Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins 2001
Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins
15. maí 2001
Góðir fundarmenn.
Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins er prýðis vettvangur til að líta yfir svið íslenskra þjóðmála, gagnrýna það sem miður fer og viðra hugmyndir sem geta horft til góðs. Sínum augum lítur þó hver á silfrið og stundum skipta einstaklingarnir um áherslur eftir því hver á setuna sem þeir hafa tyllt sér á það og það sinnið. Þessi samtök og viðsemjendur ykkar eru þar engin undantekning.
Einstaka sinnum vottar fyrir því að umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins taki mið af því hvað þjónar hagsmunum samtakanna en síður þeim aðilum sem samtökin eiga að þjóna. Og ég hef séð álit frá ykkar viðsemjendum sem virðast fremur byggjast á því að hlaða undir hreyfinguna sjálfa en ekki fólkið sem í henni er. Tilvikin eru ekki mörg en þau stinga í augu. Þessir aðilar sitja síðan saman við stjórnvöl í lífeyriskerfinu og þar eru hagsmunirnir iðulega aðrir en fram koma í hátíðlegum ræðum manna þegar þeir eru komnir í hæfilega fjarlægð frá stjórnarborðum lífeyrissjóðanna. Kannski móðgast einhver vegna þessara ummæla enda hljómar þetta ekki vel, og í flestum tilvikum eru til sannfærandi skýringar á því misræmi sem þarna birtist. Það kann að þykja í þágu lífeyrissjóðanna að raunvaxtastig í landinu sé hátt, þótt verkalýðsfélögin og fyrirtækin kvarti hástöfum um sama fyrirbæri. Lífeyrissjóðir, sem hafa verið óheppnir í erlendum fjárfestingum sínum geta rétt stöðuna ef gjaldmiðillinn veikist, sem hefur hins vegar óblíð áhrif á þau fyrirtæki sem eru illilega skuldsett í erlendum gjaldmiðlum og á verðbólgumarkmiðin sem eru ein af forsendum kjarasamninga. En aðilar vinnumarkaðarins eru ekki einir um að spila á ólíka strengi efnahagslífsins eftir því sem skipt er um hatt eða hægindi. Ríkisvaldið kemur einnig stundum fram í hlutverki kleifhugans. Það viðurkennir að ofþensla sé varasöm, en situr að hinu leytinu eins og púkinn á fjósbitanum og fitnar og dafnar þegar skatttekjur hrannast upp vegna hinna miklu umsvifa sem eru í þjóðfélaginu. Við sjáum nú að úr þenslu er að draga, tekjur ríkisins aukast ekki í sama mæli og fyrr, en útgjöldin dragast ekki að sama skapi saman. Einn óvæntur dómur í hæstarétti getur þýtt milljarða útgjöld úr ríkissjóði á einu kjörtímabili, og dómurinn þarf ekki að tryggja tekjur á móti, það er öðrum látið eftir. Óvæntir samningar sveitarfélaga við grunnskólakennara þýða að ótaldir milljarðar eru færðir ríkissjóði til gjalda í lífeyrisskuldbindinum, og svo mætti lengi telja. Lengi hefur hver maður sem vill láta taka mark á sér hrópað að stemma þyrfti stigu við þenslu sem væri helsta mein þjóðarlíkamans. Þegar langtíma aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka í þeim efnum fara loks að skila sér, segja sömu aðilar að þeir sjái ekki betur en að kreppa sé að skella á! Allir vitrir menn kölluðu á, að horfið væri frá að hafa gengisviðmiðun sem leiðarljós Seðlabanka og haldið skyldi inn á braut verðbólgumarkmiða. Þetta var gert þótt vitað væri að það hlyti í byrjun að kalla á nokkurt rót. Þegar það rót kom í ljós voru menn fljótir að jesúsa sig og krefjast þess að íslensku krónunni væri hent svo gjaldmiðillinn tæki frekar mið af efnahagsþróun annars staðar en ekki af efnahagsaðstæðum eins og þær eru á Íslandi á hverjum tíma. Þessi hróp komu ekki síst frá mönnum sem skömmu áður höfðu sent frá sér hverja kröfuna af annarri um að gengið yrði lækkað. Ragnar Reykás er hættur á Spaugstofunni en hann hefur bersýnilega ekki átt í vandræðum með að finna sér störf við hæfi. Hitt er annað mál, að ályktun af því tagi sem finna má í samþykktum á þessum vettvangi um að kanna beri kosti og galla myntsamstarfs eða tengingu við annað myntsvæði er eðlileg og sjálfsögð. Fyrir fáeinum árum skipaði ég nefnd fjölmargra aðila, þ.m.t. þeirra sem nú eru saman í þessum virðulegu samtökum, til að kanna stöðu og hagsmuni okkar vegna evrunar. Niðurstaðan varð sú, að ekki væri efni eða ástæður fyrir okkur að bregðast við nú en sjálfsagt væri að fylgjast glögglega með. Sérstaklega var nefnt að gengju Bretar, Danir og Svíar til þessa stamstarfs væri nauðsynlegt að huga að okkar stöðu á ný, því þá myndu viðskipti okkar við evrusvæðið tvöfaldast. Líkur á breytingum í þá átt hafa þó minnkað að mun, eftir atkvæðagreiðslu í Danmörku og skoðanakannanir í Bretlandi sem sýna að um 70% Breta eru andvígir því að kasta pundinu fyrir róða. En sjálfsagt er og nauðsynlegt að hafa góðar gætur á þróun mála á næstu áratugum.
Góðir fundarmenn.
Við hljótum að horfast í augu við að til eru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sem hafa siglt hinn góða byr full glannalega í þessu þjóðfélagi. Ekki er útilokað að þeir fái skell þegar dregur úr hraða hagsveiflunnar. Við hörmum þær ófarir, en á hinn bóginn má færa fyrir því rök að þeir eigi að fá skell. Ég geri ekki ráð fyrir að menn telji að hægt sé að koma sér upp efnahagslegu kerfi, þar sem glæfraspil eða vitlausar spekúlasjónir einstaklinga eða fyrirtækja koma þeim aldrei í koll. Á undanförnum árum hefur íslenska krónan að jafnaði verið mun stöðugri og áreiðanlegri gjaldmiðill en evran, öfugt við allar spár. Auðvitað hlaut lækkun evrunnar fyrr eða síðar að leiða til að íslenska krónan leitaði jafnvægis gagnvart henni í samræmi við hlutfall viðskipta við það svæði. En að öðru leyti speglar krónan og á að spegla þann efnahagslega veruleika sem hún býr við. Það er allsérstætt að þau viðhorf séu uppi að það sé betra að gjaldmiðill okkar sveiflist eftir efnahagsástandi sem ekki tekur neitt mið af því sem hér er að gerast, og er stundum í öfugum takti við hinn íslenska veruleika.
Við gerðum best í því að horfa á stöðu íslenskra efnahagsmála í heild um þessar mundir. Undirstöður velferðar í landinu hafa verið treystar og afkoma heimilanna er almennt betri en í nokkurn annan tíma. Vegur menntunar og rannsókna hefur verið aukinn og mun enn aukast á næstu árum. Vinnulöggjöfinni hefur verið breytt til batnaðar, en við eigum þó enn heimsmet í verkföllum með þeim almennu kaupmáttarskerðingum sem því verklagi hlýtur að fylgja. Það væri fróðlegt að reikna út hvað hægt væri að auka kaupmátt mikið í landinu ef við kæmumst niður á svipað verkfallsról og þekkist í öðrum löndum. Það er enginn vafi á því að hið séríslenska verkfallsmentalitet er ekki arðgefandi, þótt of margir virðist standa í þeirri meiningu, að verkföll í tíma og ótíma séu uppspretta verðmæta og velfarnaðar. Það er ömurleg öfugmælavísa.
Góðir fundarmenn.
Mörgum góðum áfanga hefur verið náð á undanförnum árum. Dregið hefur verið úr ítökum hins opinbera í atvinnulífinu. Hver áfangi á þeirri leið hefur mætt harðri mótspyrnu en áfram verður haldið, enda ávinningurinn augljós. Skuldir ríkisins hafa lækkað hratt á undanförnum árum, þrátt fyrir að stórkostlegar duldar skuldir hafi nú loks verið færðar til bókar hjá ríkinu. Réttaröryggi borgaranna hefur verið stóraukið og starfsemi stjórnvalda verið gerð gagnsærri en áður var svo auðveldara sé að gagnrýna hana og knýja á um að réttur einstaklinganna sé virtur í hvívetna. Unnin var framkvæmdaáætlun á sínum tíma um bætta samkeppnisstöðu Íslands út á við og var ráðuneytum falið að kljást við um 40 verkefni til að bæta samkeppnisstöðuna og hefur drjúgur hluti þeirra verkefna náð fram að ganga að miklu eða öllu leyti. Á hinn bóginn er augljóst orðið að samkeppnisskilyrði inn á við eru í ólagi og þar hefur verið beitt vinnubrögðum sem allir góðir menn hafa óbeit á og hinir sterkari neytt aflsmunar þar sem því hefur verið viðkomið. Er mikil ólykt af því atferli öllu. Mikilvægt er að við þessu verði brugðist af festu.
Líkur hafa aukist upp á síðkastið á því að vel takist til við ákvarðanir um nýjar virkjanir og stóriðju. Gangi það eftir munu áhrif þess á hagvöxt í landinu næstu 10 árin eða svo verða mjög mikil. Ísland mun þá ná þeim árangri að búa við tveggja áratuga samfellt hagvaxtarskeið. Mun það vafalaust styrkja stöðu þjóðarinnar varanlega, jafnt inn á við sem út á við.
Eins og kunnugt er hefur ríkisvaldið beitt sér fyrir breytingum á skattareglum á undanförnum árum. Aðstöðugjöld, sem voru mjög óvinsæl í þessum félagsskap, voru lögð af. Skattar fyrirtækja voru lækkaðir í áföngum úr 50% í 30%, og þótt þar væri auðvitað ekki um nettóskattalækkun að ræða, var breytingin mjög til hagsbótar fyrir atvinnulífið. Sköttum á leigu íbúðarhúsnæðis var breytt og tekjuskattsprósenta einstaklinga lækkuð. Því miður var dregið úr áhrifum þessara breytinga með því að sum sveitarfélög nýttu sér tækifærið og hækkuðu skattheimtu hjá sér í skjóli þessara skattalækkana og hefur því ekki verið nægur gaumur gefinn. Skattbreytingar hafa stundum verið gerðar til að auðvelda aðilum á vinnumarkaði að ná saman. Angi af því dæmi er hækkun barnabóta um 1500 milljónir króna í þremur áföngum. Á undanförnum mánuðum hafa forystumenn stjórnarflokkanna verið að fara yfir mögulega skattkerfisbreytingu frá og með næstu áramótum. Þar hafa menn einkum litið til skattprósentu fyrirtækja, stimpilgjalda, eignarskatta einstaklinga og fyrirtækja og viðmiðunarmörk svokallaðs hátekjuskatts, sem nú lendir á millitekjum. Allt eru þetta þörf atriði og jákvæðar breytingar til þess fallnar að ýta undir athafnagleði fólks og fyrirtækja. Við það er miðað að svo hafi dregið úr þenslu þegar líða tekur á þetta ár að slíkar skattkerfisbreytingar geti komið til. Lokaákvaðanir hafa ekki verið teknar enda að mörgu að hyggja, en ljóst er að góður vilji stendur til þess hjá báðum stjórnarflokkunum að vinna að breytingum á skattheimtu, sem eru til þess fallnar að auka hér umsvif og tryggja að forsendur fyrirtækjareksturs séu upp á það allra besta hér á landi. Dæmin sanna að heildartekjur ríkissjóðs þurfa ekki að lækka þótt skattareglurnar séu gerðar sanngjarnari.
Nýverið voru birtar niðurstöður alþjóðlegrar könnunar á hversu opin og frjáls hagkerfi þjóða heims eru. Við Íslendingar megum vel una þeim niðurstöðum sem koma fram í skýrslunni. Fyrir tíu árum síðan vorum við í 22. sæti þeirra ríflega eitt hundrað þjóða sem könnunin nær til. Á þessum tíu árum sem liðin eru höfum við færst upp um sjö sæti og erum nú í hópi þeirra fimmtán þjóða heims þar sem viðskipti og efnahagsstarfsemi öll er hvað frjálsust og opnust. Þessi niðurstaða er í samræmi við nýlegar alþjóðlegar kannanir á samkeppnishæfni landa en þar sést að íslenska hagkerfið er á meðal þeirra sem býr fyrirtækjum og einstaklingum hvað best samkeppnisskilyrði á alþjóðavísu. Þessar niðurstöður eiga ekki að koma okkur á óvart. Á undanförnum áratug höfum við gerbreytt íslenska hagkerfinu þannig að aðstæður nú eru nánast óþekkjanlegar frá því sem áður var. Stórfelld einkavæðing í stað umfangsmikils ríkisrekstrar, öflugur fjármálamarkaður í stað ríkisrekinna lánastofnanna og myndarlegur afgangur á ríkisstjóði í stað gengdarlausrar skuldasöfnunnar, allt er þetta órækur vitnisburður um breytt og betra þjóðfélag. Að baki þessara breytinga allra er sú grundvallar lífsskoðun að þá farnist fólki best þegar það hefur mest tækifæri til að njóta krafta sinna, sköpunargleði og framtakssemi. Með því að auka frelsið myndu lífskjör allra batna en ekki bara sumra, eins og úrtölumenn héldu fram. Sú varð líka raunin. Á síðustu fimm árum eða svo hafa lífskjör okkar Íslendinga batnað langt umfram það sem gengur og gerist hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er því ánægjuleg staðfesting fyrir okkur Íslendinga þegar hinir ágætu fræðimenn sem stóðu að þessum alþjóðlegu rannsóknum komust að þeirri niðurstöðu að í þeim löndum þar sem hagkerfin voru hvað opnust og frjálsust, voru lífskjörin líka best. Í þessum löndum voru tekjur einstaklinga hæstar, fátækt minnst, spilling minnst, menntun best og lífslíkur mestar. Þessar niðurstöður og reynsla okkar Íslendinga á undanförnum áratug ætti að færa þeim sem halda að framfarir og fjölskrúðugt mannlíf verði ekki til nema á skrifborðum stjórnmálamana og embættismanna í eitt skipti fyrir öll heim sannin um að ekkert vopn bítur betur, að ekkert skilar meiri árangri heldur en athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja. Það er hins vegar athyglisvert við þessa frelsisskýrslu að öflugustu lönd Evrópusambandsins, Þýskaland og Frakkland, færast niður í einkunnagjöfinni og þar versnar samkeppnisstaðan meðan hún batnar á Íslandi. Ég á ekki von á að þeir sem tekið hafa vírusinn leggi mikið upp úr því, enda sýnast þeir ekki mjög veikir fyrir staðreyndum.
Góðir fundarmenn.
Ég hef oft verið gagnrýndur fyrir helst til mikla bjartsýni fyrir hönd íslensks efnahagslífs. Snjall skopmyndateiknari teiknar forsætisráðherrann með sólgleraugu á nefinu og helst er sólarolíubrúsi innan seilingar, jafnvel í roki og rigningu. Á hinn bógin eru auðvitað til þeir sem sjá skrattann upp um alla veggi og hafa í mörg ár spáð því að nú sé allt að fara í kalda kol. Og um leið og einn afturkippur sést ráða þeir sér ekki fyrir gleði. Hvað sögðum við ekki, segja þeir í stundaránægju, en steypa sér síðan sjálfum aftur á bólakaf í heimsendaspár og hallærishyldýpi. Þetta er oft furðulegt á að líta. Íslenska hagkerfinu hefur fleygt ótrúlega fram á síðustu tíu árum, samkeppnisaðstæður okkar eru nú líkar því sem aðrar þjóðir búa við. Framundan eru miklar orkuframkvæmdir vegna nýs álvers á Reyðarfirði og vegna stækkunar Norðuráls. Einkavæðing ríkisbankanna og Landssímans kemur til framkvæmda innan skamms og hefur þá ríkisvaldið alfarið dregið sig út úr rekstri í þessum mikilvægu atvinnugreinum. Mikill vöxtur hefur verið í ferðaiðnaði og hugbúnaðariðnaður og líftækni standa mjög framarlega hér á landi og ber það vott um framsækið og djarft atvinnulíf. Við þetta bætist að vegna aðhalds og skynsamlegrar stjórnunar ríkisfjármála er nú að myndast svigrúm til myndarlegra skattalækkana, bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Allt þetta og að því viðbættu að þjóðin er vel menntuð og harðdugleg gefur fullt tilefni til þess að við séum bjartsýn. Bjartsýni sem á raunsæi er byggð er aflvaki allra framfara og án hennar koðnar öll heillavænleg athafnasemi. Ég tel að þótt óþarfi sé að brýna þennan ágæta hóp athafnamanna og -kvenna sem hér er til dáða, sé gott að hafa þessi sannindi ofarlega í sinni þá við öxlum þá ábyrgð sem í störfum okkar allra er fólgin.