Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

17. júní 2002

17. júní 2002

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á Austurvelli 17. júní 2002

    Góðir Íslendingar.
    Hér á Austurvelli komumst við sennilega næst því að vera stödd í hjarta höfuðborgarinnar okkar. Hér, á hinum forna velli víkurbænda, sem nú er aðeins sjötti partur eða svo af upprunalegu spildunni, angar sagan til okkar, stórbrotin á stundum og líka vissulega skrítin á köflum.

    Hér komu menn fyrst saman í opinberum erindum árið 1829 þegar Guðmundur fjósarauður bæjarböðull sá um síðustu opinberu hýðinguna í Reykjavík. Og hér hafa lúðrasveitir leikið allt frá því að Napóleon, bróðursonur Bonapartes hins mikla, lét lúðraflokka leika hér í fyrsta sinn 1856. Á Austurvelli starfaði fyrsti forseti Íslands, Sveinn Björnsson við heyskap, en Björn faðir hans hafði lengi slægjur á vellinum. Og hér var löngu síðar háður mestur bardagi í samtíma sögu landsins, árið 1949 og hafði lýðræðið og þingræðið betur á þeirri ögurstundu. Það var í fyrsta og vonandi í síðasta sinn sem reynt var að hindra með ofbeldi störf þess Alþingis sem þjóðin hafið kosið. Og hér er, í þjóðarinnar nafni, upphaf hátíðar hennar á 17. júní, ár hvert.

    Með standmynd Jóns forseta á aðra hlið og Alþingishúsið á hina er sviðsmynd þjóðhátíðardagsins fullkomnuð. Hann, tákngervingur baráttunnar fyrir frelsi og sjálfstæði og húsið, sem reist var tveimur árum eftir dauða hans, hinn lifandi vettvangur umræðu og ákvarðana þjóðfulltrúa Íslands. Þjóðhátíðin tengist fyrst og fremst lokaþætti lýðveldisbaráttunnar, en hlýtur þó einnig að skírskota til annarra áfanga hennar, sem höfðu svo mikla þýðingu. Vissulega er ekki létt að gera upp á milli atburða og kannski óþarft. Hver og einn þeirra skilaði þjóðinni fram. Heimastjórnin, sem verður senn hundrað ára, markaði þó mikil kaflaskil í þjóðfrelsisbaráttunni, ef til vill þau mestu þegar grannt er skoðað. Þá skynjuðu Íslendingar, að nú gátu þeir loks látið til sín taka, svo um munaði - hið fjarlæga vald hafði flust heim og einnig sú ábyrgð sem öllu valdi verður að fylgja. Íslendingar myndu hér eftir sjálfir ráða úrslitum um hvort vel eða illa tækist til í þeirra málum. Erfiðleikarnir voru vissulega ekki úr sögunni. en þó stóðu vonir til þess að árangur erfiðisins yrði eftir í landinu, íbúum þess til gagns og gæfu. Fyrsti ráðherrann, Hannes Hafstein, var vissulega sannkallaður happafengur. Eins manns "ríkisstjórn" varð ekki betur skipuð. Eldmóður hans og kyngikraftur, eldheit ást hans á landinu og þjóðinni þrautpíndu sem byggði það, var drýgst eldsneyti þeirrar orku sem þurfti til að rjúfa aldalanga kyrrstöðu. Hann var öðrum betur til þess fallinn að lyfta þjóðinni úr öskustónni. En þótt full ástæða sé til að halda nafni Hannesar hátt á lofti, má ekki missa sjónar á því, að það var þó heimastjórnin sjálf sem skipti sköpum. Væri til lengri tíma litið myndi það skipta nokkru en ekki öllu hver héldi um tauma hennar. Þjóðin sjálf fann til ábyrgðar, það hafði loksins vorað, eftir aldalangan vetur erlendrar valdstjórnar. Þjóðin var að fá tækifærin, sem hún hafði svo lengi beðið eftir. Það sem gerðist við þessi tímamót er ekki eitthvert sérstakt undur bundið við Ísland eitt. Heimssagan sýnir að frjáls þjóð hefur að betur að lokum alltaf betur en sú sem fjötruð er, hver sem slagurinn er. Það hefur þýðingu að til forystu og leiðsagnar fyrir þjóðir fáist menn á borð við Hannes Hafstein eða menn sem bera giftu hans. En úrslitum ræður að það sé þjóðin sjálf sem ákveði hverjir skipa um skamma stund helstu forystusæti hennar. Lýðræðið er ekki gallalaust fremur en annað mannlegt skipulag, en það ber þó höfuð og herðar yfir öll önnur stjórnarform sem við þekkjum, þegar horft er til velferðar fólks, framfara og almennrar farsældar í landi. Með heimastjórninni fékkst einmitt þetta vald. Meira að segja manni eins og Hannesi Hafsteini átti þjóðin fullan rétt á að hafna og gerði það, þegar henni sýndist svo. Rétt eins og Bretar höfnuðu Winston Churchill í stríðslok eftir að hann hafði fært þeim sigurinn á nasistum. Það kann að sýnast ósanngjörn og vanþakklát aðgerð kjósenda. En þá er það að athuga að sanngirni hefur löngum lítið með stjórnmálaþróun að gera og ekki síður hitt að sigurinn í styrjöldinni miklu fólst meðal annars einmitt í því að vernda rétt fólksins til að farga pólitískum forystumönnum sínum, ef það svo kysi og sýna með öðrum hætti að lokavaldið er ætíð í þess höndum og lýtur ekki öðrum lögmálum en sínum eigin.

    Lýðræðið og frelsið eru hinir jákvæðu örlagavaldar og erum við þá ekki aðeins að nefna til sögu háleit orð og hugsjónir, heldur sjálft hreyfiafl allra framfara eins og dæmin sanna. Hundrað ára heimastjórn, með fullveldiskaflann og lýðveldiskaflann innan borðs, er samfelldasta sigurganga sem íslensk saga kann frá að greina. Þeir, sem einhvern tímann kynnu að halda því að íslenskri þjóð að henni muni best farnast fórni hún drjúgum hluta af fullveldi sínu, munu ganga á hólm við sjálfa þjóðarsöguna. Ekki er erfitt að spá fyrir um þau leikslok.

    En við skulum nú, góðir Íslendingar, um örskots stund horfa til nýliðinnar sögu, því hraði viðburða hefur aukist jafnt og þétt síðustu hundrað árin. Á þessum degi fyrir réttu ári virtist mörgum horfa illa um þjóðarhag. Viðskiptahalli þjóðarbúsins var mikill, gjaldmiðillinn veiktist jafn og þétt, verðbólga fór vaxandi og svo mætti áfram telja. Var kannski að vonum að margir spáðu að efnahagslegt öngþveiti væri framundan og töluðu sumir um hrun og óáran í þessu sambandi og völdu stærstu orðin sem þeir fundu. Flest virtist þá benda til uppsagna samninga og sundurlyndis á vinnumarkaði og við bættist að vonir um nýjar fjárfestingar í stóriðju fóru dvínandi.

    Nú hefur þetta allt breyst til batnaðar eins og hendi hafi verið veifað. Verðum við að trúa því, að þar með hafi einnig rofað fyrir heiðglugga í sálarþykkni þeirra sem svartast sáu fyrir ári. Viðskiptajöfnuður hefur snarsnúist í gott horf. Verðbólga er á undanhaldi og krónan hefur styrkst mjög mikið. Samningar á vinnumarkaði hafa haldið og nú um stundir eru meiri líkur á en nokkru sinni áður að senn hefjist mesta einstaka fjárfesting Íslandssögunnar, með virkjun við Kárahnjúka og álveri við Reyðarfjörð. Eftir voðaatburði í annarri viku september á síðasta ári breyttist margt. Fundust áhrif þess einnig hér á landi. Leiddi það meðal annars til þess að fyrri áform um einkavæðingu gengu til baka. Einnig þar hefur nú orðið viðsnúningur. Í síðustu viku varð stærsti áfangi í íslenskri einkavæðingu með sölu á stórum hlut í Landsbanka Íslands. Salan átti að standa yfir í mánuð en lauk á aðeins 15 mínútum og virðist sá atburður jafnvel hafa farið framhjá mörgum, vegna annarra anna fjölmiðla.

    Góðir Íslendingar. Allir þessir þættir gefa okkur nú ríkulegt tilefni til að horfa háreist fram á veg á þessum helga degi. Flest bendir nefnilega til þess að nýtt framfaraskeið Íslandssögu sé í burðarliðnum. Við getum ekki betur haldið upp á hundrað ára heimastjórn á Íslandi en með því að grípa tveimur höndum þau tækifæri sem nú kunna að gefast. Þjóð, sem er trú sögu sinni, þjóð, sem er heil samtíð sinni og stendur vörð um frelsi sitt og sjálfstæði, eru allir vegir færir.

    Ég óska ykkur landar mínir nær og fjær gleðilegrar þjóðhátíðar og gifturíks sumars.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta