Bresk-íslenska verslunarfélagið 2001
6. nóvember 2001
Ræða forsætisráðherra hjá Bresk-íslenska verslunarfélaginu
Það er ánægjulegt að vera hér í dag og fá tækifæri til að ræða við ykkur um þróun efnahagsmála á Íslandi og samskipti okkar við Evrópu. Evrópusambandið er okkar helsta markaðssvæði og því skipta tengsl Íslands við sambandið miklu fyrir þróun efnahagsmála á Íslandi.
Síðustu 10 ár hafa verið viðburðarík í efnahagssögu Íslands og grundvallarbreytingar hafa orðið á íslenska hagkerfinu. Þær breytingar tóku mið af því sem vel hefur reynst þeim þjóðum sem best hefur farnast. Aflvaki breytinganna var sú sannfæring að þjóðinni farnaðist best þegar markaðinum væri treyst fyrir verðmætasköpuninni og ríkisvaldið einbeitti sér að því að skapa almennar og skynsamlegar leikreglur.
Viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs var alvarleg ógn við efnahagsstöðuleikann. Fyrirtæki í ríkiseign voru fjölmörg og þau soguðu til sín fjármuni skattborgara og þau rugluðu samkeppnisstöðuna. Bankakerfið var enn að stórum hluta ríkisrekið og pólitísk úthlutun fjármagns í gegnum það og fjölmarga sjóði ríkisins var algeng. Áætlanagerð fyrirtækja var erfið því efnahagssveiflur voru tíðar, ófyrirsjáanlegar og lutu ekki nema að hluta til venjulegum lögmálum heilbrigðs efnahagslífs. Ríkisvaldið greip gjarnan til svokallaðra sértækra efnahagsaðgerða sem oftar en ekki leiddu til erfiðari vandamála en þeirra sem þeim var ætlað að leysa.
Eitt fyrsta verkið var að koma á festu í fjármálakerfi landsmanna. Gríðarlegum fjármunum hafði verið eytt í skammtíma björgunaraðgerðir sem fólust oft í að hjálpa fyrirtækjum, einkum í sjávarútvegi, að lifa við afleiðingar rangrar efnahagsstefnu. Það var því mikilvægt að byrja nýjan áratug með hreint borð og takast á við þann vanda sem við var að etja. Hafist var handa um viðamikla einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Seld voru fyrirtæki sem sýnt þótti að væru betur komin í höndum einkaaðila og þannig dregið úr útgjöldum ríkissjóðs og honum aflað sölutekna.
Einkavæðingin er enn í fullum gangi, þótt viðurkenna megi að aðstæður á markaði séu ekki hagstæðar um þessar mundir. Nú stendur yfir sala á Landssíma Íslands og unnið er að sölu á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þegar þessi fyrirtæki hafa verið seld hefur ríkisvaldið dregið sig af fjarskipa- og fjármálamarkaði og er það mikið fagnaðarefni.
Lykilatriði í umbreytingu íslenska hagkerfisins var að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Það hefur tekist. Ríkissjóður stendur nú sterkt og hefur á undanförnum árum verið rekinn með umtalsverðum afgangi. Skuldir hafa verið greiddar niður og þar með lækka vaxtagreiðslur og vonir standa til þess að ríkissjóður verði skuldlaus eftir þrjú ár. Fjármála- og hlutabréfamarkaðir hafa þroskast mjög á undanförnum tíu árum og var það nauðsynlegt til að tryggja hagkvæma nýtingu fjármagns í hagkerfinu. Einkavæðing fjármálastofnana hefur gert gagn en úrslita atriðið var að flutningur fjármagns til og frá landinu var gefinn frjáls. Síðast en ekki síst var ákveðið að Ísland yrði aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Þessi samningur veitti Íslandi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og tryggði þar með að ekki var þörf á að Ísland sækti um aðild að sambandinu.
Þessar breytingar á innviðum íslenska hagkerfisins hafa verið mjög árangursríkar. Hagvöxtur á árabilinu 1995 til 2000 var ríflega 25% og kaupmáttur almennings jókst að sama skapi. Samkeppnishæfni landsins er nú betri en áður og er Ísland nú í 16. sæti á lista yfir samkeppnishæfnina þjóða samkvæmt könnun World Economic Forum og Harvard University og í fimmta sæti yfir þær þjóðir þar sem nýsköpun í atvinnulífinu er aðgengilegust. Efnahagslífið er nú mun fjölbreyttara en áður, stoðir þess fleiri og styrkari og mikill kraftur er í nýsköpun af öllu tagi.
Góðir fundargestir
Ríkisstjórn Íslands stendur nú frammi fyrir tveimur megin verkefnum. Hið fyrra er að varðveita ávinninginn af efnahagsumbótum síðasta áratugar og festa þær í sessi. Hið síðar er að leggja grunn að næsta hagvaxtarskeiði okkar Íslendinga. Í því efni er auðvitað margs að gæta. Aflvakar hagvaxtarins á næstu árum verða fjölmargir. Hagkerfið er fjölbreyttara og opnara en áður og því ógjörningur að sjá fyrir alla mögulega þróun í þeim efnum.
Í ljósi mikilvægis Evrópusambandsins fyrir utanríkisviðskipti Íslendinga er ekki með öllu óeðlilegt að spurt sé hvers vegna íslensk stjórnvöld hafi ekki óskað eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við þessari spurningu eru mörg svör. Að vísu er ekkert í efnahagslífinu sem vekur upp þessa spurningu. En pólitísk tíska eða nauðhyggja og stækkun Evrópusambandsins í austur halda svona spurningu á lofti. En þótt rökin með aðild virðist alveg vanta er ekkert á móti því að draga fram rökin sem eru á móti. Þar skiptir einna mestu að við Íslendingar höfum litið svo á að fiskveiðistefna Evrópusambandsins sé óásættanleg fyrir okkur. Það kemur einfaldlega ekki til greina fyrir sjálfstæða þjóð að afsala sér yfirráðum yfir mikilvægustu auðlind landsins.
Eins og flestir vita en sumir kjósa að líta fram hjá eru aðildarviðræður að Evrópusambandinu ekki samningaviðræður í hefðbundnum skilningi. Umsóknarlandið fær engum reglum breytt hjá Evrópusambandinu en getur kríað út mismikinn tíma til að laga sínar reglur að Evrópusambandinu. Tímabundin aðlögun hjálpar ekki Íslendingum neitt þegar fiskveiðirétturinn í efnahagslögsögunni er annars vegar. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur sett aðildarumsókn að Evrópubandalaginu á stefnuskrá sína.
En auk þessa grundvallaratriðis sem snýr að fiskveiðistefnu sambandsins, kemur margt fleira til sem dregur úr áhuga okkar Íslendinga á aðild að sambandinu. Flest bendir til þess að sambandið stefni í átt að auknum pólitískum og efnahagslegum samruna. Það er til dæmis mat margra að aukinn samruni á þessum sviðum sé nauðsynlegur til að tryggja að hin sameiginlega mynt, evran, nái þeim styrk sem að var stefnt. Þetta er til dæmis skoðun Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu sem nú situr í forsæti Evrópusambandsins. Breska vikublaðið The Economist vitnaði fyrir skömmu til ræðu sem belgíski forsætisráðherrann hafði haldið. Í þeirri ræðu kallaði hann meðal annars eftir sameiginlegri varnarstefnu Evrópusambandsins, sameiginlegri félags- og efnahagsstefnu og beinni kosningu formanns framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Hann nefndi það sérstaklega að skýringar á slöku gengi evrunnar á mörkuðum væri að leita í skorti á sameiginlegri efnahagsstefnu Evrópusambandsríkjanna sem og að pólitísk eining þeirra væri ekki næg.
Viðskiptahagsmunir Íslands kalla vissulega á að aðgangur sé tryggður að mörkuðum Evrópusambandsins. En það samræmist ekki hagsmunum Íslands að gangast undir sameiginlega viðskipta- og efnahagsstefnu þess. Það blasir við að hagsmunir íslensku þjóðarinnar og þær aðstæður sem hún býr við eru fjarri því að fara saman við það sem ræður för í stefnumótun Evrópusambandsins. Sem dæmi má nefna möguleika Íslands til að laða að erlenda fjárfestingu. Ísland er úr alfaraleið og því ekki sjálfgefið að erlendir fjárfestar horfi til landsins. Einnig hefur opnun fjármálamarkaða leitt til þess að auðvelt er fyrir íslensk fyrirtæki að flytja starfsemi sína á erlenda grund þyki þeim svo henta. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa fullt forræði á því að skapa viðskiptaumhverfið á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur nú nýverið samþykkt að lækka tekjuskatta fyrirtækja úr 30% í 18%. Þessi skattalækkun er einn liður í því að búa íslenskt viðskiptaumhverfi þannig úr garði að innlend og erlend fyrirtæki sjái sér hag í því að stunda starfsemi sína þar. Við erum sannfærð um að þessi skattalækkun ásamt öðrum áformum sem kynnt voru um leið, munu vekja athygli erlendra fjárfesta. Íslensk fyrirtæki sem höfðu í fullri alvöru lagt á ráðin um að flytja starfsemi sína til útlanda hafa mörg þegar lýst því yfir opinberlega að vegna skattalækkananna muni þau starfa áfram á Íslandi. Það er því ekki í samræmi við hagsmuni Íslands að stjórnvöld gefi frá sér möguleikann á því að móta eigin viðskipta- og efnahagsstefnu. Það kemur auðvitað ekki til greina að framselja ákvörðunarvald í jafn mikilvægum málaflokkum eins og efnahags-, viðskipta-, utanríkis- og félagsmálum og skilja einungis eftir málaflokka eins og menntamál, íþróttir og listir, en belgíski forsætisráðherrann sagði að þeir þættir einir ættu áfram að vera á forræði einstakra ríkisstjórna. Samkeppni á milli ríkja um að bjóða sem best skilyrði fyrir fólk og fyrirtæki er nauðsynleg og varhuga vert að reyna að útrýma slíkri samkeppni.
Góðir fundarmenn.
Á undanförnum mánuðum hefur verið nokkuð flökt á íslensku krónunni á gjaldeyrismarkaði og gengi hennar hefur lækkað. Þessi órói hefur fengið suma þá sem kvikastir eru til að boða að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga nú þegar í Evrópusambandið og taka upp evru. Íslenska myntin sé bersýnilega of smá til þess að hún geti þjónað tilgangi sínum sem trúverðugur gjaldmiðill. Óvissa um gengisþróun komi í veg fyrir erlendar fjárfestingar og skaði íslenskt atvinnulíf.
Vissulega er óvissa í gengismálum óheppileg fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið allt. Lækkun á gengi krónunnar nú á rætur sínar fyrst og fremst að rekja til viðbragða hagkerfisins við þeirri þenslu sem hefur látið á sér kræla á undanförnum misserum. Síðustu sjö árin áður en þessa óróa fór að gæta var íslenska krónan ein stöðugasta myntin í okkar heimshluta og stóð vel af sér mikið hrun evrunnar. Var myntin hvorki stærri eða smærri á þeim tíma en nú. Allt bendir til að núverandi vandamál sé tímabundið og leysist um leið og hagkerfið hefur aðlagast nýjum aðstæðum. Einnig er rétt að benda á að lögum um Seðlabanka Íslands var breytt síðastliðið vor. Þá var ákveðið að gengi krónunnar skyldi ekki lengur haldið innan ákveðinna vikmarka en bankanum gert að fylgja framvegis ákveðnum verðbólgumarkmiðum sem ríkisstjórnin ákvað. Til þess var honum veitt aukið sjálfstæði og fullt forræði yfir vaxtaákvörðunum. Það er eðlilegt að það taki markaðinn nokkurn tíma að aðlagast þessari breytingu og þeirri staðreynd að gengi krónunnar getur nú sveiflast töluvert án þess að Seðlabankinn sjái ástæðu til inngripa.
Naumast þarf að nefna að upptaka evru er engin skammtíma aðgerð í efnahagsmálum. Forsendur hennar er Evrópusambandsaðild og aðlögunartími. Samtals tæki 8 til 10 ár að ljúka þeim aðgerðum, ef vilji stæði til þess, sem ekki er á Íslandi. En meiru skiptir að fátt bendir til að aðild að evrunni samrýmist efnahagslegum hagsmunum Íslands. Íslenska hagkerfið er um margt ólíkt hagkerfum meginlandsþjóða Evrópu. Margföld reynsla sýnir að þróun efnahagsmála á Íslandi er iðulega gerólík því sem gerist t.d. í Frakklandi eða Þýskalandi á hverjum tíma. Íslendingar eru til dæmis enn mjög háðir sjávarútvegi og sveiflur í þeirri atvinnugrein fylgja ekki endilega því sem er að gerast í hagkerfum stórþjóða meginlandsins. Gengi evrunnar mun aldrei taka mið af því hvað gerist á Íslandi, til þess er hagkerfi okkar einfaldlega allt of lítið. Íslendingar stæðu frammi fyrir óbærilegum vandamálum ef til dæmis illa áraði í útflutningsgreinum þeirra á sama tíma og mikill uppgangur væri í efnahagslífi Þýskalands og Frakklands. Þá væri sameiginlega myntin að styrkjast á sama tíma og atvinnulíf landsmanna væri að veikjast. Það væri fullkomlega ábyrgðarlaust að mínu mati ef íslensk stjórnvöld samþykktu aðild að Evrópusambandinu og tækju upp evruna sem mynt, án þess að fyrir því lægju afgerandi rök að íslenskt efnahagslíf væri í fullum takti við efnahagslíf evrulandanna frá einu skeiði til annars.
Góðir gestir
Tengsl Íslands og Evrópusambandsins eru mikilvægi. Ekki eingöngu vegna hinna miklu viðskiptahagsmuna sem Íslendingar hafa af samvinnu við Evrópusambandið heldur einnig vegna sögulegra og menningarlegra tengsla við þær þjóðir sem í sambandinu eru. Þó Íslendingar telji að hagsmunum sínum sé ekki best borgið með inngöngu í Evrópusambandið þá er Ísland Evrópuland í hinum góða skilningi orðsins og á því samleið með öðrum ríkjum álfunnar. Evrópusambandið er byggt á göfugri hugsjón um frið í Evrópu. Náin samvinna ríkja innan sambandsins sem sum hver höfðu iðulega átt í útistöðum og jafnvel styrjöldum, hefur verið árangursrík og þjóðunum til heilla. Sameiginleg gildi og sameiginlegir hagsmunir eru ein besta trygging fyrir friði sem möguleg er. Stækkun sambandsins í austur er mikilvægt og sögulegt tækifæri til að sameina Evrópu eftir klofning álfunnar í kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar.
Sumir furða sig á því að Íslendingar styðji stækkun Evrópusambandsins til austurs en hafi engan áhuga á því sjálfir að sækjast eftir aðild. Við séum eins og klerkarnir sem segja öðrum að breyta svo í lífinu að þeir komist inn í Paradís, en hegðun þeirra sjálfra beri með sér að þangað sé ekki þeirra för heitið. En Ísland er ekki á móti Evrópusambandinu og er fylgjandi því að þær Evrópuþjóðir, sem telja sig hafa hag að því fái þar inngöngu. Það virðist mat þeirra ríkja sem nú knýja á um aðild að bandalaginu að hagsmunir þeirra séu með því best tryggðir. Ísland styður því áform þessara þjóða. Stækkunin mun vonandi styrkja stöðugleikann í álfunni og um leið stækka EES-svæðið og færa Íslendingum þar með ný og spennandi viðskiptatækifæri.
Ágætu fundarmenn
Efnahagsþróunin á Íslandi undanfarin áratug hefur skilað þjóðinni miklum afrakstri. Alþjóðavæðing viðskiptalífsins opnar Íslandi nýja möguleika og hagvöxtur framtíðarinnar mun ekki síst byggja á því hversu vel okkur tekst að nýta þessa nýju möguleika. Hagstætt viðskiptaumhverfi, vel menntuð og framtakssöm þjóð er veganesti okkar er við göngum til móts við nýja tíma. Ég er þess fullviss að þjóðinni muni farnast best í sem nánastri samvinnu við aðrar þjóðir. Samband Íslands og Bretlands er gott og Bretland er eitt okkar allra mikilvægasta viðskiptaland. Ég vil því nota tækifærið og þakka forsvarsmönnum Bresk- íslenska verslunarráðsins fyrir þeirra góðu störf og framlag til aukinna viðskipta á milli þessara grannþjóða. Sérstaklega vil ég þakka fyrir þennan fund og þá um leið færi ég íslenska sendiráðinu þakkir fyrir þátttöku þess í undirbúningi fundarins. Það er von mín að samskipti Bretlands og Íslands verði áfram með þeim ágætum sem nú er og viðskipti landanna megi dafna og blómstra.