Afhending Nýsköpunarverðlauna
Ávarp forsætisráðherra við afhendingu Nýsköpunarverðlauna
í Tónlistarhúsi Kópavogs 20. september 2001
Ágætu gestir
Nýsköpunarkeppnin er lofsverð fyrir margra hluta sakir og til sóma þeim sem að henni standa, enda þýðingarmikið að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífinu. Vonirnar felast í vaxtarbroddinum. Íslenskt efnahagslíf þrífst og nærist á því að til sé fólk og fyrirtæki sem eru tilbúin að brydda upp á nýjungum, taka áhættu og ryðja sér braut um ótroðnar slóðir. Nýsköpunarkeppnin er upplagður vettvangur fyrir frumkvöðla til að viðra hugmyndir sínar og koma þeim í svo ljósan og glöggan búningin að aðrir geti vegið þær og metið. Þar með gætu frumkvöðlar verið að taka fyrstu skrefin að því að stofna fyrirtæki. Og það er ekki ónýtt að fyrstu skrefunum fylgi góðar óskir og góð ráð frá þeim sem hafa sjálfir gengið hinn grýtta og stundum vandrataða veg nýsköpunar.
Flestum ber saman um að stofnun fyrirtækja er vandaverk og til þess að ná árangri á því sviði þarf þrautseigju og sterkan vilja. Þessir eiginleikar eru auðvitað ekki öllum gefnir. En það er enginn vafi að Íslendingar hafa margt til brunns að bera sem nýtist þeim vel sem reyna nýjar hugmyndir í atvinnusköpun. Ísland hefur alla tíð verið harðbýlt land. Náttúruöflin hafa ráðið miklu um gæfu okkar og gengi og oft gengið býsna nærri þjóðinni. Sjómennirnir vissu löngum ekki hvað beið þeirra þegar látið var úr höfn. Veður voru válynd. Fiskurinn kom og fór og aldrei var að vita hvort lendingin yrði fær þegar heim kæmi. Bóndinn átti auðvitað allt sitt undir duttlungum veðurs. En "Þeim, sem vilja, vakna og skilja, vaxa þúsund ráð" og hæfileikinn til að starfa við óvissuskilyrði skiptir sköpum fyrir þá sem byggja upp ný fyrirtæki. Rannsóknir sýna enda að Íslendingar eru uppátækjasamir og fylgnir sér, þegar kemur að nýsköpun. Talið er að allt að 19 % Íslendinga ár aldrinum 18 til 75 ára hafi komið að stofnun fyrirtækis, en sambærilegar tölur frá vinum okkar Bandaríkjamönnum benda til að 8% þeirra hafi komið að stofnun fyrirtækja. Þó er þetta hlutfall í Bandaríkjunum óvenju hátt. Þannig má nefna til dæmis að í Finnlandi hafa liðlega 1% þjóðarinnar komið að stofnun fyrirtækja. Þessar tölur eru umhugsunarverðar og það skiptir miklu að stjórnvöld drepi ekki þennan vilja í dróma en geri það sem í þeirra valdi stendur til að veita sköpunargleði landsmanna útrás, með þeim mikla árangri sem fylgir. Það var því einkar ánægjulegt að sjá niðurstöður könnunar Harvard háskóla og World Economic Forum þar sem fram kom að Ísland er í allra fremstu röð ríkja þegar bornar eru saman aðstæður til nýsköpunar og stofnunar fyrirtækja.
Góðir gestir
Okkur Íslendingum hefur vegnað vel undanfarin ár og áratugi. Við höfum nú meira á milli handanna en nokkru sinni áður og velmegun er mikil. En þrátt fyrir velgengnina er langur vegur frá því að nóg sé að gert. Mörg færi eru enn ónýtt. Alþjóðavæðing viðskiptalífsins er umdeild, en þó er hafið yfir vafa að hún skapar góð tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Í krafti nýrrar samskiptatækni, betri menntunar og betri samgangna höfum við nýja og betri sóknarmöguleika. Íslensk fyrirtæki og íslenskir frumkvöðlar eru að leita út í hinn stóra heim og taka af fullum krafti þátt í alþjóðlegum viðskiptum. Það er vel við hæfi og sérstakt fagnaðarefni að fjórar viðskiptahugmyndir verða valdar hér til að taka þátt í evrópskri keppni viðskiptahugmynda. Því ríkara samstarf sem við höfum við aðrar þjóðir á sviði viðskipa, vísinda og mennta, því betur mun okkur vegna.
Skáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson var ofjarl sinnar samtíðar. Hann hafði ekki eirð til að bíða eftir henni og hún var ekki þess umkomin að fylgja honum eftir þegar skáldið fór mest. Einar skildi fyrr en aðrir mikilvægi þess fyrir Ísland að tengjast erlendu fjármagni og viðskiptalífi. Nú væri skáldjöfrinum skemmt, ef hann heyrði enn úrtöluraddir, þegar tækifærin teljast ekki lengur draumórar einir en eru augljós hverju barni. Og honum mætti vera skemmt, vegna þess að þær breytingar hafa orðið á Íslandi, að úrtöluraddirnar verða oftast nær undir nú á dögum, sem betur fer. Það er kannski mesti sigur íslensks atvinnulífs.
Um leið og ég þakka þetta tækifæri til að fá að ávarpa ykkur hér í dag þá lýsi ég þeirri von minni að sem flestar hugmyndirnar fái byr. Og vinni þar með ykkur og þjóðinni ykkar gagn. Og jafnvel þótt það gerist ekki nú er ekki til einskis unnið, því þessi reynsla mun létta ykkur róðurinn, næst þegar þið leggið á djúpin.