Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. júní 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ávarp á Hrafnseyri 2001

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á Hrafnseyri 17. júní 2001


Jón Sigurðsson, forseti, hefði orðið 190 ára í dag og lifir enn með þjóð sinni í undirmeðvitund hennar, vonum og háleitustu draumum. Hátíðarhöld eru í höfuðborginni, þar sem Jón hvílir, hér á Hrafnseyri, fornfrægum fæðingarstað hans, og um gervallt Ísland. En það væri þó ofsagt að afmæli Jóns væri í öndvegi. Það heiðurssæti skipar lýðveldið Ísland, endapunktur þjóðfrelsisbaráttunnar, kórónan á því mikla verki sem Jón fór fyrir að unnið var. Vegna lýðveldisstofnunarinnar fyrir 57 árum er nú hvarvetna blásið til fagnaðar. En dagsetning lýðveldisstofunarinnar og þar með upphaf þjóðhátíðardagsins var þó engri tilviljun háð – það kom engin dagsetning önnur til greina – og hið sama gildir raunar um stofndag Háskóla Íslands, sem látinn var bera upp á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, í virðingu og þakklætisskyni við hann. Þegar nú er horft um öxl má sjálfsagt líta á stofnun háskóla í þessu fámenna fátæka ríki árið 1911 sem hluta af þeirri veruleikafirringu þjóðarinnar, sem vitmönnum í Kaupmannahöfn, meira að segja þeim, sem var einna hlýjast til Íslendinga, þótti sjálfstæðisbarátta þessara sögufróðu, sérvitru eyjaskeggja á nítjándu öldinni bera keim af. En það var Jón Sigurðsson, hinn jarðbundni vísindamaður, sem fór fyrir þessum veruleikafirrtu mönnum og barátta hans og þeirra var ekki síst reist á heilsteyptri þekkingu á sögu og rétti þjóðarinnar og röksemdafærslu, sem öguð og akademísk vinnubrögð lögðu einkum grunn að. Dagskrárgerðarmönnum ýmsum hentar stundum á sautjánda júní að draga fram, sér og öðrum til gamans, hve brotakennd þekking stórs hluta þjóðarinnar er á Jóni Sigurðssyni, persónu hans og baráttusögu. Og vissulega mættum við öll vera betur að okkur um Jón forseta og hinn einstæða feril hans. Einkum ættum við að leggja rækt við að kynnast lífsskoðunum hans og hugsjónum og þeim metnaðarfullu vonum, sem hann ól í brjósti um framtíðar vegferð og afkomu sinnar fámennu og á köflum sinnar voluðu þjóðar. En til þess er að líta að Íslendingum er flestum mjög í mun að forðast persónudýrkun af sérhverju tagi. En okkur er þó alveg óhætt og reyndar rétt að viðurkenna að Jón var afburðamaður og hæfileikar hans hefðu efalítið leitt hann til forystu og metorða á hvaða tíma sem var og undir merkjum sérhverrar þeirrar þjóðar, sem hann hefði fæðst til. Slíkur maður var hann. En með sama hætti er okkur rétt að hafa í huga, jafnvel sjálfan sautjánda júní, að Jón var þó bara maður og hefur sjálfsagt burðast með einhverja þeirra mörgu galla sem þeirri dýrategund einatt fylgja. Það breytir ekki því, að um allan aldur hlýtur Jón Sigurðsson að standa á veglegri stalli en aðrir menn á Íslandi vegna afreka sinna og ótvíræðra áhrifa til góðs á tilveru þessarar þjóðar. Og óhætt er að segja að hann virðist rísa betur undir heiðri og vegsemd en margir aðrir dauðlegir menn, sem þjóðir heims hafa dýrkað í gegnum tíðina. En yfirnáttúrulegur eða guðlegur var hann ekki, og aldrei gerði hann nokkra kröfu til að menn hæfu hann í slíkar hæðir. Hann var ekki óskeikull og gat ekki fremur en samtímamennirnir séð hver framtíð biði þjóðarinnar sem hann barðist fyrir og unni. En hann sá lengra en aðrir vegna þess að hann studdist stefnufastur við nokkrar megin kenningar og pólitískar gildisreglur, sem ganga sem rauður þráður í gegnum orð hans og gerðir. Það vafðist þannig aldrei fyrir Jóni Sigurðssyni að frjálsri og fullvalda þjóð myndi farnast betur en þeirri sem misst hefði forsjá sína að öllu eða verulegu leyti í annarra hendur. En úr orðum Jóns má einnig lesa að sú staðreynd þyrfti ekki að þýða að einangrun þjóðarinnar og heimóttarskapur væri lausnin sem leita bæri að. Öðru nær. Frjáls viðskipti manna og þjóða á milli voru að hans mati ein þýðingarmesta forsenda framfara og almennrar velsældar. Við, sem hér erum samankomin, þykjumst auðvitað ekki jafnvíg Jóni. En við höfum þó að einu leyti mikilvægt forskot fram yfir hann. Það, sem honum var hulin og fjarlæg framtíð, er okkar veruleiki og áþreifanlegur sögulegur dómur. Við þekkjum því margt sem Jón varð að láta sér nægja að geta sér til um, spá fyrir um, eða gat aðeins leyft sér að að vona að yrði. Og við getum þess vegna stolt staðfest í heyranda hljóði, hér á fæðingarstað hans, að flest það, sem sameinað hyggjuvit hans, kapp og baráttuhugur dró upp af framtíðarmöguleikum Íslands hefur gengið eftir og gott betur. Heimastjórnin 1904, fullveldið 1918 og lýðveldið 1944 urðu ekki aðeins stórbrotnir áfangar í sjálfstæðisbaráttunni sem Jón lagði grunninn að. Þessir áfangar urðu um leið kaflaskil í kjörum og kostum þjóðarinnar, breyttu öllu um velferð hennar, menntun og menningu. Og Jón átti einnig kollgátuna þegar kom að verslunar- og viðskiptafrelsinu, hvort sem horft var inn á við eða út á við. Hagur þjóðarinnar batnaði jafnan í réttu hlutfalli við það aukna frelsi, sem hún öðlaðist. Auðvitað er það rétt, sem sumir undirstrika í tíma og ótíma, að misskipting lífsins gæða er meiri en þegar fátæktin var eina sameign þjóðarinnar. En sá er vonandi vandfundinn sem þættist betur staddur ef frelsið væri takmarkaðra og forræði íslenskra mála væru fremur í annarra höndum en okkar sjálfra. Þessa er okkur hollt að minnast. Við höfum góðar og gildar ástæður til þess Íslendingar að gleðjast yfir góðum árangri og megum jafnvel vera dálítið roggnir, að minnsta kosti á þessum sérstaka degi. En það má ekki gleyma sér, þótt gaman sé. Því baráttan fyrir þeim góðu gildum, sem best hafa dugað, tekur engan enda, eins og dæmin sanna.

Stofnun Háskóla Íslands, hinn sautjánda júní árið 1911, var eins og fyrr sagði stóratburður, dirfskufullt og dýrt skref, sem stigið var út í fullkomna óvissu um að þjóðin gæti valdið svo miklu verkefni. Óhætt er að segja, nú níutíu árum síðar, að þar hafi tekist betur til en jafnvel þeir bjartsýnustu gátu gert sér vonir um. En þeim slag, að standa undir burðugum þjóðarháskóla, sem rís undir því nafni, lýkur heldur aldrei. Háskólinn verður að standa sig í alþjóðlegum samanburði í þeim fræðum sem þar eru iðkuð og kennd. Breytir það engu, þótt hann þurfi að keppa við stofnanir sem alltaf munu hafa úr miklu meira fé að spila en hér verður nokkru sinni hægt að öngla saman. Það þýðir að lærimeistarar og stúdentar hins íslenska háskóla og þeirra stofnana sem í kjölfar hans hafa siglt, verða að gera mjög ríkar kröfur til sjálfra sín og síns skóla. Háskóli þarf að búa við skilvirkt stjórnkerfi, gagnrýnið sjálfsmat, agaða kennsluhætti og skýr markmið í hverri grein.

Framkvæmda og fjárveitingavald getur auðvitað ekki setið hjá á hliðarlínunni en hlýtur að kosta kapps um að tryggja skólanum sem bestan aðbúnað og skilyrði til að efla sig á alla lund. Og sem betur fer hefur tekist að efla hag menntastofnana á undanförnum árum þótt margt sé vísast ógert. Það stendur óhrakið sem sagt var að alltaf verður dýrt að vera Íslendingur, en það á vissulega að geta svarað kostnaði. Við Íslendingar búum enn og munum alltaf búa við nokkra sérstöðu hér norður í hafi, en við erum ekki lengur úr alfaraleið. Viljinn til viðskipta og samfélags við aðra, sem Jón Sigurðsson bjó yfir og hvatti aðra til að efla með sér, ásamt þeirri tæknibyltingu sem orðið hefur í öllum greinum, skapar okkur nýja og sterka stöðu og ný óþrjótandi tækifæri. Hann Jón Sigurðsson forseti frá Hrafnseyri við Arnarfjörð á það að minnsta kosti inni hjá okkur að við nýtum þau tækifæri sem gefast, en glötum þeim ekki. Góðir áheyrendur. Ég er stoltur yfir að mega deila þessum degi með ykkur og óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar og góðrar og blessaðrar tíðar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta