Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. júní 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ávarp á Austurvelli 2001

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á Austurvelli 17. júní 2001


Góðir Íslendingar, gleðilega þjóðhátíð.
Þessi dagur, 17 júní, kallar ár hvert íslenska þjóð til hátíðar. Og Íslendingar hlíða flestir slíku kalli glaðir, og eru þeir þó lítt gefnir fyrir að láta segja sér fyrir verkum eða snúa sér að óþörfu. Fáni er dreginn að hún á hverri stöng, ræðumenn kveðja sér hljóðs til að tala enn betur um Jón Sigurðsson en endranær, lúðrar eru þeyttir, blöðrur þandar út og þjóðin hefur á tilfinningunni að hún sé ein og söm, eigi flest sameiginlegt og það sé fagnaðarefni. Ungir og gamlir njóta tilverunnar í nálægð fánans, hins unga Íslands merkis. Og svona á þetta einmitt að vera.

Meira að segja nú, þegar alþjóðavæðing er heróp tímans, þegar landamæri eru óðum að missa merkingu sína og þegar þjóðarstolt og þjóðarást eru pólitísk bannorð víða hvar, hefur 17. júní enn þessi áhrif á Íslandi. En þjóðarást okkar, stolti og samkennd fylgja engar öfgar. Hvergi er því haldið fram að við Íslendingar séum í gerðinni betri en aðrir menn eða að þeir eiginleikar, sem almættið hefur skammtað okkur, séu ríkulegri og tilkomumeiri en aðrir hafa fengið í sinn hlut. Heilbrigt þjóðarstolt og sönn ættjarðarást hafa enda ekkert með slíkan belging og staðleysur að gera. En við fyllumst stolti, þjóðarstolti og fögnum því með gleðibrag og af heilum hug og heitu hjarta að hin sterka sannfæring íslenskra þjóðfrelsismanna um að þjóðin gæti spjarað sig á eigin spýtur, reyndist á bjargi byggð. Það hefur reynst rétt mat að íslensku þjóðinni myndi þá vegna best er hún hefði sjálf mest að segja um þróun sinna mála. Og reynslan hefur einnig staðfest, að því meira sem sérhver Íslendingur hefur að segja um það, sem að honum snýr, þeim mun betur mun þjóðinni miða í heild. Dómur sögunnar hefur með öðrum orðum staðfest það sem okkar bestu menn höfðu spáð þegar baráttan stóð sem hæst. En við Íslendingar erum hvorki betri eða verri þjóð fyrir vikið. Þessi lögmál eru algild. Reynslan sýnir hvarvetna að sjálfstæðum þjóðum vegnar betur en þeim sem undirokaðar eru, jafnvel þótt velmeinandi herraríki eigi í hlut og enn fremur að þar gengur best sem frelsi einstaklinganna er bæði virt og tryggt. Við Íslendingar höfum sem sagt ekki nokkra ástæðu til að tala af yfirlæti eða hroka til nokkurrar þjóðar. En við eigum á hinn bóginn ekki að liggja á því sem við teljum að hafi reynst okkur best og heilladrýgst. Og það sem áunnist hefur frá heimastjórn og sjálfstæði gefur þjóðinni vissulega ríkulegt tilefni til að taka frá einn dag á ári til sameiginlegrar gleðistundar og enginn einn dagur á annað eins tilkall til þess hlutverks og sautjándi júní - afmælisdagur þeirra beggja, lýðveldisins og Jóns Sigurðssonar forseta. En fyrst því er haldið fram hér að 17. júní sé sérstakur gleðidagur vegna þess mikla árangurs og ávinnings sem sjálfstæði og sjálfstjórn þjóðarinnar hefur fylgt, verður þá ekki spurt, hvort þá sé ekki rétt að fara sér hægar og jafnvel fella hátíðarhöld niður þegar á móti blæs. Og það er ekki ofmælt að nokkuð hefur gefið á bátinn síðan við sáumst hér á Austurvelli síðast. Tveggja mánaða kennaraverkfall og lengsta sjómannaverkfall í síðari tíma sögu, og erfið lagasetning til að binda endi á það, niðurskurður á aflaheimildum og gengisveltingur með tilheyrandi verðbólgukviðu, svo nokkuð það helsta sé nefnt, eru varla sérstakt fagnaðarefni. Nei, svo sannarlega ekki og það er óþarfi er að gera of lítið úr því. En það er á hinn bóginn ekki bara óþarfi heldur beinlínis varasamt að gera of mikið úr því tímabundna andstreymi, sem við höfum mætt. Orðtakið segir: "Ef þú ert kominn ofan í holu, hættu þá að moka!" Með öðrum orðum, gerðu ekki illt verra, málaðu ekki skrattann á vegginn. Það er reyndar athyglisvert að flestir hinna umtöluðu erfiðleika, sem menn mikla nú fyrir sér, eru heimatilbúnir, þótt aðrir eins og olíuverðshækkun og miklar sveiflur stærstu gjaldmiðla heims, komi að utan. Hin heimatillbúnu vandamál eigum við að geta leyst og ber reyndar skylda til að víkja okkur ekki undan því. Á síðasta áratug hefur sem betur fer dregið nokkuð úr fjölda verkfallsdaga á Íslandi. En við eigum samt enn heimsmet í þeirri "íþróttagrein". Það er eina heimsmetið af þessu tagi í okkar höndum og er það örugglega ekki met sem nokkur þjóð reynir að hafa af okkur. Þar er við okkur sjálfa að eiga. Um þar er vart deilt að tapaðir vinnudagar eru tapað fé. Verkföll eru sjálfsagt óhjákvæmilegt baráttutæki en óhófsnotkun á því tæki er öllum til ills. Það er vissulega engum einum aðila um að kenna að svo illa hefur tekist til. En þjóðin hlýtur svo sannarlega að fordæma og frábiðja sér vinnulag á vinnumarkaði, sem leikur okkur verr í þessum efnum en aðrar þjóðir. Vondu fréttirnar um þorskaflann áttu ekki rót í því að stjórnvöld hefðu hunsað ráð vísindamanna sinna. Þeirra ráðum hefur verið fylgt samviskusamlega og í góðri trú á sannfærandi kenningar um að þar með yxi aflinn jafnt og þétt. Það kom hins vegar á daginn að hinum vísindalegu vinnubrögðum var verulega áfátt. Úr því verður að bæta og hafa nú þegar verið stigin skref í þá átt. En hvað með gengisóróleikann? Hann stafar einkum af tvennu. Langt sjómannaverkfall með yfirvofandi gjaldeyrisþurrð dró úr trausti krónunnar á sama tíma og sú breyting var ákveðin að Seðlabankinn hyrfi úr hlutverki barnfóstrunnar í gjaldeyrismálum. Ábyrgðin var flutt yfir á viðskiptaaðila á gjaldeyrismarkaðinum og augljóst er að þeir hafa enn ekki fyllilega náð þar áttum. Gjaldeyrisórói, eins og sá sem hér hefur orðið, er vel þekkur við þær aðstæur sem nú ríkja og mun ganga yfir hér sem annars staðar. Fráleitt er, þegar jafnvel ábyrgir aðilar þjóta upp og vilja leysa slíkan skammtímavanda með því að kasta frá sér hinni íslensku mynt í einu vetvangi. Þeim sömu hefur yfirsést að jafnvel þótt almennur vilji stæði til slíkra breytinga, sem ekki er, tæki það um sex til sjö ár að koma þeirri skipan á, og þá einvörðungu ef engir hnökrar yrðu á því flókna ferli. Menn eiga þann kost einan að laga sig að þeirri breytingu sem gerð hefur verið með stuðningi allra sem um þá ákvörðun tjáðu sig. Það kallar vissulega á nýja ábyrgð, aukna þekkingu og stillingu, þegar menn eru ekki lengur í vernduðu umhverfi varinnar gengisfestu, en verkefnið ætti þó ekki að vera íslensku viðskipta- og atvinnulífi ofviða.

Því hefur mjög verið haldið á lofti að undanförnu að viðskiptahallinn væri neikvæðasta táknið í efnahaglífi þjóðarinnar. Nú er augljóst að undirrót hans, umframeyðslan, er í rénun. Það þýðir auðvitað, að þeir sem hafa haft mest upp úr krafsinu í þenslu og spennu, verða um stund að fara sér hægar. Aukin varfærni í bankakerfinu og breytt gengi getur einnig þýtt að sumir, sem sigldu krappastan byr í von um skjótan og mikinn ávinning þurfa að hægja á, og einhverjir munu steyta á skerjum. Það er miður en var þó að nokkru fyrirsjáanlegt. Þeir sem taka áhættu í lífinu verða stundum fyrir áföllum og þá ekki síst þeir sem miklu hætta og leggja á tæpasta vaðið.

Góðir Íslendingar.
Það skiptir mestu nú að íslenskt efnahagslíf er í öllum meginatriðum vel statt og hefur góða burði til að sigla beitivind og jafnvel nokkurn andbyr, og það með árangri. Ríkissjóður stendur vel. Viðskiptakjör eru hagstæð og sama er að segja um skilyrði útflutningsgreina. Verðbólgukúfurinn mun hjaðna á næstu mánuðum, erlendar fjárfestingar aukast og gjaldmiðillinn styrkjast. Það er einmitt sú góða umgjörð, sem sjálfstæðið og frelsið skapaði okkur og við höfum nýtt svo vel undanfarin ár, sem léttir okkur svo róðurinn nú. Það voru þættirnir, sem ég nefndi í upphafi máls að væru hin raunverulegu tilefni þessa þjóðhátíðardags – hins sæla Sautjánda júní. Og við skulum njóta hans með gleði og ánægju um leið og við tökum undir með hinu baráttuglaða skáldi sem sagði:


Vér skulum ei æðrast, þótt inn komi sjór,
þó endur og sinn gefi á bátinn.
Nei, að halda sitt strik, vera í hættunni stór
og horfa ekki um öxl - það er mátinn!

Ég óska ykkur landar mínir, nær og fjær, gleðilegrar þjóðhátíðar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta