðu um t.a.m. hátæknifyrirtæki virtust stundum æði fjarstæðukenndar og furðulegt hve allt þetta samansafn mannvits og tilfinninga, sem kallast markaður, virtist á köflum gersamlega veruleikafirrt. En þótt nauðsynlegt sé að ganga hægt um gleðinnar dyr á vit hins nýja hagkerfis, þá er sennilega brýnna að afskrifa það ekki allt sem tímabundna bólu eða gagnslausa ævintýramennsku óprúttinna fjárglæframanna. Hinn nýi reynsludómur sögunnar segir ekki endilega þá sögu. En sleggjudómur getur á hinn bóginn auðveldlega komist að þessari niðurstöðu.
Nýjungar á sviði upplýsingatækni og fjarskipta eru að gerbreyta allri framleiðslutækni og nýir viðskiptamöguleikar og tækifæri spretta fram á hverjum degi. Við Íslendingar eigum mikið undir þessum nýjungum öllum. Aldalöng einangrun landsins minnkar með hverjum deginum sem líður, en hún og hafísinn voru okkar fornu fjendur. Möguleikar okkar til að stunda viðskipti hvar sem er í heiminum á jafnréttisgrundvelli aukast jafnt og þétt. Í krafti hyggjuvits okkar, góðrar menntunar og viljans til að vinna, stöndumst við öðrum þjóðum snúninginn í baráttunni um að bjóða bestu lífskjörin. Mikilvægi þess að við Íslendingar tileinkum okkur hina nýju tækni og lögum atvinnulíf okkar að þeim möguleikum sem hún veitir verður því vart ofmetið. Það er mikið ánægjuefni að sjá þá miklu grósku og þá djörfung og kraft sem einkennir mörg þeirra nýju fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl á þessu sviði og þannig skapað fjölmörg, spennandi og áhugaverð störf, sem eftirsókn er í. Aðstæður til að stofna fyrirtæki hér á landi eru mjög góðar um þessar mundir. Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að Ísland er í hópi þeirra tíu ríkja í heiminum þar sem best er að hefja rekstur nýrra fyrirtækja. Við það mat er m.a. horft til þess hversu auðvelt er að afla fjármagns, hversu hátt tæknistig viðkomandi lands er og hversu efnahagskerfið er frjótt og opið fyrir nýjungum. Sterk staða Íslands á þessu mikilvæga sviði gefur góð fyrirheit um öflugt og framsækið atvinnulíf.
En hinu má ekki gleyma, að þau góðu tækifæri, sem íslenskt atvinnulíf hefur til þess að sækja fram, geta horfið snöggt ef efnahagsumgjörðin brestur. Ný tækni gefur til dæmis lítið í aðra hönd ef þess er ekki gætt að afraksturinn brenni ekki á verðbólgubáli eða hverfi í botnlausa ríkishít. Allir sem koma að mótun og þróun íslenska hagkerfisins bera ábyrgð á því, þótt í mismiklum mæli sé. Ríkisvaldið er aðeins eitt tannhjólið í því mikla gangverki.
Nú standa yfir kjarasamningar opinberra starfsmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Þeir, sem sitja við það samningaborð, búa ekki við þann aga að vinnuveitandinn geti hreinlega kafsiglt sig, ef illa er haldið á. Þeir verða því að gæta þess að samningar þeirra rúmist innan þess ramma sem smíðaður hefur verið á hinum almenna vinnumarkaði þar sem slík lögmál gilda. Jafnmikil er ábyrgð þeirra sem á næstu vikum og mánuðum, þurfa að meta forsendur samninga sinna með hlutlægum og óvilhöllum hætti. Það hefur verið mikil gæfa að forsvarsmenn launþega og vinnuveitendur hafa hingað til sýnt af sér mikla ábyrgð og einbeitt sér að því að bæta stöðu hvors annars jafnt og þétt. Hagur fyrirtækja og hagur launafólks fer saman, það eru gömul sannindi og ný.
Í þessu samhengi öllu er mikilvægt að leggja áherslu á að ríkissjóður verði áfram rekinn þannig að jafnvægi verði í búskap hins opinbera. Á undanförnum árum hefur tekist að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkisins og ef svo fer fram sem horfir verður ríkissjóður mjög vel settur við lok kjörtímabilsins. Við höfum verið að leita leiða til að fá erlend fyrirtæki til að flytja eða skrá starfsemi sína hér á landi. Hefur þá einkum verið litið til sérhannaðra skattareglna í þágu slíkra fyrirtækja. Þetta hefur reynst torsóttara en vonast var til. Sennilega væri heillavænlegra að fara leið Íra og lagfæra hið almenna skattaumhverfi fyrirtækja svo hér á landi að fýsilegt væri af þeim sökum einum fyrir erlend fyrirtæki að flytja heimilisfesti sitt hingað. Það var andstaða við það á sínum tíma, þegar við lækkuðum skatta á fyrirtæki í áföngum úr 50% í 30%. Reynslan sýnir að bæði fyrirtækin og ríkissjóður hafa grætt á þeirri aðgerð. Myndarlegar skattalækkanir, sem menn hefðu trú á að væru varanlegar, myndu sennilega verða fyrirtækjunum og þó einkum ríkissjóði til enn meiri ávinnings. Fyrirtækin fengju þá aukna burði til að standa undir góðum launum starfsmanna sinna. Þessi kostur hlýtur því að koma til góðrar skoðunar.
Við upphaf síðustu aldar hófst eitt glæsilegasta framfaraskeið íslensku þjóðarinnar. Aldamótakynslóðin var full vilja til að grípa ný tækifæri og nýja tækni og virkja hana í þágu lands og þjóðar. Á þeim hundrað árum sem liðin eru höfum við brotist frá sárri fátækt til bjargálna og erum nú á meðal ríkustu þjóða heims. Nú er ný kynslóð að vaxa úr grasi á Íslandi, ný aldamótakynslóð. Hennar býður tækifæri til að gera landið okkar og lífskjörin enn betri. Umfram allt hefur hún tækifæri til að gera mannlífið bæði fjölbreyttara og blómlegra, þar sem hver einstaklingur fær að njóta atgervis síns og mannkosta. Það er okkar að búa svo í haginn fyrir þessa kynslóð að hún geti síðar sagt hróðug: "Þeim gömlu þótti tuttugasta öldin harla góð, en sú tuttugasta og fyrsta stakk þá tuttugustu hreinlega af."