Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2001

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 11-13. október 2001


Kæru landsfundarfulltrúar, ágætu flokkssystkini, góðu vinir.
Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til landsfundar Sjálfstæðisflokksins þess 34. í röðinni. Ekki er föst regla hvort landsfundi ber upp á haust eða vor og hefur það verið með ýmsum hætti. Þó höfum við reynt að halda vorfund fyrir reglulegar Alþingiskosningar og látið baráttukraftinn frá hinum öflugu landsfundum blása duglega í segl kosningabaráttunnar. Þannig höfðum við það einmitt síðast, þegar fundur var haldinn í mars 1999. Kosningabaráttan fór vel af stað og flokkurinn sigldi þöndum seglum allt fram til kjördags og upp úr kjörkössunum komu bestu úrslit eftir stjórnarsetu, sem við höfum fengið í rúma þrjá áratugi. Vil ég nota tækifærið, sem mér gefst nú, til að þakka landsfundarfulltrúum og öðrum úr forystusveit flokksins, sem og öllum stuðningsmönnum hans öðrum þróttmikla baráttu og stuðning sem tryggðu svo góða niðurstöðu. Með úrslitum kosninganna sköpuðust forsendur til að mynda þriðju ríkisstjórnina í röð undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Mjög var sótt að okkar samstarfsflokki í kosningabaráttunni, en hann stóð það af sér og átti góðan lokasprett sem nægði til að snúa vörn í sókn.

Stjórnarflokkarnir gengu óbundnir til kosninganna, þótt samstarfið hefði verið farsælt. Sjálfsagt þótti miðað við kosningaúrslitin, að þeir töluðu fyrst saman og könnuðu málefnagrundvöll og samstarfsvilja. Niðurstaðan varð ný ríkisstjórn á þeim grunni sem reynst hafði vel og með nýjum málefnasamningi. Þarna réði mestu, að góður trúnaður ríkti enn á milli manna, samstarf hafði verið gott og ágætt samkomulag náðist um hver skyldu vera næstu skref. En hinu er ekki að leyna, að sjálfsagt hefur skipt máli að hvorugum flokknum leist vel á aðra kosti í stöðunni. Sameining vinstri flokkanna, sem stagast hafði verið á síðustu áratugina, hafði í raun farið út um þúfur, þótt áfram væri hamast við að berja höfðum við stein. Kvennalistinn var horfinn. Samfylkingin hafði brotlent í kosningunum og ljóst var orðið eftir þær, að eins og löngum áður voru enn til staðar tveir flokkar á vinstri kanti stjórnmálanna. Samfylkingin er þó enn sýnu tættari og óáreiðanlegri flokkur en gamli Alþýðuflokkurinn var og eru skoðanakannanir hans helstu leiðarstjörnur. Vinstri grænir náðu allgóðri fótfestu í kosningunum og hafa hvað eftir annað mælst mun stærri en Samfylkingin, þótt þeir virðist á köflum æði veruleikafirrtir og afturhaldssamir. Erfitt er þó að spá um, hvort þeir haldi stöðu sinni út kjörtímabilið. Nú er líklegt að Vinstri grænir bjóði ekki fram í eigin nafni í næstu borgarstjórnarkosningum og má ætla að það muni veikja flokkinn og draga úr sérstöðu hans þegar fram í sækir. Framsóknarflokkurinn var farinn að sækja í sig veðrið í höfuðborginni, en sú þróun stöðvaðist er flokkurinn hvarf sem sjálfstæð stjórnmálaleg eining í höfuðstaðnum.

Sjálfstæðisflokknum hefur iðulega vegnað vel í samstarfi við aðra flokka, enda fer hann þar undir eigin merki og gunnfánum. Auðvitað á hann harðsnúna andstæðinga, en í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vita þeir að hverju þeir ganga. Megin markmið hans eru skýr. Flokkurinn hefur ákveðna stefnu á flestum sviðum þjóðlífsins og vill fylgja henni fram, til þess að ná árangri. En hann er ekki kreddufastur í samstarfi og hefur ekki knúið á um að fá notið yfirburðastöðu sinnar í íslenskum stjórnmálum. Þannig hefur hann sætt sig við í samningum við samstarfsflokka að ráðherrasætum sé skipt jafnt, þrátt fyrir mikinn stærðarmun flokka. Auðvitað má finna að því að kosningaúrslit séu þannig leiðrétt eftir á, en á hinn bóginn ýtir þessi tilhögun undir að traust ríki á milli samstarfsflokka.

Sjálfstæðismenn höfðu forystu um að breyta efnahagsumhverfinu, vinnureglum og starfsháttum hins opinbera, þegar þeir tóku að sér stjórnarforystu 1991. Fyrstu árin voru snúin og á brattann var að sækja, en við hvorki misstum trúna né töpuðum áttum en tókum tvö skref áfram fyrir hvert eitt sem við þurftum að hörfa undan. Sígandi lukkan reyndist vel og enn sannaðist að þolinmæðin vinnur á hverri þraut. Hagkerfið, sem hikstað hafði og hóstað undan forsjárhyggju í efnahagsmálum, tók smám saman við sér og fór loks að skila miklum afrakstri. Það óx um rúm 25% á fáeinum árum og kaupmáttur launa fólksins í landinu tók samsvarandi kipp. Ríkissjóður greiddi niður skuldir sínar jafnt og örugglega. Lánakjör okkar erlendis bötnuðu jafnt og þétt og vaxtagreiðslur lækkuðu. Heilbrigð hagstjórn var þannig tekin að skila beinhörðum peningum í ríkissjóð. Það var einstaklega skemmtilegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að sjá að trú okkar á manninn og hve vel hann sæi hlutum borgið fengi hann tækifæri til, var á traustum grunni reist. Hvarvetna mátti sjá ný fyrirtæki verða til og þau eldri eflast fyrir frumkvæði og athafnasemi einstaklinganna og það var ekki minnst ánægjuefni að sjá hve unga fólkið tók undra fljótt við sér, og greip feginshendi þau tækifæri sem gáfust.

Ríkisstjórnin hefur haldið áfram með einkavæðingaráform sín og við lok þessa kjörtímabils munu stærstu áfangarnir þar verða að baki. Mér er minnistæð sú mikla andstaða sem var við einkavæðingaráform okkar í upphafi síðasta áratugs. Þá fór fram raunveruleg hugmyndafræðileg barátta um einkavæðingu, sem sumir virtust líta á sem einhvers konar tilbrigði við landráðastarfsemi. Nú er sá slagur löngu liðinn og fullur sigur fenginn. Nú snúast deilurnar einkum um verð og útfærslu. Enn hatursfullari voru þó deilurnar þegar við félagarnir í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna stóðum fyrir fyrstu stóru einkavæðingunni, sölunni á Bæjarútgerð Reykjavíkur. Með sölunni hættu niðurgreiðslur til þess fyrirtækis úr borgarsjóði og við gátum notað það fé og andvirði fyrirtækisins í þau verkefni sem borgin á að sinna. Nú er Reykjavík á rangri braut á ný og notar þjónustufyrirtæki borgarinnar til að greiða út stórar fjárfúlgur til að stofna og reka óskyld fyrirtæki, til að keppa við fyrirtæki í einkarekstri. Gengur þessi starfsemi þvert á meginreglur um störf og rekstur sveitarfélaga.

En það er ekki bara víðast hvar orðin hugarfarsbreyting gagnvart einkavæðingu. Sama á við um frjálsan markað og jafnvel um afstöðuna til skattheimtu. Þegar við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því að rétt sé að létta á skattbyrði landsmanna, hafa vinstri menn iðulega reynt að koma okkur í vörn með því að hrópa: Hvar ætlið þið að skera niður á móti? Segið okkur það. Nú hefur Geir Haarde fjármálaráðherra upplýst að markviss niðurgreiðsla á skuldum ríkissjóðs undir forystu sinni og Friðriks Sophussonar hafi þýtt að við höfum nú 20 þúsund milljónum meira úr að spila á heilu kjörtímabili. Þetta er vegna þess að vaxtagreiðslur, ekki síst til útlendinga, hafa lækkað um fimm þúsund milljónir á ári. Okkur í ríkisstjórninni þótti rétt að nota rýmri stöðu til að halda áfram lagfæringum á skattkerfinu. Þegar ég tala um lagfæringu í skattkerfinu er ég að tala um hana í okkar merkingu en ekki vinstri manna. Ég hef nefnilega tekið eftir því að vinstri menn bæði hér á landi og annars staðar kalla skattahækkanir sínar gjarnan "metnaðarfullar umbætur í skattkerfinu!"

Hverjar hafa verið okkar helstu umbætur í skattkerfinu síðastliðinn 10 ár?

1. Aðstöðugjaldið illræmda var fellt niður.
2. Virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður úr 24,5% í 14%.
3. Skattur á fyrirtæki var lækkaður úr 50% niður í 30%.
4. Skattur á lífeyrissjóðsiðgjöld var afnuminn.
5. Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa var tryggður allan tímann.
6. Heimilaður var skattfrjáls viðbótar lífeyrissparnaður.
7. Persónuafsláttur hjóna verður að fullu millifæranlegur.
8. Afnuminn var tekjutenging barnabóta með yngri börnum.
9. Barnabætur hækka um 500 milljónir á ári í þrjú ár í röð sem er ígildi skattalækkunar til þeirra sem barnabóta njóta.
10. Skattprósenta í staðgreiðslu var lækkuð í áföngum um 4,33%.
11. Bifreiðagjöld lækkuð.
12. Skemmtanaskattur felldur niður.
13. Skattar á gjaldeyrisviðskipti felldir niður.
14. Jöfnunargjöld á innfluttar vörur felld niður.

Nú síðast hafa eftirfarandi umbætur verið ákveðnar:
15. Skattfrjáls gólf eignaskatta einstaklinga hækka um 20% til að mæta hækkun fasteignamats.
16. Sérstakur auka eignarskattur verður afnuminn.
17. Almennur eignarskattur einstaklinga lækkar um helming úr 1,2% niður í 0,6%.
18. Eignarskattur fyrirtækja lækkar um helming.
19. Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 30% í 18% en hann var 50% þegar sjálfstæðismenn tóku við stjórnarforystu fyrir tíu árum.
20. Skattur á húsaleigubætur verður afnuminn.
21. Stórlega verður dregið úr stimpilgjöldum.
22. Gólf svokallaðs hátekjuskatts hækkar um 15% frá og með árinu 2001.

Þetta eru aðgerðir í okkar anda fundarmenn góðir. Þetta er það sem við sjálfstæðismenn köllum raunverulegar umbætur í skattamálum. Og ég vil undirstrika að þetta er ekki endanlegur listi. Við erum ekki hættir. Báðir stjórnarflokkarnir eru því fylgjandi að í næsta áfanga verði eignarskattar á fólk og fyrirtæki algjörlega afnumdir. Þeir skattar ættu því að heyra sögunni til innan fárra ára. Og ef áhrifa okkar sjálfstæðismanna gætir áfram í landsstjórninni mun áfram verða haldið á þessari braut í framtíðinni.

Við erum þess fullvissir að ríkissjóður mun vel þola þessar breytingar vegna góðrar stöðu sinnar og sífellt minnkandi vaxtabyrði, eins og ég áðan nefndi. Það er einnig margföld reynsla að sanngjarnir skattar skila sér betur í ríkissjóð en freklegir skattar. Sanngjörn skattheimta hvetur fólk og fyrirtæki til dáða, svo skattstofninn stækkar smám saman fyrir vikið svo ríkissjóður fær á endanum jafnmiklar og stundum meiri tekjur en var þegar skattar voru hvað ósanngjarnastir.

Við stefnum að því að ríkissjóður verði nær skuldlaus í lok kjörtímabilsins og mun þá svigrúm enn aukast til að gera hvort tveggja, að lækka skatta enn frekar og einnig til að styrkja myndarlega úrræði sem tengjast mikilvægum samfélagslegum verkefnum, svo sem velferðar-, mennta-, öryggis- og samgöngumálum svo fátt eitt sé nefnt.

Andstæðingar okkar hafa reynt að gera sjálfstæðismenn tortryggilega þegar horft er til velferðarmála og vísa þar m.a. með hártogunum í drög að ályktun þessa fundar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá stofnun sinni verið lang öflugasti flokkur landsins og sem slíkur hefur hann haft mest um það að segja að byggja upp geðfellt þjóðfélag á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að búa þannig að þeim borgurum sem lakast standa, um lengri eða skemmri tíma, að það geri fáar þjóðir betur. Þegar reynt er að sýna fram á að við stöndum okkur ekki nægjanlega vel þá er gjarnan vísað til að sýna megi fram á með dæmum að eitthvert ríki Norðurlanda geri betur en við á einhverju sviði. Af tæpum 200 þjóðríkjum hinna Sameinuðu þjóða er þannig einungis hægt að vitna til þess að eitt og eitt af fjórum ríkjum Norðurlanda kunni í einstökum tilvikum að gera betur en Ísland, þegar horft er til velferðarþjónustunnar. Það segir sína sögu.

Við biðjumst ekki undan slíkum samanburði, þótt á stundum sé hann ónákvæmur, stundum ósanngjarn og því miður stundum beinlínis rangur. Við viljum vera borin saman við það besta. En á hinn bóginn biðjumst við heldur ekki afsökunar á því sjónarmiði okkar, að halda eigi úti hinni umfangsmiklu og góðu samhjálparþjónustu en að jafnframt verði að huga vel að útgjöldum og ráðdeild í rekstri. Sóun fjármuna eða léleg nýting fjármuna er ekki hótinu betri, þótt hún sé gerð í frómum tilgangi. Því betur sem við nýtum það fé sem í velferðarþjónustu fer, því öflugri getum við haft hana.

Góðu flokkssystkin.
Við sjálfstæðismenn teljum þjóðarnauðsyn að búa við öflugan megin háskóla í landinu og við teljum Háskóla Íslands rísa vel undir því. En það breytir ekki því að við styðjum og fögnum allri samkeppni við hann. Við erum stolt af Háskóla Íslands, en við hikum ekki við að segja að það þarf að gera gagngerar breytingar á stjórnfyrirkomulagi innan hans. Það er full veikt og stirt og ekki fyllilega í takt við nútíma stjórnarhætti, þótt þar haldi margir ágætir menn um tauma. Það skortir mjög á að háskólamennirnir sjálfir hafi tekið stjórnunarlega veikleika Háskóla Íslands til alvarlegrar umræðu, en fjöldi dæma frá liðnum árum sýnir að nauðsynlegt er, að gera gagngerar breytingar án tafar eigi háskólinn að hafa í fullu tré við alþjóðlega samkeppni.

Björn Bjarnason, okkar öflugi menntamálaráðherra, hefur verið í forystu fyrir mjög myndarlegum og framsæknum umbótum á menntakerfinu á undanförnum árum. Er starfsrammi þess nú markvissari og ljósari en áður var. Hann hefur einnig haft frumkvæði að gjörbreyttu umhverfi og skipulagi rannsókna og vísindaþáttar íslensks þjóðfélags í góðri samvinnu við þá sem þar fara fremstir. Er árangur þessa góða starfs þegar farinn að koma fram og menntamálaráðherra hefur kynnt að haldið verði áfram á þeirri braut. Stjórnmálamenn þurfa ekki einir að knýja á um að mennta- og rannsóknastarfsemi þjóðarinnar séu efld og markvisst og skipulega sé unnið og miklar kröfur gerðar til þeirra sem störfum gegna á þeim vettvangi eða njóta þar stuðnings og framlags. Veröldin öll og veruleikinn sjálfur kallar á hið sama, ef Ísland á að standa jafnfætis eða framar öðrum þjóðum. Þar viljum við skipa okkur og sættum okkar ekki við neitt minna.

Góðir fundarmenn.
Það er ekki sama harkan í stjórnmálabaráttunni og var meðan enn var ekki endanlega ráðið, hvar í sveit þjóðríkja hið nýja íslenska lýðveldi myndi endanlega skipa sér. En þótt úr heift og hatri hafi sem betur fer dregið er þó enn tekist á um stjórnmál á Íslandi og er það bæði gott og hollt, sem ekki fer alltaf saman, sem kunnugt er. Átök og snarpar umræður draga fram röksemdir og sjónarmið, sem ekki myndu ella heyrast. En þýðingarmikið er að umræðan sé ekki bara skelegg og hörð. Hún verður lítils virði sé hún ekki um leið upplýst og sönn. Fjölmiðlar kalla sig stundum fjórða valdið og ekkert er við því að segja, en einatt vantar að ábyrgðin fylgi með valdinu, sem þessi fyrirtæki telja sig hafa. Stundum skýla fjölmiðlarnir sér á bak við viðmælendur sína sem fari með fleipur og það sé ekki fjölmiðlana að leiðrétta slíkt. Þetta er ekki endilega rétt. Þannig sáum við hvernig einn minnsti nákvæmnismaður nútímastjórnmála fékk að dansa í fjölmiðlum nýverið með fullyrðingar um falskan grundvöll fjárlaga og stóryrði um að fjármálaráðherra væri að ljúga upp landsframleiðslu til að geta hækkað skatt og væri að brjóta lög í leiðinni. Tveimur dögum síðar var orðið ljóst að allt var þetta í besta falli fljótfærnislegt fleipur en á grundvelli þess voru bornar þungar sakir á fjármálaráðherrann. Fjármálaráðherrann hafði ekki aukið tekjugrundvöllinn með blekkingum og engin lög höfðu verið brotin. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi staðreyndafælni stjórnmálamaður fær að draga annarlegar ályktanir af staðleysum einum og flytja þær athugasemdalaust í fjölmiðlum. Ekki vekja handhafar fjórða valdsins athygli á ótrúlegum hringlandahætti sama manns. Í árslok 1999 mælir viðkomandi eindregið með Kárahnjúkum sem aldeilis upplögðum virkjunarkosti. Fáeinum mánuðum síðar er komið allt annað hljóð í rokkinn. Þegar umdeildur úrskurður skipulagsstjóra er felldur dásamar sami maður bersýnilega ólesinn 300 síðna úrskurðinn og kveður upp úr með, að það sé fráleitt og beinlínis hættulegt ef æðra stjórnvald breyti úrskurðinum verði hann kærður! Fimm vikum síðar er kúvent á ný og sagt að úrskurður skipulagsstjóra sé aðeins einn áfangi á langri leið og rétt sé að bíða með vangaveltur um málið þar til úrskurður ráðherra liggi fyrir og þá væri að vega og meta virkjanakostinn! Enginn fjölmiðill reynir að grennslast fyrir um hvað valdi þessum viðsnúningi öllum, og upplýsa almenning um hann.

Eins er með símann. Fyrir einar kosningarnar mætir áðurnefndur á fund til starfsmanna Landssímans og segist aldrei muni samþykkja að það fyrirtæki sé selt. Næst er allt í lagi að selja ef ákveðinn þáttur í starfsemi Landssímans sé bara undanskilinn, þótt allir sem best þekkja til segi fráleitt að undanskilja þann þátt. Síðastliðið vor er heldur betur gefið í og sami fullyrðir í þinginu að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér að selja vinum sínum Landssímann ódýrt og á undirverði. En í september er ráðist á flokkinn fyrir að fara ekki að ráðum markaðsráðgjafa og selja Landssímann við 12-20 milljarða lægra verði en ríkisstjórnin hafði ætlað sér og vildi ekki snúa frá vegna stundar andstreymis. Það er sjálfsagt ekki létt hlutverk fyrir hefðbundna vindhana að þrífast, þegar þeir búa sífellt við svona hatramma samkeppni.

Góðir fundarmenn.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á umhverfisvernd og aðgát og varfærni í öllum þáttum sem að viðkvæmri náttúru snúa. En viljinn til að búa í góðri sátt við náttúru landsins og sýna henni verðskuldaða vernd og virðingu þarf ekki að þýða og á ekki að þýða að ekki eigi að nýta kosti hennar í þágu þjóðarinnar, sem landið byggir. Í stefnunni felst á hinn bóginn að áður en ákvörðun um mikilvægar framkvæmdir er tekin skuli allir þættir náttúrufars, minja og sögu rækilega skoðaðir og kortlagðir, svo ekki verði fyrir mistök unnin óafturkræf skaðaverk. Þegar slík allsherjarúttekt hefur átt sér stað og besta fáanleg þekking liggur á borðinu og sérhver maður getur kynnt sér hana er ákvörðun um nýtingu loks tekin. Þá eru fyrrgreindir kostir vegnir og metnir. Kannaðar eru allar leiðir sem færar eru til að draga úr líkum á skaða. Mótvægisaðgerðir sýndar og þar fram eftir götunni. Því næst er heildarmyndin borin saman við ávinning efnahags og mannlífs. Sumir þeirra, sem flýja jafnan erfiðar ákvarðanir og sjaldnast þora að axla ábyrgð, koma sér upp allsherjar klisjum eins og: "Náttúran skal ávallt njóta vafans." Þetta hljómar um stutta stund vel í eyrum en er í raun engin afstaða, því um flesta hluti ríkir vafi, stór eða lítill og það er einmitt verkefni stjórnmálamanna og annarra þeirra sem axla eiga ábyrgð að gera mál upp og taka síðan ákvörðun og standa og falla með henni. Þeir sem ekki treysta sér til þess ættu sem fyrst að finna sér annan starfa um stjórnmálin.

Góðir landsfundargestir.
Á þessum fundi munum við ganga frá ýmsum ályktunum eins og venja stendur til. Það er stundum kvartað yfir því að forysta flokksins, ráðherrar, þingmenn og sveitarstjórnarmenn taki of lítið tillit til landsfundarályktana. Hér fyrr á árum tók ég stundum þátt í þeim umkvörtunum og þóttist ekki gera það af tilefnislausu. Og sjálfsagt eru þau dæmi mýmörg að forystumennirnir hafi fylgt ályktunum misvel eftir. En fyrir þennan fund gerði ég mér til dundurs að lesa í gegn ályktanir landsfunda frá og með fundinum árið 1991. Vissulega stendur þar eitt og annað út af sem lítt eða ekki hefur verið sinnt. Stundum er frambærilegasta skýringin sú að við fáum ekki einir öllu ráðið, en þau dæmi eru vissulega einnig til sem sýna að ónógur áhugi hefur verið á að fylgja einstökum sem ályktunum eftir.

En heildarmyndin, sem blasir við eftir lestur ályktana landsfunda er þó sú, að ótrúlega margt af því sem flokkurinn hefur ályktað um á landsfundum sínum hefur náð fram að ganga eða er á góðri leið. Það veldur auðvitað mestu um þessa ánægjulegu útkomu að flokkurinn hefur verið í stjórnarmeirihluta allan þennan tíma og því haft betra tækifæri til að fylgja sínum málum fram en ella væri. Í stjórnarsamstarfi verður flokkurinn að vera fús til málamiðlunar og samkomulags, en þrátt fyrir það nær hann auðvitað miklu fleiri hugsjónamálum sínum fram en ef hann vermdi hina hörðu bekki stjórnarandstöðunnar, og geri ég þó alls ekki lítið úr hlutverki hennar. Meira að segja í viðkvæmustu deilumálunum eins og þeim sem að sjávarútvegi snúa hafa mál þokast nær sæmilegu samkomulagi en áður var. Þar mun þó lengi deilt og kannski svo lengi sem land byggist. Allstór hópur flokksmanna hefur verið hlynntur svonefndu veiðileyfagjaldi á sjávarútvegi og talið það eitt mesta réttlætismál samtímans. En engu fámennari hópur hefur verið því andsnúinn og talið það skaða sjávarútveginn og landsbyggðina. Ég hef skipað mér í síðari hópinn. Nú finnst sumum ekki nógu langt gengið í tillögum nefndar sem skilaði miklu áliti um framtíðarskipan sjávarútvegs, hvað þetta atriði varðar. Og um það má auðvitað deila eins og annað. En um hitt er ekki hægt að deila, hvor framangreindra hópa hefur gefið meira eftir þegar að grundvallaratriðinu sjálfu kemur og það eiga menn að muna og meta. Við skulum endilega takast á um sjávarútvegsmálin hér á fundinum, en við skulum gera það þannig að flokkurinn hafi af því bærilegan sóma. Sjávarútvegsráðherrann okkar er lipur og útsjónarsamur maður, sem hefur unnið afburðavel og tekið starf sitt alvarlega. Hann er enginn einstefnumaður og hann er heldur enginn veifiskati. Hann hefur ríkan vilja til þess að hlusta á rök og koma til móts við málefnaleg sjónarmið. Verk hans er ekki öfundsvert og við eigum öll að veita honum góðan atbeina að því verki.

Góðir landsfundarfulltrúar.
Samstarf þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins og starfsandinn í þingflokknum hafa verið einkar farsæl síðastliðin tíu ár. Ég var þingfréttaritari bæði fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið fyrir tæpum 30 árum og hef því haft góða aðstöðu til að fylgjast með störfum þingmanna í nær þrjá áratugi. Margur góður maður, ötull og hæfileikaríkur, hefur verið hluti af þeim hópi lengur eða skemur. Minnist ég þeirra flestra með mikilli hlýju og vinsemd. Það er því ekki verið að draga á neinn hátt úr ágæti þeirra, þegar ég fullyrði að þingflokkurinn hefur aldrei verið svo samheldinn og samtaka sem á þessu tíu ára tímabili. Hefur sú eindrægni ráðið miklu um þann mikla árangur sem flokkurinn hefur náð. Ráðherrar flokksins eru fylgnir sér og framtaksamir. Mikið hefur mætt á dómsmálaráðherranum okkar Sólveigu Pétursdóttur og hefur hún tekið af festu á þeim málum sem undir hana eru sett, svo ólík sem þau eru. Góður árangur hefur orðið í baráttu við fíkniefnadrauginn og stendur ráðherrann þétt að baki laganna vörðum í þeim málum. Ég geri ekki lítið úr rökum þeirra sem vilja afnema bann við vægari gerðum fíkniefna og reyndar mun sumum þykja þær hugmyndir ekki ganga nógu langt. En þau rök og sá málatilbúnaður sem á fullan rétt á sér, hafa þó ekki sannfært mig. Ég lít enn sem fyrr á fíkniefnin og dópsalana sem óalandi vágesti, sem við eigum að gera harða hríð að og reyna þannig að hrista þau óþrif af íslenskri þjóð.

Dómsmálaráðherrann stendur nú frami fyrir nýjum verkefnum sem lúta að innra öryggi þjóðarinnar og baráttu gegn alþjóðlegum hryðju- og hermdarverkamönnum. Hefur hún þegar sett þau mál í ákveðin farveg og er tillagna því senn að vænta.

Samgönguráðherrann hefur staðið í stórræðum í sínu þýðingarmikla ráðuneyti. Nægir að nefna sölu Landssímans til sögunnar, mestu einkavæðingu í íslensku atvinnulífi fyrr og síðar og framkvæmdir á landi og við sjávarsíðu í sambandi við störf hans. Nokkur óvissa er í ferðaþjónustunni, en skuggi hermdarverka og átaka hefur í sviphendingu fallið á þá grein um víða veröld. Reynslan af Persaflóastríðinu svonefnda var þó sú að skaðinn varð minni á ferðaþjónustu hér á landi en víðast annars staðar. Við skulum vona að sú verði reyndin einnig nú.

Á fundinum er lögð fram greinargerð um störf og stefnu núverandi ríkisstjórnar, en hún er þó fjarri því að vera tæmandi. Samstarfsflokkurinn var svo vinsamlegur að gera grein fyrir þeim málum sem undir hans ráðuneyti falla og erum við þakklát fyrir það. Vil ég nota tækifærið til að lýsa ánægju minni með störf ráðherra hans og samstarfið við okkur og nefni ég þá Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sérstaklega til sögunnar.

Góðir landsfundargestir.
Við höfum iðulega orðað það svo, að Ísland hafi lengi verið einangrað en nú sé það komið í alfaraleið, því tæknin hafi brúað það bil, sem var á milli okkar og annarra ríkja. Og vissulega erum við betur í sveit sett en áður og sá góði rithöfundur Einar Már Guðmundsson hefur reyndar bent á, að þar sem jörðin sé hnöttótt þá sé miðja alheims jafnan undir fótum þess manns, sem kýs að hún sé þar.En Einar segir í ljóði sínu:

"Ekki tala um
Stórar þjóðir og litlar þjóðir
útkjálka, heimshorn og jaðra.

Þetta er hnöttur; miðjan
hvílir undir iljum þínum
og færist úr stað og eltir
þig hvert sem þú ferð."

En við vorum snögglega minnt á það með óþægilegum hætti, að ekki er allt sem sýnist um tengsl landsins við umheiminn. Svo virtist sem allur flugfloti landsmanna væri að stöðvast í einu vetfangi vegna óvæntra afleiðinga árásanna á Bandaríkin. Tryggingarmál voru í uppnámi og flugfélögin íslensku bjargarlaus með öllu. Ríkisstjórnin brást skjótt við og tryggði með lögum heimildir til að hún mætti ábyrgjast um tiltekin tíma háar fjárhæðir vegna flugfélaganna. Sú aðgerð var umdeilanleg, en enginn annar kostur var til. Vonandi rætist fljótt úr, svo atbeini hins opinbera valds verði úr sögunni. En þetta mál minnti okkur rækilega á, hversu góða þjónustu við höfum í raun fengið í farþegaflugi til og frá landinu og ekki alltaf metið að verðleikum. Flugrekstur á nú hvarvetna undir högg að sækja, þótt eldsneytisverð fari þó sem betur fer lækkandi um þessar mundir. En Flugleiðir hafa orðið að grípa til erfiðra aðgerða til að tryggja stöðu sína og rekstur. Þetta atvik minnir á að jafnvel atburðir fjarri Íslandsströndum geta haft mikil áhrif hér.

Hinn 11. október 1986, eða fyrir réttum 15 árum, hófst fundur þeirra Reagans og Gorbachovs hér á landi. Þá hvíldi kjarnorkuváin eins og mara á þjóðum heims og stórveldin tvö virtust til alls líkleg. Nú er almennt viðurkennt að eitt merkasta skrefið til að stöðva kalda stríðið og splundra alheimskommúnismanum endanlega hafi verið stigið í Höfða, í höfuðstað Íslands. En lok kalda stríðsins urðu ekki sá endir allra ógna, sem margir ætluðu. Vondir menn með vondan málstað hafa alltaf verið til, en vígtól og tæknibúnaður nútímans hafa fært hatursfullu hyski ný tækifæri sem það hikar ekki við að nota. Osama bin Laden, sem nú trónir hæstur á þeim haug, sagði í viðtali fyrir þremur árum, að hann ætti ekki aðeins í stríði við bandarísk yfirvöld og hermenn þeirra. Sérhver maður, sem greitt hefði skatt til bandaríska ríkisins, væri að sínu mati réttdræpur. Og talsmaður ríkisstjórnar Talibana lýsti því yfir í fyrradag að stjórnin sú væri tilbúin að fórna tveimur milljónum manna í þágu málstaðarins. Þetta eru öflin, sem við er að fást. Til eru þeir sem telja að betra sé að tala við hermdarverkamennina en að taka á þeim, því þeir hljóti að sjá að sér ef gætilega sé við þá talað. Halda menn virkilega að hermdarverkamennirnir sem drápu sjö þúsund menn á einu augabragði og reyndu að drepa tugi þúsunda til viðbótar hafi verið að biðja um fund? Um hvað ætla menn að ræða við mann sem segir að sérhver borgari í Bandaríkjunum sé réttdræpur og undirstrikar orð sín með því að myrða sex þúsund þeirra. Ætla þeir að ræða siðræn gildi? Það yrði ljóta umræðan og engum til gagns. Churchill, Breta bjargvættur, sendi á sínum tíma Hitler orðsendingu, sem þjóðir heims gætu nú sameiginlega sent öllum Bin Ladenum nútímans án þess að breyta orði. Orðsendingin hljóðaði svo: "We will have no truce or parley with you, or the grisly gang who do your wicked will. You do your worst - and we will do our best." ("Við munum ekki ræða grið eða vopnahlé við þig eða þann viðbjóðslega glæpalýð sem fremur þín fólskuverk. Þú skalt gera þitt versta - við munum gera okkar besta.")

Landsfundarfulltrúar, forystusveit flokksins af landinu öllu, góðu vinir.
Í nafni flokksins okkar Sjálfstæðisflokksins er helsta stefnumið hans falið. Nafnið er ekki aðeins nafn heldur í senn yfirlýsing, heitstrenging og loforð. Efla ber sjálfstæði einstaklingsins og rétt hans til að fá viðnám fyrir krafta sína og rétt hans til mannsæmandi lífs í landinu. Styrkja ber sjálfstæði þjóðarinnar inn á við sem út á við. Þegar sjálfstæði landsins er í húfi, verður allt annað undan að láta. En sjálfstæði verður ekki tryggt nema í samstarfi og með samábyrgð allra þeirra sem lýðfrelsi unna og trúa á frjáls viðskipti manna á milli og þjóða á milli. Allir okkar merkustu samningar við önnur ríki hafa haft þessa forsendu sjálfstæðis þjóðarinnar að leiðarljósi. Þau gildi, sem Sjálfstæðisflokkurinn vísar þannig til í nafni sínu eru aðdráttaraflið sem dregur okkur öll að honum. Þess vegna erum við hér saman komin undir merkjum og kjörorðum hans.

Við munum á þessum fundi ræða efnahagsmál, gengi, gjaldeyri, vísitölur og verslunarfrelsi. Allt er það mikilvægt. En við þær umræður skulum við hafa orð skáldsins bak við eyrað. En skáldið sagði:

"Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs

Fundarstjóri, góðir landsfundarmenn.
Þrítugasti og fjórði Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er hér með settur.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta