Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Erlendir sendierindrekar

Bessastöðum,
15. mars 2002

Ávarp forsætisráðherra í veislu forseta Íslands fyrir erlenda sendierindreka


Það er mér sönn ánægja að mega færa fram þakklæti til gestgjafans, forseta Íslands, fyrir hönd þeirra sem sitja þetta góða boð. Það er hefðbundinn atburður, að forsetinn bjóði erlendum sendifulltrúum og forystumönnum þjóðarinnar hingað á staðinn, til að eiga kvöldstund saman. En þótt boðið lúti þannig ákveðnum lögmálum geta menn þó aldrei gengið út frá neinu vísu um mat, drykk eða skemmtiatriði, öðru en því að afar vel er vandað til og gestrisnin er upp á það allra besta. Ekki er þó þar með sagt að vandalaust sé að þiggja þetta heimboð í hefðarsetrið, því ekki er langt síðan að gestirnir rétt náðu hingað í hús í háskaveðri hraktir og slæptir og verður mönnum það kvöld einkar eftirminnilegt, jafnvel svo að allt sem innan dyra gerðist er horfið í skuggann.

Það hefur reyndar margt á daga drifið síðan við sátum kvöldverð hér síðast. Árásirnar á Bandaríkin, fyrirvaralausar hernaðaraðgerðir á almenna borgara, skóku alla heimsbyggðina og settu samskipti þjóða í nýja og óþekkta stöðu. Kaflaskipti urðu í alþjóðamálum og marga hluti, sem virtust lúta óbreytanlegum lögmálum, var óhjákvæmilegt að hugsa algjörlega upp á nýtt. Ógnin varð aflvaki nýrra viðhorfa. Nýjar línur voru dregnar, sem mörkuðu áður óþekkt skil. Sjálfstæði ríkja og þjóða er áfram virt, en frá þeirri meginreglu var nú sú undantekning ákveðin, að ríki, sem fóstruðu fúlmenni sem stofnuðu öryggi annarra þjóða í hættu yrðu að lúta úrslitakostum af alþjóðasamfélaginu. Og það er huggun eftir hinn mikla harm að hin breytta heimsmynd skóp alveg nýja möguleika til að styrkja stöðugleika og draga úr viðsjám þjóða á milli. Þannig þykir nú góður grundvöllur vera til að finna farsælan samvinnufarveg á milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Gert er ráð fyrir að mikilvægt skref í þá átt verði stigið á fundi NATO í Reykjavík í maí nk., og lokatakmarki náð á leiðtogafundi bandalagsins næstkomandi haust.

Ísland er þannig í sveit sett, að seint mun það teljast í alfaraleið. Það vill gjarnan vera sjálfu sér nógt um flesta hluti. En hitt er margsannað að hagkvæmast er að eiga samvinnu við aðra við að uppfylla kröfurnar, sem nútímafólk gerir til lífsins. Frjáls viðskipti og traust á markaði þjóða á milli skapa nútíma skilyrði til þess að þjóð geti verið sjálfri sér nóg. Hugtakið stendur fyrir sínu, þótt það hafi fengið nýja merkingu. Einangrun, höft, takmarkanir og viðskiptahindranir eru hvorki léttasta eða réttasta leiðin til að þjóð verði sjálfri sér nóg, heldur hið gagnstæða. Það þýðir á hinn bóginn ekki að menn eigi að gleyma sérstöðu sinni eða sérkennum og því síður að hyggja illa að því sem íslenskt er í okkar tilviki. Þjóðhollur maður, sem elskar og dáir það sem íslenskt er, hefur ekki leyfi til að neita sér um að elska og virða aðrar þjóðir og forðast víðtæk samskipti við þær og hann þarf ekki heldur að vera minni alþjóðasinni, þótt hann fargi aldrei heiðvirðum tilfinningum sínum til föðurlandsins. Heyrum vísu:

"Ég ætla að tala við kónginn í Kína
og kannski við páfann í Róm.
Og hvort sem það verður til falls eða frægðar
þá fer ég á íslenskum skóm."


Þetta skrifaði 17 ára ungmenni Halldór Guðjónsson frá Laxnesi árið 1919. Halldór Laxness hitti síðar mörg ígildi kóngsins í Kína og kallaðist á við páfann í Róm og allt var það til frægðar enda vann hann það aldrei til illa fenginnar velgengni að fara úr sínum íslensku skóm. Ísland hefur varla alið annan og meiri heimsborgara en Halldór Laxness, en stórreisu sína í gegnum lífið fór hann skóaður að heiman og skammaðist sín ekki fyrir það. Heillaður af veröldinni gleymdi hann þó aldrei, hvaðan hann var nestaður af stað. Það er fagnaðarefni að ekkja hans, frú Auður, sem helgaði skáldinu líf sitt og sá til þess að það mætti næðis njóta, skuli vera hér með okkur í aðdraganda aldarafmælis manns síns.

Herra forseti,
Við gestir þínir þökkum heimboð og viðurgerning allan og rísum úr sætum og drekkum þína skál og íslensku þjóðarinnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta