Opnun nýs fiskmarkaðar í Hull
Hull
9. nóvember 2001.
Opnun nýs fiskmarkaðar í Hull
Það er athyglisvert að koma hingað á Humberside svæðið og sjá þær miklu framfarir sem hér hafa orðið. Meginborgirnar hér eru orðnar öðrum til fyrirmyndar. Stórfallegar og augljóst er að íbúar og forystumenn þeirra eru mjög metnaðarfullir um framgang þeirra. Það er þakkarefni og gleðiefni að fá að sjá þessar miklu breytingar með eigin augum.
Viðskipti með fisk úr norðurhöfum eru ekki ný af nálinni hér í Bretlandi. Öldum saman hefur fiskur, veiddur á þeim slóðum, verið færður hingað til Bretlands, verkaður hér og seldur. Saga okkar Íslendinga er nátengd viðskiptum með fisk við Englendinga. Ensk fiskiskip hófu veiðar við Íslandsstrendur við upphaf fimmtándu aldar og áhrif Englendinga urðu mikil á Íslandi í kjölfarið, svo mikil að við köllum gjarnan fimmtándu öldina ensku öldina. Enska öldin var okkur Íslendingum um margt hagstæð því verslun með fisk og vistir við Englendinga þótti ábatasöm. Englendingar sátu reyndar ekki einir að fiskveiðunum við Ísland, þeir kepptu við hina þýsku Hansakaupmenn og Dani og fullyrða má að þessi samkeppni hafi komið Íslendingum mjög til góða. Þá jafnt sem nú gilti að heiðarleg samkeppni bætir allan hag. En með tilkomu einokunarverslunar Dana á Íslandi við upphaf sautjándu aldar voru Íslendingar sviptir ávinningnum af þessum viðskiptum, þótt vitað sé að margur maðurinn hafi stolist til að eiga viðskipti við Englendingana í trássi við einokunina og þannig létt sér lífsbaráttuna.
En þrátt fyrir verslunarbann héldu veiðar Englendinga við Íslandsstrendur áfram og fiskur veiddur þar var áfram á boðstólunum hér í Englandi. Það var því eðlilegt þegar við Íslendingar hófum sjálfir fiskveiðar í stórum stíl að Bretland yrði okkar helsta markaðssvæði, bæði fyrir frystan fisk og ferskan. Á stríðsárunum nam útflutningur á ferskum fiski til Bretlands allt að 140 þúsund tonnum á ári og höfðu báðar þjóðirnar mikinn hag af þeim viðskipum. Úr þessum viðskiptum dró þegar þjóðirnar áttu í deilum um fiskveiðiréttindi við Ísland og tók nærri fyrir þau bæði á sjötta og áttunda áratugnum. Og sjálfsagt er og eðlilegt að við þær aðstæður hafi ekki staðið mikill ljómi um nafn Íslands hér. En þó ferskfisk viðskiptin milli landana nái seint því magni sem var þegar hæst stóð á stríðsárunum þá eru viðskiptin nú umtalsverð. Flest undanfarin ár hafa verið flutt út rúmlega 20 þúsund tonn af ferskfiski til Bretlands frá Íslandi og undanfarin þrjú ár hafa um 9 til 11 þúsund tonn verið flutt hingað til Hull til verkunar.
Þessi nýi og glæsilegi fiskmarkaður sem nú verður formlega tekin í notkun mun án efa auka möguleika Hull á að keppa um fiskinn, meðal annars um aflann af Íslandsmiðum. Þó samkeppnin um fisk frá Íslandsmiðum hafi oft verið hörð á þeim tæplega sexhundruð árum sem liðin eru frá því að Englendingar hófu veiðar sínar þar, þá er hún enn harðari núna, þótt baráttuaðferðirnar hafi auðvitað breyst nokkuð í tímans rás. Fiskurinn er seldur þangað sem hæst verð fæst fyrir hann og þekking á markaðinum og snör handtök skipta sköpum. Nútíma viðskiptahættir gilda jafnt um fisksölu sem önnur viðskipti og rafræn viðskipti með fisk eru orðin jafn eðlileg og sjálfsögð eins og fiskmarkaðirnir sjálfir.
Ágætu gestir
Viðskiptalífið er sífellt að verða margbrotnara og alþjóðavæðingin býður upp á ný og spennandi tækifæri. Upphaf viðskipta okkar Íslendinga við Englendinga markaði djúp spor í sögu þjóðarinnar, enska öldin bar nafn með rentu. Sú öld sem við nú lifum á er með sanni öld alþjóðavæðingar. Viðskipti landa á milli eru nú auðveldari en nokkur sinni fyrr og mögulegur ávinningur meiri og stærri en nokkurn gat dreymt um áður. Samstarf og samkeppni eru tvær hliðar á sama pening. Það er tímana tákn að hér í Hull taki nú formlega til starfa fiskmarkaður í eigu Breta og Íslendinga með færeyskan framkvæmdastjóra við stjórnvölin. Samstarf fyrirtækja, óháð landamærum, byggt á þekkingu og sérhæfingu er líklegra til að skapa meiri auð og fleiri möguleika heldur en þegar hver baukar í sínu horni.
Ég vil færa forsvarsmönnum fiskmarkaðarins í Hull mínar bestu árnaðar- og hamingjuóskir með þennan nýja markað. Vonandi á markaðurinn eftir að nýtast vel bæði kaupendum og seljendum og þannig um leið neytendum. Betra hráefni og vönduð vinnsla skila góðri vöru og þessi nýi markaður mun án efa hjálpa til að skila meðal annars hinum ágæta íslenska fiski enn betri á borð neytenda en áður var mögulegt.
Góðir gestir.
Ég lýsi hér með fiskmarkaðinn í Hull – Fishgate- formlega opin. Megi gæfa og gengi fylgja ykkar starfi.