Páskadagur í Skálholtskirkju
Ávarp forsætisráðherra í Skálholtsdómkirkju
á páskadag, 15. apríl 2001
Góðir kirkjugestir, gleðilega hátíð.
Öll eigum við minningar eða minningu sem aðrir atburðir standa í skugganum af. Sumar eigum við ein en aðrar með okkar nánustu. Gleðiríkum atburðum lyftum við í hæðir og það eitt að hugsa til þeirra léttir bæði geð og gönguna fram eftir veg. Svo eru til þau augnablik í veraldarsögunni, sem vekja samkennd með heilum þjóðum, jafnvel drjúgum hluta heimsbyggðarinnar. En það er þó fátítt. Spor mannsins á jörðinni má rekja langt aftur - meira en tvær miljónir ára ef vel er að gáð. En það eru ekki nema um 10 þúsund ár síðan maðurinn fór verulega að skara fram úr öðrum dýrategundum og nú verða þær að sitja, standa, fljúga eða synda eftir duttlungum hans. Og nú síðustu 100 árin höfum við mennirnir náð þeim "þroska" á þróunarbrautinni að þröngt er orðið um allar aðrar lífverur hér á jörð. Og ekki er sagan fullsögð, því færa má gild rök fyrir því að nú sé maðurinn einnig orðinn hættulegur sjálfum sér. Rúm 2000 ár eru frá komu Krists til manna og 1000 ár frá því hann var boðinn velkominn norður hingað með einróma ákvörðun Alþingis á Þingvöllum við Öxará. Þúsund ár, svo ekki sé talað um 2000 ár, eru drjúgur hluti af sögu mannsins og mannsandans í þeim skilningi sem ég nefndi áðan. Fæðing Krists var og er sameiginlegt fagnaðarefni alls hins kristna heims og kristnitakan með sama hætti ein af þeim fáu minningum sem nær öll íslenska þjóðin getur sameiginlega horft til með þakklátum huga. Kristnihátíð er ræktarsemi við þessa minningu, þakkargjörð um fjarlægan atburð sem stendur anda okkar þó nærri. Svo hefur verið á sumum að skilja að ástæðulaust hafi verið að setja sig í sérstakar stellingar og kosta nokkru til vegna þessara tímamóta. Kannski hafa þeir sömu eitthvað til síns máls. Það má vera best að fljóta aðeins áfram með tímans straumi, gera aldrei nokkurn stanz - horfa hvorki um öxl né hugsa til þess sem varð og spyrja: af hverju? Erlendur stjórnmálamaður, sem mikið fór fyrir undir lok nítjándu aldar, hafði sem einkunnaryfirskrift tilveru sinnar - sitt lífsmottó - þessi orð: "Ekkert skiptir máli." Þetta lífsmottó virðist vissulega gefa honum ærið mikið svigrúm til stjórnmálalegra ákvarðana og æðrulausrar afstöðu til atburða sem mikil áhrif hefðu á aðra menn. En ekki var þetta farsælt til lengdar eða til leiðsagnar, frekar en sá áttaviti væri sæfarendum sem hefði píluna eina, en engin merki um þær áttir sem hún vísaði á, hverju sinni. Mér væri nær að halda að réttara sé að sérhver atburður skipti máli og sumir muni ráða úrslitum um hvort gatan verður gengin til góðs eða ills. Og við getum sjálf haft ótrúlega margt um það að segja, hvort vel tekst til eða illa. Öll þekkjum við þýðingu þess, að varpa því ekki kæruleysislega frá sér sem reynst hefur heilladrýgst í lífinu. Sá sem á ást einhvers annars, eða bara elskulega vináttu einhvers annars, gerir sjálfum sér og öðrum gott, ef hann staldrar við, hugsar til þess undurs og þakkar það. Þeir sem leiddu kristinn boðskap fyrstu skrefin í þessu landi voru gæfumenn í öllum skilningi orðsins. Við erum stundum rifrildisgjarnir og uppstökkir Íslendingar. Hin íslenska þrætubók slægi allar aðrar út, ef hægt væri að gefa hana út á markaði. Flest verður okkur tilefni ýfinga og deilna, sem geta orðið hatrammar, þótt þær risti ekki djúpt. Það ætti þó að vera hafið yfir þá áráttu, sem deilur dagsins eru okkur, að viðurkenna kristnitökuna á Þingvöllum sem einn jákvæðasta atburð sem íslenska sagan skráir. Annan atburð og heilladrýgri er örðugt að benda á. Við hefðum því verið að forsmá sögu okkar og samkennd ef hennar hefði ekki verið minnst með tilhlýðilegum hætti. Og við hefðum þá einnig glatað gullnu tækifæri til mikillar umræðu og umhugsunar um inntak kristinnar trúar og gildi hennar fyrir íslenska þjóð í þúsund ár. Hitt er rétt og satt að menn gátu borið þessa minningar- og fagnaðarhátíð fram með margvíslegum hætti. Og ekki skal úr því dregið að af ýmsu megi finna og betur hefði mátt gera. En um flest var þessi hátíð, sem stóð í tvö ár, til mikillar fyrirmyndar. Viðburðirnir sem stofnað var til voru fjölbreyttir, stórir og smáir og þeir fóru fram um landið vítt og breitt. Reynt var að tryggja að enginn yrði útundan. Ætlað er að yfir150 þúsund manns hafi tekið þátt í 230 atburðum sem fram fóru undir merki kristnihátíðar eða með atbeina hennar. Atburðirnir mynduðu samfellda keðju og var stærsti hlekkurinn, Kristnihátíð á Þingvöllum þar í miðju og verður unaðsstundin þar eftirminnileg þeim 30 þúsundum sem hana sóttu auk þess mikla fjölda sem fylgdist með útsendingum þaðan.
Og nú um þessa páska lýkur hátíðarhöldunum formlega og fer einkar vel á því. Páskarnir, upprisuhátíðin, minna okkur enn á að það var hlutdeild í fagnaðarboðskapnum sem við Íslendingar öðluðumst árið 1000. Sérhver minningarstund um atburðinn þann er því fagnaðarhátíð. Við Íslendingar munum vonandi koma saman undir krossins merki enn um þúsundir ára. Stundum munu klukkur gleðinnar kalla okkur þangað, en eins og ekki síður klukkur sorgarinnar. Tilefni munu ekki breyta því, að sérhver stund með Kristi og kirkju hans verður ætíð með hátíðarbrag fagnaðarerindisins eins og páskahátíðin heldur svo skínandi vel á lofti.
Ég óska yður öllum gleðilegra páska.