Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. ágúst 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Utanríkisráðherrar Eystrasaltslandanna

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á fundi með utanríkisráðherrum Eystrasaltslandanna
í Höfða 25. ágúst 2001



Ræðan á ensku

Ágætu gestir.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar hátíðarstundar og sérstaklega fagna ég komu góðra gesta frá Eystrasaltslöndunum þrem til Íslands á þessum tímamótum.

Eystrasaltslöndin brutust til frelsis og sjálfstæðis fyrir rúmum 10 árum síðan. Áratuga ok og ótrúleg kúgun hafði ekki náð að kæfa frelsisneistann sem falinn var djúpt í sálinni, skýldur af ódrepandi ættjarðarást og þjóðarvitund. Vesturlönd höfðu "de facto" afskrifað þessi lönd inn í hinn sovéska efnahagsreikning. Þess vegna kom þeim flestum í opna skjöldu baráttan og kjarkurinn, sem þjóðirnar sýndu er þær gripu tækifærið sem gafst, þegar þær sáu glufu í kúgunarkerfinu og ráku ofaní hana fleyga svo hún lokaðist ekki á ný, og hófu að víkka hana af því ódrepandi afli sem frelsisþráin ein gat knúið.

Við, sem þá fórum fyrir íslensku ríkisstjórninni, fylgdumst með af áhuga og eftirvæntingu og erum þakklátir fyrir að hafa mátt leggja okkar litla lóð á vogaskálar einstæðrar frelsisbaráttu. Ég minnist þeirra stunda, sem einhverra þeirra ánægjulegustu sem ég hef komið að í íslensku stjórnmálalífi. Ég minnist einnig ábendinga og aðvörunarorða sem við fengum frá ýmsum vina okkar bæði beint og óbeint um að nú mætti ekkert gera sem veikt gæti stöðu þeirra í Moskvu sem vestrænir leiðtogar höfðu sett traust sitt á. Allt var það vel hugsað og vel meint, en samt svo rangt. Ég minnist einnig sérstaklega framgöngu íslenska utanríkisráðherrans, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem vakti aðdáun mína fyrir festu, snerpu og hugrekki, sem að verðleikum mun halda nafni hans lengi á lofti.

Árið 1986 var haldinn á þessum stað fundur leiðtoga stórveldanna tveggja, Ronald Reagans og Michael Gorbachevs. Þeim fundi var í upphafi ekki ætlað stórbrotið hlutverk og við lok hans var fullljóst að fréttamenn töldu að fundurinn hefði gersamlega misheppnast. Það mat átti svo sannarlega eftir að breytast. Nú er svo komið að flestir sagnfræðingar líta á þennan fund sem tímamótaatburð, þar sem þá var lagður farvegur þeirrar þróunar sem síðar varð. Þess vegna ákváðum við þáverandi utanríkisráðherra að enginn annar staður gæti verið svið hinnar sögulegu undirskriftar hans og kollegana frá hinum nýfrjálsu ríkjum, um formlegt stjórnmálasamband þjóðanna.

Allir þessir atburðir og stundin hér í Höfða sérstaklega, voru af slíkri sögulegri stærð að sjálfsagt er að minnast þeirra nú tíu árum síðar með þakklæti og hlýju. Utanríkisráðherrar landanna voru hér staddir eins og nú og einn þeirra fyrrnefndu (Algirdas Saudargas) tengir fortíð við nútíð og við fögnum honum sérstaklega. Við Íslendingar erum stoltir og afar þakklátir fyrir að hafa mátt leika einn leikinn í þeirri æsispennandi baráttuskák sem fólk og forysta Eystrasaltsríkjanna háði fyrir tíu árum rúmum þar sem allt var lagt í sölurnar. Þau 10 ár sem síðan eru liðin hafa vissulega ekki verið samfelldur dans á rósum, en þau hafa engu að síður verið mikil sigurganga og vitnisburður um að þeim þjóðum sem njóta frelsis eru allir vegir færir, en hinum undirokuðu þjóðum eru öll sund lokuð. Framfarirnar hafa verið stórkostlegar. En það sem öllu skiptir er að nú vita allar þjóðir, bæði þær sem nærri búa vettvangi og þær sem fjær eru að héðan af verður aldrei aftur snúið. Eystrasaltslöndin eru komin heim í fjölskyldu þjóðanna sem byggja á lýðræði, frelsi og sjálfstæði. Úr faðmi þeirrar fjölskyldu verða þær aldrei aftur hrifsaðar. Aðild þeirra að NATO er nær en nokkru sinni fyrr. Þjáningar þeirra og fórnir voru ekki til einskis. Við Íslendingar teljum það mikinn heiður að þessar þjóðir vilji vera vinir okkar.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta